Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Tvísýnar kennarakosningar

Á morgun hefst atkvæðagreiðsla í kosningum um kjarasamning kennara. Þær eru tvísýnar í meira lagi. Sveitarfélögin taka óskaplega áhættu með því að bjóða aðeins 11% launahækkun eftir að kennarar hafa tvífellt áþekkan samning. Í útborgðum launum munar 10-15 þúsund krónum á mánuði á tímabilinu á þessum samningi og þeim samningi sem felldur var. Enda er þetta meira og minna sami samningurinn.

Það hvarflar ekki að neinum að þessi samningur dugi til að klára málið. Kennarar skiptast aðeins í tvo hópa. Þá sem telja að það sé þess virði að fresta bardaganum um ár – og hina sem vilja berjast núna. Allnokkrir eru hættir að nenna að berjast og ætla að fara. Neita að standa í þessu lengur.

 

Það hlýtur að vera ruglandi fyrir almenning að sjá kennara efna til ófriðar svo stuttu eftir að þeir fengu að sögn verulegar launahækkanir. Staðreyndin er sú að kennarar hafa alls ekki fengið neinar verulegar launahækkanir. Mikið hefur verið reynt til að láta líta svo út – en ef frá er talin krónutöluhækkun sem nær yfir meira og minna allan vinnumarkaðinn þá eru kennarar jafn illa – eða jafnvel verr staddir en þeir voru.

Frá mars 2014 til mars á þessu ári hefur launavísitala hækkað úr 475,3 stigum í 568,8 stig. Það þýðir að ef grunnlaun kennara hefðu verið vísitölubundin þá hefðu þau á tímabilinu hækkað úr 370 þúsund krónum í 443 þúsund krónur. Heildarlaun hefðu farið úr 423 þúsund krónum í 506 þúsund. 

Þessar hækkanir hefði þurft einfaldlega til að láta laun kennara fylgja launum í landinu. Minni hækkanir en þetta hefðu einfaldlega þýtt að kennarar hefðu enn dregist afturúr.

Árið 2014 seldu kennarar svokallaðan aldursafslátt. Það þýddi að störfin fluttust á færri hendur. Álag á kennara á sextugs og sjötugsaldri stórjókst. Þau réttindi spöruðu sveitarfélögum einhversstaðar kringum 10%. 

Að teknu tilliti til þessarar sölu og launavísitölu hefðu meðalgrunnlaun kennara átt að vera 488 þúsund krónur í mars 2016 og heildarlaunin 557 þúsund.

Raunin er hinsvegar sú að meðalgrunnlaun voru 480 þúsund og meðalheildarlaun 525 þúsund.

Með öðrum orðum þá rýrnuðu kjör kennara töluvert árin 2014-2016 miðað við kjör annarra sé tekið tillit til þess sem kennarar lögðu á móti inn í samninginn.

Það er á þessum tímamótum sem við stöndum nú. 

Einn vandi er að hinn almenni kennari er fyrst núna að átta sig á því að hann hefur verið plataður. Forysta kennara hefur haldið því fram að kjör okkar hafi batnað mikið á síðustu tveimur árum. Það hefur verið mjög erfitt að fá fram upplýsingar um raunverulega stöðu.

Hvað gerist næst?

Það er útilokað að segja. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir hefur forysta kennara ekki orðið við því um að stíga til hliðar og leyfa nýju fólki að marka stefnuna verði samningurinn samþykktur. Hún ætlar þó að stíga til hliðar verði samningurinn felldur. Þá tekur við töluvert langt tímabil þar sem félagið þarf að kjósa sér nýja forystu og marka stefnu. Allan þann tíma má fastlega reikna með að sveitarfélögin andi léttar og setji öll kjaramál á ís. Þá mun tvennt gerast. Kennarar munu standa við uppsagnir og yfirgefa skólana í einhverjum mæli – og allar líkur eru á því að grasrótaraðgerðir haldi áfram. Grasrótin er algjörlega ótengd forystu kennara. Hún hefur enga stjórn á henni. Grasrótin mun ekki sætta sig við samningsleysi mánuðum saman í viðbót. 

Það verður borgarastríð í mörgum skólum. 

Athygli vekur að nokkur fjöldi kennara í Réttarholtsskóla sagði upp störfum eftir að samningur var kynntur.

Formaður foreldrafélags við skólann sendi mér baráttukveðjur fyrir helgi ásamt ályktun sem þau sendu frá sér. Í henni stendur m.a.:

„Þótt samninganefndir sveitarfélaganna virðist ekki átta sig á því hversu mikil verðmæti eru fólgin í slíkum mannauð þá gerum við, foreldrar og forráðamenn barna í Réttarholtsskóla, okkur grein fyrir því að slíkir kennarar eru ekki á hverju strái. Um leið og við lýsum fullum stuðningi við kröfur þeirra um mannsæmandi laun og starfskjör hvetjum við til þess að sveitarfélögin endurskoði afstöðu sína til gildi menntunar og setji börnin og skólana þeirra framar í forgangsröðina með því að bæta verulega í þá fjármuni sem ætlaðir eru til launa kennara. Aðeins þannig er hægt að forða grunnskólum landsins frá áframhaldandi flótta reyndra og hæfra kennara úr stéttinni.“

Þetta ástand er víðar.

Það virðist ekki skipta máli hvort samningur verði felldur eða ekki í næstu viku. Skaðinn er skeður.

Mér virðist aðeins ein lausn á vandanum. 

Sveitarfélögin þurfa að viðurkenna að bæta þurfi kjör grunnskólakennara umfram kjör margra annarra í samfélaginu. Við kennarar þurfum að fá nýja forystu. Forystumenn okkar þurfa að gefa það út að tækifæri verði til þess að kjósa nýja forystu hvort sem samningur fellur eða stendur. Sveitarfélögin þurfa líka að gefa út að auknar tekjur sveitarfélaga verði nýttar til að efla grunnskólastigið.

Það er ekki nóg fyrir sveitarfélögin að segja að ríkið eigi að borga fyrir hækkun kennaralauna. Jafnvel þótt ríkið komi ekki að þessu borði þurfa þau tækifæri sem felast í hækkuðum útsvarstekjum að nýtast í bætt kjör kennara.

Þar að auki má vinna í ýmsum þáttum sem tengjast álagi og vinnuumhverfi. Sú vinna er einfaldlega ekki nóg.

Ef ekki næst samstaða um þetta innan Sambands sveitarfélaga er ekkert annað í boði en að þau sveitarfélög sem ekki ætla að sökkva til botns með hinum kljúfi sig að þessu leyti frá sambandinu.

Jafnvel þótt þetta gerðist allt er enn tvísýnt að mönnum takist að halda skólunum fullmönnuðum í vetur og næsta haust. Það er bullandi neyðarástand uppi.

Verst af öllu er, að sameiginlegt plan sveitarfélaga og núverandi forystu kennara, felst í því að standa aðgerðarlaus hjá meðan alþingi stórminnkar lífeyrisréttindi kennara. Verði það lendingin fá sveitarfélögin nýtt vistarband á alla kennara eldri en 40 ára. Þeim verður þá refsað stórkostlega í lífeyrisréttindum yfirgefi þeir skólana. Mun þetta vistarband halda næstu 30 árin.

Ein meginástæða þess hve illa við erum stödd nú eru viðbrögð sveitarfélaga við hinu fyrra vistarbandi, 95 ára reglunni. Það er hún sem er meginorsök þess að kjör kennara eru nú orðin óboðleg. Í áratugi hafa þau komist upp með að rýra kjörin verulega því fólki er refsað fyrir að leita í önnur störf.

Það er því verið að stilla upp í áframhaldandi láglaunatafl.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni