Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Smá veruleikatjékk

Smá veruleikatjékk

Næst þegar þú kemur heim úr matvörubúð, settu þá vörurnar á eldhúsborðið áður en þú raðar þeim í ísskápinn og eldhússkápana. Þannig sérðu betur hvað þú færð fyrir peninginn.  Þetta á eftir að slá þig utanundir.

Fyrir þetta smáræði á meðfylgjandi mynd þurfti ég að greiða 9,265 krónur í Kaskó. Það er ekki eins og allt sé löðrandi í munaðarvöru þarna: Mjólkurvara, smávegis af ávöxtum og grænmeti, morgunkorn og brauðvara, svo það helsta sé nefnt.  Athugið að þarna er hvorki kjöt né fiskur. Inná myndina vantar reyndar litla skyrdollu en ég borðaði innihaldið áður en myndin var tekin þar sem ég var orðinn sársvangur.

Trausti rúnir silfurskeiðungar segja okkur kinnroðalaust að kaupmáttur launa hafi aukist. Samkvæmt  nýlegri könnun er 95% þjóðarinnar ósammmála. En þjóðin er ekki í neinum tengslum við veruleikann og skilur þar af leiðandi ekki brakandi snilldina á bak við hækkun matarskatts – og verðlækkun á flatskjám.

Já, ég veit - auðvitað hefði ég getað sparað þarna með því að kaupa ódýrara, hvítt óhollustubrauð í staðinn fyrir Lífskornið. Ég hefði líka getað sleppt tannkreminu og burstað tennurnar upp úr matarsóda. Melóna og vínber er eitthvað sem má sleppa enda er þessi hollusta bara fyrir hina efnameiri. Svo hefði ég líka getað sleppt morgunkorninu og keypt haframjöl í staðinn.  Og appelsínur – það er nú eitthvað sem maður fékk bara á jólunum í gamla daga.

Haldi ég þessari óráðsíu áfram get ég aldrei eignast flatskjá.  

----

Uppfært:
Komið hefur í ljós að inn á myndina vantar sex banana. Biðst ég velvirðinar á því. Samkvæmt búðarstrimli kostuðu þeir 307 krónur. Það sem sést á myndinni kostaði því 8,958 krónur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni