Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Skáldið bregst skrælingjunum

Hún var undarleg greinin hér á Stundinni um laxeldismálið fyrir vestan. Þar er skáldinu Eiríki Erni Norðdahl fundið það til foráttu að vera hvorki Andri Snær né Tómas Stokkmann (uppdiktuð persóna í leikriti eftir Ibsen). Maður fær næstum því á tilfinninguna að Eiríkur hafi, sökum leti og meðvirkni, ráfað úr réttu liði til móts við óvinininn.

Ég vil taka það fram að frá byrjun að ég er líklega ósammála Eiríki um laxeldismálið. Málið hryggir mig. Mér sveið líka þegar sá staður á Íslandi sem mér þykir einna vænst um, Húsavík, reisti forljóta kolabrennandi verksmiðju í flæðarmálinu. Og ég hef sterkan streng í hjartanu sem rennur til Suðurnesja. Hann er allur í hnút út af ógeðslegu kísilforarvilpunni í Helguvík.

Eftir á að hyggja hefði ég líka haft skömm á virkjanahugmyndum í Hvítá – ég hefði klappað fyrir Halldóri Laxness þegar hann sagði Ísland gerspillt af mannavöldum. Ég hefði gjarnan viljað skella mér í sjósund með Þórbergi og í lax með Stefáni Jónssyni.

Samt sem áður veit ég að það er meira en smá snertur af hræsni í því viðhorfi mínu. Án stóriðju væri ég ekki til. Afi hefði aldrei hitt ömmu nema vegna þess að þau fluttu á þeim tíma til Akureyrar, með sína risastóru verksmiðjusamsteypu í hjarta bæjarins. 

Verksmiðjurnar hafa síðan verið rifnar og í stað þeirra er komin blómabúð og bakarí. Ofar í brekkunni situr háskóli. Íbúafjöldinn stendur samt nánst í stað á meðan höfuðborgarsvæðið þenst út. 

Atvinnu minnar vegna hef ég ferðast um allt land síðustu ár. Ég hef notið þeirra forréttinda að fá að keyra Djúpið aleinn í fallegu veðri. Ég hef flogið yfir eldgos, siglt inn í sólarlagið í Skjálfanda og sofið í litlum kofa í birkiskógi. 

Það er freistandi að reyna að muna Ísland þannig; selir að sóla sig á klöpp, þrestir syngja á grein og sólin speglast í haffletinum.

Sterkar tilfinningar móta minningar.

Þess vegna man ég ekki síður eftir því að hafa setið skjálfandi og gubbandi við klósettskálina í Herjólfi. Ég man innilokunarkenndina þegar ég barðist í skafrenningi og stórrhríð yfir Kleifaheiði. Skelfingarópin sem hljómuðu þegar litla flugvélin flaug út úr Skutulsfirði og út í hliðarvindinn í Djúpinu eru nánast greipt í huga minna – og ég get enn lýst í smáatriðum tilfinningunni sem greip mig þegar ég sá skriðu koma á móti mér í Súðavíkurhlíð.

Rómantík er ekki allur raunveruleikinn. 

Ef ég fengi að ráða væri aðstaða fyrir hvalaskoðunarbáta við Helguvík, göngustígar á Bakka og í Djúpinu væri þögnin aðeins rofin með fuglasöng og takti trillunnar.

En ef ég fengi að ráða hefðu Vestfirðingar, Húsvíkingar og fleiri fengið miklu meiri stuðning til að halda svæðum sínum í byggð án þess að þurfa að leita til þess lægsta samnefnara sem mengandi verksmiðjur og sjóeldi eru.

Það er alltof mikið af fólki í þessu landi sem virðist halda að lögmálið um framboð og eftirspurn sé raunverulegt lögmál (sem það er ekki). Einföld þumbarahagsfræði ræður för. Mikið er gert með það að Vaðlaheiðagöng séu hin eina sanna táknmynd um fjármálaóreiðu og kjördæmapot. Ef bent er á að göngin stuðli t.d. að því að fólk austan heiðar komist á sjúkrahús eða í háskólann í vondum veðrum fá menn lánaðan siðferðilega skrápinn hennar Sigríðar Andersen eitt augnablik, troða sér í hann og blása ískaldir á slíkar röksemdir.  

Í umræðunni er skipulega traðkað á tilfinningum landsbyggðarfólks og máluð upp skrípamynd af frumstæðu fólki sem sé ekki fyllilega sjálfrátt. Fólk sem myndi líklega éta for og baða sig upp úr olíu ef það nyti ekki leiðsagnar velviljaðra. Það er í þessu samhengi sem Eiríkur Örn er sagður hafa brugðist. Hann er álitinn klerkur hinnar nýju menningarlegu þjóðkirkju (verðlaunaður og allt) sem koma á í veg fyrir siðferðilega hnignun skrælingjanna.

Þegar Djúpið fyllist af eldislaxi og kolafarmur er hífður upp á bryggju í Húsavíkurhöfn hefur eitthvað brugðist. En það eru ekki skáldin og ritstjórar héraðsblaðanna. Og það er ekki almenningur sem rær lífróður við að halda heimkynnum sínum í byggð. 

Í meira en þrjá áratugi hefur verið rekin í landinu efnahagsstefna sem byggir á hagræðingu í atvinnuháttum. Hagræðing hefur þýtt að eignarhald í sjávarútvegi hefur færst á færri hendur og að störfum hefur fækkað. Tilgangurinn var sagður vera sá að hámarka arð af auðlindinni og halda byggð í landinu.

Hið fyrra tókst og þeir sem eru svo fátækir að þeir eiga ekkert nema peninga telja þar með að sjávarútvegur í landinu sé afbragð allra efnahagsundra. Hið síðarnefnda, að halda landinu í byggð, mistókst hrapalega.

Í þrjátíu ár ætti sjávarútvegurinn að hafa greitt sanngjarna upphæð fyrir afnot af auðlindinni. Þessa peninga hefði átt að nota til að halda innviðum á landsbyggðinni hraustum. Þess í stað hafa þeir verið látnir grotna niður. Kröfum um samgöngubætur er mætt með brigsli um bruðl og óráðsíu. Á sama tíma eru göturnar á höfuðborgarsvæðinu malbikaðar með svo miklu drasli að þær eru nánast ónýtar á hverju vori – og nú á að rífa eitt dýrasta og glæsilegasta hús landsins því það heldur ekki vatni. 

Það langar engan í kísilverksmiðju. Það langar engan í virkjun. En fólk þarf störf og það þarf rafmagn. Og þegar mann vantar það sem maður þarf gerir maður meira en mann langar.

Mig langar að trúa því að ég væri á móti laxeldi í Djúpinu þótt ég byggi á Ísafirði og á móti Bakkaferlíkinu þótt ég byggi á Húsavík. En ég veit að ég gæti ekki falið mig á bak við fjarsýni. Því nær sem ég stæði málinu, því meira myndi ég vita um það – og þeim mun flóknari yrðu skoðanir mínar á því.

Ég hlustaði á ræðu Eiríks Arnar. Hún var grátóna. Hún fjallaði um flókið viðfangsefni og gerð var tilraun til að gera það heiðarlega, án þess að einfalda það um of.

Skammargreinin um hann hér á Stundinni er eintóna og undarlega beisk.

Ef þetta mál hefur einhverja ásættanlega lausn – þá er sú lausn býsna flókin. Ég vona innilega að hún feli í sér að innviðir brothættra byggða séu styrktir með einhverju öðru en virkjunum og eldislaxi – en fyrst og fremst að þeir séu styrktir. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu