Tilviljanir teymdu okkur á Tvíæringinn í Feneyjum þetta árið og var lítil dóttir með í för. Agla fann að vanda frábært hótel fyrir okkur, í eins metra breiðri götu aftan við Gucci-búðina, með leynigarði og barngóðum þjónum. Hérna lærðum við fljótt þá list heimamanna að panta annaðhvort prosecco (jafn dýrt og vatn) eða aperol spritz (aðeins dýarara en vatn) á slaginu klukkan sex. Fáir hafa lært að nýta rýmið jafn vel og Feneyingar (þrengslanna vegna) og bara það að sitja í horni hótelbarsins og virða fyrir sér umhverfið getur gefið manni vissan myndlistarunað, ekki síst að glasi loknu. Og þegar við tylltum okkur svo á síkisbrún til að snæða heimaréttinn Nero di seppia (blekpasta) á meðan gondólastjórinn dólaði sér hjá með roskið brúðkaupsafmælispar frá Cleveland um borð (svo nærri að hann rak næstum olnbogann í okkur) og ljúfur klóaksilmur fyllti loftið, þá náði maður FF-mómentinu (fullnægingu ferðamannsins).
En við vorum ekki bara komin til að njóta Feneyja, heldur bíennalsins líka, og klukkan ellefu fyrsta daginn vorum við mætt í Arsenale-skálann. Ég hafði aðeins einu sinni áður komið á þessa heimssýningu myndlistarinnar. Það var árið 1995, þegar Birgir Andrésson heitinn var fulltrúi okkar, og ég í fylgd elstu dótturinnar, Hallgerðar, sem þá var ellefu ára. Að auki er maður hálfdottinn út úr myndlistarheiminum og tilhlökkunin var því tvöföld, að sjá hvað væri þar að gerast og fá að auki nokkra daga í móður allra borga.
Í stuttu máli var þetta mikið kikk og tripp. Í gamla daga voru svona sýningar undirlagðar af sömu gömlu nöfnunum ár eftir ár, sömu andlausu formalísku leiðindin aftur og aftur: Daniel Buren, Donald Judd, Carl Andre, Sol Lewitt og Jannis Kounnellis og hvað þeir hétu nú allir þessir hvítu karlkyns mínimalistar sem kvöldu mann of lengi. Þess vegna var svo gaman að sjá að nú er öldin önnur, ný og fersk. Sýningarstjórinn Ralph Rugoff (sem hefur stjórnað Hayward-galleríinu í London frá 2006) hafði greinilega lagt sig fram um að gæta fjölbreytni: Í fyrsta sinn voru jafn margar konur og karlar að sýna og þá gat að líta myndlistarmenn úr nýjum áttum: frá Suður-Afríku, Kenía, Nígeríu, Mexíkó, Indlandi, Kína … Hér áður fyrr voru allir sýnendur úr Vesturheimi.
Ég er að tala um sjálfa meginsýninguna sem Rugoff setti saman, „May You Live in Interesting Times“, en ekki þjóðarskálana, hún var óneitanlega meira spennandi en júróvisjón-keppnin sú. Á hverjum tvíæringi fær nýr einvaldur að ráða og velja inn á aðalsýninguna og Rugoff virðist svona líka ágætur; hann hóf verkið á því að fara yfir þá listamenn sem sýndir voru á þremur síðustu bíennölum og útilokaði þá frá þessum. Vel gert! Að auki sleppti hann alveg að vera með eitthvert þjakandi allsherjar þema (þema-árátta nútímans er orðin svo þreytt …) sem sameina skyldi öll verkin undir einhverri gervifræðilegri regnhlíf. Og til að sýna það í verki fékk sýningin almennan titil: „May You Live in Interesting Times“. Þetta heiti er reyndar það lélegasta við sýninguna, ofnotað „kínverskt spakmæli“ sem er víst ekkert kínverskt spakmæli heldur einhver hundrað ára gamall misskilningur breskra diplómata á einhverjum mandarín-frasa.
En jæja. Inn gengum við og strax á fyrsta klukkutímanum sá maður meira af innspírerandi hágæðalist en maður hefur séð á undanförnum tveimur árum. Það var greinilegt að hér hafði verið valið í heimsliðið. Maður var bombarderaður úr öllum heimshornum. Fyrst með ágengum ljósmyndum hinnar suður-afrísku Zanele Muholi (sjálfsmyndir þar sem hún hefur staðlað sig svarta, horfir beint í augun á okkur og spyr: var það ekki svona sem þú sást mig/sérð mig?), síðan með innsetningu Tavares Strachan (USA) um örlög uppdiktaðs afró-amerísks geimfara (ég reyndar trúði þessu alveg), og loks heilum myndbandaheimi Ed Atkins (England) sem var svo klikkaður og magnaður að maður lyppaðist nánast niður. Engin leið að lýsa honum! Bara geggjaður.
Í kjölfarið komu þungavigtarhögg frá Martine Guerrez (Mexíkó), Kahlil Joseph (USA), Christan Marclay (USA/Sviss) og Yin Xiuzhen (Kína). Það sem marði mitt hjarta var svo hljóðinnsetning hinnar ungu Shilpa Gupta (Indland) „For, In Your Tongue I Cannot Fit“: Hundrað míkrófónar hengu yfir hundrað stálspjótum og upp á enda hvers þeirra hafði verið stungið ljóði eftir skáld sem setið hefur í fangelsi fyrir yrkingar sínar. Skáldin eru semsagt eitt hundrað talsins, það elsta frá áttundu öld, það yngsta ungur Búrmi, Maung Aungkha, sem var handtekinn árið 2016 fyrir að ímynda sér í ljóði að hann hefði látið tattúvera portrett af forseta Mjanmar á lim sinn. (Fyrir þá fyndni fékk hann sex mánuði.) Hljóðnemarnir eru svo engir nemar heldur hátalarar, úr þeim hljóma ljóðin lesin á ensku, kínversku, rússnesku, arabísku, hindí, tyrknesku, úrdú … svo úr verður magnaður seiður frelsaðra radda. Maður röltir á milli spjótanna, ljóðanna og les eitt og eitt: „Því byssukúlur eru ekki lífsins fræ“ – Mahjoub Sharif, Súdan, fangelsaður 1970, 1971, 1980, 1990. Og annað: „Jafn staðföst og Himalajafjöllin stóðum við og gáfumst aldrei upp“ – Gopal Prasad Rimal, Nepal, fangelsaður 1940.
Skammt undan var svo grátlegt verk eftir Teresu Margolies (Mexíkó) um afdrif ungra stúlkna í landi hennar sem horfið hafa sporlaust hundruðum saman í gengjastríðum undanfarinna ára. Hún hefur tekið upp lestarhljóð frá heimkynnum þeirra og magnað það upp þannig að nokkrar stórar rúður, sem stillt er upp í myrku rými, titra ónotalega. Þannig tekst okkur illa að lesa auglýsingarnar sem límdar eru á glerið, en þær eru ekta (?) ljósritaðar tilkynningar um týndar stúlkur.
Hér rann upp fyrir manni munurinn á þessari ungu kynslóð og þeim sem áður voru svo áberandi: Hér hefur fólk eitthvað að segja, þessi verk hafa hið gamla góða „innihald“, en eru ekki formalískar abstrakt konstrúksjónir. Mínímalistarnir hefðu látið glerrúðurnar standa óhreyfðar og galtómar þannig að engin leið hefði verið fyrir áhorfandann að finna neins konar merkingu í þeim. Húrra fyrir nýju kynslóðinni! Þetta er eins og munurinn á Halla Jóns og Donald Trump, ég meina Judd.
Í hádegismatnum lentum við við hliðina á skemmtilegri þýskri listabransakellu frá Berlín sem var svo hress og einmana að hún fór strax að leika við Málfríði Jóhönnu, 19 mánaða dóttur okkar, og talaði eins og vindurinn. Hún er ein af fastagenginu, hefur ekki misst úr bíennal í þrjátíu ár og skilur barnið alltaf eftir heima svo hún geti skoðað allt í þaula. Eftir því sem á samtalið leið kom í ljós að hún var af þýska skólanum og alls ekki hrifin af sýningu Rugoffs, „alltof margir Ameríkanar og alltof mikið kaos, bara ljósmyndir upp um allt, verkum eftir sama listamann dreift um salina og ég veit ekki hvað og hvað“. Það eina sem stóð upp úr að hennar mati voru hin dauflegu emaleruðu abstrakt málverk löndu hennar, Ulrike Müller, að mínu mati einn veikasti hluti sýningarinnar. Og svo dásamaði hún hliðarsýningu á verkum hins írska andlausa abstraktmálara Sean Scully, sem gagnrýnandinn snjalli, Jerry Saltz, var búinn að vara okkur við á Instagram, enda sá írski líklega mesti skítaskaufi listaheimsins í dag, er kvæntur einkaþotu sinni og hugsar um peninga hálfan daginn. „Ég er Donald Trump listaheimsins, ég er á sama level í sjálfstrausti og hann,“ lét hann hafa eftir sér í nýrri heimildamynd.
Kínverska parið Sun Yuan og Peng Yu átti ærið snjallt verk í miðjum Arsenale-skálanum: Mannlaust sæti úr marmara (álíkt því sem Lincoln situr í í minnismerki sínu í Washington) stendur í glerbúri og upp úr sessunni, á rassgatsstað, liggur plastsnúra sem annað slagið „fer í gang“; knúin þrýstilofti æðir hún um loftið og rýmið og slæst utan í glerveggi búrsins, tekur æðiskast, eins og algalin gyllinæð hins valdamesta. Klikkað! Þessir Kínverjar virðast vera að taka yfir listaheiminn. Hjónakornin stálu svo senunni daginn eftir, í B-hluta sýningarinnar, með verki sínu „I Can’t Help Myself“: Nú stóð einarma vélmenni í lokuðu glerbúri og sópaði án afláts til sín vökva sem minnti óþyrmilega á blóð. Mannlegar hreyfingar róbótsins, elegant og brútal í bland, sátu í manni lengi eftir að áhorfi linnti. Eitthvað svo skemmtilega geggjað verk. Stuð í Feneyjum! Og túlkunarmöguleikarnir margir: Munu vélmenni fylla dýragarða framtíðarinnar? Óttumst við róbóta jafn mikið og hlébarða? Eru þeir líka komnir af öpum? Já, og að maður gæti svo staðið þarna í korter og dáðst að vélmenni þrífa gólf …
Þegar hér var komið gat maður vart meir og var ósköp feginn og ærið listmettur að komast út úr Arsenale-skálanum og taka sér smá pásu, en þá tók sjálft aðalverkið við: Maður var rétt búinn að tylla sér niður á bekk með sofandi barn í kerru þegar við manni blasti óvænt „Barca nostra“, „Báturinn okkar“, ógnarhár, ryðgaður og illa brotinn dallur sem stillt hafði verið upp á fornum hafnarbakka með stefnið í átt að báti landhelgisgæslunnar ítölsku sem lá þar við kæja merktur Guardia Costiera. Hér var semsagt komið verk Íslandsvinarins Cristoph Büchel, þess sem var fulltrúi okkar í Feneyjum 2017. Nú hafði honum tekist að véla út úr ítölskum yfirvöldum illa farinn bát sem sokkið hafði með 700–900 hundruð flóttamönnum innanborðs í Miðjarðarhafi árið 2016, aðeins 28 manns komust lífs af.
Þegar maður heyrði fyrst af þessu verki í vor voru viðbrögð manns: Nei! Svona gerir maður ekki. Maður gerir sér ekki listaverk úr slíkum harmleik. Hvernig líður eftirlifendum að horfa upp á slíkt? Er ekki verið að lyfta sér listrænt upp á dauða hundruða? En svo kemur maður út úr hinum langa listræna kerskála (já, einhvern tíma verður álverið í Straumsvík fínt til að nota í bíennal), akþreyttur eftir að hafa lesið sér til á upplýsingablöðum um 50 listamenn eða svo, og sér þennan bát, og hann kveikir samstundis á hundrað bjöllum sem spyrja hundrað annarra spurninga, og það með öllu formálalaust, hér þarf engra útskýringa við, maður er sleginn í magann og utan undir í einu vetfangi og stendur þarna agndofa og gráti nær. Er hægt að biðja um meira af einu listaverki?
Ég snerist semsagt á punktinum. Allar hugsanir um hvort þetta mætti, hvort það væri tilhlýðilegt, hvort hér væri ekki verið að traðka á dauða saklausra fórnarlamba, fuku út í veður og vind. Og maður bara meðtók verkið möglunarlaust. Jú, auðvitað átti þetta að vera hér. Auðvitað þurfti þetta að vera hér. Hvers virði er heimssýning á samtímalist án þess að minnst sé á stærstu hamfarir síðustu ára? Fordómarnir fuku af manni, erindi verksins sigraði mann.
Maður samþykkir „Barca nostra“ eftir að hafa verið á móti því á mórölskum forsendum, og samþykkir það á nánast sömu mórölsku forsendum, en hugsar svo lengra og afneitar þá verkinu aftur á forsendunum; æ, hvað er listaelítan að hreykja sér af samúð með látnum flóttamönnum? En samþykkir það svo loks aftur af því í nánd sinni kaffærir það allar þessar hugsanir og vangaveltur, öll rök og reglur, og maður bara segir æ, fokk it, þetta er of stórt, of hrikalegt, erindið er stærra en allar spekúlasjónirnar. Og erindið er einmitt þetta: Hér sitjum við í okkar feneysku forréttindum á meðan flóttamannabúðirnar standa yfirfullar handan fjarðarins. Og ætlum við ekki að gera neitt í þessu? Er ekki tími til kominn að sætta sig við að forréttindi okkar munu ekki vara að eilífu? Er ekki okkar verndaði airbnb-heimur á enda kominn? Það er jú annað fólk sem þarf á þessum rúmum að halda!
Deilurnar og reiðin útaf Barca Nostra eru líkast til merki um að hér sé sögulegt verk á ferð. Pissuskál nýrrar aldar?
En áfram með smjörið. Daginn eftir skiptum við liði og fyrripartinn skrapp ég í Palazzo Grassi til að skoða yfirlitssýningu á verkum hins belgíska Luc Tuymans, sem lengi hefur heillað með sínum grámóskulegu og yndislega þunglyndu málverkum. Þessi sýning olli samt vonbrigðum. Þegar á hólminn kom hafði dauðyflislegi drunginn yfirhöndina og maður kom út með spurninguna: Hvað er maðurinn eiginlega að mála? Til hvers er hann að mála mynd af svefnherberginu í Big Brother sjónvarpsþáttunum? Eða einhverjar senur út úr einhverjum obskúrum gömlum bíómyndum sem ekki segja neinum neitt? Afhverju gerir hann portrett af einhverjum japönskum vitleysingi sem myrti samstúdínu sína í Sorbonne árið 1981? Þetta virkar allt svo tilviljanakennt, eins og hann viti ekkert hvað hann eigi að gera. Samt er portrett-tækni hans frábær og þarna gat að líta mörg frábær verk, eins og litla portrettið af Albert Speer, arkitekti Hitlers, jakkafataklæddum með lokuð augu, málverk sem ber hinn góða titil „Secrets“.
Eftirmiðdeginum eyddum við síðan saman í Giardini, sáum þar B-hluta sýningar Rugoffs og nokkra þjóðarskála. Barnsins vegna treystum við okkur ekki í biðröð við litháíska skálann, sem fékk aðalverðlaunin þetta árið, en hann krafðist auk þess klukkutíma áhorfs. Og stúlkan stutta sofnaði heldur ekki alveg á réttum stað þennan daginn, þannig að við urðum bara að ganga í gegnum nokkra vídeóskála, eins og þann danska og franska, en báðir hlutu frábæra dóma og báðir byggja allt á vídeóverkum. Gallinn við vídeó-verk er jú sá að maður þarf að horfa á þau, á meðan kosturinn við málverkið er sá að maður þarf þess ekki. Tvær sekúndur nægja, og maður gleymir því kannski aldrei.
Við kíktum í United Kingdom-skálann þar sem innsetningin hefði átt að heita United Boredom. Við kíktum í þýska skálann þar sem gamla gorí nútímalistin fékk að njóta sín í öllum sínum hryllingi. Við kíktum í japanska skálann þar sem sýnd voru vídeó af risavöxnum klettabjörgum sem tsunami hafði varpað á land í Japan. Það var magnað en varla er nóg að mæta bara með fréttamyndir á bíennalinn? Við kíktum í rússneska skálann. Efri hæðin var eins og að ganga inn í heilann á Dostojevskí, yfirgengilega dramatískt og gamaldags. En neðri hæðin var full af heillandi fjöri. Alexander Shishkin-Hokusai hafði endurgert nokkur eldfræg og klassísk hollensk málverk úr Hermitage-safninu í Pétursborg eins og væru þau leiktæki í skemmtigarði frá 1890. Dásamlegt. Við kíktum í kínverska skálann sem var eins og að horfa inn í framtíðina. Og svo kíktum við í skandínavíska skálann sem var líklega sá daprasti af þeim öllum. Hér höfðu Svíar, Finnar og Norðmenn lagt í púkk en útkoman var eins og gler- batik- og veflistasýning í Norræna húsinu 1978, með fullri virðingu fyrir öllu því góða fólki sem þá var upp á sitt besta. Ég hleraði einn sýningargesta orða það svo: „Hvernig er hægt að gera svona leiðinlega og óáhugaverða sýningu?“
En hvar var Ísland? Ekki á þessu svæði. Ekki í nágrenninu. Heldur á eyjunni Giudecca, en þangað er korterssigling frá Markúsartorgi. Og á þeirri eyju var aðeins einn annar skáli, Eistland. Við þessi litlu fjarlægu lönd kjósum að halda sama distansinum í Feneyjum og á heimskortinu. Það þarf semsagt að hafa fyrir því að sjá okkar ástkæru Shoplifter, og ekki víst að allir geri það. Þegar hundrað áhugaverðar sýningar eru inní bæ, og þú hefur bara 3 daga, er ekki víst að margir fórni einum eða hálfum degi í að skoða einn skála. Þannig að fyrirfram orkaði þetta ekki vel á mann. En viti menn, þegar á hólminn er komið, virkaði þetta. Því innsetningin Chromo Sapiens með djúpsálarsándtrakki Ham er þannig verk að maður er þakklátur að fá að eyða tveimur tímum með því, og hér var ekkert vesen með barn í kerru því fáir skemmtu sér betur í íslenska skálanum en hún Málfríður okkar. Þarna lagðist maður á gólf og lét líða úr sér, tók þetta inn í makindum, datt í sannkallað listmók. Og þarna kynntumst við fólki. Pólskar systur sem búa í USA höfðu verið þarna í tvo tíma þegar við komum, yfir sig heillaðar enda miklar Íslandsáhugakonur. Yfirsetustúlkan íslenska sagði okkur að aðsóknin væri góð, 200 manns á dag, enda okkar framlag á mörgum „must see“ listum í bransanum. En maður efast um að margir aðrir hefðu „púllað“ þessa staðsetningu og það hlýtur að vera markmið okkar að koma okkur betur fyrir í Feneyjum, uppá framtíðina að gera.
Það skemmtilegasta við svona ferðir er auðvitað að uppgötva eitthvað nýtt, sjá ný nöfn og nýstárleg verk. Í Giardini-hluta sýningarinnar „May You Live in Interesting Times“ voru nokkur slík sem stóðu upp úr, auk róbótaverksins sem áður er nefnt. Hinn afrísk-bandaríski Arthur Jafa fékk verðlaun fyrir „Hvíta albúmið“, 50 mínútna langt vídeóverk sem ég sá reyndar aðeins tvær mínútur af en sitja enn í manni. Myndbandið er samsetningur af fréttaskotum sem sýna rasisma hvítra Kana, brotið sem við sáum sýndi þrjá svarta lögreglumenn og -konur standa yfir æstum hvítum handjárnuðum manni sem hrópaði stöðugt að þeim n-orðið, all svakalegt að sjá og heyra. Og já, það er alveg nóg að mæta með fréttamyndir til Feneyja!
Hin indverska Shilpa Gupta, sú sem átti ljóðahljóðverkið í Arsenale, sýndi hér forláta járnhlið sem hjarað var á auðan vegg, og sveiflaðist í sífellu til beggja átta og slóst þannig í vegginn að smám saman hafði molnað úr honum. Verkið var „Untitled“ en það var eitthvað sláandi sterkt við það, hliðið opnaðist sífellt fyrir manni og lokaðist manni um leið, og í hvert sinn réðist það á múrinn, hér var valdið komið á vald klikkunar.
Og svo fann ég hér nýjan uppáhaldsmálara: Nicole Eisenman frá New York. Ég hafði aðeins kynnst verkum hennar á Instagram í aðdragandanum en hér fékk hún fallega að njóta sín, með fimm stórum málverkum, undirfurðulegum og frábærum. Hjá henni verða hversdagslegar senur, eins og maður í lest eða lesbíur saman í vinnustofunni, maður sem situr á bar, að einhverjum ótrúlegum ævintýrum, snilldarskrýtnum. Hún tekur sér skemmtileg skáldaleyfi og einhvern veginn verður allt fyndið hjá henni á mjög svo djúpan hátt: Lesbíurnar liggja til dæmis fyrir framan risavaxinn tölvuskjá og Eisenman málar hann af gríðarlegri nákvæmni, með öllum skjölunum sem á honum hvíla og málar líka af gríðarlegri natni skjámyndina sem sýnir einhverja stjörnuþoku í svörtum geimi. Með því að sýna þessum „ómerkilega veruleika samtímans“ svona mikla virðingu gerist tvennt: Hún grefur undan honum, um leið og úr verður óður til lífsins.
Þá málar hún oftar en ekki reiða hvíta karla, karla með byssur, karla með vasaljós sem lýsa myrkri, karla að lepja eitraðan bjór. Gagnrýnandinn Daniel Gerwin lýsir verkum hennar þannig: „Hún málar þessa hvítu reiðu karla sem við þekkjum öll svo vel. Þeir eru álappaleg óhappadýr en samt svo stórhættulegir. Þetta eru kuflararnir (klansmennirnir) hans Philips Guston, risnir upp frá dauðum, komnir til að gera okkur lífið leitt.“
Stærsta verk Eisenman í Feneyjum er mjög í þessum anda. Segja má að hér sé komin hennar útgáfa af frægu þema í listinni: Dáraskipið, eða Ship of Fools. Verkið ber fyndinn titil, „Heading Down River on the USS J-Bone of an Ass“, sem gæti útlagst sem: „Á leið niður ána um borð í bandarískum bát úr kjálkabeini úr asna“, en kannski öllu heldur: „Siglt niður ána á bandaríska herskipinu Asnakjálkabeini“. Um borð eru þrír menn (listin, vinnan, valdið?) og spilar sá fremsti á flautu, sá næsti stýrir seglinu og aftastur er Trumplegur karl á jakkafötum. Er hún ekki að mála upp ástandið í heimalandinu? Kjálkaskipið stefnir fram af miklum fossi …
Hér er málverkið í essinu sínu og framkallar margar og óræðar tilfinningar, allt þetta flókna og loðna, og ómeðvitaða, sem listin ein getur vakið í okkur: Ævintýrið innra. Hér verður málverkið að fréttamynd um sálarástand heimsins. Farið endilega á internetið og kynnið ykkur málverkin hennar Nicole Eisenman!
Eða drífið ykkur bara til Feneyja. Þar er stuðið.
Athugasemdir