Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Karlfemínistar í feðraveldi

Karlfemínistar í feðraveldi

Ég er femínisti, ég er karlmaður, ég er karlfemínisti. Hvaða máli skiptir það? Engu. Hvað er svona merkilegt við það? Ekkert. Hver einstaklingur getur verið lýðræðissinni, friðarsinni, jafnréttissinni, náttúruverndarsinni og hvaðeina annað og kosið, valið og mótmælt án þess að kynið komi fram.

Þetta merkir þó ekki að kyn skipti engu máli. Kyn er eldfim pólitísk breyta og viðbrögð geta ráðist af því hvort um karl eða konu er að ræða í hverju tilviki. Það er því í góðu í lagi að spyrja „Hvernig bregst feðraveldið við karlfemínistum?“ Það er áhugavert sem athugun í félagsvísindum.

Arfur kynslóðanna

Feðraveldi er víðtækt hugtak sem merkir almenna karllæga drottnum í samfélaginu. Arfur kynslóðanna og vald gengur frá föður til sonar, frá körlum til karla. Andstætt kerfi væri þá mæðraveldi þar sem opinbert vald flyst á milli frá móður til dóttur.

Útvaldir karlar tóku sér fyrr á öldum allt opinbert vald og lögðu undir sig allar stofnanir sem þeir höfðu áhuga á. Þeir lögðu hald á og eignuðu sér hluti, halda í valdatauma og voru allsráðandi á þingum, í ráðum, nefndum og í sérhverjum hópi þar sem eignir, þýðingarmiklar ákvarðanir og peningar koma við sögu. Þetta þýddi óhjákvæmilega einnig undirskipun og kúgun kvenna. 

Valdahefðin er þéttskipuð körlum

Forræðishyggja aðal-karlanna  á sér rætur í feðraveldinu og birtist hún reglulega í samfélagi nútímans, til dæmis nú á haustmánuðum við skipun dómara í Hæstarétt Íslands. Dómnefnd sem mat hæfni umsækjenda var skipuð fimm karlmönnum en engri konu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að einn karlinn sem sótti um væri hæfastur af þeim, þótt mjög hæf kona væri reiðubúin til að gegna starfinu. Nú eru því níu karlar sem skipa Hæstarétt Íslands og ein kona. Þetta er dæmi um birtingarmynd feðraveldis. Efnisleg rök feðraveldisins og viðmið hníga að því að skipa karl í slíka stöðu.

Jafnréttissinnar spyrja „Er ekki allt í lagi?“

Feðraveldið hyglar völdum körlum, veitir þeim háar stöður og laun og viðurkenningar á allan hátt. Þetta er kerfi kúgunar sem kemur í veg fyrir jafnrétti kynjanna jafnvel þótt réttlát jafnréttislög hafi verið sett í landinu. Karlar sköpuðu þetta valdakerfi, það er karllægt og sumum körlunum finnst það enn réttlátt og yfir allan vafa hafinn. Karlar eru samkvæmt þessu einfaldlega miklu oftar hæfari en konur til að gegna valdstöðum, en þó aðeins sumir karlar. Alls ekki allir karlar, þeir þurfa að standast ákveðna mælikvarða feðraveldisins,  lúta tilteknum reglum og hafna kvenlægum gildum.

Hugtakið „feðraveldi“ er vissulega víðtækt og vandasamt í meðförum en það merkir safn hefða og venja, laga og reglugerða sem standa vörð um vald karla og útilokar og undirskipar í sama mund konur og kvenlæga karla. Hugtakið merkir í sinni einföldustu mynd félagslegt kerfi þar sem konur eða hið kvenlæga er undirskipað.

Feðraveldið hefur orðið fyrir töluverðri gagnrýni á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og hefur hopað á fæti undan geirvörtum kvenna og margskonar andófi gegn #þöggun á kvennakúgun og -ofbeldi í samfélaginu. Kvenfemínistar eru greinilega í fararbroddi byltinganna sem nú eru háðar. Brjóstabyltingunni eða #FreeTheNipple var meðal annars beint gegn feðraveldinu og flugu setningar um netið og fjölmiðla, til dæmis sagði Björt Ólafsdóttir þingmaður þegar hún tók þátt í #FreeTheNipple : „Þessi er hérna til að gefa börnum að borða. Troðiði því upp í feðraveldið á ykkur“.

Spurt er "Hvers vegna geta karlar gengið um berir að ofan í opinberu rými en konur ekki?" Forréttindi karla í samfélaginu eru oft talin sjálfsögð og hegðun þeirra og viðhorf ekkert til að gera veður út af. Þá er aðgengi þeirra að völdum og stöðum betri en kvenna.  Spyrja má "Er lýðræði á Íslandi eða mestmegnis karlræði?"

Reynsla ungra karlfemínista

Það er áhugavert að víkja að karlfemínistum í þessu samhengi. Hvernig tekur „feðraveldið“ viðleitni karlfemínista til að breyta samfélaginu? Hvernig gengur körlum að beita femíniskum viðmiðum til að breyta viðhorfum og brjóta niður kynjað valdakerfi?

Kvenlæg og karllæg gildi og nýjar og breyttar karlmennskur verða til umræðu í heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 18. nóvember kl. 20.00. Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur pælir í feðraveldinu og Hjálmar Sigmarsson kynja- og mannfræðingur fjallar um reynslu ungra karlmanna sem að hafa tileinkað sér femínisma.

Viðburðurinn Karlfemínistar í feðraveldi

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni