Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Á hraðbraut út í lífið: Menntun Sjálfstæðisþingmanna

Í ljósi þess ákvað ég að skoða hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins lifi almennt eftir þessu prinsippi. 

Ég hef tröllatrú á því að þú skiljir ekki eitthvað í alvöru fyrr en þú getur útskýrt það fyrir barni. Hér útskýrir Sjálfstæðisflokkurinn m.a.skólamál fyrir börnum. Þetta er half mínúta af fallegri hugsjón. Og hálf mínúta af skíðlogandi stórslysi. Snúið er út úr spurningu númer tvö og menntahugsjónin kristallast í lokaspurningunni þannig að maður þurfi að drífa sig í að hætta í skóla því nám sé barnaskapur og tímasóun enda sé heimurinn fullur af peningum. 

Í ljósi þess ákvað ég að skoða hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins lifi almennt eftir þessu prinsippi. Það er, hvort þeir séu dæmi um grandvart og ábyrgt fólk sem flýtti sér gegnum menntakerfið á stysta mögulega tíma. Mér þætti það eðlilegt í ljósi þess að breytingar á inntöku í skóla og námslánakerfi virðast snúast um það fyrst og fremst að læsa alla drollara úti.

Í menntakerfi okkar Íslendinga ætti hver sá sem ætlar á annað borð að ljúka framhaldsnámi í háskóla að geta verið búinn að því 25 ára. Bráðgerðir eða vel skipulagðir nemendur geta gert það fyrr. 

Ritari Sjálfstæðisflokksins er sjálf í framhaldsnámi. Hún segist stefna að því að ljúka því á næsta ári. Þá verður hún á 27. aldursári. 

Ásmundur Friðrikson hefur gagnfræðapróf. Haraldur Benediktsson er búfræðingur

Birgir Ármannsson lauk lagaprófi 28 ára gamall og stundaði framhaldsnám þar til hann varð 32 ára. Hann virðist ekki hafa lokið því.

Bjarni Ben lauk framhaldsnámi 27 ára. Aðeins tveimur árum á eftir ætluðum hraða.

Einar Guðfinnsson hefur lokið grunnmenntun í háskóla. Hann lauk henni sex árum á eftir stúdentsprófi, sem er sirka tvöfaldur sá tími sem það getur tekið ef vel er haldið á spöðunum.

Elín Hirst lauk framhaldsnámi 45 ára.

Guðlaugur Þór lauk grunnnámi 9 árum eftir stúdent, eða á þreföldum ætluðum námstíma.

Hanna Birna var jafn lengi að og Bjarni.

Það tók Illuga Gunnarsson sjö ár að skila sér gegnum grunnnám. Hann bætti svo við sig framhaldsnámi og lauk því 33 ára.

Jón Gunnarsson tók sig upp á gamalsaldri og fór í bóklegt nám hjá Endurmenntun HÍ og lauk því fertugur.

Kristján Þór dundaði sér við fjölbreytt nám eftir stúdent og endaði með kennsluréttindi sjö árum seinna.

Ragnheiður Elín var jafn lengi að og Hanna og Bjarni.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir lauk grunnnámi í háskóla 22 árum eftir stídentspróf og fór í framhaldsnám áratug seinna. Veit ekki hvort hún lauk því.

Sigríður Andersen lauk lagaprófi á 7 árum (á að vera 5 ár)

Unnur Brá lauk lagaprófi á 6 árum.

Valgerður Gunnarsdóttir lauk grunnnámi 7 árum eftir stúdentspróf, hún bætti við sig kennslu og uppeldisfræði um fertugt og fór svo í framhaldsnám áratug eftir það.

Vilhjálmur Árnason lauk grunnnámi í háskóla þrítugur.

Vilhjálmur Bjarnason náði sér í þrjár námsgráður á 8. áratug síðustu aldar og tók svo MBA nám hálffimmtugur.

Ólöf Nordal lauk laganámi 8 árum eftir stúdent og MBA 36 ára.

 

Með öðrum orðum: Þrátt fyrir meint dálæti Sjálfstæðismanna á því að flýta sér gegnum nám til að geta farið að umgangast fólk og peninga þá er ekki einn einasti þingmaður í þingflokk þeirra sem kaus þá leið fyrir sjálfan sig. Meira að segja ritari flokksins, sem hélt þessu fram, er enn að dunda sér við námið tæpum tveimur árum eftir að hún gæti verið búin.

Með öðrum orðum: Þrátt fyrir meint dálæti Sjálfstæðismanna á því að flýta sér gegnum nám til að geta farið að umgangast fólk og peninga þá er ekki einn einasti þingmaður í þingflokk þeirra sem kaus þá leið fyrir sjálfan sig.

Nú er ekki boðskapur þessarar sögu sá að SJálfstæðisþingmenn séu upp til hópa latir og stefnulausir drollarar, afætur á skólakerfinu og liðleskjur til vinnu.

Þvert á móti er boðskapurinn sá að fjöldinn allur af greindu og góðu fólki er alls ekkert að flýta sér með námið. Það telur það jafnvel göfgandi að halda áfram að mennta sig langt fram eftir aldri.

Það skuggalega er að ég hef heyrt af börnum sem látin hafa verið horfa á áróðursmyndband Sjálfstæðisflokksins í skólanum. Þau hafi skilið Áslaugu Örnu þannig að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að stytta þeim leið gegnum skólakerfið að auði og völdum. Það þóttu börnunum vel til fundið. Síðan voru þeim afhentir kjörseðlar og þau þjálfuð í að setja x við D. 

Í dag fékk ég svo tölvupóst þar sem ég, sem kennari, var áminntur um að láta mína nemendur kjósa og skila síðan atkvæðunum inn. 

Það ætla ég ekki að gera. Þeim liggur ekkert á.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni