Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

„Umbótaöflin“ Björt framtíð og Viðreisn

Leggjum okkur fram um að virða lýðræðislegar ákvarðanir, fylgja á eftir stefnumótun og leiða mál til lykta. Nýtum beint lýðræði og þátttöku almennings betur.

Allar lagasetningar og stjórnvaldsaðgerðir taki mið af frelsi einstaklinga og samfélagshópa til sjálfstæðra, skapandi og ábyrgra athafna og efli svigrúm til slíks eins og frekast er kostur.

Gerum störf Alþingis uppbyggilegri með breyttum þingsköpum Breytum stjórnmálunum. Vinnum að friði. Tölum af virðingu og sanngirni um hvert annað. Þannig eflum við traust.

Úr stefnuskrá Bjartrar framtíðar.

Viðreisn er það frjálslynda stjórnmálaafl sem lengi hefur verið kallað eftir. Íslensk stjórnmál hafa einkennst af sérhagsmunastefnu og siðleysi sem komið hefur greinilega í ljós upp á síðkastið. Þessa þróun verður að stöðva og endurvekja þarf traust almennings á fulltrúum sem kosnir eru til að gæta hagsmuna þjóðarinnar. 

Af heimasíðu Viðreisnar við boðun stofnfundar flokksins

Það kom fáum á óvart að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn skyldu hleypa lífeyrisfrumvarpinu nánast óbreyttu úr nefnd. Það kom aðeins á óvart að Samfylkingin skyldi leggjast gegn því – enda jöfnun lífeyrisréttinda gamalt áhugamál Samfylkingarmanna. Það kom kannski ekki á óvart að Björt framtíð og Viðreisn skyldu mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Framsókn ... en það olli vissulega vonbrigðum.

Viðreisn þóttist ætla að endurvekja traust á kjörnum fulltrúum. Björt framtíð líka. Hvorugur flokkanna ætlaði að stunda gamaldags hrossakaup og hagsmunapot. Báðir flokkar eru nú sekir um nákvæmlega það. 

Það stendur til að efna til ófriðar á vinnumarkaði með því að þvinga gegnum Alþingi lög sem hafa eftirlaunaréttindi af opinberum starfsmönnum. Að hluta til er það gert í göfugum tilgangi. Það er uppi vandi sem takast þarf á við. En aðferðin er gerræðisleg, óheiðarleg og óverjandi.

Það hafa staðið yfir viðræður árum saman um breytinguna. Ríkið hefur viljað að opinberir starfsmenn afsali sér réttindum strax gegn nokkuð óljósum loforðum um kjarabætur í framtíðinni. Strax þar kom fram andspyrna. Lögreglumenn vöruðu við og bentu á að þeir hefðu einmitt gert nákvæmlega þannig samkomulag við ríkið fyrir allnokkru og það hefði verið svikið stórkostlega. 

Aðrir hópar opinberra starfsmanna drógu bölbænir lögreglumanna í efa. Trúðu því að eftir hrun værum við önnur þjóð og sanngjarnari. Ríkið myndi standa við sitt. Það mætti treysta því.

Við hátíðlega athöfn var skrifað undir samkomulag. Misserin á undan höfðu forystumenn verkalýðsfélaga farið í bakland sitt og reynt að sækja lýðræðislegt umboð til slíkra samninga. Formaður KÍ fékk til dæmis þetta umboð:

„Sjötta þing Kennarasambands Íslands haldið í Reykjavík dagana 1.-4. apríl 2014 leggur áherslu á að skilyrði KÍ fyrir þátttöku í þessari vinnu sé að réttindi núverandi sjóðsfélaga [...] verði ekki skert. Ennfremur áréttar þingið að komi til þess að sátt náist um nýtt kerfi sem byggir á framangreindum forsendum sé nauðsynlegt að mat verði lagt á launakjör starfsmanna milli markaða og þau jöfnuð samtímis breytingunni.“

Önnur félög voru með samskonar nálgun. Þau voru flest tilbúin að samþykkja jöfnun kerfa til framtíðar en að núverandi starfsmenn yrðu undantekningarlaust að halda réttindum sínum.

Allir töldu formennirnir að samkomulag þeirra við ríkið hefði falið þetta í sér. Ástæða þess að þeir hafa flestir (ef ekki allir) síðan snúið við samkomulaginu bakinu er að menn áttuðu sig á því að frumvarpið reyndist ekki tryggja þessi réttindi. Það er því ekki aðeins verið að breyta kerfi, það er beinlínis verið að hafa af mönnum réttindi.

Hingað til hefur það verið dálítil ráðgáta hvers vegna Bjarni Ben virtist koma af fjöllum þegar viðsemjendur hans töldu frumvarpið svik. Hann fullyrti að hann hefði staðið við allt sem hann hefði lofað. 

Í dag var málið rætt á þingi. Það var mjög afhjúpandi.

Brynjar Níelsson, mesti námshestur Sjálfstæðisþingmanna, kom upp í andsvör vegna frumvarpsins. Þar afhjúpaði hann þann grundvöll sem Sjálfstæðismenn nýttu við gerð frumvarpsins.

Hann brást við þeirri gagnrýni að frumvarpið væri ekki í samræmi við samkomulagið. Það hafi aldrei staðið til að verja réttindi þeirra opinberu starfsmanna sem samkomulagið fjallar um. Þá sá hann öll tormerki á því að jafna kjör milli hins opinbera markaðar og þess almenna. 

Það stóð semsagt aldrei til af hálfu Sjálfstæðismanna að virða neinar af þeim grunnforsendum sem félög opinberra starfsmanna settu sem skilyrði fyrir samkomulagi. Það stóð allan tímann til að svíkja þá. Og svo virðist sem menn hafi meðvitað ofið blekkingarvef sem ginnti alla forystusveit opinberra starfsmanna árum saman til að trúa á góðan vilja og sanngirni. Og þetta á aðeins við um tæknilega útfærslu frumvarpsins – við erum ekki einu sinni byrjuð að ræða það að ríkið lofaði ýmsum bótum í framtíðinni ef menn dönsuðu með!

Sum sé, síðustu kosningar skiluðu umbótaflokkunum Bjartri framtíð og Viðreisn inn í miðjan lyga- og blekkingarvef Sjálfstæðisflokksins.

Nú er þeim ákveðin vorkunn. Allir flokkar á Alþingi fengu að vita að breið, almenn sátt væri um frumvarpið og brýna nauðsyn bæri til að samþykkja það. Bjarni Ben fór upp í ræðustól og laug því að þingheimi að hann væri ekki að leggja málið fram nema vegna þess að það væri óumdeilt og þrautkannað. Þangað til á allra síðustu dögum höfðu almennir þingmenn ekki annað en orð þeirra stjórnmálamanna sem þó lifðu enn eftir frá fyrra þingi fyrir því hvar málið stæði.

Nú er staðan hinsvegar önnur. Í ljós hefur komið að klækjarefir í þingliðinu hafa snúið nýliðunum um fingur sér. Óreyndir og taugaveiklaðir þingmenn upplifa sig núna skuldbundna til að leggjast á árarnar með alræmdustu svikahröppum íslenskra stjórnmála. 

Með því að hleypa þessu máli í gegn munu Viðreins og Björt framtíð aðeins gera tvennt. Þau enda, þar sem allir reiknuðu með að þau myndu enda, sem varadekk á druslu fyrri ríkisstjórnar og þau gera í eitt skipti fyrir öll út um þá ímynd að þau ástundi siðferðilegri eða betri stjórnmál en aðrir. 

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að Björt framtíð reis upp frá dauðum eftir að hafa þóst hafa prinsippafstöðu í búvörusamningsmálinu. Þar kaus flokkurinn gegn samkomulaginu inni á þingi. Auðvitað vegna þess að það voru að koma kosningar og flokkurinn hafði engu að tapa. Almenningur mistók þetta augljósa hentistefnubragð fyrir hugsjónir og prinsippfestu.

Viðreisn hefur frá upphafi verið grunað um græsku. Það tók ekki langan tíma fyrir flokkinn að staðfesta þann grun.

„Umbótaöflin“ Björt framtíð og Viðreisn eru Nýja-Ísland. Og Nýja-Ísland er kennitöluflakk, brúnegg og enn einn umgangur af gömlu víni á nýjum belgjum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni