Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kynjamisrétti á fæðingardeildinni

Kynjamisrétti á fæðingardeildinni

Eftir að hafa beðið eftir því í rúmlega níu mánuði þá var loksins komið að því að ég og konan mín færum upp á fæðingardeild til að fæða barn. Jú, tæknilega séð er það kannski eingöngu hún sem fæðir barnið en á þessum tímum jafnréttis kynjanna leit ég svo á að við værum félagar í þessari baráttu að koma nýju lífi í heiminn. Vatnið hafði skyndilega farið og hríðarnar voru farnar að hrannast upp hraðar en okkur óraði fyrir og við drifum okkur upp á fæðingardeild til að fæða barnið okkar. Saman. 

Okkur var vel tekið á fæðingardeildinni og var úthlutað eitt stykki frábæru eintaki af ljósmóður. Ljósmóðirinn veitti okkur helstu upplýsingar um ferlið sem var að fara í gang og gerði mælingar á bæði tilvonandi móður og barni. Engar mælingar voru gerðar á mér en ég hugsaði að kannski væri það eðlilegt að svo stöddu. 

Á þessum tímapunkti voru hríðarnar hjá okkur orðnar tíðari og harðari og konunni minni var boðið glaðloft sem hún þáði með þökkum. Ég tók eftir því að það var aðeins ein glaðloftsgríma í herberginu. Var ekki gert ráð fyrir að báðir foreldranir þyrftu glaðloft? Eða áttum við að skiptast á? Ekki samkvæmt konunni minni sem ríghélt í glaðloftsgrímuna tilbúin að anda að sér glöðu lofti í hverri hríð. Ég lét mér duga hversdagslegt andrúmsloft spítalans.

Ólétta konan mín með mælitæki bundin um magan sem blikka bláum ljósum andar kröftulega í gegnum gasgrímuna með tilheyrandi þungum öndunarhljóðum og minnir helst á einhverskonar albinóa svarthöfða úr samhliða alheimi. Hríðin hættir og hún tekur grímuna niður, brosir sínu krúttlega og kæruleysislega brosi og hlær: “Ég er eins og svarthöfði”.

Nú voru hríðarnar orðnar ansi svæsnar og stað þess að anda í grímuna í hríðunum þá var hún notuð til að dempa öskrin sem voru lýsandi fyrir þann sársauka sem konan mín fann fyrir. Hvers átti ég eiginlega að gjalda, að þurfa að horfa uppá manneskjuna sem ég elska hvað mest emja og farast úr sársauka? Ég var ekki viss um að ég myndi þola þetta ögn lengur. Hún hefur líklega gert sér grein fyrir ástandinu á mér og bað um og fékk deyfingu og eins og hendi væri veifað féll allt í ljúfa löð.

Það komu vaktaskipti og eitt stykki frábær ljósmóðir kom inn fyrir aðra. Áfram hélt fæðingin og á 60 til 90 mínútna fresti var bætt á deyfinguna og það var rembst af ofurkrafti í hverri hríð. En deyfingin var ekki til alls góðs því eftir hana fannst mér ég, líkt og svartahöfðsgríman, verða hálf gagnslaus. Án deyfingarinnar nýttist ég þó sem einhverskonar lífrænn hlutur til að kreista í miðjum hríðum til að reyna að miðla sársaukanum úr einum líkama í annan. Nú fann ég hins vegar fyrir miklum vanmætti og hugsaði með mér að ég myndi líklega gera meira gagn með því fara út og beina reykingarfólki að halda sér í hæfilegri fjarlægð frá útgangi spítalans. Ég stakk þó ekki upp á því heldur fylgdist nánast agndofa með konunni minni tækla þessa fæðingu, undir faglegri handleiðslu ljósmóðurinnar, eins og hún væri Wonder Woman. Væri? Þá og þarna þá var hún Wonder Woman og hennar helstu kraftar áttu enn eftir að koma í ljós.

Ég fann þreytuna og hungrið leggjast yfir mig. Ég fór að finna að ég var ekki með fullum sönsum. Kannski hefði verið ráð fyrir spítalann að bjóða mér upp á eitthvað örvandi, sterkara en kaffi, til að ég væri með puttann á púlsinum og tilbúinn að bregðast við óvæntum aðstæðum. Hríðarnar og rembingurinn gekk áfram í marga klukkutíma og þrátt fyrir einhvern árangur við að færa barnið nær útgönguleiðinni þá var komið að þeim tímapunkti að horfast í augu við að það dugði ekki til og við þyrftum að leita aðstoðar og annara leiða við að klára dæmið. Sérfræðingar komu inn og mátu stöðuna og ákveðið var að reyna toga barnið út með sogklukku og ef að það dugði ekki til yrði gripið til keisara. Vegna þessa var ákveðið að reyna sogklukkuaðferðina inn á skurðstofu til að vera viðbúin því.

Á innan við 15 mínútum stóð ég skjálfandi í ofurlýstu herbergi, klæddur í grænan skurðlæknagalla og með hárnet. Í herberginu voru að minnsta kosti 15 manns sem öll virtust vera með alveg á hreinu hvað væri í gangi og hvert þeirra hlutverk væri. Þau kynntu sig fyrir óléttu ofurkonunni minni sem hafði verið komið fyrir á þar til gerðum bekk fyrir miðju stofunnar. Konan mín brosti bara og sagði já og ókei svo ekki fór á milli mála að hún væri til í þetta. Nákvæmlega sá eini þarna inni sem ekki vissi hvaðan á sér stæði veðrið var ég og það fór ekki framhjá neinum. Sumt af fólkinu þarna kynnti sig fyrir mér, spurði hvernig mér liði og hvort ég vildi kannski djúsglas. Á þessum tímapunkti var ég orðinn svo meir að ég hætti ekki út úr mér neinu orði til að ekki brotna niður og bresta í grát. Náði þó með herkjum að klöngra útúr mér eins og , nei og ég er fínn

Ólétta konan mín var greinilega undir áhrifum sterkra lyfja þar sem hún brosti bara og fylgdi leiðbeiningum fagfólskins. Af einhverjum ástæðum hafði hún áhuga á að vita hvað allt þetta fólk héti og fannst fyndið að allir hétu það sama. Ég sá ekki spaugilegu hliðina við þennan nafnaleik og þar að auki hét enginn það sama. Ljósmóðir setti hönd á kvið óléttu konunnar og var þar með orðin lifandi mælitæki hríða og lét vita þegar hríð var yfirvofandi en þá var konunni minni sagt að rembast um leið og annar læknir togaði barnið út með þar til gerðum tækjum. Það var þarna sem máttur ofurkonunnar varð öllum nærstöddum ljós og þremur hríðum síðar var barnið komið. Úff. Þvílíkur léttir. Svo virtist sem konunni minni hefði tekist þetta ólýsandi afrek, með sínum kraftmikla eldmóð og staðfestu, nánast án minnar hjálpar. Og starfsfólkið maður! Þvílík fagmennska! Þau virtust öll sem eitt afar stolt af góðum degi á skrifstofunni.

Ég var gjörsamlega að fara sætta mig við mitt ómerkilega og tilgangslausa hlutverk fæðingarinnar þegar ég heyrði út undan mér: "Hver ætlar að klippa á naflastrenginn?" Gat það verið að af öllu þessu fólki að það væri enginn naflastrengjasérfræðingur á staðnum? Andlit fagfólksins þarna inni hvítnuðu skyndilega og þau horfðu skelfingu lostin hvert á annað og svo með meðaumkunarsvip á mig eins og öll von væri úti. Það leið yfir fæðingarlækninn og svæfingarlæknirinn var farinn dæla í sig kokkteil af kæruleysislyfjum og hin öll voru byrjuð að hvæsa hástöfum hvert á annað ásökunum um vanhæfi og ábyrgðarleysi. Í herberginu ríkti algjör ringulreið og ég sá allt fyrir mér í sló mósjón. Hérna var tækifærið til að sýna að það væri raunveruleg þörf fyrir mig eftir allt saman. Ég hristi af mér alla þreytu og svengd, þakkaði fyrir að vera laus við áhrif örvandi lyfja, sótti sjálfstraust í bankann og sagði háum rómi: "Ég skal gera það!". Það þagnaði í herberginu og allir horfðu á mig og ég sagði aftur, aðeins lægra en ákveðið: "Ég skal klippa á naflastrenginn". Svo eins og ég vissi nákvæmlega hvað ég væri að gera þá tók ég skærin og klippti á naflastrenginn.

Fæðingunni var lokið. Og þarna lá hann, í fanginu á mömmu sinni. Mátturinn og dýrðin. Okkur tókst þetta. Saman.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni