Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Stríðsleikir Halldórs Halldórssonar

Í gær fékk ég fréttir innan úr sveitarfélagi á Íslandi þar sem sveitarstjórnarmönnum var bannað að reikna með launahækkunum til kennara í fjárhagsáætlun. Það yrði að fylgja stefnu SÍS um að ráðstafa öllu fé á aðra liði og síðan ætti að láta launahækkanir kennara bitna með greinilegum hætti á íbúum sveitarfélagsins.

Elliði Vignisson hafði riðið á vaðið í Eyjajarlsviðtali þar sem hann sagði að kennarasamningarnir myndu þurrka upp allt tiltækt fé Vestmannaeyja og því yrði að hagræða.

Í kvöld fékk svo Halldór Halldórsson að leggja þennan lopa á borð landsmanna í kvöldfréttunum. Gefið er í skyn að kennarasamningarnir séu ægilega dýrir og Halldór sagðist vita af sveitarfélögum sem ætluðu að skerða íþróttastarf til að geta orðið við kröfum kennara.

Hann sagði auk þess að hækkun kennara myndi þurrka út megnið af áætluðum afgangi Reykjavíkurborgar.

Gleymum Vestmannaeyjum. Sem skilaði jákvæðum rekstri ótal ár í röð en er alltaf við það að fara á hausinn ef þess er krafist að eitthvað sé lagt til samfélagsins (þetta er nákvæmlega sömu viðbrögð og voru við hækkun veiðigjalda þar á bæ). Horfum bara á Reykjavík. Þar þekkir Halldór bókhaldið út og inn.

Reykjavík áætlar afgang upp á 1,8 ma króna. 

Ef kennarar samþykkja samninginn fá þeir 204 þús í eingreiðslu (fyrir hálft ár án samnings og launahækkana) og í mars verða laun þeirra um 50 þús hærri fyrir skatt. 

Segjum bara að laun kennarans aukist um 800 þúsund á árinu. Það er ríflega áætlað. Þá myndi hagnaður Reykjavíkurborgar af rekstri duga til að hækka launin hjá 2.250 kennurum, eða hjá helmingi allra íslenskra grunnskólakennara.

Gott og vel, þetta er forgangsverkefni – sagði Halldór. Við notum peningana í þetta.

Ég segi bara: „já, takk“.

Grunnskólakennarar að störfum hjá Reykjavík eru nærri þúsund færri en svo að þeir næðu að klára tekjuafgang sveitarfélagsins. Með honum mætti hækka laun þeirra um hundrað þúsund kall á mánuði án þess að snerta aðra liði hjá borginni. Já, takk. Þetta getur borgin gert án þess að hagræða nokkurn skapaðan hlut. Og, það sem kannski mest er um vert, þetta getur borgin gert án þess að nota þriggja milljarða varasjóðinn sem á að mæta launahækkunum ársins 2017.

Með varasjóðnum væri hægt að hækka kennaralaunin um tæpan 350 þúsund kall ef menn kysu að forgangsraða í þágu grunnskólans. Allt án þess að skera niður nokkursstaðar annarsstaðar!

 

11% launahækkun til kennara í tveimur áföngum er smámál fyrir sveitarfélögin. Það eru vissulega til sveitarfélög sem eru í vanda og hafa ekki efni á nokkrum sköpuðum hlut. Til dæmis sveitarfélög sem flokksfélagar Halldórs hafa holað að innan til að ausa fé í vildarvini sína. Þau sveitarfélög ættu kannski hreinlega að missa réttinn til að reka grunnþjónustu sem þau hafa ekki efni á. Það er tímabært að þau fái ekki lengur að vera myllusteinar um háls samfélagsþróunar hér á landi.

 

Það er allavega ljóst að grunnskólakennarar ætla ekki að niðurgreiða með tekjum sínum vonda fjármálastjórn lélegra stjórnmálamanna. Við tókum á okkur hrunið. Grunnskólinn varð fyrir gríðarþungu höggi. Nú eru sveitarfélögin í færi á að byggja aftur upp. Auðvitað eru til stjórnmálamenn sem telja að það sé tækifæri til að fara aftur að hygla gömlum félögum sem misst hafa spón úr aski sínum. 

Ég sjálfur efast um að foreldrar barna í Réttarholtsskóla, Seljaskóla, Norðlingaskóla, Árbæjarskóla og Breiðholtsskóla séu sáttir við það að búið sé að ákveða að rukka þá um nægar fjárhæðir til að verða mörgum sinnum við réttlátum kröfum kennara þeirra um meðallaun í landinu (eftir 5 ára háskólanám nóta bene) – en að það eigi ekki að gera. Vegna þess að Halldór Halldórsson og vinir hans hjá Sambandinu telja sig enn einu sinni geta unnið „stríðsleikinn“ við kennarana.

Það getur vel verið að þeir vinni og þvingi kennara og berji þá niður. En foreldrar barnanna vita hvað sigurinn kostar í raun og veru. Peningarnir renna líklega á endanum í vasa einhverra verktaka – og börnin í skólanum missa kennarana sína. 

Þetta er ekki gáleysi. Þetta er ásetningur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni