Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Alþingi lýsir yfir stríði gegn opinberum starfsmönnum

Á myndinni má sjá hvernig atkvæðagreiðsla um frumvarp vegna afnáms mikilvægra lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna fór. Þeir sem sátu hjá voru: Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir, Viktor Orri Valgarðsson.

Gærdagurinn var einhver sá snautlegasti í sögu íslenskra verkalýðsfélaga. forysta allra stóru, opinberu verkalýsðfélaganna stendur uppi rúin trausti, búin að bregðast félagsmönnum sínum. Hið opinbera hefur endanlega afhjúpað sig sem forhertan óvin vinnandi fólks. 

Setjum þetta í samhengi: Meginvandinn er sá að hið opinbera skuldaði lífeyrissjóðum sínum mikið fé í kjölfar hruns. Alþingi hafði komið sér undan greiðslum í mörg ár með því að beita lagasetningarvaldi sínu. Þar sem um er að ræða skuldbindingar til langrar framtíðar komust menn upp með að ýta vandanum á undan sér frá hruni. Það er þó alveg ljóst að opinberir lífeyrissjóðir munu hrynja ef sárið í þeim verður ekki grætt. Ekki kemur til greina að velta tapinu einfaldlega yfir á lífeyrisþega eins og hjá almennu sjóðunum. 

Forsætisráðherra sagði einu sinni að það væri erfitt að vera ríkur á Íslandi. Það getur verið býsna flókið að ávaxta fé sitt hér á landi. Setjum upp samanburð sem sýnir hvernig hið opinbera vinnur markvisst að því að tryggja eigin fjárhagsstöðu frekar en almennings. 

Árin eftir hrun riðuðu margar fjármálastofnanir til falls. Allra verst riðaði Sparisjóðurinn í Keflavík. Í ljós kom að hin pólitíska yfirstétt á Suðurnesjum hafði markvisst hreinsað sjóðinn af peningum. Yfir þessu drottnaði vanhæfur sparisjóðsstjóri sem gætti þess í engu að gætilega væri farið með fé sjóðsfélaga. Þetta mátti flestum vera ljóst en ekkert stoppaði fjölmörg sveitarfélög í að dæla áfram öllu haldbæru fé í sjóðinn. Þar sogaðist það ofan í hítina – og hvarf ofan í djúpa vasa vildarvina ráðandi afla. 

Eftir hrun hefði SpKef átt að fara á hausinn. Hann átti nánast engar eignir á móti gríðarmiklum skuldum. Sveitarfélögin hefðu átt að tapa miklu af fjármunum sínum. Það hefði fjöldi auðmanna átt að gera líka. Á Suðurnesjum stóð ríka fólkið sem átti sína eigin digru „lífeyrissjóði“ í banka frammi fyrir því að tapa nær öllu sínu fé vegna þeirrar ákvörðunar að treysta illa reknum og, að því er virtist, gerspilltum banka.

Íslenska ríkið varði hátt í 30 milljörðum í að fyrirbyggja að ríka fólkið og sveitarfélögin yrðu fyrir tapi vegna SpKef. Því bar ekki að gera það. Engin lög kváðu á um það. Þvert á móti voru lögin skýr. Vondum fjárfestingum átti að fylgja tap þeirra sem fjárfestu.

Það var þverpólitísk ákvörðun hjá Alþingi að stóreignafólki og sveitarfélögum yrði bjargað. Ekki bara í Keflavík. Þetta gerðist út um allt land. Í flestum tilfellum tókst að soga til baka fé gegnum eignir föllnu bankanna. Í tilfelli SpKef var reikningurinn sendur beint á skattgreiðendur. 

Á sama tíma var hafin vinna við að losa hið opinbera undan ábyrgð á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna. Fylla átti í gatið á lífeyrissjóðnum með einhverjum eignum úr föllnu bönkunum (sem meira að segja þeir Alþingismenn sem samþykktu frumvarpið í gær hafa ekki hugmynd um hverjar eru eða hvernig eru valdar) og svo dágóðum slatta af peningum. Þó ekki meiri peningum en svo að heildarfjárupphæðin sem ríkið leggur til málsins er ekki nema nokkurnveginn sama upphæð og það áður greiddi vegna Sparisjóðsins í Keflavík.

Munurinn á þessum tveimur málum liggur í því að opnberir starfsmenn eiga rétt á baktryggingu ríkisins. Kröfuhafar SpKef áttu enga slíka kröfu. Munurinn liggur líka í því að opinberir starfsmenn eru upp til hópa kvenmenn á frekar lágum launum. Þeir sem héldu á betlibauknum yfir rústum sparisjóðsins voru hálaunakarlar með sterkt pólitískt bakland.

Á endanum snýst þetta mál um pólitískt bakland. Peningar eiga pólitískt bakland á Íslandi. Sumt fólk líka. Opinberir starfsmenn eiga ekkert pólitískt bakland. Að hluta til vegna þess að þeir eiga ekki einu sinni almennileg verkalýðsfélög eða sæmilega meðvitaða félagsmenn. 

Afnám mikilvægra lífeyrisréttinda á Alþingi í gær þvert gegn vilja forystumanna opinberra verkalýðsfélaga markar annað hvort endanlegt hrun kjarabaráttu opinberra starfsmanna eða upphaf nýrrar baráttu. Meðferð málsins af hálfu Alþingis er ekkert annað en stríðsyfirlýsing. 

Það er fullkomin ögrun að standa að málinu eins og gert var. Skammtímaáhrifin pólitískt eru þau að Viðreisn og Björt framtíð stilla sér upp sem björgunarbáti fyrir fráfarandi ríkisstjórn. Langtímaáhrifin eru þau að þessir flokkar sönnuðu endanlega það sem ýmsa var farið að gruna: Þeir eru ekki umbótaöfl. Andstaða Bjartrar framtíðar gegn búvörulögunum um daginn afhjúpast núna endanlega sem pólitískt skrum. Tilfallandi gervihugsjónamennska. 

Það sem ræður úrslitum um það hvort þetta mál markar endalokin eða nýtt upphaf opinberrar verkalýðshreyfingar á Íslandi eru afdrif þeirra forystumanna sem skrifuðu undir samkomulag við hið opinbera um afnám þeirra réttinda sem tekin voru af fólki í gær. Það fólk ber mikla ábyrgð. 

Innan míns félags, félags grunnskólakennara, er meirihluti fólks búinn að fá sig fullsaddan á forystunni. Hún nýtur innan við 10% trausts. Og ekki að ósekju. Kjarabarátta okkar hefur árum saman einkennst af skipulögðu undanhaldi. Hið opinbera er skýrt og einart í sinni kröfugerð og fær alltaf á endanum það sem það vill. Hlutverk forystufólks kennara hefur verið að reyna að sannfæra kennara um að þeir vilji það sama.

Nú er komið að vatnaskilum.

Alþingi hefur stillt opinberum verkalýðsfélögum upp við vegg. Skilaboðin eru skýr: Annað hvort gefstu upp eða tekur á móti.

Það ber vott um annað tveggja, gríðarlegt hugrekki eða hyldjúpa heimsku, að stilla tugum þúsunda upp í þessa stöðu. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni