Hvað er það sem gerði kennara svona reiða?
Fyrir áhugamann um stjórnmál getur verið dálítið undarlegt að fylgjast með glímutökum stjórnmálamanna í málum sem maður þekkir vel. Þá verður óeinlægnin og spunamennskan svo pínlega ljós. Sem grunnskólakennari hef ég verið að upplifa það síðustu daga.
Ef sveitarstjórnarmaður er beðinn um að útskýra þá þungu undiröldu sem hefur orðið vart á yfirborðinu síðustu daga hjá grunnskólakennurum mun hann segja að kennarar séu reiðir við Kjararáð. Þeir þoli það ekki að þingmenn eigi að fá veglegar launahækkanir.
Það er þvæla.
Skoðanir kennara á Kjararáði eru jafn fjölbreyttar og meðal annarra hópa. Kennarar eru ekki í einhverri sjálfskipaðri velsæmisherferð gegn launakjörum þingmanna. Sumum okkar finnst meira að segja fínt að þingmenn fái góð laun.
Reiði kennara snýst ekki um kjararáð og hún mun ekkert sefast þótt nýtt þing dragi launahækkanir þingmanna til baka. Reiði kennara er vegna sveitarfélaganna. Punktur.
Reiði kennara snýst ekki um kjararáð og hún mun ekkert sefast þótt nýtt þing dragi launahækkanir þingmanna til baka. Reiði kennara er vegna sveitarfélaganna. Punktur.
Auðvitað er eðlilegt að sveitarstjórnarmenn reyni að hliðra sér hjá gagnrýni eftir fremsta megni. Þeir eru pólitíkusar. Pólitík snýst um að sannfæra óánægt fólk um að rof hafi orðið milli raunveruleika og skynjunar.
Síðasta mánudag mættu reykvískir kennarar til borgarstjórans í Reykjavík og afhentu honum 3000 undirskriftir íslenskra kennara með harðorðri ályktun. Ályktunin snerist ekkert um ríkið. Hún snerist um misheppnaða kjarastefnu sveitarfélaganna sjálfra. Borgarstjórinn ræddi málið við nokkra kennara góða stund og svo skildust leiðir.
Veðrið fór í skapið á honum, Dónald Trömp fór í magann á honum, hann hefur verið að pæla í Esjukláfi og fótbolta í úthverfum.
Í vikulegum pósti sínum til starfsmanna borgarinnar rakti svo þessi sami borgarstjóri það sem helst hefði borið til tíðinda hjá honum í vikunni. Veðrið fór í skapið á honum, Dónald Trömp fór í magann á honum, hann hefur verið að pæla í Esjukláfi og fótbolta í úthverfum. Rúmlega eitt þúsund undirskriftir reykvískra kennara komust ekki á blað. Ekki orð um það í póstinum. Ekki heldur orð um harðorða ályktun foreldrafélaganna í Reykjavík. Þau sjá vandann greinilega. Ekki píp. Það verður þó að hafa í huga að það eru væntanlegar voða spennandi hugmyndir um þróun íþróttasvæðis KR sem þurftu sitt pláss.
Á föstudaginn síðasta hittist kennarahópur heils skóla sem ætlar líklega allur að skrifa uppsagnarbréf eftir helgi. Ekki vegna kjararáðs. Heldur vegna borgarinnar.
Raunin er sú að langsamlega stærsta vandamálið sem borgarstjórn stendur frammi fyrir í dag er yfirvofandi atgervisflótti kennara. Á föstudaginn síðasta hittist kennarahópur heils skóla sem ætlar líklega allur að skrifa uppsagnarbréf eftir helgi. Ekki vegna kjararáðs. Heldur vegna borgarinnar.
En hvað er það sem gerði kennara svona reiða?
En hvað er það sem gerði kennara svona reiða?
Ég skal rekja það í stuttu máli.
Árið 2013 höfðu launakjör kennara rýrnað verulega frá 2005. Ekki síst vegna hrunsins. Voru þau þó slöpp fyrir. Það er löngu viðurkennt að miklu lengra var gengið í niðurskurði í skólakerfinu við hrunið en kerfið þoldi. Margvíslegur skaði varð sem enn er að koma fram. Eitt af því var að kjör kennara versnuðu stórkostlega.
Hér verður að hafa í huga að um 2005 var mörkuð sú stefna að stórbæta kjör grunnskólakennara. Átti það að haldast í hendur við auknar faglegar kröfur og mun lengra nám. Hrunið gerði útaf við öll slík plön. Námið lengdist að vísu og kröfurnar jukust – en kjörin (eins og áður sagði) rýrnuðu.
Nú er svo komið að kennarar eru í útrýmingarhættu.
Nú er svo komið að kennarar eru í útrýmingarhættu. Rannsóknir sýna að næstu áratugi mun verða viðvarandi kennaraskortur. Hann er þegar byrjaður að koma fram.
Árið 2013 var samþykktur mjög umdeildur kjarasamningur kennara. Hann var seldur kennurum sem viðbragð við bágum kjörum. Nú væru sveitarfélögin til í að leiðrétta stöðu þeirra. Á örfáum árum áttu kennarar að komast úr stöðu hins ólæknandi eftirbáts upp að meðallaunum í landinu, og jafnvel eitthvert lengra.
Ég var einn þeirra sem benti á að verulegur hluti af „launaleiðréttingunni“ væri alls engin leiðrétting. Hún væri ekki einu sinni hækkun. Hún væri fjármögnuð með því að stórauka vinnuálag á kennara á sjötugsaldri. Þeir væru hýrudregnir og/eða látnir vinna fyrir þriðjungi launahækkana hinna.
Sveitarfélögin ákváðu að það væri vænlegri taktík að bregðast við útdauða ungra kennara með vinnuþrælkun þeirra gömlu en endurnýjun hinna ungu.
Sem var svo auðvitað raunin. Sveitarfélögin ákváðu að það væri vænlegri taktík að bregðast við útdauða ungra kennara með vinnuþrælkun þeirra gömlu en endurnýjun hinna ungu. Þeir skyldu vinna sín störf – og bæta á sig þeim störfum sem unga fólkið hefði átt að vinna.
Nú aukast langtímaveikindi hjá Reykjavíkurborg með gríðarlegum hraða. Kennsla hefur alltaf verið álagsstarf (það skilja allir sem haldið hafa bekkjarafmæli). Um 90% kennslukvenna sýna líkamleg álagseinkenni og um helmingur mjög alvarleg einkenni. Með því að auka álögur á fólk í slíkri stöðu hlýtur eitthvað að láta undan.
Þetta er eitt af því sem gerir kennara reiða.
Sagan er þó ekki öll sögð enn.
Sveitarfélögin ákváðu að þau væru orðin þreytt á kjarasamningum. Þau nenna ekki að vera alltaf að semja við starfsfólkið sitt. Þau ákváðu því að gangast í bandalag með nokkrum aðilum vinnumarkaðar sem kallað er Salek. Salek stendur fyrir það að fólk semji eins og fullorðið fólk og að öll dýrin í skóginum séu vinir.
Hluti af Salek er að allt fólk á Íslandi sætti sig við að hafa þau laun sem það hefur í dag.
Hluti af Salek er að allt fólk á Íslandi sætti sig við að hafa þau laun sem það hefur í dag. Enginn muni hér eftir „hoppa yfir“ annan. Ef Nonni í næsta húsi hefur hærri laun en þú, þá skuldbundið þið Nonni ykkur til að semja þannig að svo verði áfram. Það er svo miklu einfaldara.
Inni í Salek-hópnum var fulltrúi kennara að dandalast mánuðum saman án þess að verða nokkuð ágengt í neinu sem skiptir máli. Að lokum gafst hann upp og neitaði að kvitta upp á „rammasamkomulag“ um endanlega lausn launavandamálsins.
Málið var nefnilega það að snillingarnir á bak við Salek ákváðu að allir hópar skyldu hafa þau laun sem þeir höfðu örlagaárið 2013. Kennarar skyldu því „leiðréttir“ aftur til baka. Frá og meðnúna og þar til Ísland sekkur í sæ skulu grunnskólakennarar vera undir meðallaunum í landinu.
Í tvígang hefur grunnskólakennurum verið boðið að kvitta upp á það með samningi. Þeir hafa neitað í bæði skiptin. Sveitarfélögin hafa því ákveðið að kennarar skuli þá ekki fá neitt.
Þetta var staðan fyrir ákvörðun Kjararáðs. Kennarar eru aftur sokknir vel undir meðallaun. Þeim stendur ekkert til boða nema að skrifa upp á að vera það áfram.
Þetta var staðan fyrir ákvörðun Kjararáðs. Kennarar eru aftur sokknir vel undir meðallaun. Þeim stendur ekkert til boða nema að skrifa upp á að vera það áfram. Þeir mega reyndar lengja starfsævina um fimm ár gegn loforði um að það verði skoðað hvort þeir fái þá einhverjar launahækkanir seinna fyrir það.
Nú er semsagt komið að því að liðið er næstum hálft ár frá því kennarar áttu að fá nýjan samning. Þeir hafa misst af launaskriðinu sem í gangi er en munu örugglega fá sína hlutdeild í skellinum þegar hann verður.
Við vitum að grunnskólinn er ósjálfbær til framtíðar. Hann mun hrynja á næstu árum. Staðreyndin er samt sú að líkurnar eru meiri en minni á því að hann hrynji strax í vetur.
Mjög margir kennarar ætla ekki í verkföll ef í ljós kemur að sveitarfélögin ætla ekki að semja um neitt. Þeir ætla bara að hætta. Fara eitthvert annað. Og þeir munu gera það. Þá mun skólastarf stórskaðast.
Og hér kemur svo rúsínan í pylsuendanum: Sveitarfélögin eiga flest fyrir þeim hækkunum sem þarf til að bjarga þessu!
Og hér kemur svo rúsínan í pylsuendanum: Sveitarfélögin eiga flest fyrir þeim hækkunum sem þarf til að bjarga þessu!
Svöðusárið sem orðið hefur á skólanum síðan 2008 var réttlætt með því að sveitarfélögin væru einfaldlega of fátæk fyrir alvöru skólastarf. Ástæða þess að skólanum er samt látið blæða út núna er einföld:
Sveitarfélögin ætla frekar að sökkva með Salek-samkomulaginu en bjarga grunnskólanum.
Þau þykjast nefnilega vita að ef kennarar fái leiðréttingar muni allir aðrir Íslendingar telja það sinn sjálfsagða rétt að verða aftur hærri en kennarar í launum.
Reykjavíkurborg á um 3 milljarða til að mæta launahækkunum ársins 2017. Að auki á að skila afgangi upp á 1,8 milljarða. Það væri einfalt mál að hækka laun kennara verulega.
Reykjavíkurborg á um 3 milljarða til að mæta launahækkunum ársins 2017. Að auki á að skila afgangi upp á 1,8 milljarða. Það væri einfalt mál að hækka laun kennara verulega.
Það eina sem skortir er pólitískt hugrekki til að sjá að skólakerfið (stærsta verkefni sveitarfélaganna) liggur undir skemmdum og taka um það ákvörðun að bjarga því án þess að skuldbinda sig til að kaffæra því aftur.
En þegar kemur að skólamálum er sveitarfélögunum stjórnað af gungum. Tveir til þrír karlar sitja stoltir yfir Excel-skjölunum sínum og telja sig hreykna af því að hafa tekist að láta sveitarfélögin gengisfella meira og minna allt langskólanám með samhentu átaki.
Bæjar- og borgarfulltrúar sitja hver á sínum stað lémagna af ótta við að styggja Excel-nautin. Enginn þorir að hafa skoðun á kjaramálunum, hvað þá meira. Borgarstjórinn þorir ekki einu sinni að nefna kennara á nafn í vikupóstum sínum.
Sveitarfélögin komast ekki frá þeirri hugsun núna að kjarabætur kennara muni skila sér í kröfum annarra um hliðstæðar bætur. Og þess vegna þykjast þau hvorki sjá né heyra kennara fyrr en í fyrsta lagi eftir febrúar þegar endurskoðun almennra kjarasamninga lýkur.
En menn hafa ekki tíma fram í febrúar. Fólkið mun hætta í stórum stíl fyrir þann tíma – og það kemur ekki aftur þótt launin verði eitthvað bætt þá.
Í raun og veru hafa sveitarfélögin tíu til fjórtan daga til að bjarga þessu. Eftir það verður fjandinn laus.
Borgarstjórn Reykjavíkur er eins og drukknandi maður sem þorir ekki að taka sundtök af ótta við að laða að sér hákarla.
Borgarstjórn Reykjavíkur er eins og drukknandi maður sem þorir ekki að taka sundtök af ótta við að laða að sér hákarla.
Vandamálið er ekki að fara neitt. Við kennarar látum ekki þegja okkur í hel. Við berjumst, ekki vegna þess að við viljum meiri peninga – þá er hægt að fá annarsstaðar – heldur vegna þess að við erum ekki að fara að tortíma skólakerfinu baráttulaust bara vegna þess að þeir sem bera á því ábyrgð eru huglausir heyrnleysingjar. Við hverfum ekkert þótt borgarstjórinn stroki okkur út úr dagbókinni.
Sjö kennarar af hverjum tíu skrifuðu nafnið sitt á bréf til sveitarfélaganna um síðustu helgi. Næsta þriðjudag munum við ganga út úr skólunum. Bæði í Reykjavík og Reykjanesbæ, kannski víðar. Við munum rífa gat á þagnarhjúpinn sem bæjaryfirvöld hafa saumað yfir sig hvert á sínum stað.
Við munum hamra á dyrnar og hlustirnar þar til sveitarstjórnarmenn fá skyndilega vitið og átta sig á því að auðvitað munu allir heimta þær kjarabætur sem kennarar fá ef réttur til þeirra er tilkominn vegna verkfalls eða harðra aðgerða. Þá munu einfaldlega allir sem tilbúnir eru í slíkar aðgerðir telja sig eiga rétt á hækknum. Um leið skilja menn kannski að tilkall kennara til boðlegra kjara kemur ekki til af baráttuhug þeirra. Það kemur til af stöðu þeirra í samfélaginu og hinnar alvarlegu stöðu stéttarinnar. Okkur vantar fleiri kennara. Við verðum að styrkja við skólakerfið. Það kostar.
Ef blóðbankinn neitaði að afhenda blóð nema eiga nóg handa öllum myndi fólki blæða kerfisbundið út.
Skólanum er að blæða kerfisbundið út.
Athugasemdir