Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Barbarossa Pútíns

Barbarossa Pútíns

Það er alþekkt staðreynd að það þarf ekki marga villinga til að gera allt vitlaust. Ef við horfum á Evrópu sem íbúðahverfi þá eru Vladimír Pútín og Alexander Lúkasjénkó, forseti Hvíta-Rússlands ,,vitleysingarnir í hverfinu“ sem skapa ógn og skelfingu með framferði sínu.

Sænski sagnfræðingurinn Kristian Gerner sagði í samtali við sænska ríkisútvarpið um Pútín; ...,,hann hegðar sér eins og klassískur gangster, notar hótanir og ofbeldi, skapar skelfingu í kringum sig.“ 

Gerner, sem er prófessor við háskólann í Lundi í Svíþjóð og höfundur margra bóka um Rússland sagði einnig að það væri ekkert plan í gangi, hvað ætti að verða um þá rússnesku þjóð sem sæti uppi með þennan leiðtoga og bætti því við að rússneska þjóðin þyrfti einfaldlega að losna við Pútín.

Innrásin í Úkraínu er ,,Barbarossa“ Vladimírs Pútíns en greinilegt verður að teljast að allt hjal hans um bræðralag og að Rússar og Úkraínumenn væru ,,sama þjóð“ var bara yfirvarp og reyktjöld. Um er að ræða bæði árásar og landvinningastríð (,,war of conquest“).

Með innrás sinni og þeim áætlunum sem í henni felast, t.d. að bola löglega kosnum yfirvöldum frá völdum í Úkraínu, sýnir Pútín að hann fer fram með ítrustu fordómum gagnvart leiðtogum Úkraínu og úkraínsku þjóðinni. Markmiðið er að sundra Úkraínu sem ríki, mylja það í sundur og gera óstarfhæft. En með þessu fær hann auðvitað nánast alla úkraínsku þjóðina á móti sér.

Pútín þolir ekki núverandi valdhafa landsins. Hann þolir ekki að strengjabrúðan hans, hinn spillti Viktor Janúkóvits, var hrakinn frá völdum árið 2014, eftir fjögur ár á valdastóli. Hann, og fleiri í hans kreðsu eru taldir hafa rænt jafnvel milljörðum dollara.

Rússar segja að innrás þeirra sé ekki innrás, heldur ,,sérstök hernaðaraðgerð“ til að afvopna og ,,af-nasistavæða“ Úkraínu. Skýringar Rússa eru beinlínis hlægilegar, en í ,,innrásaræðu“ sinni sagði Pútín t.d. að Úkraína væri ekki þjóð og svo framvegis. Það var reiði og botnlaus heift sem einkenndi ræðuna, sem sjá má á Jútúb. Orðfæri sem þessu var einnig beitt af Rússum í blóðugum átökum í Téténíu á árunum 1994-2009.

Það eru engir nasistar við völd í Úkraínu, heldur er þetta stimpill sem á rætur til seinni heimsstyrjaldar. En þar eru til hægri-sinnaðir öfgahópar, rétt eins og í mörgum öðrum ríkjum Evrópu. Þeir hafa hins vegar engin völd. Forseti Úkraínu, Volodimyr Selenskí, fyrrum leikari, hefur aldrei verið tengdur neinu sem kallast gæti nasismi, enda erfitt um vik fyrir hann, þar sem hann er af gyðingaættum.

Þá fullyrti Pútín að ,,þjóðarmorð“ (genocide) væri í gangi gagnvart Rússum í A-hluta Úkraínu, en ekkert bendir hins vegar til þess. Varla er hægt að saka þjóðarleiðtoga um alvarlegri glæp.

Hegðun og framferði Pútíns er gott dæmi um einstakling sem er búinn að vera allt of lengi við völd, eða um 22 ár. Valdið spillir og gagnrýnisleysi og aðhaldsleysi eitrar út frá sér.

Heimssýn og hugmyndir Pútíns einkennast af þráhyggju og ,,nostalgíu“ og hann reynir með aðgerðum sínum að breyta sögulegri þróun handvirkt og með yfirgengilegu hervaldi.

Pútín hefur látið breyta lögum og stjórnarskrá Rússlands þannig að hann getur setið í 14 ár í viðbót, eða til 2036, ef heilsa hans leyfir, sem sumir eru reyndar farnir að efast um, sérstaklega þá andlegu.

Það er skelfileg tilhugsun, bæði fyrir Rússa, sem og alla heimsbyggðina. Hann er hreinlega hættulegur gaur, reiður, vondur og pirraður, sem sættir sig ekki við einfaldar staðreyndir á borð við að Úkraínu er sjálfstætt og fullvalda ríki.

Myndin sýnir átökin í Úkraínu, meðal annars látinn karlmann sem féll í árás Rússa. Skjáskot frá SVT.se

 

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni