Grunnskólamál: Viðreisn svarar
Grunnforsenda nauðsynlegrar nýliðunar í kennarastétt og þess að einstaklingar sjái framtíðarstarfsvettvang innan skólakerfisins, er sú að kjör og starfsaðstæður kennara séu samkeppnishæf.
Þá hafa borist svör allra framboða sem talað var við nema Samfylkingar (væntanleg) og Sjálfstæðisflokks (?). Hér eru svör Viðreisnar. Athygli vekur auðvitað að Viðreisn útilokar ekki með öllu beitingu lagasetningar á möguleg verkföll en á móti koma nokkuð skýrar hugmyndur um leiðir til að efla fjárhagslega getu sveitarfélaga til reksturs og þróunar skólastarfs.
Svarið kom frá Páli Rafnar Þorsteinssyni sem skipar 3. sæti á listanum í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Eldri svör: Píratar, Björt framtíð, Framsókn, Vinstri græn, Dögun.
Hefur flokkurinn sett sér stefnu sem komið getur að gagni við að afstýra hinu alvarlega ástandi sem ríkir í kjaramálum kennara og atgervisflótta úr kennarastétt? Hver er hún? Ef ekki, hvers vegna ekki?
Í stefnu Viðreisnar er mikilvægi kennslu og kennarastarfsins undirstrikað. Grunnforsenda nauðsynlegrar nýliðunar í kennarastétt og þess að einstaklingar sjái framtíðarstarfsvettvang innan skólakerfisins, er sú að kjör og starfsaðstæður kennara séu samkeppnishæf. Viðreisn leggur jafnframt áherslu á sveigjanleika í starfsumhverfi kennara og faglegt sjálfstæði skóla og kennara.
Viðreisn hefur m.a. viðrað þá hugmynd að beita jákvæðum kvötum í gegnum námslánakerfið til þess að efla þjóðfélagslega mikilvægar starfsstéttir. Í þessu samhengi mætti hugsa sér hærra hlutfall styrkja (gagnvart lánum) og/eða hagfelldari kjör á afborgunum, sem skilyrða mætti við starfstíma innan stéttarinnar.
Tekju- og útgjaldaáætlun Viðreisnar gerir ráð fyrir því að árlega verði einum milljarði króna varið í tæknivæðingu grunnskólanna auk þjálfunar starfsfólks og þróunar kennsluefnis. Með þessu vill Viðreisn efla nýsköpun innan skólakerfisins og draga úr vinnuálagi.
Mun flokkurinn beita sér fyrir eða samþykkja lög þess efnis að tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir í því skyni að bæta megi kjör kennara?
Viðreisn er meðvituð um að fjarhagsvandi sveitarfélaga bitnar á getu þeirra til þess að mæta þörfum skólakerfisins og vill leitast við að leysa þann vanda. Flokkurinn hefur m.a. á stefnuskrá sinni að auka tekjur hins opinbera af náttúruauðlindum (t.d. í sjávarútvegi og af ferðaþjónustu) og vill koma á fót sérstökum innviðasjóði sem fari til uppbyggingar á kjarnastarfsemi um landið allt. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög hafi um það að segja hvernig fjármagnið nýtist.
Fari svo að sveitarfélög telji sig ekki geta boðið ásættanleg kjör kemur til greina af ykkar hálfu að setja lög á kjarabaráttu kennara og munuð þið veita slíkum lögum stuðning?
Lög á kjarabaráttu stéttarfélaga er algjört neyðarúrræði og því má ekki beyta nema um ríka almannahagsmuni sé að ræða. Kjaramál eiga að vera leidd til lykta af aðilum vinnumarkaðarins, en efnahagsstefna Viðreisnar miðar að því að skapa hagfelldar aðstæður til langtímasamninga.
Fari svo að ríkisstjórn setji lög á kjarabaráttu kennara, munuð þið samþykkja slík lög innihaldi þau sérstaka fyrirvara sem ætlað er að halda kjörum kennara áfram hlutfallslega lágum, t.d. í því skyni að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði.
Nei, Viðreisn telur ekki að stjórnvöld eigi að hlutast til um að einstökum stéttum verði haldið í skefjum. Það er ljóst að kjör kennara eru ekki samkeppnishæf þegar litið er til menntunar og vinnuálags. Taka þarf umgjörð kjaramála kennara til gagngerrar endurskoðunar. Jafn ljóst er að varanlegum kjarabótum verður best náð fram með víðtækri sátt og samstöðu.
Athugasemdir