Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Af fölsuðu umhverfismati

Af fölsuðu umhverfismati

Hörmungasögu United Silicon í Helguvík er óþarfi að rekja. Hana þekkja orðið allir. Vonandi er saga þessi bráðum öll. Af henni má margt læra en hvort vilji er til þess hjá þeim sem fara með völd og bera ábyrgð á svo eftir að koma í ljós. Satt best að segja er ég ekki mjög trúaður á það, svona í ljósi sögunnar.

Ég hef áður lýst því hvernig þessari verksmiðju var logið inn á okkur bæjarbúa.  Leyfisveitingar til hennar byggðust á afar hæpnum forsendum vegna þess að í ljós kom að umhverfismatið var falsað. Umrædd matsskýrsla var sögð gerð af dönsku verkfræðistofunni COWI, sem síðan kannaðist ekki við að hafa gert hana, sór hana af sér og fór fram á að nafn hennar yrði fjarlægt úr gögnunum.  Það er því ekki almennilega vitað hver gerði skýrsluna, sem verður að teljast mjög sérstakt. Eftir að þetta kom í ljós hefði auðvitað verið full ástæða til að svipta verksmiðjuna starfsleyfi  og fara ofan í saumana á umhverfismatinu. Það var hins vegar ekki gert.  Leyfisveitingar á þessum grunni eru vitaskuld ekkert annað en stjórnsýslulegt fúsk. 

Þessi matsskýrsla United Silicon er í dag alveg kostuleg lesning með hliðsjón af því sem hefur verið í gangi þessa mánuði frá því verksmiðjan var gangsett.

Hér eru nokkrir athyglisverðir punktar úr matsskýrslunni:

„Allur framleiðslubúnaður og hreinsivirki verksmiðjunar verða af nýjustu og bestu gerð og beitt verður bestu fáanlegri tækni“

„Kísilframleiðslan mun hafa í för með sér losun á ýmsum lofttegundum í andrúmsloftið frá loftsíuhúsunum en loftdreifingar útreikningar í kafla 6.1 sýna að styrkur lofttegundanna mun ávalt verða vel undir íslenskum viðmiðunarmörkum um loftgæði og mun því ekki hafa veruleg áhrif á umhverfið. Það þarf þess vegna ekki að skilgreina þynningasvæði fyrir verksmiðjuna.“ 

„Þegar verksmiðja ISC er komin í fullan rekstur munu starfa þar um 90 manns. Stór hluti starfsmanna ISC verður háskólamenntaður, auk þess sem margir iðnaðarmenn munu starfa hjá ISC og munu þeir hafa hærri laun en í sambærilegum atvinnugreinum“.

„Sjónmengun frá verksmiðju ISC verður mjög lítil þar sem flest mannvirki verða byggð neðan klettabeltis á hafnarsvæðinu í Helguvík. Verksmiðjan mun ekki verða sjáanleg frá Keflavíkurbæ“.

„Tréflísar verða fluttar inn frá Svíþjóð og skipað upp í Helguvíkurhöfn. Tréflísarnar verða sogaðar upp úr skipinu með sogkrana og fluttar frá hafnarsvæði í síló í lokuðu flutningskerfi. Frá sílóum að skönnunarstöð og daggeymum verða tréflísarnar flutt á lokuðu færibandi.“

Í sama kafla er líka talað um að kvartsið, kolin og annað hráefni verði flutt með lokuðum færiböndum og geymt í lokuðum geymslum. Til dæmis:  „Frá geymunum verður koksið flutt á lokuðu færibandi í skönnunarstöð í lokuðu húsi og síðan að daggeymi í verksmiðjunni.“ 


Þarna er væntanlega átt við allar hrúgurnar sem við sjáum núna á víð og dreif um lóð fyrirtækisins. Umgengni á lóðinni er hörmuleg eins og allt annað sem tengist þessu fyrirtæki.

Mér hefur alltaf fundist umhverfismat frekar vafasamur pappír. Framkvæmdaaðilinn sér sjálfur um gerð matsskýrslunnar og ræður til verksins einhverja verkfræðistofu. Í rauninni er þetta svipað og gera skattskýrslu. Þú felur endurskoðanda að gera hana fyrir þig, vitandi að hann kann allar brellurnar, og treystir honum til að fá niðurstöðu sem best hentar þér.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu