Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fín kosningaúrslit

Mér sýnast úrslit kosninganna töluvert áfall fyrir marga. Ég er ósammála. Vissulega verður ekki eins auðvelt að mynda ríkisstjórn og það hefði verið hefðu Lækjarbrekkustjórnin eða Laugarvatnsstjórnin náð hreinum meirihluta. Aðra fylkinguna vantaði 6-7% upp á meirihluta, hina 9-10%. 

Það er rétt að hafa í huga að jafnvel þótt önnur þessara fylkinga hefði fengið hreinan meirihluta þá hefði staðan verið býsna erfið. Ef núverandi ríkisstjórn hefði haldið áfram, hefði það alltaf verið í skugga pálmatrjánna frá Panama. Það hefði verið mjög erfitt gagnvart umheiminum að veita slíkri stjórn heilbrigðisvottorð. 

Hefði Lækjarbrekkustjórnin verið valin hefðu orðið mikil átök inni á þinginu auk þess sem það hefði leitt til þess að gríðarleg völd hefðu lent hjá flokkum sem þjóðin er svo sannarlega skýrt og greinilega búin að hafna.

Ef við berum saman þessa tvo kosti þá má með nokkurri einföldun kalla annan kostinn íhaldssaman en hinn róttækan. Þjóðin hafnar raunar hvoru tveggja. Hún vill ekki óbreytt ástand, en hún vill heldur ekki byltingu. Þetta á í raun ekki að koma á óvart.

Nú gætu einhverjir sagt að Píratar hafi gert taktísk mistök. Þeir hefðu átt að þegja fram yfir kosningar, láta það vera að kalla til fundar með stjórnarandstöðunni og spila þannig þeirri taktík upp í hendurnar á Bjarna Ben að hér yrði tekin U-beygja, róttæk stefnubreyting.

Það held ég að sé nokkur einföldun. Ég held einmitt að Píratar hafi notað hið mikla fylgi í skoðanakönnunum til að veita hinum róttækari öflum innan flokksins sjálfstraust. Þar held ég Píratar hafi misskilið af hverju meðbyrinn stafaði. 

Þegar Píratar fengu sem mest fylgi í skoðanakönnunum var það ekki vegna þess að þeir væru að heimta frjálsar krókaveiðar eða nýja stjórnarskrá. Fólk hreifst að einum hlut hjá Pírötum: Því að þarna var flokkur sem mjög greinilega ástundaði heiðarlegri stjórnmál en við erum vön. Þar bar framganga Helga Hrafns af.

  Ég held að grunntónn Pírata sé enn þessi sami. Þeir fengu raunar ærin tækifæri til að sýna það í snarpri og grimmilegri kosningabaráttu. Athyglin var bara ekki þar. Það varð aukaatriði. Lækjarbrekkustjórnin var tilraun til að knýja fram stórar og umdeildar breytingar með valdi. Andófið gegn henni einkenndist af hræðsluáróðri og leðjuslag. 

Raunin er nefnilega sú að þegar búið var að stilla upp þessum tveim valkostum þá höfðu kjósendur eiginlega bara kost um tvær útgáfur af gamla Íslandi. Annars vegar var það endurómur af tilraun Jóhönnustjórnarinnar til „hreingerninga“ eftir hrun, hinsvegar varðstaða Sjálfstæðismanna um óbreytt ástand. 

Lærdómurinn af kosningunum nú ætti ekki að koma á óvart. Þjóðin er komin með nóg af pólitíkinni í landinu – hún vill alls ekki óbreytt ástand, en hún treystir ekki róttækum byltingarlausnum. Hún vill betri stjórnmál. Stjórnmál sem einkennast ekki af vöðvaafli og kúgun meirihlutans á minnihlutanum. Hún vill meiri sanngirni og heiðarleika.

 

Hefðbundin íslensk stjórnmál virka þannig að fólk er reitt út í þá sem stjórna landinu og kjósa „hina“ þegar mælirinn er fullur. Þá endurtekur sagan sig á hinn veginn. Mikið fylgi Pírata í skoðanakönnunum á kjörtímabilinu var óvenjulegt að því leyti að uppgangur þeirra var ekki knúinn áfram af því að espa fólk upp gegn ríkisstjórninni. Þetta var ekki reiðidrifið fylgi. 

Þegar Panamafíaskóið varð gaus upp gríðarleg reiði í samfélaginu. Hún sást á Austurvelli en hún sást líka í pólitíkinni. Hið „píratalega“ hefði verið að halda ró sinni og leyfa „andstæðingnum“ að njóta vafans. Píratar reyndust ekki geta það. Tækifærið var of gott, það var of freistandi að reyna að svæla ríkisstjórnina frá valdi með reiði múgsins. Og raunar hefði það plan alveg getað virkað – ef fólk hefði ekki átt aðra valkosti.

Og þá steig fram Viðreisn.

Síðustu vikur hafa gömlu stjórnmálin grafið sér skotgrafir. Sjálfstæðsmenn hafa sært fram skrímslin sín og stjórnarandstaðan hefur sett upp andspyrnu-alpahúfurnar og hótað Sjálfstæðisflokknum dauða. Umbótatal féll í skaut tveggja flokka: Viðreisnar og, jafn merkilegt og það er, Framsóknarflokks.

Innan Framsóknarflokks er hafin hreinsun. Sigurður Ingi fór fram gegn Sigmundi tilneyddur. Of margir flokksmenn voru á þeirri skoðun að ekki væri hægt að láta sem allt væri í lagi. En Sigmundur sökkti tönnunum í hælana á Sigurði Inga og hangir þar, tilbúinn að sölsa undir sig það sem „honum ber“ um leið og Sigurður Ingi hrasar.

Í raun voru alþingiskosningarnar nú bara endurtekning á flokksþingi Framsóknar, með Sjálfstæðisflokknum í hlutverki Sigmundar Davíðs.

Ríkisstjórnin missti meirihluta sinn með nokkuð afgerandi hætti. Það er aðeins í ljósi mistaka Lækjarbrekkustjórnarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn getur talist sigurvegari. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði samt.

Um leið tapaði tvíhyggjan í íslenskum stjórnmálum. Þjóðin er komin með nóg að velja milli Davíðs og Jóhönnu; Steingríms J og Ögmundar; Lækjarbrekku og Laugarvatns. Hún vill ekki að valið standi milli eins og óvinar hans. Hún vill betri stjórnmál.

Allavega vill nógu stór hluti þjóðarinnar betri stjórnmál til að atkvæði raða sér ekki lengur á bása eftir gömlum reglum. 

Sú örvænting sem ég greini hjá mörgum er fyrst og fremst tilkomin af því að viðkomandi er svo samdauna tvíhyggjunni að kosningarnar gátu aldrei orðið annað en fullnaðarsigur eða algjört tap. 

Ég túlka niðurstöður kosninganna þannig að kjósendur komu í veg fyrir að önnur blokkin myndi berja hina í duftið. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki áframhaldandi leyfi til að haga sér nákvæmlega eins og hún vill, selja hverjum sem hún vill hvað sem hún vill og taka stórar pólitískar ákvarðanir einhliða út frá skilgreindum pólitískum möguleikum og ómöguleikum. Stjórnarandstaðan fékk sömu skilaboð. „Þið skuluð gjöra svo vel að vinna saman!“ er niðurstaðan eins og ég sé hana.

Ef eitthvað er á bak við þá mynd sem Viðreisn hefur málað af sér þá er það nákvæmlega það sem flokkurinn ætlar að standa fyrir. Ef Píratar geta róað sig niður úr þeim ham sem þeir duttu í þegar Sigmundur gerði þjóðina að athlægi þá er þetta líka grundvallaratriði í þeirra pólitíska lífi. Björt framtíð hefur alltaf þóst vera svona flokkur. Nú fær hún tækifæri til að sanna það. Um leið opnast tækifæri fyrir umbótahlið Framsóknarflokks gegn hinni hliðinni, skotgrafarhliðinni.

Hin nýju stjórnmál hefðu krafist þess af umbótaöflum að þau kæmu öðruvísi fram við stjórnarandstöðuna ef þau kæmust sjálf til valda. Meiri sanngirni og meiri samvinna ætti að vera aðall hennar. Ef nýju stjórnmálin eru einlæg krefjast þau þess líka að stjórninni sé sýnd sanngirni af stjórnarandstöðu.

Nokkur mál eru augljóslega nokkrum númerum of stór fyrir þingflokkana til að ná lendingu um. Hér má nefna Evrópumál og auðlindamál. Þetta eru samt ekki mál sem sökkva þurfa þinginu. Það verður gerð einhverskonar sátt um auðlindamál sem gerir ráð fyrir að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum (kannski ekki eins róttæk og sumir vildu) og þjóðin verður spurð um Evrópumálin. Alveg eins og stjórnmál eiga að virka. Að meira og minna öllum öðrum málum, þar með talið endurreisn heilbriðgiskerfisins, er hægt að vinna saman. Nú munum við sjá hverjir geta það.

Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum er í raun og veru möguleiki á því að Alþingi virki eins og þar séu allir að vinna fyrir sama vinnuveitandann, hina íslensku þjóð.

Ef þingheimur getur talað saman, unnið saman, forgangsraðað saman og hver stutt við bakið á öðrum í öllum góðum málum, þá hefur kalli þjóðarinnar nú verið svarað. Að spila úr stöðunni sem komin er upp er erfitt og það krefst lagni. Það er vegna þess að þjóðin vill að nú verði prófað að ástunda stjórnmál með nál og tvinna, ekki sleggju.

Það eru raunverulegar umbætur. Það er vilji þjóðarinnar. Nú eiga stjórnmálamennirnir leik.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.