Aðeins um textann "Hatrið mun sigra"
Í tilefni þess að Hatari gaf nýverið út breiðskífuna Neyslutrans hendi ég þessum texta inn sem ég skrifaði á sínum tíma vegna þátttöku Hatara í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Mun "Hatrið mun sigra" vinna söngvakeppni ástarinnar?
Þegar kemur að umfjöllun um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er ráðlegt að byrja á klisjum. Þetta er keppnin sem allir elska að hata (en elska samt), þetta er keppnin sem allir Íslendingar fylgjast með hvort sem þeir viðurkenna það eður ei, þetta er keppnin þar sem lýsingarorðin hallærislegur, yfirdrifinn, öfgakenndur, undarlegur og afbrigðilegur eru ekki hnjóðsyrði. Ekki endilega. Í keppninni eiga fríkin sinn samastað og dansa friðsamlega, sturluð af gleði, við hliðina króatískum þjóðernisbullum og hommahöturum með húðflúr sem segir: Bog i Hrvati (Guð og Króatar) og myndu allajafna berja hraust- og einstaklega karlmannlega á öllum þeim karlmönnum sem finna til örvunar við að sjá karlmannsrass. Búbbur og sköp sleppa þó alltaf. Þetta er keppnin þar sem konur mega vera menn og menn konur eða eitthvað þarna á milli. Stjórnmálum er allajafna ekki blandað inn í þennan hömlulausa óð til gleðinnar. Brexit-sinnar og Evrópusinnar, Norður-Írar og Írar, Frakkar og Þjóðverjar, Tyrkir og Kúrdar haldast hönd í hönd og kyrja Ein bisschen Frieden ein bisschen Sonne, Pútin og Orbán-sleikipinnar líta ástúðlega á samkynhneigðan múslimskan BDSM-araba í búrku þar sem skorin hafa verið út göt til að sýna þjóhnappana. Og allir elska Conchitu Wurst, meira að segja Sebastian Kurz í Austurríki og AFD í Þýskalandi og saman syngja þau þetta lag með andlega standpínu (JBH-standpína yrði sannlega kærð, svo mikið er umburðarlyndið ekki). Kurzum allir eiga sinn stað á evrópsku sönglagasviði, líka jaðarfólkið sem allajafna þarf að dvelja í skúmaskotunum með sitt meinta óeðli og afbrigðileika. Reyndar eru einhverjir á því að gyðingar eigi ekki heima þar, guðsútvalda þjóð er svo sem alltaf litin hornauga. Fátt fær því víst breytt. Meira að segja hommar, fjöldamorðingjar og barnaníðingar leggja fæð á þá (sumir, það má ekki alhæfa).
En hvað um það. Þetta er keppni sem hefir þróast á þann veg að allt er mögulegt svo lengi sem það sé gert á þrem mínútum.
Nú vill svo til að íslenski and-kapítalíski BDSM tekknó-gjörnings listahópurinn Hatari tekur þátt í undankeppninni fyrir téða keppni með laginu „Hatrið mun sigra“. Er það eitt tíu laga sem valin voru úr innsendum lögum. Verði lagið og hópurinn hlutskarpastur og taki því þátt í keppninni sem fram fer í Ísrael má búast við því að þeim verði mætt með áhuga en jafnframt ást og vinsemd eins og til siðs telst. Hatri verði mætt með ást, allrahanda ást, jafnvel pervertískri ást ef svo ber undir.
Auðvitað verður slíkt í hrópandi mótsögn við nafngift lags svo og innihald texta. Já, es ist so, dass sogar ein Lied des Teufels angehimmelt werden kann í þessari keppni ástarinnar. Þið munið jú eftir Lordi, ekki satt? Gildir einu hvað Margrét Friðsriksdóttir hefir um málið að segja. Henni veitti ekki af fjölþjóðlegu, bullandi margkynlegu knúsi. En það er önnur saga sem ekki verður rakin hér.
En kannski er það einmitt málið. Kannski þurfa hnokkarnir í Hatara bara ást og umhyggju, ísraelskt og evrópskt faðmlag. Kannski er lagið og allir þeirra gjörningar bara hróp á ást og umhyggju, að stríðandi hópar, og þar eru Palestínumenn og Ísraelar ekki undanskyldir, læri að elska, læri guðsótta og góða siði. Það nægði líka alveg ef þeir létu af því að drepa hver annan. Hér verður ekki rakin deila Palestínu og Ísraels með öllum þeim mannvígum og hatri sem hlotist hafa af viðskiptum þeimi. Hér er ætlunin að líta aðeins á texta þann sem öskraður og sunginn er af þeim blessuðu Höturum sem þann starfa innan hópsins hafa að öskra og syngja.
En áður en það verður gjört er rétt, af því að „Ordnung muss sein“, að leitast við að hólfa hópinn, finna honum stað. Sá staður er ekki í lestarvagni á leið til Póllands. Það er fremur að þeir standi fyrir utan þann vagn. Nei, hér er ekki ætlunin að ætla að hópurinn aðhyllist fasíska/nasíska hugmyndafræði. Útlitslega er þó jafn ljóst og sólarkrossinn að sótt er í fasíska smiðju. Ekki þarf heldur stórkostlegt hugmyndaflug til að tengja það hvernig textarnir eru öskraðir við alræmdan öskurapa sem gekk af Weimar-lýðveldinu dauðu á sínum tíma og hélt svo í víking um heiminn.
Ef finna ætti aðrar sveitir sem róið hafa á svipuð mið liggur beinast við að minnast á hina þýsku Rammstein og hina slóvensku Laibach (til gamans má geta að Laibach ku hafa verið fyrsta vestræna sveitin til að spila í Norður-Kóreu).
Fyrrnefnda sveitin hefir ekki verið femin við klámfengni (gerði meira að segja klámtónlistarmyndband við „Pussy“ af plötunni Liebe ist für alle da. Hér er soft-útgáfuna að finna) Hatara má einnig spyrða við klámfengni þótt hópurinn sé kórdrengurinn í kaþólsku kirkjunni og Rammstein presturinn þegar kemur að samanburði. Alltént kemur hópurinn fram í BDSM-búningum eður klæðnaði sem hrópar fasismi jafnhátt og Motörhead spilaði. Spilaði bandið það alveg á ellefu. Einhvern tímann var þetta kallað sjokk-rokk (hér sjokk-teknó kannski) en eitthvað hefir sá þröskuldur hækkað síðan Lorena Bobbitt skar tillann af John Wayne Bobbitt um árið.
Ef litið er til texta Hatara liggur beinast við að skella heimsósómastimplinum á þá. Öskrað/sungið er um spillingu, fasisma, auðvaldshyggju, neysluhyggju í lögunum „Spillingardans“og „X“ svo og fleiri lögum. Má freistast við að líta á gjörninginn sem mótmæli, gagnrýni, skilaboðin hoppaðu upp í óæðri endann á þér ljóti heimur. Drungaleg, hrynjandi, hávær teknótónlistin gerir einnig sitt til að kalla fram þá stemmningu. Það er „Fuck the system“ í þessu. Hatari er þó ekki, að er virðist, á anarkískum slóðum líkt og til að mynda hættulegasta hljómsveit Bretlands, Crass, var á sínum tíma. Óljóst er og hvort þeir ætli sér að stuðla að breytingum með list sinni. Klárlega fjallar Hatari um dekkri hliðar mannlífsins, vissulega um hatur, græðgi og dauða og Davíð Oddsson (ekki beint þó). Hatari fjallar um þessar hliðar innan frá, þeir standa ekki fyrir utan neyslusamfélagið, eru í því miðju, og eru því eins konar paródía á sjálfa sig svo og auðvitað samfélagið sem þeir lýsa. Kannski heldur hann upp spegli sem við getum speglað okkur í. Kannski Hatari sé bara á grínaktugum slóðum og eigi það kannski sammerkt með HAM. Textar HAM eru oftlega óttalegt bull og drungi laganna rímaði oft engan veginn við innhald textanna. Kannski horfir Hatari á heiminn brenna og spilar undir. Kannski er þetta tónlist ragnaraka, tónlist heims á leið til helvítis. En nóg af þessu. Ráð að skoða textann.
Hatrið mun sigra (Textinn var fengin héðan)
Svallið var hömlulaust
Þynnkan er endalaus
Lífið er tilgangslaust
Tómið heimtir alla
Hér er hvorki sungið/öskrað um sól og sumaryl né fegurðina, blómin og guðdóminn. Hér er ekki sungið um teiti sem fór úr böndunum. Og þó. Kannski er einmitt verið að syngja um gleðskap sem fór úr böndunum. Kannski er einmitt sungið um neysluhyggju (notum það sem samnefnara) sem keyrð var svo í botn að ekkert blasir við nema gínandi tómið og tilgangsleysi alls. Það eru eftirstöðvar gleðskapsins. Og ef allt er tilgangslaust þá hefir ekkert gildi og hafi ekkert gildi má allt eins leyfa hatrinu að leika lausum hala. Nota það til að ásælast meira, meira og meira (hér er kannski verið að oftúlka).
Hatrið mun sigra
Gleðin tekur enda
Enda er hún blekking
Svikul tálsýn
Einfalt, skýrt, skorinort, auðskiljanlegt flestum nema e.t.v. íslenskum bófa-rappara sem spyr sig hvar tíkurnar séu og íslenskum gleðipoppara sem skilur ekkert. Gleði öll tekur sannlega enda og krossfestingar leiða ekki alltaf til frelsunar. Gleiðiglaumur Geimundarson býður upp í dans, dans gleðinnar og fjörsins. Dans sem er tilgangslaus, blekking ein og gleðisnauður. Máski var gleðin ríkjandi um hríð en svo taka timburmennirnir við, afleiðingarnar. Heimurinn vaknar við að Donald Trump og Kim Jong-un tvímenna móður náttúru án forleiks.
Allt sem ég sá
Runnu niður tár
Allt sem ég gaf
Eitt sinn gaf
Ég gaf þér allt
Viðlag í fyrstu persónu. Spurning hver hér mælir. Grátur og gnístran tanna. Er þetta völvan?, Guð? Kannski Guð Ísraelsmanna, Kannski Allah eða einhver annar Guð. Í ljósi versana og hvernig röddin virkar klökk í laginu mætti leiða líkur að því að einhver sé hryggur mjög yfir því hvernig ástatt sé, hvernig mannkindin hagi sér með sínum múrum og bræðravígum og systrahópnauðgunum.
Alhliða blekkingar
Einhliða refsingar
Auðtrúa aumingjar
Flóttinn tekur enda
Tómið heimtir alla
Hjarðdýrahvötin. Fólk gleypir við öllu, trúir því sem kemur því best, svo halda megi það hófinu áfram, flýr veruleikann uns keyrt er fram af brúninni. Það er alltaf nýtt teiti sem tekur við af hinu fyrra. Við verðum að finna aðra plánetu til að halda partíinu gangandi.*
Hatrið mun sigra
Evrópa hrynja
Vefur lyga
Rísið úr öskunni
Sameinuð sem eitt
Jú,fjandinn hafi það. Eru þetta ekki heimsslit? Fjandinn hirði þig í nafni Allah, Búdda og Dali Lama. Síðustu tvær línurnar benda samt sem áður til þess að von sé. Að byggja megi eitthvað eftir hrunið. Að standa megi fólkið sameinað á rústunum. Iðagræn jörð rísi úr sæ.
Allt sem ég sá
Runnu niður tár
Allt sem ég gaf
Eitt sinn gaf
Ég gaf þér allt
Allt sem ég sá
Runnu niður tár
Allt sem ég gaf
Eitt sinn gaf
Ég gaf þér allt
Um viðlag þarf ekki að hafa fleiri orð.
Hatrið mun sigra
Ástin deyja
Hatrið mun sigra
Gleðin tekur enda
Enda er hún blekking
Svikul tálsýn
Hatrið mun sigra
Vonin varði stutt. Eina nýja línan hér er ástin mun deyja. Ástin deyr líkt og annað og sennilega er hún aukinheldur tálsýn, föl tálsýn á 50 evrur í Rauða hverfinu í Amsterdam eða fyrir Happy Meal á MacDonalds. Ja, fjandinn sjálfur. Hatrið mun sigra.
*Hér er vitnað í kvikmynd Júlíusar Kemps BLOSSI 810551
Athugasemdir