Kennaraforystan á að skammast sín
Það er óhætt að segja að upp sé komin fordæmalaus staða í kjaramálum opinberra starfsmanna. Síðasta miðvikudag stóð forysta KÍ frammi fyrir félagsmönnum sínum og fullyrti að eftirlaunakjör félagsmanna væru gulltryggð, á þeim væru bæði „belti og axlabönd“ enda hefði náðst tímamótasamkomulag við ríki og sveitarfélög.
Oddvitar kennara sögðust þó ætla að hittast á föstudaginn til að ræða ályktanir fjölmargra skóla sem mótmælt höfðu harðlega tilvonandi breytingum á lífeyriskjörum. Í framhaldi af því mætti búast við yfirlýsingu. Skýrt var tekið fram að mótmæli kennara myndu engin áhrif hafa – og að enginn í forystusveit kennara teldi ástæðu til að endurskoða afstöðu sína.
Þá gerist hið lygilega. Um helgina sendir stjórn KÍ loks frá sér yfirlýsingu. Í yfirlýsingunni er tekinn fullkominn viðsnúningur. Í stað þess að færa rök fyrir því að lífeyrisréttindi séu gulltryggð kemur fram að þau séu þvert á móti í stórhættu – og því megi þingheimur alls ekki hleypa lagafrumvarpi um málið í gegnum þingið.
Hvernig má þetta vera?
Jú, í ljós kom að kennaraoddvitarnir höfðu ekki skilið frumvarpið. Höfðu þeir þó fengið að kynna sér það nákvæmlega áður en skrifað var undir samkomulagið. Af einhverri undarlegri óskhyggju töldu bæði oddvitar og sérfræðingar KÍ að frumvarpið tryggði meiri réttindi en það gerði í raun. Þegar ljóst varð að svo var ekki varð heilmikið uppnám.
Að hluta til stafar þetta allt af því að málið hefur verið unnið með leynd og í miklum flýti. Hér er verið að ráðstafa milljörðunum sem Sigmundur Davíð náði af vondu vogunarsjóðunum. Opinberum starfsmönnum stóð til boða að samþykkja tilboðið sem var á borðinu eða fá ekki neitt. Gefið hefur verið í skyn að ef tilboðinu verði hafnað verði peningarnir notaðir í kosningaloforð til handa öðrum í staðinn.
Forystu kennara er mjög í mun að gera greinarmun á samkomulaginu sem skrifað var undir og frumvarpinu. Þetta eru samt nátengd mál. Frumvarpið var tilbúið á undan samkomulaginu. Kennarar skrifuðu undir samkomulagið eftir að hafa kynnt sér frumvarpið. Samþykki kennara og annarra opinberra starfsmanna var síðan meginröksemd fjármálaráðherra þegar hann krafðist þess að fá að troða málinu gegnum þingið án mikillar skoðunar eða umhugsunar. Nokkuð sem formaður félags framhaldsskólakennara segir að meirihlutastuðningur sé við inni á Alþingi.
Þingmenn sem móttekið höfðu ályktanir kennarahópa gegn samkomulaginu og frumvarpinu reyndu að ræða málið við Bjarna Ben en varð ekkert ágengt. Hann gat enda sagt:
„Jú, ég get alveg deilt því að ég hefði viljað hafa rýmri tíma og meira svigrúm, lengri umsagnarfrest o.s.frv., en ég tel samt að við höfum skyldu til að láta reyna á það til fulls hvort ekki geti myndast samstaða á þinginu. Það sem færir mér bjartsýni í brjóst hvað það varðar er sú staðreynd að allir þeir sem hagsmuni eiga undir eru aðilar að samkomulaginu og hafa kynnt sér málið nú þegar í þaula. Þetta mundi allt saman horfa öðruvísi við ef við værum að skella hér fram eftir árangurslausa tilraun til að ná samningum frumvarpi þar sem við segðum: Það hefur ekki tekist neitt samkomulag en þá ætlum við að höggva á hnútinn með þessu frumvarpi. Þá værum við í allt annarri stöðu. Þetta byggir allt á samkomulagi. Þess vegna trúi ég því að þetta sé framkvæmanlegt.“
Ef eitthvað er að marka ráðherrann eru ekki lengur til staðar forsendur til að hleypa málinu í gegn. Þetta ætti ekki að vera lengur framkvæmanlegt. Það er samt alveg innilega neyðarlegt að ástæða þess að málið er ekki lengur pólitískur möguleiki er að hann hafði rangt fyrir sér um þetta:
„Það sem færir mér bjartsýni í brjóst hvað það varðar er sú staðreynd að allir þeir sem hagsmuni eiga undir eru aðilar að samkomulaginu og hafa kynnt sér málið nú þegar í þaula.“
Þetta er bara ekki rétt. Þess vegna gerist það nú, þegar málið er að detta í aðra umræðu á þinginu, að kennarar fatta loks að þeir hafa misskilið allt saman.
Þetta er sérlega neyðarlegt vegna þess að ef skilningur ríkisins er sá rétti (og hann er það bókstaflega) þá er ekki lengur neinum vafa undirorpið að forysta kennara fór út fyrir það umboð sem henni hafði verið veitt.
En þetta er líka neyðarlegt vegna þess að stór hluti af samkomulaginu – og þar á meðal allt sem sneri að því sem opinberir starfsmenn áttu að fá í staðinn fyrir að selja frá sér réttindi sín – snýst um traust. Forysta kennara hefur gengið fram fyrir kennarahópa og sagt að þau vatnaskil hafi orðið að loks sé hægt að treysta hinu opinbera.
Allt tal um traust er dautt.
Verst af öllu er að þessi agnúi sem forysta kennara fann á málinu og setti allt í uppnám nú er alls ekki eina hættan af þessu samkomulagi og þessu frumvarpi. Þannig gerði stjórn KÍ fyrirvara við samþykki sitt þegar málinu var þrýst í gegn á laun snemma í síðasta mánuði. Stjórnin samþykkti samkomulagið vegna þess að fallist hefði verið á skilyrði hennar um að lífeyrisréttindin væru tryggð jafnvel þótt Varúðarsjóðirnir myndu tæmast.
Sannleikurinn er sá að engin slík trygging er til staðar. Það eina sem fast er í hendi er að ef sjóðirnir verða fyrir skaða skuli teknar upp viðræður. Það þarf tvíhliða samþykki um að greitt verði inn í sjóðinn til að bæta fyrir skaðann – og það samþykki er skilyrt við fáa afmarkaða þætti.
Jafnvel þótt ríkið verði við óskum KÍ um breytingar á frumvarpinu verða réttindi kennara enn illa varin.
Í þessu máli hefur forysta kennara orðið uppvís að þvílíku fúski að henni er í raun og veru ekki stætt á að halda áfram. Stórkostlegir hagsmunir hafa verið settir í uppnám vegna þess að menn tóku þátt í leynilegu baktjaldamakki sem þeir skildu ekki fyllilega sjálfir. Nú á að reyna að bjarga í horn á síðustu stundu og biðja stjórnarandstöðuna um hjálp. Annað eins hefur ekki sést síðan þingmaðurinn samþykkti frumvarp sem hann bað svo forsetann um að synja.
Með vísan til orða fjármálaráðherra er ekkert annað fyrir Alþingi að gera nema að stöðva málið. Þetta er bölvuð vansmíð, illa hugsuð. Og forysta kennara þarf í framhaldinu að standa fyrir máli sínu gagnvart eigin félagsmönnum. Og skammast sín.
Athugasemdir