Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ofsóttur Sjálfstæðisflokkur

Þá er komið að Sjálfstæðisflokki í þessari kosningayfirferð. Hann ryðst áfram eins og ísbrjótur og virðist aldrei fara langt niður fyrir 20%. 

Það held ég að stafi ekki af kosningaáherslum. Mig grunar að verulegur hluti af fylgi Sjálfstæðisflokks sé í raun ópólitískur. Hægri sinnað fólk sem nennir ekki stjórnmálum kýs Sjálfstæðisflokkinn á meðan slíkt fólk sem fellur annarsstaðar á litrófið situr heima.

Slíkt fólk treystir því að flokkurinn tryggi nokkurnveginn óbreytt ástand og standi í vegi fyrir skattahækkunum. Það er nóg. Að öðru leyti gæti fólki ekki staðið meira á sama um pólitískar hugsjónir.

Þess vegna hverfur fylgið ekki þótt pólitískir afleikir komi í röðum. 

Þegar flokkurinn var tvöfalt stærri en hann er nú var það vegna þess að í honum var einlægt hugsjónafólk. Fólk sem vildi standa vörð um sjálfstæði landsins, menningu þess og sögu.

Ég er stundum skammaður fyrir það að vilja Sjálfstæðisflokkinn ekki feigan. Fólk setur samasemmerki á milli hans og spillingar – og lítur á hann sem allsherjar meinsemd. Ég er ósammála því. Hægrimennska er fullgild lífsaðstaða og lýðræðislegt samfélag þarf á fjölbreyttum viðhorfum að halda. Það fer í taugarnar á mér að Sjálfstæðisflokkurinn leggi ekki harðar að sér að vera heiðarlegt slíkt afl.

Bjarni Ben er vandamál fyrir flokkinn. Styrkur hans virðist vera meiri en hann er vegna þess hve veikburða forystan er að öðru leyti. Það er alveg rétt að flokkurinn og Bjarni verða fyrir ofsóknum. Of margir andstæðingar hans hafa rokið upp til handa og fóta af litlu tilefni. Það hefur getið af sér þá stöðu að ákveðið kjarnafylgi Sjálfstæðisflokks (sem er pólitískt) er orðið ónæmt fyrir pólitísku velsæmi. Allt eru ofsóknir.

Þróun Bjarna sem leiðtoga hefur gengið gegnum þrjú stig. Í fyrstu þrætti hann fyrir óþægilega hluti og þóttist hann ekki muna það sem hann vildi ekki meðganga. Það var mjög veikt. Þá fór hann að gangast við hlutum en segjast barasta ekkert skammast sín. Það virkaði sterkara – en var þó fyrst og fremst tilkomið vegna þess að hægt og rólega var verið að króa hann af. Nú er hann kominn á þann stað að fela sig bak við skort á sönnunargögnum. Þaðan er stutt í lokin.

Með Bjarna við stjórnvölinn verður stjórnarmyndun flokknum mjög erfið í næstu kosningum og skammgóður vermir verður af því að sjá Bjarta framtíð og Viðreisn í vanda. Með Áslaugu Örnu við stjórn er staðan ekkert betri.

Það er afar ólíklegt að flokkurinn komi vel út úr kosningunum. 

Hann á líka ekkert að koma vel út fyrr en hann tekur til í sínum ranni og verður sá flokkur sem heiðarlegir hægri menn verðskulda.

Hann á töluvert í land þar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni