Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Fullorðið fólk í löggu og bófa

Fullorðið fólk í löggu og bófa

Í nýlegum aðgerðum lögreglunnar, sem hún lýsir sjálf sem miklum sigri gegn skýru dæmi um skipulagða glæpastarfsemi, var lagt hald á efni sem átti að nota til að útbúa 80 kíló af amfetamíni og 26 þúsund e-töflur. Rannsóknin sem leiddi til þessara aðgerða hófst árið 2014 og hefur því staðið í um þrjú ár en auk þess að leggja hald á efnin þá hafa þrír menn verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

En hvaða afleiðingar mun slík siguraðgerð lögreglu hafa í för með sér? Eru íbúar Íslands öruggari fyrir vikið? Mun neysla á amfetamíni og e-töflum hríðfalla um ókomna framtíð? Mun það fólk sem hyggur á að selja ólögleg lyf á Íslandi nú hugsa sig tvisvar um?

Raunin er sú að í stóra samhenginu þá kemur líklega ekki neitt til með að breytast í kjölfar þessara aðgerða. Við getum verið svo gott sem viss um það, vegna þess að alveg síðan að lyf hafa verið ólögleg þá hafa yfirvöld unnið við að leggja hald á þau, og endrum og eins þá tekst þeim það. Á sama tíma hefur framboð, aðgengi og eftirspurn af mörgum þessara lyfja aukist til muna. Að því leitinu til er árangur þesskonar aðgerða lögreglu í skjóli ólaga um þessi lyf nákvæmlega enginn.

Þessar aðgerðir verða ekki til þess að ungir kaupendur ólöglegra lyfja verði beðnir um skilríki í komandi verslunarferðum. Þessar aðgerðir verða ekki til þess að framleiðendur efnanna koma sér upp gæðaeftirliti með tilheyrandi innihaldslýsingum, leiðbeiningum, skammtastærðum og fleira sem heyrir undir almenn réttindi neytenda. Þessar aðgerðir verða ekki til þess að glæpamenn veigri sér við að halda áfram að víla og díla með eftirsóttar vörur á svörtum markaði utan okkar almenna hagkerfis. Þessar aðgerðir munu ekki koma í veg fyrir dauðsföll eða slys af völdum vímuefnaneyslu og þessar aðgerðir munu ekki hljálpa þeim aðilum sem eru komnir í stökustu vandræði með sína neyslu. Það eina sem þessar aðgerðir koma til með að gera er að viðhalda glórulausum átökum á milli yfirvalda og undirheima með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið og einstaklinga.

Það er ljóst af störfum lögreglunnar að hún er slyng og vinnur vel til þeirra verka sem hún leggur metnað í. Eins eru glæpamennirnir sem hún keppir við afar vel skipulagðir og miðað við framboð ólöglegra vímuefna ná þeir oftar en ekki að sleppa framhjá radar lögrelglunnar. En þetta er í grunninn allt og sumt. Tvö lið í keppni um hvort er betra. Annað liðið reynir að framleiða og selja ólögleg lyf en hitt liðið reynir að koma í veg fyrir að það takist. Ólíkt mörgum keppnum þá hefur þessi keppni lítið um fylgismenn og klappstýrur. Reyndar er þessi keppni svo óvinsæl meðal almennings að lögreglan þarf sjálf að boða til blaðamannafundar til að vekja athygli á því þegar hún skorar flott mark. En svo þegar spurt er hver staðan í keppninni er þá er fátt um svör. Enda breytir eitt mark lögrelgunnar ekki stöðunni neitt. Það breytir engu hvort staðan er 9897-12 eða 9897-13.

Það er flestum ljóst sem hafa kynnt sér málið af einhverri festu að ólögleg lyf á borð við amfetamín og e-töflur eru í heilt yfir ekki skaðlegri en löglegu lyfin áfengi og tóbak. Því til marks má benda á að það er ekkert lyf sem leiðir fleiri einstaklinga til dauða heldur en tóbak og það er ekkert lyf sem hefur jafn skýr tengsl við ýmiskonar ofbeldishegðun líkt og áfengi gerir. Eins er áfengisneysla tengd ýmsum alvarlegum líkamlegum kvillum og þar er heilinn ekki undanskilinn.

Eðlilega þá óskar fólk engum að fara illa útúr neyslu vímuefna og við reynum að draga úr skaða neyslunnar að einhverju marki. Með lyf eins og áfengi og tóbak þá reynum við að draga úr skaða þeirra bæði með fræðslu og forvörnum en einnig með neyslustýringu og þá kannski aðallega með því að stjórna aldri þeirra sem kaupa lyfin. Með ólögleg lyf beitum við annarri nálgun. ­Þegar kemur að ólöglegum lyfjum þykir yfirleitt ekki vera forgangsatriði að draga úr skaða þeirra. Þvert á móti eru þau skaðleg samkvæmt skilgreiningu og það eitt að vímuefni eru á ólöglegum markaði gerir þau oft sjálfkrafa skaðlegri en ef þau væru á löglegum markaði.

Þótt áfengisneysla hafi minnkað eitthvað á bannárunum í Bandaríkjunum þá varð bæði varningurinn og markaðurinn hættulegri en án bannsins. Bannárin ein og sér gefa okkur í raun góða mynd hvers vegna við ættum að taka fleiri lyf úr höndum glæpagengja með því að færa þau yfir á löglegan markað. Í þeim fylkjum Bandaríkjanna þar sem kannabis er löglegt hefur orðið töluverð tekju- og atvinnusköpun, handtökum hefur fækkað til muna og engin aukning hefur orðið á kannabisneyslu ungmenna. Einnig hefur dregið úr bæði ávísunum og dauðsföllum vegna opíatalyfja ColoradoÍ Sviss hafa dauðsföll vegna ofskammta heróíns, og annarra sprautulyfja, orðið að engu í kjölfar þess að neytendur fengu efnin og aðstöðu til neyslunnar eftir löglegum leiðum. Í Portúgal er komin yfir 10 ára reynsla á afglæpun vímuefna með góðum árangri. Allt eru þetta dæmi þess hvernig samfélagi og einstaklingum er betur borgið við kerfi þar sem varsla og neysla lyfja er ekki mætt með refsiramma laganna, sem svo oft getur verið miskunarlaus.

Það er alveg kristaltært að þegar það kemur að vímuefnum almennt þá ættum við ekki að halda áfram á sömu braut refsinga og útskúfunar eins og hefur verið þrjóskast við í tugi ára. Við ættum ekki einu sinni að vilja halda áfram á þessari braut því sú stefna að halda lyfjum ólöglegum hefur ekki fært okkur neitt nema óþarfa kostnaðarliði í rekstri lögreglunnar, nær óstöðvandi streymi fjármagns í rekstur glæpagengja, óréttlátar handtökur og sektir á einstaklinga vegna neysluskammta, djúpa gjá milli lögreglu og almennings, ótímabær dauðsföll vímuefnaneytenda, útskúfun og jaðarsetningu vímuefnaneytenda, skert eftirlit á vímuefnaneyslu, skert eftirlit á vímuefnaframleiðslu, yfirfull fangelsi, burðardýr, valdníðslu, vonleysi, óhamingju og allskonar ógeðslegt ofbeldi.

Þessi keppni í löggu og bófa er hundleiðingleg og hættuleg. Meðan hún fær að viðgangast höldum við áfram að kasta fjármunum og mannlífum á glæ. Við verðum að stoppa þennan leik, breyta reglunum og byrja upp á nýtt.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni