Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Mataræði og mannréttindi

Mataræði og mannréttindi

Ættu ríki og sveitarfélög að stuðla að neyslu almennings á grænkerafæði? Grunnástæður þess að borða grænkerafæði í stað fæðu sem kemur úr dýrum og dýraafurðum eru þrennskonar. Þessar ástæður eru siðferðisástæður, umhverfisástæður og heilsufarsástæður.

Siðferðisástæður
Við vitum öll að dýr sem alin eru til manneldis lifa oft við hræðilegar aðstæður. Oft svo hræðilegar að heildargildi tilvist þessara dýra er neikvæð. Það er, þau væru betur sett ef þau hefðu aldrei átt líf í þessum heimi sem við búum þeim. Með því að taka ekki þátt í að borða dýr þá stuðlar maður að framleiðslukerfi þar sem færri dýr eru alin til manneldis og heimi þar sem færri dýr þurfa að þjást.

Ef til vill eru einhverjir sem eru ekki sannfærðir um að það sé svo slæmt að vera dýr sem alið er til manneldis. Að minnsta kosti ekki fyrir öll dýr. Að minnsta kosti ekki fyrir dýr á Íslandi. Er til dæmis ekki íslenska kindin nokkuð frjáls og hamingjusöm? Í þessu samhengi er rétt að taka fram að um 90% allra þeirra landdýra sem við drepum til manneldis eru hænuungar en á hverju ári eru drepnir í kringum fimm milljón hænuungar til þess að koma ofan í landann kjúkling. Hægt er að fullyrða með þó nokkurri vissu að nær enginn af þessum fuglum hlutu líf sem getur talist þess virði að lifa. Framleiðsluferli á kjúklingum, og svínum líka, er staðlað og keimlíkt allstaðar á vesturlöndum, ef ekki um allan heim. Þessi dýr þurfa að þola miskunnarlausa frelsissviptingu, mikil þrengsli og algjöra ringulreið.

Hér er einnig vert að benda á að á Íslandi eru ekki borðuð eingöngu íslensk dýr heldur er töluvert magn kjöts innflutt og eins eru aragrúi ýmissa innfluttra matvara sem innihalda dýraafurðir. Það er því deginum ljósara að með því að borða grænkerafæði í meira magni þá takmörkum við á endanum þær þjáningar sem ómennsk dýr þurfa að þola af mannavöldum.

Umhverfisástæður
Ef við lítum á hvaða áhrif ræktun dýra til manneldis hefur á umhverfið þá kemur margt áhugavert í ljós. Það hefur verið ljóst í marga áratugi að ræktun dýra til manneldis er ósjálfbær og felur í sér gífurlega sóun á mat, vatni og landsvæði. Öll þessi dýr þurfa að borða og drekka og þau þurfa í öllum tilvikum meiri mat heldur en þau á endanum gefa frá sér. Varlega áætlað þarf um 2 kg af fæði til þess að búa til 1 kg af kjúkling, 4 kg af fæði til þess að búa til 1 kg af svínakjöti og um 8 kg af fæði til þess að búa til 1 kg af nautakjöti.

En er það ekki svo að dýrin nærast af landsvæði sem væri hvort eð er ekki hægt að nýta undir ræktun til manneldis? Varla erum við að fara rækta kartöflur og hafra í fjöllunum þar sem kindurnar eru á beit? Það er kannski í þessum fullyrðingum örsmátt sannleikskorn en aðallega helber lygi. Nánast allt fóður sem við gefum hænum og kjúklingum er innflutt. Sama gildir um fóður fyrir svín. Að öllum líkindum mætti nýta þetta fóður eða að minnsta kosti breyta ræktuninni þannig að það mætti nýta hana til manneldis. 

Eins ber að nefna að helsta ástæðan fyrir eyðingu regnskóganna í Suður-Ameríku er vegna nautgriparæktunar. En þar er regnskógum eytt meðal annars til þess að rækta korn og soja og til þess að búa til beitiland fyrir dýrin sem við borðum. En skiptir það einhverju máli fyrir Ísland? Hér eru engir regnskógar. Nei, hér eru engir regnskógar en hér voru einu sinni skógar og mikill gróður. Það er þangað til við fluttum hingað með okkur kindina okkar en talið er að kindin sé búin að eyðileggja gróður landsins og búa hér til gríðarlegt eyðimerkurland.

Fyrir utan sóun á landi og fæðu þá felur dýraeldi í sér mikla mengun meðal annars í formi losunar á gróðurhúsalofttegundum. Hér eru það dýrin sem hafa það hvað best sem losa sem mest en það eru grasbítar á borð við nautgripi og kindur. Hér er enginn munur á íslensku kindinni og þeirri sem býr í Nýja Sjálandi. Meltingarfæri þessara dýra eru eins og losa þau með ropi metangasi út í andrúmsloftið í gífurlegum mæli. Hætturnar sem stafa af losun gróðurhúsalofttegunda og hlutverki landbúnaðar í þeim efnum hefur nú verið þekkt í tugi ára og hafa meðal annars Sameinuðu Þjóðirnar lagt áherslu á að minnka neyslu dýraafurða einmitt vegna þessa.

Samkvæmt skýrslu frá Umhverfisráðgjöf Íslands þá er losun vegna landbúnaðar um 13% af allri losun Íslands. Og í landbúnaði kemur um 50% frá sauðfjárrækt og um 33% frá nautgriparækt. Hver voru viðbrögð stjórnvalda við þessum fréttum? Jú, þau voru öll af vilja gerð til þess að stemma stigu við þessa losun að því skilyrði gefnu að kindum yrði ekki fækkað. Það er nefnilega forsenda aðgerðaáætlunar stjórnvalda að sama hvað þá skuli skepnum ekki fækkað.

Heilsufarsástæður
Skoðum í lokin heilsufarslegan ávinning grænkerafæðis. Við þekkjum öll að mælt er með neyslu grænmetis og ávaxta en það taka kannski ekki allir undir það að hollt fæði geti verið án allra dýra og dýraafurða. Nú er það svo að við komum öll til með að deyja en hvað er það sem kemur til með að verða okkur að bana? Þegar málið er skoðað kemur í ljós að við komum flest til með að deyja úr lífsstílssjúkdómum eins og æða- og hjartasjúkdómum, sykursýki og krabbameini. Og kemur það eitthvað mataræðinu okkar við? Heldur betur. Allir þessir sjúkdómar hafa tengsl við mikla neyslu á dýrum og dýraafurðum. Og það sem meira er þá getur neysla á heilkjarna plöntufæði hjálpað fólki að takast á við þessa sjúkdóma. Það sem hefur sterka tengingu við orsök við hjartasjúkdóma er neysla kólestróls en sú fæða sem veitir mesta vörn við hjartasjúkdómum eru trefjar. Í hvaða mat er að finna kólestról? Eingöngu í dýrum og dýraafurðum. Og í hvaða mat er að finna trefjar? Eingöngu í plöntum.

Þessi afstaða endurspeglast í bæklingi frá Embætti landlæknis: Ráðleggingar um mataræði síðast gefin út 2017. Þar er mælt með að takmarka rautt kjöt, unnar kjötvörur og fituríkar mjólkurvörur. Bæklingurinn tekur einnig skýrt fram að „hægt er að setja saman hollt mataræði án kjöts“. Í bæklingnum segir meðal annars: „Flestir Íslendingar hefðu heilsufarslegan ávinning af því að auka neyslu á fæðu úr jurtaríkinu“. Það sem vantar einna helst uppá annars ágætar ráðleggingar Embættis landlæknis er viðurkenning þess efnis að hægt sé að setja saman hollt fæði, ekki bara án kjöts, heldur án allra dýra og dýraafurða.

Ný matarráðgjöf frá Kanada, og sú fyrsta sem styðst ekki við rannsóknir sem styrktar eru af matariðnaðinum, ráðleggur ekki fólki að innbyrða neina kúamjólk og hvetur fólk til þess að verða sér út um prótein úr plönturíkinu. Samhljóða þessu þá hefur Alþjóða heilbrigðisstofnunin gefið út að hægt sé að þrífast á grænkerafæði á öllum stigum lífsins. Það er til mikils að vinna fyrir heilsu samfélags og heilla þjóða með breyttu mataræði.

Ættu ríki og sveitarfélög að stuðla að neyslu grænkerafæðis? 
Ef þessi stutta upptalning gefur gróflega rétta mynd um áhrif mataræðis fyrir dýrin, jörðina og okkur sjálf hvers vegna er þá ekki gripið til róttækra aðgerða?

Ættu ríki og sveitarfélög að stuðla að neyslu grænkerafæðis? 
Ef svarið er já, hvers vegna er ennþá verið að niðurgreiða lambakjöt og aðrar dýraafurðir til landsmanna? Hvers vegna er ekki fyrsta ráðlegging lækna til skjólstæðinga sinna að fá þá til þess að borða vel samsett grænkerafæði? Hvers vegna er maturinn sem boðið er upp á sjúkrastofnunum landsins ekki nær eingöngu vegan? Hvers vegna eru helstu mötuneyti ríkis og sveitarfélaga ekki með miklu meiri áherslu á grænkerafæði? Hvers vegna mæta foreldrar vegan barna oft ósveigjanlegu kerfi þegar það kemur að mat í leikskólum?

Ættu ríki og sveitarfélög að stuðla að neyslu grænkerafæðis?
Ef svarið er nei þá hvers vegna ekki? Er það vegna þess að valdið er í höndum einstaklinganna sem kjósa sér þennan lífstíl? Og að ríkið og fyrirtæki eigi ekki að vera skipta sér af og láta bara fjöldann ráða. Ef það er ástæðan, sem ég efast reyndar um, þá hljómar það dálítið eins og þau séu að hlaupast undan ábyrgð. Enda stenst það ekki nokkurra skoðun þar sem ótal atriði í nútímasamfélagi virka þannig að ríkið stjórnar fjöldanum.

Væri slíkt inngrip inn í matarvenjur fólks of mikil neyslustýring? Á ekki fólk að ráða sjálft hvað það borðar? Við búum í samfélagi sem er í mikilli neyslu og við búum í samfélagi sem er stjórnað og því er óumflýjanlegt að hér sé neyslustýring. Hvað er það annað en neyslustýring þegar kúamjólk er niðurgreidd og mjólkurdagurinn haldinn hátíðlegur í grunnskólum landsins? Nei, neyslustýring sem slík er ekki vandamálið heldur hvernig neyslunni er stjórnað. Þegar svo mikið er í húfi þá er mikilvægt að þeir sem stjórni sýni kjark og ábyrgð og stýri til betri vegan … nei fyrirgefið, stýri til betri vegar.

Þessi ræða var upphaflega flutt í tilefni málþings Veganúar 2019. Málþingið fór fram á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, og bar yfirskriftina “Mataræði og mannréttindi – Ættu ríki og sveitarfélög að stuðla að neyslu grænkerafæðis? Í pallborðinu sátu:
Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, alþingiskona.
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, næringarfræðingur og verkefnisstjóri hjá Embætti Landlæknis.
Hildur Harðardóttir, sérfræðingur Umhverfisstofnunar á sviði loftslagsmála og græns samfélags.
Fundarstjóri málþingsins verður Vigdís Fríða, félagsfræðingur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni