Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

United Silicon - fúsk og fals

United Silicon - fúsk og fals

Fréttastofa RUV greinir frá því í kvöld að byggingu, sem er helmingur af hæð Hallgrímskirkju, var bætt inn á lóð United Silicon í Helguvík eftir að skýrsla um umhverfismat var kynnt. Skipulagsstofnun var ekki tilkynnt um þessa viðbót og hefur krafið bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ skýringa.  Á þetta var reyndar bent fyrir löngu síðan en það er ekki fyrr en í lok janúar sem Skipulagsstofnun óskar skýringa frá bæjaryfirvöldum.

Þetta er enn eitt dæmið um það fordæmalausa fúsk sem einkennir þessa verksmiðju, allan undirbúning hennar, framkvæmd og starfsemi. Þetta er bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ, eigendum og stjórnendum verksmiðjunnar til háborinnar skammar. Þvílíkir fúskarar!   

Þessir aðilar lugu þessu versksmiðjuskrímsli inn á bæjarbúa, kinnroðalaust.  Þær teikningar sem upphaflega voru lagðar fram, þegar verkefnið var kynnt, sýndu lágreistar byggingar sem fullyrt var að yrðu lítið áberandi. Raunin er allt önnur, eins og allir sjá.  Samkvæmt frétt RUV  telur Skipulagsstofnun sig enn ekki hafa fengið fullnægjandi skýringu á því hvers vegna vikið var frá byggingamagninu og hvers vegna það var ekki tilkynnt. Fyrst svo er ætti Skipulagsstofnun að sjálfsögðu að krefjast þess að byggingarnar verði fjarlægðar eða í það minnsta breytt til samræmis við samþykkta matsskýrslu.

Réttast væri að fara rækilega ofan í umrædda matsskýrslu því útlit bygginga er ekki það eina sem ekki stenst. Í raun er það með ólíkindum að starfsleyfið hafi verið gefið út á þessa matsskýrslu því hún var fölsuð. Danska verkfræðistofan sem skrifuð var fyrir skýrslunni vildi síðan ekki kannast við að hafa komið nálægt henni og fór fram á að nafn hennar yrði fjarlægt út gögnunum. Heitir þetta ekki skjalafals? Og eru engin viðurlög við slíku?


Efri myndin sýnir útlitsteikningu United Silicon eins og verkefnið var kynnt upphaflega. Samvæmt henni áttu þetta að vera lágreistar byggingar og lítið áberandi.  Neðri myndin sýnir veruleikann, sem er allt annar. Verksmiðjan blasir við víða af Faxaflóasvæðinu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni