Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Jólastríð á vinnumarkaði

Þegar Ísland hrundi fyrir tæpum áratug hafði það djúpstæð sálræn áhrif á þjóðina. Hún fylltist gremju, reiði og sektarkennd. Leitin að blórabögglum var fyrirferðarmikil í upphafi. Hún beindist bæði út á við og inn á við. Meðal þess sem brátt virtist ljóst að viðskiptalífið var sjúkt, stjórnmálin skemmd, fjölmiðlar meðvirkir og almenningur ógætinn og kærulaus. Rannsóknarskýrslur voru skrifaðar, loforð og heitstrengingar áttu sér stað – allir ætluðu að verða betri.

Það hefði auðvitað ekki átt að koma neinum á óvart en flestir í samfélagspíramídanum voru fljótir að skola af sér skömmina þegar leikar hófust á ný og peningarnir fóru að streyma. Viðskiptalífið virðist komið á nákvæmlega sama stað og það var og ástunda sama grimma sérhagsmunapotið og þá. Stjórnmálin hafa verið meira og minna ónýt síðan og þótt fjölmiðlar hafi að mínu mati brugðist nokkuð við og veita meira aðhald núna en áður (flestir) þá dugar það ekki til því almenningur er of kærulaus til að hann nenni að vera að grípa til aðgerða þótt vandinn blasi við.

 Við hrun var ákveðið að gera þyrfti stórfelldar breytingar á vinnumarkaði. Jafna þyrfti launamun og kjaramun milli hins opinbera markaðar og þess almenna. Helstu verkalýðsforkólfar landsins störfuðu saman að því að þjóðnýta vinnumarkaðinn, koma böndum á hann – temja hann til þjónustu við þjóðarhag. Úr varð Salek-hópurinn. Honum var meðal annars ætlað að sjá til þess að hér á landi yrðu ekki framar átök á vinnumarkaði. 

Það er eðlilegt að svona hugmyndir ættu upp á pallborðið hjá gjaldþrota þjóð. Strax eftir hrun ætluðu allir að hætta að vera erfiðir. Stjórnmálamenn í öllum flokkum þóttust ætla að hætta hrossakaupum og átökum. Bankarnir voru auðmjúkir og undirgefnir. Forysta vinnandi fólks var það líka. Í dag eru allir aftur orðnir forhertir – nema verkalýðsforystan. Hún varð að gjalti í höndum hins opinbera og er fyrst núna að vakna upp við afleiðingar þess.

Í kjarabaráttu grunnskólakennara, sem lauk með skammvinnu vopnahléi á dögunum, var stöðugleikinn sjálfur undir. Á bak við tjöldin lá hótun um að friðartímabilið sem komið var á í kjölfar hruns myndi enda ef kennarar fengu kjarabætur sem ógnuðu þeirri hugmynd að allt vinnandi fólk á Íslandi skyldi hlutfallslega vera á sömu launum frá 2013-2019.

Sveitarfélögin voru tilbúin að framkalla stríð í grunnskólanum frekar en að fá á sig stríð á vinnumarkaði. Þess vegna var í raun engin breyting á kjörum kennara önnur en það að þeir fengu hraðar það sem þeim bar samkvæmt Salek-rammanum en til stóð. Það er svo vandamál næsta vetrar að vopnahléð mun enda við þær aðstæður að fullkomlega útilokað verður fyrir sveitarfélögin að réttlæta frekari hækkanir án þess að sprengja stöðugleika á vinnumarkaði.

Líklega kemur þó ekki til þess. Stöðugleiki á vinnumarkaði mun tortímast núna á næstu dögum. Það mun gerast vegna lífeyrisfrumvarpsins sem nú liggur inni á Alþingi.

Það hefur lengi verið svo í samfélagi okkar að laun starfsmanna hins opinbera hafa verið verulega mikið lægri en laun á almenna markaðnum. Á móti kemur að opinberir starfsmenn hafa notið betri lífeyriskjara en fólk á almenna markaðnum. Eftir hrun fór af stað vinna við að reyna að jafna þennan mun.

Nú er komið fram að löggjafinn ætlar sér að jafna lífeyriskjör með því að jafna niður á við. Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna skulu skert svo þau séu jafn vond og kjör á almennum markaði. Síðan á að taka tæpan áratug að gera laun á mörkuðunum sambærileg. Það verður líklega gert með tvennum hætti. Á opinbera markaðnum eru fjölmargar kvennastéttir og því verður hægt að gera átak gegn kynbundnum launamun og ná eitthvað áleiðis í þessum slag – hitt er þó mun líklegra: Að launakjörin verði jöfnuð niður á við. Verði lífeyrisfrumvarpið að lögum mun sú skylda hvíla á þeim sem semja á almennum markaði að launahækkanir verði litlar eða engar á meðan opinberi vinnumarkaðurinn nálgast í hænufetum. Takist þetta verður búið að jafna báða hópa niður á við. Opinberir starfsmenn verða komnir með verri lífeyrisréttindi og starfsfólk á almennum markaði verður komið með verri laun. Einhver dularfull tegund af alræðis-jafnaðarmennsku verður búin að hlaupa sitt skeið.

Allt þetta miðar við að lífeyrismálið fari í gegn og að samkomulag milli hins opinbera og forkólfa stéttarfélaga opinberra starfsmanna verði virt. Það er auðvitað langlíklegast að allt verði svikið, samstaðan hrynji og það eina sem í raun og veru gerist er að hið opinbera þvingi í gegn lög sem losa það við ábyrgð á dýrmætum lífeyrisréttindum starfsmanna sinna. Nokkuð sem hin afkastamikla hægri stjórn sem nú situr sem afturganga í Stjórnarráðinu gæti litið á sem kórónu sköpunarverks síns. 

Lífeyrisfrumvarpið átti aldrei að komast alla leið inn á þing, hvað þá með samþykki og yfirborðskenndum stuðningi verkalýðsforystunnar. Þeir verkalýðsleiðtogar sem skrifuðu undir reyndu með því að gefa hinu opinbera eftir tiltekin réttindi sem þeir höfðu ekkert með að gefa. Þeir verða að standa skil gagnvart félagsmönnum sínum. Flestra bíða engir skuldadagar, félagsmenn þeirra eru of dofnir og kærulausir til að nenna að reiðast við sitt forystufólk. Verkalýðsfélögin á landinu eru enda flest hálf-dauð og máttlaus og snúast miklu frekar um leigu á sumarbústöðum og hotjóga-námskeið en raunverulega baráttu eða hagsmunagæslu.

Staðan er semsagt sú að frumvarp til laga um lífeyrismál felur í sér skerðingu lífeyrisréttinda allra opinberra starfsmanna sem fæddir eru eftir 1956 og stórkostlega skerðingu þeirra sem fæddir eru á áttunda áratugnum og síðar. 

Nú getur þrennt gerst.

Frumvarpið verður samþykkt í núverandi mynd.

Frumvarpið verður samþykkt í breyttri mynd.

Frumvarpið verður ekki samþykkt.

Skoðum fyrsta og þriðja kostinn. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt verður stríð á vinnumarkaði. Allt mun loga í dómsmálum og opinberir starfsmenn munu gera uppreisn gegn þeim stjórnmálamönnum sem troða frumvarpinu í gegn. Verða þar ekki undanskildir þeir sem hleypa málinu í gegn með hjásetu. Ástæða þessa er að frumvarpið er ekki í fullu samræmi við það samkomulag sem verkalýðsforystan gerði við hið opinbera. Lögin verða því álitin svik.

Falli frumvarpið hefur almenni vinnumarkaðurinn hótað stríði. Þeir telja sig eiga heimtingu á því að lífeyriskjör opinberra starfsmanna verði skert. Í febrúar á sér stað endurskoðun kjarasamningar og það hefur verið látið í veðri vaka að án breytinga á lífeyrislögum fyrir áramót fari í gang ferli sem muni leiða til stríðs á vinnumarkaði í febrúar. Allir opinberir starfsmenn eru sem sagt í aðstöðunni sem grunnskólakennarar voru í fyrir stuttu, nema að nú eru það ekki kjarabætur sem ætlast er til að þeir fórni fyrir stöðugleika, heldur er ætlast til að lífeyriskjör þeirra verði beinlínis skert til að viðhalda ró á vinnumarkaði.

Þá er það þriðja leiðin. Að breyta frumvarpinu svo að verkalýðsforystan telji það í samræmi við gert samkomulag og troða því gegnum þingið fyrir áramót svo keðjuverkun inn í almenna markaðinn eigi sér ekki stað. Þetta er væntanlega sú leið sem menn hyggjast fara.

Vandinn er að verkalýðsforystan hafði enga heimild til að gera þetta samkomulag. Hún veit það meira að segja. Þess vegna gera forystumenn opinberra verkalýðsfélaga mikið úr því að samkomulagið hafi í raun ekki verið neitt annað en almenn stefnuyfirlýsing. Hið opinbera þurfi ekki leyfi neins til að breyta lífeyriskjörum starfsmanna sinna. Það hafi bara verið kurteisi að spyrja og samkomulagið sé aðeins kurteisislegt viðbragð.

Þetta er bæði ábyrgðarlaus og fráleit afstaða. Ef samkomulagið var allan tímann gagnslaust þá hverfur um leið styrkur þeirra kröfu um að frumvarpið verði að endurspegla það.

Raunveruleikinn er sá að með samkomulaginu kom hinn pólitíski styrkur sem málið þurfti á að halda til að stjórnvöld teldu sig eiga möguleika á því að troða málinu gegnum þingið. Sá pólitíski styrkur minnkar ekkert stórkostlega þótt rifrildi standi um einstök atriði innan frumvarpsins. Menn ætla samt að reyna.

Ástæða þess að þetta mál má ekki verða að lögum og að samkomulag eins og það sem gert var við verkalýðsforystuna hefði aldrei átt að vera gert er sú að hér er verið að breyta starfskjörum fólks á hinum opinbera markaði. Verkalýðsfélög geta ekki gert samkomulag um breytt starfskjör án þess að um það séu gerðir kjarasamningar (sem fara í allsherjaratkvæðagreiðslu í kjölfarið) og jafnvel þá þarf fólk að hafa val um það að framselja rétt sinn til áunninna lífeyrisréttinda eða ekki.

Það sem hér hefur gerst er að frekar lítill hópur stjórnenda opinberra verkalýðsfélaga tók sér miklu meira vald en hann hafði í raun. Á bak við luktar dyr hefur verið unnið eftir áætlunum sem hvorki uppfylla kröfur um lýðræðisleg vinnubrögð né vernd réttinda. Þetta hefur allt verið gert vegna þess að menn hafa talið sig hafa ærna ástæðu til að handstýra vinnumarkaðinum í örugga höfn vegna vinnu sem hófst þegar landið hrundi. 

Verkalýðsforystan er nátttröll sem hélt áfram að fórna skjólstæðingum sínum fyrir lítt skilgreindan almannahag meðan allir aðrir leikmenn eftirhrunsáranna voru löngu hættir að rembast í slíkri fórnfýsi.

Taflið hefur enda þrengst með tímanum og nú er svo komið að við stöndum frammi fyrir stríði á vinnumarkaði. Það verður stríð, hver sem niðurstaðan verður.

Aðeins einn kostur er í stöðunni sem telja má vænlegan. Það er að gefa málinu lengri tíma. Það vill starfandi ríkisstjórn alls ekki. Hún hefur enda enga tryggingu fyrir áframhaldandi völdum til að klára málið. Þess vegna á að reyna til þrautar að troða því í gegn. Eina leiðin til þess er að nota ógnanir.

Alþingi er fullt af nýjum þingmönnum sem hreinlega skilja ekki málið. Á síðasta þingi sköpuðu Píratar stórhættulegt fordæmi sem felst í því að sitja hjá í öllum málum sem maður skilur ekki. Pólitískt veik stjórn sem reitt getur sig á slíka afstöðu hefur öll tromp á hendi. Maður getur treyst á litla eða enga mótspyrnu í flóknum eða erfiðum málum. Nýr þingmaður sem stendur frammi fyrir því að það að stoppa frumvarp muni leiða til stríðs á vinnumarkaði í vor hefur ríkulegan hvata til að sitja hjá og hleypa því í gegn. 

Þingið á ekki að hleypa þessu frumvarpi í gegn. Málið á einfaldlega að vinna betur. 

Það er kominn tími til að launafólk hætti að reyna eitt að hreinsa til eftir hrunið. Það er líka kominn tími til að við drögum alvöru lærdóm af hruninu. Einn sá rækilegasti er að ástand spennu og ótta er ekki vel til þess fallið að ramma inn stórar pólitískar aðgerðir eða tilfærslur á peningum. Hafi maður möguleikann á að bíða – er yfirleitt betra að bíða.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni