Borða Píratar beikon?
Píratakóðinn er stutt plagg sem dregur saman heimspeki Pírata. Píratakóðinn inniheldur fallegan og hugljúfan texta um lífsgildi sem mörgum væri hollt að temja sér. Píratakóðinn er ekki notaður beint við stefnumótun Pírata en margir Píratar vitna hins vegar gjarnan í kóðann og telja hann gott veganesti fyrir samfélagið og í flestum tilfellum til fyrirmyndar.
Eitt af mínum baráttumálum er að berjast gegn ofbeldi og misbeitingu valds og á það ekki síst um ofbeldi gegn þeim ómennsku dýrum sem við ölum til manneldis. Ég velti því því fyrir mér hvort ósamræmi gæti í því að borða beikon og að vera Pírati.
Til að framleiða beikon er svínum komið fyrir í þröngum básum við óviðunandi aðstæður og þau geta ekki hreyft sig svo gott geti talist. Flest þessari svína hafa ekki það frelsi að vera nokkurntíma undir berum himni. Við stjórnum fjölgunarmynstri svínanna þannig að þau fjölgi sér oft og reglulega. Fjölgunin er framkvæmd með gervifrjóvgun og á miklu meira skylt við kynferðisofbeldi heldur en nokkurntíma einhverju sem gæti talist til heilbrigðs kynlífs. Jafntítt og svínin fjölga sér þá tökum við afkvæmi þeirra, köllum þau beikon og borðum þau.
Skoðum nú nokkur atriði úr Píratakóðanum og sjáum hvernig þau samræmast þessari stuttu lýsingu á beikonframleiðslu.
Fyrsta grein Píratakóðans er Píratar eru frjálsir og fyrstu orðin þar eru Píratar eru friðelskandi. Það er því ljóst að Píratar leggja mikla áherslu á frelsi en þetta frelsi sem okkur Pírötum er svo kært er kyrfilega brotið á bak burt hjá svínum og ást okkar á frið á það til að steingleymast yfir beikonilmandi helgarbrönsinum.
Önnur grein í Píratakóðanum er Píratar virða líf og þar stendur ennfremur Píratar eru friðsamir og Píratar hafna dauðarefsingu. Nú getur maður vel hugsað sem svo að hér eigi dauðarefsing eingöngu við um menn en það er rétt að benda á að Íslendingar drepa um 80.000 svín á ári sem hafa ekki unnið sér neitt til saka nema að hafa fæðst annarri dýrategund heldur en við. Er það þetta sem felst í að bera virðingu fyrir lífi og er það svona sem boðskapur friðar er borin út?
Undir fyrirsögninni Píratar eru félagslyndir stendur Píratar leggja sig fram við að koma á samfélagi þar sem samstaða ríkir og þar sem hinir sterku vernda og aðstoða þá sem veikari eru. Svona fyrir utan að svín eru að jafnaði, líkt og Píratar, mjög félagslynd dýr, þó þau þau geti kannksi ekki sýnt það við þær aðstæður sem þau þurfa að búa við, þá er erfitt að hugsa sér einstaklinga sem eru veikari gagnvart manninum heldur en svín í verksmiðjubúskap. Þau þurfa svo sannarlega á allri þeirri vernd og aðstoð sem við getum veitt þeim.
Það seinasta sem mig langar að nefna í sambandi við beikon og Píratakóðann er greinin Píratar sýna sanngirni. Þar stendur Píratar vinna gegn samfélagi sem anar áfram í blindni og bregðast við þegar þörf er á siðferðislegu hugrekki. Allt of lengi höfum við anað áfram í blindni í mataræði okkar án þess að veita óvirtum hagsmunum dýranna verðskuldaða athygli. Í þessum málaflokki er brýn þörf á siðferðislegu hugrekki og Píratar, sem og aðrir, ættu að bregðast við.
Beikonát virðist því við þessa sýn vera, í besta falli, mjög ópíratalegt.
Þessi pistill birtist fyrst á sigurgeirsson.svbtle.com í júlí 2016 þegar ég bauð mig fram í prófkjöri fyrir Pírata. Sú síða er ekki lengur virk og því set ég þetta aftur fram núna hér.
Athugasemdir