Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Tvær röksemdir og sex spurningar

Mig langar að þakka Sambandi sveitarfélaga fyrir að nýta morgunútvarpið til spunamennsku í stað tíu fréttanna eins og undangengin kvöld. Ég er kvöldsvæfur maður og það tók á að pirra sig svona seint.

En Halldór Halldórsson var sumsé mættur í Morgunútvarpið, m.a. til að bregðast við heimsókn minni þangað í gær. Mér skilst að hann hafi líka tekist á við mig á fésbókarsíðum sem ég er ekki aðili að. Ef Halldór vill þá er ég alveg til í að hitta hann bara augliti til auglitis og ræða þessi mál. Ef einhver fjölmiðill vill stuðla að því er honum bent á að hafa samband.

Í morgun lagði Halldór þann stutta spuna sem eftir er á borðið. Nú vil ég segja að ég held að Halldór vilji í alvöru gera betur í skólamálum. Ég held líka að hann sé dálítið ráðalaus. Staðan er mjög alvarleg og hugsanlega er Halldór Halldórsson síðasti maðurinn á landinu sem getur bætt hana. Sem vekur auðvitað upp spurningar um það hvers vegna í ósköpunum það er hans verkefni. Halldór heldur sér ekki einu sinni upplýstum um sum af þeim meginrökum sem hann notar í umræðunni um skólann. Hann hefur tvenn rök.

1. Skólinn er sá 4ði dýrasti í heimi. Þarna er fullt af peningum sem ekki skila sér í launaumslagið. Það þarf að gera skipulagsbreytingar sem flytja peninga til innan skólans.

2. Við þurfum að halda okkur við Salek-rammann. 

Nú veit ég ekki hvort staðreyndavakt Kjarnans eða Viðskiptablaðsins hafi slíkan áhuga á skólamálum að þar nenni fólk að skoða rök Halldórs. En báðar röksemdirnar eru sem sagt villandi og ákveðnar forsendur haugalygi.

Byrjum á 1.

Íslenskur skóli er dýr. Við erum með 9da dýrasta skólann innan OECD. Við erum með álíka dýran skóla og Svíþjóð, Belgía, Bandaríkin og Bretland. Við erum með áberandi mikið ódýrari skóla en Noregur, Sviss og Lúxemborg. Við erum með miklu dýrari skóla en Tyrkland, Mexíkó, Suður-Afríka og Indónesía. 

Sjálfur er ég ekkert hissa á því að íslenskur skóli sé dýr. Bretar til að mynda hafa fjölgað stórkostlega risastórum og hagkvæmum ofurskólum og fækkað mjög litlum skólum. Í öllu Englandi eru nú færri skólar með hundrað börnum eða færri heldur en á Vestfjörðum norðan við Dýrafjörð. Íslenskir skólar eru tæplega 200 talsins og í þá ganga innan við 50 þúsund börn. Víða þarf að keyra börnin í skólann og veita þeim þar margvíslega þjónustu. Þau fá niðurgreiddan mat og dagvistun eftir kennslu. Við erum enn að reyna að halda hér úti skóla í mynd velferðarríkisins – og við erum mjög rausnarleg við verktaka sem byggja skólana fyrir okkur. Við munum alltaf reka dýra skóla. Við búum á dýru landi að þessu leyti.

Samband sveitarfélaga lagðist í rannsókn á því hvort nýta mætti þessa peninga betur. Niðurstaðan var að það væri eiginlega ekki hægt. Eini liðurinn sem raunhæft væri að hreyfa eitthvað til væri launaliðurinn. Þannig væri alveg hægt að reka enn ódýrari skóla ef kennarar fengjust til að vinna fyrir lægri laun eða vinna meira fyrir sömu laun eða ögn hærri. 

Það hefur verið hernaðaráætlun Halldórs síðan.

Það er þessi hernaðaráætlun sem er að leggja skólann í rúst. Það er beint orsakasamband milli hennar og þeirra fjöldauppsagna sem nú eiga sér stað. Hún hefur brugðist, Halldór hefur brugðist. Við samningaborðið núna er verið að reyna að koma í veg fyrir algjört hrun. Mikið þarf að gerast svo það takist vegna röksemdar #2.

2.

Halldór sagði í viðtali í morgun að hann vissi líklega manna minnst um það hvað væri verið að semja um við kennara. Það er til marks um það að Halldór er líklega í grunninn drenglyndur að hann virtist standa sjálfan sig að lyginni og svona hálft í hvoru reyndi að draga hana til baka.

Staðreyndin er sú að samninganefnd sveitarfélaga hefur ekki umboð til annars en að semja við kennara innan ramma Saleks. Hver sá samningur sem undirritaður verður mun sem sagt eiga að tryggja að kennarar verði hlutfallslega á sömu launum árið 2019 og þeir voru 2013 nema meiri hækkanir feli ekki í sér neina útgjaldahækkun (sjá #1).

 

 

Viðræðurnar hjá ríkissáttasemjara eru sýndarviðræður. Í raun og veru er búið að afnema samningsrétt grunnskólakennara. Það var gert þegar samið var við Gylfa Arnbjörnsson og aðra verkalýðsforkólfa, ekki aðeins um kjör skólstæðinga þeirra heldur beinlínis um kjör grunnskólakennara.

Hugsum þetta aðeins. Halldór Halldórsson gerði semsagt samkomulag um kjör grunnskólakennara til ársins 2019 við alla aðra en grunnskólakennara!

Nú er það að springa í andlitið á honum.

Ég sendi í gær spurningar á alla borgarfulltrúa og skólaráðsmeðlimi hjá Reykjavíkurborg. Ég mun halda ykkur upplýstum um svörin. Spurningarnar voru þessar:

1. Telur þú að launakjör grunnskólakennara hjá Reykjavíkurborg séu viðunandi í dag? Ef ekki, telur þú að síðasta tilboð sveitarfélaga um kjör kennara hafi falið í sér viðunandi kjör?

2. Hvað hefur þú gert persónulega til að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin nú á síðustu dögum? Hvaða áhrif hefur þú reynt að hafa og með hvaða hætti? Ef þú hefur ekki brugðist við, hvers vegna ekki?

3. Er það þín skoðun að launahækkanir til kennara til ársins 2019 skuli undanbragðalaust miðast við ramma Salek-samkomulagsins eða telur þú eðlilegt að launakjörin séu bætt verulega umfram það? 

4. Hver er þín hugmynd um farsæla lausn kjaradeilu kennara?

5. Hverjar eru að þínu mati helstu ástæður þess að svo illa er komið sem raun ber vitni?

6. Telur þú að störf samninganefndar sveitarfélaga séu í góðu samræmi við kjarastefnu þíns flokks, Reykjavíkurborgar og þínar persónulegu skoðanir? Lýsir þú trausti á störf hennar?

Einu þori ég næstum að lofa. 

Hvorki Halldór Halldórsson né neinn annar sem ábyrgð ber á skólunum telur að laun og kjör grunnskólakennara séu viðunandi. Þau eru lág. Það er margsannað. Halldór sagði það meira að segja í morgun.

Þeim mun meiri furðu hlýtur það að vekja að sveitarfélögin hafi samt sem áður samið um það við aðra að þau megi ekki hækka.

Er það furða að þetta fólk sé að klúðra verkefninu?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.