Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Ómissandi fólk, dauði sveltistefnunnar, og þrír aðrir hlutir sem vírusinn hefur opinberað

Ómissandi fólk, dauði sveltistefnunnar, og þrír aðrir hlutir sem vírusinn hefur opinberað

1. Hvernig kvenna- og láglaunastéttir halda samfélaginu gangandi.

Kynjamisréttið á vinnumarkaði hefur sjaldan verið augljósara en í dag þegar við sjáum hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, ræstingafólk og fleiri stórar kvennastéttir standa í framlínunni og baráttunni við vírusinn. Sjúkraliðar voru samningslausir í tæpt ár og hjúkrunarfræðingar í heilt ár, hvort tveggja stéttir sem eru einfaldlega á skammarlega lélegum launum ef við setjum mikilvægi þeirra í samhengi við atburði síðustu vikna. En vírusinn sýnir okkur líka hvernig láglaunafólk, svo sem starfsfólk í matvörubúðum, þarf að taka á sig aukna smithættu ofan á annað álag. Fyrir þetta fólk er oft ekkert val, láglaunafólk hefur ekki val um að einangra sig heima með fjölskyldunni heldur verður að halda áfram að vinna til að greiða leiguna og eiga fyrir mat. Öfugt við það sem efnahags- og fjármálaráðherrann heldur fram leggst vírusinn verst á hin valdalausu.

 

2. Hvernig „ófaglærð“ störf eru í raun ómissandi störf

Það er kominn tími til að hætta að nota þetta orð „ófaglærður“ yfir verkafólk sem vinnur við allskonar mikilvæg störf eins og Sólveig Anna formaður Eflingar hefur bent á. Vírusinn hefur sýnt okkur að það er einmitt þetta ómissandi fólk sem heldur samfélaginu gangandi. Rétt áður en vírusinn skall á hafði starfsfólk leikskóla sýnt okkur það sama. Hin „ófaglærðu" eru oftar en ekki hin ómissandi þegar mest ríður á.

 

3. Hversu mikilvægt ríkið er en kapítalisminn viðkvæmur og fallvaltur

Vírusar hafa alltaf verið til og ógnin af þeim vofði yfir. Samt hafa fæst fyrirtæki komið sér upp varasjóði eða undirbúið sig til að takast á við tekjufall heldur greitt eigendum gríðarháar arðgreiðslur frá hruni. Um leið og efnahagskerfið stöðvaðist var það ljóst að gamlar mýtur hægrisins áttu ekki lengur við. Núna þurfum við að treysta algjörlega á ríkið, að það greiði almenningi laun og finni verkefni til þess að ýta hagkefinu í gang. Nú þarf ríkið að ráðast í stór verkefni við uppbyggingu innviða. Eitthvað sem hægrið var búið að segja okkur aftur og aftur að ríkið ætti ekki að gera, að ríkið gæti ekki, mætti ekki og kynni ekki. Kenning hægrisins var að ríkið ætti ekki að vera að vasast í atvinnustarfssemi. Ríkið ætti ekki að skapa störf. Þátttaka ríkisins í efnahagskerfinu er núna ekki aðeins mikilvæg heldur nauðsynleg því kapítalisminn hefur verið tekinn úr sambandi, hann virkar ekki í þessu ástandi.

 

4. Hvernig vinnuaflið skapar auðinn en ekki kapítalistarnir sem hamstra hann nánast allan

Hægrið hefur hamrað á því að samfélagið verði að lækka skatta á fyrirtæki og eigendur þeirra. Þetta sé fólkið sem skapi öll störfin með snilligáfu sinni, nákvæmum fjárfestingum og viðskiptaviti. Núna sjáum við skýrt að það er verkafólk, vinnuaflið, sem skapar verðmætin með vinnu sinni en ekki kapítalistarnir. Efnahagskerfið stöðvaðist ekki vegna þess að hin fámenna auðstétt komst ekki í vinnuna heldur vegna þess að verkafólk, fólkið sem skapar verðmætin, neyddist til að sitja heima. Vírusinn hefur styrkt þau rök að verkafólk eigi að eiga og koma að ákvörðunum fyrirtækjanna. Það er verkafólkið sem skapar verðmætin, kapítalistarnir gera fátt annað en að draga til sín verðmæti úr fyrirtækjunum.

 

5. Hvernig kapítalisminn og hin grimma svelti- og niðurskurðarstefna hefur misst allan trúverðugleika

Lausnir á sviði hagfræðinnar sem vinstrið og framsæknir hagfræðingar hafa tala fyrir frá síðasta hruni og lengur, en þóttu óhugsandi fyrir aðeins nokkrum vikum síðan, eru núna orðnar að veruleika. Seðlabanki Englands hefur tekið upp á því að prenta peninga beint inn í ríkissjóð til að standa undir kostnaði við vírusinn og Þýskaland er búið að fjarlægja takmarkir á opinberar skuldir. Allt í einu geta Seðlabankar prentað peninga til að fjármagna útgjöld. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur prentað trilljónir dollara frá Hruninu 2008 og fyrir nokkrum vikum galdraði hann fram enn fleiri og þetta hefur ekki leitt til verðbólgu. Sveltistefna síðustu áratuga var bara plat, aðeins til að viðhalda hugmyndafræði hægrisins um að ríkið eigi að gera sem minnst, til að gera velferðakerfin sem veikust og vald hins lýðræðislega vettvangs sem minnst. Stefnan gekk út á að lama vald fjöldans en auka völd og auð hinna fáu. Allt til þess að auka möguleikana á að einkavæða eigur okkar ofan í vasa hástéttarinnar. Eða eins og Noam Chomsky orðaði það: „Hin staðlaða leið einkavæðingar er: niðurskurður, sjáðu til þess að hlutirnir virki ekki, fólk verður reitt, þú afhendir það svo einkaaðilum.“ Þessi grimma svelti og niðurskurðarstefna, sjálf brauðmolakenningin, er endanlega dauð. Hún skyldi ekki bara fyrirtækin eftir hol að innan, með tóma varasjóði eftir allar arðgreiðslur undanfarinna ára, heldur heilbrigðiskerfið hálf lamað og rétt á mörkum þess að ráða við allra besta ástand. Sama má segja um önnur velferðarkerfi, félagslegu kerfin, húsnæðiskerfis o.s.frv. Í flestum löndum hafa þessi kerfi verið veikt svo mjög að hin veiku, fátæku og valdalausu geta illa varið sig fyrir veirunni.

Lærdómur veirunnar er að auðurinn verður ekki til hjá hinum fáu ríku heldur hjá hinum mörgu sem framkvæma alla vinnuna. Það er til nóg af peningum til að fjármagna heilbrigðiskerfið sem við viljum. Og veiran mun halda áfram að afhjúpa kapítalismann og getuleysi hans til að uppfylla þarfir fólks og samfélagsins. Eftir því sem kreppan dýpkar munu grimmd hans verða skýrari og augljósara öllum að leiðin frá vandanum er jafnframt leiðin frá kapítalismanum.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni