Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Að eiga ekki séns

Lægstu laun á Íslandi eru við umönnun og fræðslu. Það sést á ýmsu. Vinkona mín er grunnskólakennari. Hún er einstæð móðir og það er langt síðan hún gat framfleytt fjölskyldu sinni á kennaralaununum. Þess vegna vinnur hún, eins og ört stækkandi hópur kennara, aukavinnu um kvöld og helgar – líka við umönnun.

Um helgina varð hún fyrir alvarlegri líkamsárás í aukavinnunni. Hún liggur nú töluvert slösuð inni á sjúkrahúsi. Þar er henni rutlað til; ýmist inn á stofu eða fram á gangi – allt eftir því hve alvarlegur aðbúnaðarskorturinn á sjúkrahúsinu er á hverri stundu. 

Hún er uppgefin. Örþreytt á líkama og sál. 

Þreytt á að eiga ekki séns á að lifa á launum fyrir fulla vinnu. Þreytt á að fórna samveru með fjölskyldu og vinum fyrir brauðstrit. Þreytt á því að starfa í fjárhagslega sveltu kerfi með mikilli manneklu, starfsmannaveltu og óöryggi. Þreytt á að vera stöðugt í hættu; fjárhagslegri, félagslegri og líkamlegri. Þreytt á að vera fótgönguliði í samfélagi sem kerfisbundið lítur niður á og hleður byrðum á veikustu axlirnar. 

Í morgun vaknaði hún eftir erfiða nótt og sá að nokkrir vinir og velunnarar þeirra valdamestu í samfélaginu hafi ákveðið einhliða að ráðamenn í landinu verðskuldi stórhækkuð laun fyrir ábyrgðarkenndina og ósérhlífnina sem þeir sýna landi og þjóð.

Vinkona mín kvíðir framtíðinni. Hún veit að það er dýrt að vera fórnarlamb ofbeldis á Íslandi. Það er dýrt að fá aðstoð. Hún hefur ekki efni á aðstoðinni. Hún hefur heldur ekki efni á að batna ekki.

Fyrstu viðbrögð borgarstjóra í dag voru að fordæma launahækkun „toppanna“. Ekki vegna þess að honum misbjóði hve launin eru há (hann er sjálfur með hærri laun en allur þorri þeirra sem hækka á) heldur vegna þess að hann telur launahækkanirnar ógna samkomulagi um „stöðugleika“.

 

Stöðuleiki borgarstjórans er ekki keyptur með því að borgarstjóri og borgarfulltrúar afþakki ríflegar launahækkanir sem þeir eiga nú rétt á. Hann er heldur ekki keyptur með því að þingmenn afþakki launahækkanir. Það sem greitt er fyrir stöðugleikann er borgað af vinkonu minni og öðrum þeim sem bera langþyngstu byrðarnar í þessu samfélagi fyrir langminnsta ágóðann. 

Vinkona mín hefur í tvígang hafnað launakjörum borgarstjórans. Hún hafnaði nýjum samningi í bæði skiptin vegna þess að samþykkt hefði þýtt að ekkert hefði breyst; hún hefði eftir sem áður þurft að vinna tvær vinnur bara til að halda sjó. Samningurinn hefði engu breytt í hennar aðstæðum og hundruða í sömu stöðu. Borgarstjórinn veit það vel. En hann telur að stöðugleikinn krefjist þess að kjör hennar séu áfram lág. 

Raunverulega stöðug bygging verður aldrei byggð á grunni sem hefur molnað undan þunganum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.