Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Það sem gerðist að Gýgjarhóli þegar faðir minn lést af völdum bróður síns

Ingi Rafn Ragn­ars­son skrif­ar um at­vik­in sem leiddu til þess að fað­ir hans lét líf­ið að völd­um bróð­ur síns á bæn­um Gýgjar­hóli II í Blá­skóga­byggð. „Sann­leik­an­um hafa ekki ver­ið gerð næg skil op­in­ber­lega og þrátt fyr­ir allt sem á und­an er geng­ið þá get ég ekki lát­ið síð­ustu orð­in um föð­ur minn vera nafn­laus­an róg­burð frá Val Lýðs­syni og fylgj­um hans og því sett­ist ég við skrift­ir.“

Það sem gerðist að Gýgjarhóli þegar faðir minn lést af völdum bróður síns

„Þar sem ég þekkti báða málsaðila vel er atburðarás þessa kvölds augljós fyrir mér og okkur systkinunum,“ segir Ingi Rafn Ragnarsson í grein sem hann skrifaði um atburðarrásina að Gýgjarhóli II kvöldið sem faðir hans lést af völdum bróður síns, aðfararnótt 31. mars 2018. Greinin er birt í heild sinni hér að neðan. Áður hefur Ingi Rafn lýst þeim persónuárásum sem hann og fjölskylda hans sættu í kjölfar árásinnar á föður hans, Ragnar Lýðsson.

Í greininni rekur Ingi Rafn lýsingar réttarmeinafræðings á atvikum og eru viðkvæmir varaðir við þeirri lýsingu. Sjálfur hafi hann mætt hatursfullu augnaráði föðurbróður síns þegar dómarinn hafi yfirgefið réttarsalinn. Faðir hans hafi sýnt bróður sínum umburðarlyndi en verið mætt af lítilsvirðingu. „Þakklætið er svo sýnt með því að móðga föður minn, drepa hann og síðan leggja sig allan fram um persónuníð.“

Föðurbróður hans hafi tekist að fela sitt rétta eðli í gegnum málsmeðferðina fyrir héraðsdómi. Ekki hafi komið fram hvaða mann Valur hefði að geyma en mannorð föður hans hafi verið svert. „Alveg í upphafi, við fyrstu yfirheyrslur lögreglu, var helsta áhyggjuefni hans hvenær hann kæmi heim til að laga skaðann sem orðspor hans hefði orðið fyrir. Valur var tilbúinn að ganga alla leið í ærumeiðingum í garð föður míns til þess að ná því takmarki. Hann rak lögfræðinginn sinn, sem er jafnframt einn af hans bestu vinum, af því hann var ekki nógu ósvífinn. Það verður að segjast eins og er að ætlunarverk Vals hefur tekist.“

Fyrir dómi í morgunHelgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari benti á að um hafi verið að ræða ítrekaðar árásir sem leiddu til dauða Ragnars.

Aðalmeðferð hófst í dag 

Forsagan er sú að aðalmeðferð í máli Vals Lýðssonar hófst í Landsrétti í morgun. Héraðsdómur dæmdi Val í sjö ára fangelsi fyrir að hafa orðið bróður sínum að bana. Ríkissaksóknari áfrýjaði þeim dómi, en saksóknari hafði farið fram á að Valur yrði dæmdur í sextán ára fangelsi þar sem honum hefði mátt vera ljóst að árás hans gæti endað með andláti. Héraðsdómur taldi hins vegar að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna að Valur hefði ætlað að ráða bróður sínum bana og var hann dæmdur fyrir manndráp fyrir stórhættulega líkamsárás. 

Fyrir dómi í morgun benti Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari á að um hafi verið að ræða ítrekaðar árásir sem leiddu til dauða Ragnars. Jafnvel þótt ekkert benti til þess að Valur hefði ætlað sér það fyrirfram að verða bróður sínum að bana hafi hann engu skeytt um ástand bróður síns og ekki stöðvað árásina þegar hann væri rænulaus. Ljóst væri að sparkað hefði verið í höfuð Ragnars, og að það hafi líklega verið gert eftir að hann missti meðvitund. Í framhaldinu hafi Valur trampað ofan á rifjahylki bróður síns þegar hann lá í gólfinu. Árásin væri stórhættuleg, offorsið mikið og Ragnar hafi ekki getað varið sig. Engin vörn væri í því að segjast hafa verið ölvaður.

Lögmaður Vals mótmælti lýsingu ákæruvaldsins á atvikum og sagði atburðarrásina vera mjög óljósa. Valur hefur borið fyrir sig minnisleysi og kaus að tjá sig ekki við skýrslutöku í Landsrétti í morgun. Lögmaður Vals sagðist hins vegar vera ósáttur við hversu mikla vigt ákæruvaldið legði í blóðferlarannsóknir á vettvangi og sagði skýrslu réttarmeinafræðingsins hlutdræga, þar sem ekki væri um að ræða sérfræðing sem hefði lífsviðurværi sitt af því að starfa fyrir lögreglu. Þá mótmælti hann því að samtal Vals við Neyðarlínuna væri notað við meðferð málsins, meðal annars á þeim forsendum að Valur hefði verið mjög ölvaður. Ölvunarástand væri stór ástæða þess að Ragnar hefði látið lífið þetta kvöld.

Krafðist hann sýknu en að hann sagði refsinguna í héraði hafa verið þunga og miskabætur sem Valur var dæmdur til að greiða börnum Ragnars væri of háar. Ragnar skildi eftir sig fjögur börn, sem hvert um sig fékk dæmdar þrjár milljónir í miskabætur. Lögmaður þeirra fór í dag fram á tíu milljón króna miskabætur, þar sem ljóst væri að Ragnar hefði orðið fyrir hrottalegri atlögðu og bróðir hans hvorki sýnt iðrun né beðist afsökunar. Þegar börn Ragnars leituðu sátta hafi Valur ekki verið til viðræðu um það. Varnir hans væru fjarstæðukenndar og forherðing hans hefði aukið á miska barnanna. Valur hafi ekki viljað taka þátt í útfararkostnaði bróður síns og lýst yfir skuldajafnaðarkröfu upp á átta milljónir króna sem hann taldi sig eiga á dánarbú bróður síns. Þeirri kröfu mótmælti lögmaðurinn eindregið.

Dóm héraðsdóms má lesa hér: Ákærði sæti fangelsi í sjö ár.

Eftir að dómur féll í héraði lýsti bæði bróðir þeirra Vals og Ragnars, sem og börn Ragnars heitins, því yfir að dómurinn væri of vægur. Var það skoðun þeirra að Valur hefði átt að fá sextán ára fangelsisdóm. Við meðferð málsins hefur margt komið upp sem situr í börnunum og sonur hans, Ingi Rafn Ragnarsson rekur það í grein sem er birt hér að neðan.

Ingi Rafn Á erfitt með að sætta sig við að maðurinn sem varð valdur að dauða föður hans fái að skilgreina karakter hans og skrifar hér til varnar föður sínum.

Grein Inga Rafns:

Morðið að Gýgjarhóli og sannleikurinn 

Frásagnir Vals Lýðssonar af kvöldinu örlagaríka eru orðnar ansi margar og mis skrautlegar. Upphaflega ætlaði hann að halda sig við að hann hefði komið að föður mínum um morguninn og að hann myndi óljóst eftir átökum. Hann minnti þó að faðir minn hefði átt upptökin og að þeir hefðu skilið sáttir um nóttina. Hann hefði svo komið að honum látnum um morguninn.

Hér er það sem raunverulega gerðist um nóttina.

Blóðferlarannsókn á vettvangi 

Blóðferlarannsókn á vettvangi og krufning á líki föður míns leiddi hvort tveggja mjög fljótt í ljós að fátt passaði við við frásögn Vals. Lítil sem enginn ummerki voru um átök á vettvangi. Augljóst var að atlagan í heild sinni fór fram í þvottahúsinu og allar blóðsletturnar voru neðan við mittishæð. Lögreglan áætlaði mjög fljótlega að föður mínum hefði verið komið að óvörum, hann sleginn mjög þungu höggi og strax fallið niður á fjóra fætur. Það getur lögreglan ályktað út frá blóðslettum á vettvangi, meðal annars á þvottavél. Þar traðkar Valur á pabba sem liggur á fjórum fótum, þar til pabbi missir hendurnar undan sér og fellur í gólfið. Blóðslettur sem spýttust út um munnvik föður míns og áverkar á andliti sýna að Valur traðkar á höfði föður míns eftir að hann fellur. Höggin eru það mörg og það þung að andlit föður míns var mjög illa farið. Það var þakið marblettum, nefið var skaddað, augun höfðu orðið fyrir hnjaski, stór skurður hafði myndast eftir endilöngu andlitinu og eftir að hafa ítrekað traðkað á annarri hlið föður míns mátti ekki miklu muna að eyrað hefði rifnað af enda myndaðist veglegur skurður aftan við það.

Það sem réttarmeinafræðingurinn Sebastian Kunz afhjúpar síðan fyrir héraðsdómi er sú staðreynd að Valur gerði hlé á árásinni. Blæðingin úr lifur föður míns passar ekki við eina samfellda árás og samkvæmt Kunz fyrir héraðsdómi gæti hafa liðið hálftími milli þess sem Valur traðkar á andliti föður míns og þar til hann fer hamförum og mölbrýtur rifbein föður míns með síendurteknu traðki annaðhvort að honum látnum eða við síðustu andartökin. Þetta getur Kunz fullyrt vegna þeirrar reynslu sem hann hefur sem réttarmeinafræðingur. Valur tekur því eitthvert hlé eftir að hafa traðkað á andliti föður míns en ákveður síðan að það sé betra að fullvissa sig um að pabbi sé örugglega dauður. Þessum upplýsingum hefur væntanlega verið haldið frá föðurbróður mínum. Fyrir dómi sá ég í andliti hans reiði, hneykslan og undrun að réttarmeinafræðingurinn hefði getað komist að þessari niðurstöðu við krufningu.

„Við hlið föður míns var fótspor í blóðpolli“

Þar sem ég þekki Val föðurbróður minn mjög vel þá veit ég að þetta var ekki undrun yfir ósvífni Kunz heldur miklu frekar forundran. Hvenær Valur sparkar í háls pabba og brýtur hann er ekki getið, hvort það tilheyri fyrri eða seinni árásinni. Árásin á kvið föður míns olli innvortis blæðingum og var hann í þykkri, gamalli peysu kvöldið sem hann var myrtur. Í henni var blóðblettur sem fór ekki saman við innvortis áverka og við nánari greiningu sást að hann var smurður í peysuna. Við hlið föður míns var fótspor í blóðpolli. Það er blóðpollurinn sem Valur hélt því fram að hann hefði stigið í um morguninn þegar hann athugaði með lífsmark pabba. Það var afhjúpað sem lygi fyrir dómi af þeim orsökum að þá væri ekki hægt að útskýra hvernig blóðbletturinn endaði í peysu pabba og neðan á sokki Vals. Í  ofanálag var mjög heitt í anddyrinu um morguninn og við þannig aðstæður myndast mjög fljótt þornunarmynstur í blóðpolla. Með því að skoða fótsporið geta blóðferlafræðingar augljóslega ályktað að Valur stígur í blóðið stuttu eftir verknaðinn um nóttina en ekki um morguninn.

Þarna afhjúpast lygi Vals um athugun á lífsmarki föður míns. Þetta fótspor vakti upp spurningar hjá lögreglu og sönnunargögnin á vettvangi koma ekki heim og saman við síbreytilega frásögn Vals, sem virtist fara eftir veðri og vindum. Lögreglan tekur þess vegna blóðferlarannsókn með luminoli á því sem næst öllu húsinu á Gýgjarhóli eftir að rannsókn átti að hafa verið lokið. Valur var með stóran blóðblett neðan á sokkunum sem er lengi að þorna og samkvæmt þeim sem þekkja til rannsókna af þessu tagi, þá hefði húsið allt átt að sporast út lengi á eftir. Það er vitað að Valur fer inn á bað, gang og svefnherbergi einhvern tíma um nóttina eða undir morgun. Til þess að komast þangað þarf að ganga í gegnum eldhús, langan gang og inn í herbergi. Þarna hefði átt að sjást langur sporaferill eftir Val um nóttina en niðurstaðan var ekkert lítið undarleg. Það fundust engin ummerki um neitt.

Þarna komst rannsóknarlögreglan á snoðir um það að Valur fer ekki inn í húsið fyrr en undir morgun eða seint um nóttina. Eldhúsið er næsta herbergi við anddyrið/þvottahúsið og hurðin sem pabbi snýr með höfuðið í átt að er útidyrahurðin. Þarna liggur orðið ljóst fyrir að annaðhvort stendur Valur yfir pabba megnið af nóttinni eða fer út.

Læknisskoðun á áverkum Vals 

Læknir skoðar Val eftir handtöku og eru áverkar hans flokkaðir undir skrámur með minni háttar blæðingum. Það voru teknar myndir af Val eins og venja er við slíkar aðstæður. Blóðtaumarnir úr þessum skrámum runnu upp í mót sem gefur augljóst merki þess að Valur hafi lagst út af mjög fljótlega eftir að hin meintu slagsmál áttu að hafa farið fram. Það sem passar ekki inn í eftirtalda frásögn er sú staðreynd að Valur er blóðugur neðan á sokkunum, hann á að hafa lagst útaf fljótlega eftir slagsmálin og það er vitað að hann fer inn í rúm um morguninn. Þar finnst bara blóð úr honum sjálfum. Hérna vandast málið. Fyrir staðkunnuga er það augljóst mál að þegar fullorðinn maður liggur þversum í anddyrinu á Gýgjarhóli þá er nánast ekkert pláss eftir fyrir annan mann til að leggjast niður. Þessa nótt lá faðir minn þvert í gegnum anddyrið og blóð úr höfði föður míns fyllti upp restina af mögulegum legusvæðum. Blóðferlagreining sýnir fram á að Valur fer ekki inn í hús fyrr en löngu síðar, þegar blóðið undir fótum hans er storknað. Ekki gat hann lagst í þvottahúsinu því þar var ekki pláss og til að fara inn í svefnhebergi Vals þarftu að ganga úr anddyrinu, gegnum eldhúsið og inn langan gang. Þar er blóð úr Val sem ætti ekki að vera löngu storknað fyrst Valur fer ekki inn fyrr en undir morgun.

„Versti hlutinn við morðið á föður mínum er að Valur hafi ekki bara getað sýnt föður mínum þá mannúð að stinga eða skjóta hann frekar enn að traðka hann til bana“

Þarna er orðið ljóst að það er fleiri klukkutíma tímarammi milli þess sem Ragnar faðir minn deyr og Valur fær sínar skrámur. Þess ber að geta að pabbi átti alla tíð auðvelt með að rispa og skrapa á sér hendurnar við vinnu en mánuðina fyrir morðið hafði pabbi setið við skrifborð við tilboðsgerð fyrir stórt verk og því unnið óvenjulítið með höndunum. Það var því það fyrsta sem við systkinin sáum, að hendurnar á pabba litu út eins og hann hefði verið nýkominn úr handsnyrtingu. Okkur var því ljóst á þeim tímapunkti að pabbi okkar hafði ekki lent í neinum áflogum, hann hafði einfaldlega verið drepinn. Réttarmeinafræðingur staðfesti að það voru engir áverkar, mar eða nokkur skapaður hlutur á föður mínum sem benti til þess að hann hefði slegið til Vals eða varið sig. Andlit föður míns var blátt og afmyndað.  Pabbi liggur þvert í gegnum anddyrið á Gýgjarhóli og lögregluna grunaði strax í upphafi að hann hefði verið sleginn með barefli í upphafi atlögunnar. Gerð var ítarleg leit en henni var síðan hætt á þeim forsendum að réttarmeinafræðingur taldi mögulegt að hægt væri að valda áverkum föður míns með berum höndum og fótum. Þá er árásin talin svo ofboðslega heiftúðug að lögreglan taldi barefli hvort sem er ekki hafa mikið að segja við málsmeðferð.

Það er skemmst frá því að segja að versti hlutinn við morðið á föður mínum er að Valur hafi ekki bara getað sýnt föður mínum þá mannúð að stinga eða skjóta hann frekar enn að traðka hann til bana. Þá er rétt að það komi fram að traðkið er metið honum til refsilækkunar fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Til viðbótar hafa verjendur Vals farið mikinn með þá staðreynd að Valur hafi ekki beitt 4 cm vasahnífnum, sem hann gengur alltaf með, við slátruninuna  á föður mínum og þess vegna geti þetta ekki talist til manndráps.

Nú höfum við farið í gegnum nokkra punkta í lögreglurannsókninni. Þrátt fyrir endalausar hagræðingar Vals á frásögn sinni þessa nótt, er hún ekki enn farin að ríma við sönnunargögnin á vettvangi og krufningu föður míns.

Samband bræðranna 

Hér er atburðarásin eins og hún átti sér stað þessa nótt:

Það hefur enginn haft meiri þolinmæði og langlundargeð gagnvart föðurbróður mínum í gegnum áratugina en hann pabbi. Eftir því sem Valur  hefur elst hefur sífellt fleira og fleira fólk hætt umgengni við hann. Sumir vegna ofbeldisbrota og aðrir vegna þess að þeir hafa einfaldlega fengið nóg af heimtufrekjunni, barnalegri þrjóskunni, þörfinni fyrir að hafa alltaf rétt fyrir sér og oft á tíðum hranalegrar framkomu. Þrjóskunni, sem alltaf hefur verið svo sterk að Valur hefur rifist þar til viðmælandinn gefst upp. Uppgjöf viðmælandans hefur alltaf verið honum mikilvægari heldur en sannleiksgildi eða réttmæti frásagnarinnar og hefur fólki sem upplifir Val sem rudda í framkomu því fjölgað með hverju árinu. Þetta er það sem hefur einkennt Val alla tíð og allir sem kynnst hafa Val þekkja þessa hlið á honum. Þetta hefur alltaf verið tengt við einsetumann sem býr afskekkt og enginn lagt frekari merkingu í það. Það er ekki fyrr en í dag sem ég átta mig á því að þetta stórfurðulega háttarlag Vals, sem einkennir hann og hefur orðið til þess að vaxandi fjöldi fólks hefur forðast hann í gegnum árin, er ekki eðlileg fyrir einstæðing eða nokkurn annan. Eftir því sem fleiri og fleiri fjarlægðust Val þá fjölgaði pabbi heimsóknunum til hans enda held ég að pabbi hafi verið eini maðurinn sem hefur tekið þessari ofstækisfrekju og dyntum með jafnaðargeði. Þakklætið er svo sýnt með því að móðga föður minn, drepa hann og síðan leggja sig allan fram um persónuníð.

„Ég hef haft samband við fjölda fólks sem þekkt hafði föður minn frá tvítugu til að fullvissa mig um að eðli föður míns hafi alltaf verið eins“

Þar sem ég þekkti báða málsaðila vel er atburðarás þessa kvölds augljós fyrir mér og okkur systkinunum. Það eru mjög fá mál sem hefðu getað valdið því að pabbi stendur upp og er á förum þessa nótt. Aðdróttanir eða niðrandi ummæli í garð fjölskyldumeðlima föður míns er það sem kemur til greina. Þetta veit ég því pabba þekkti ég vel. Ég hef haft samband við fjölda fólks sem þekkt hafði föður minn frá tvítugu til að fullvissa mig um að eðli föður míns hafi alltaf verið eins. Viðbrögðin við frekju og ofstæki Vals þetta kvöld voru að standa upp og fara, eins og hann hafði gert margoft áður. Það er ástæða þess að Valur ræðst á hann og slátrar honum við útidyrahurðina, með höfuðið í átt að útidyrahurðinni, en ekki í eldhúsinu. Árásir Vals hafa alltaf verið eins í gegnum tíðina; tilefnislausar, kaldar og algjörlega upp úr þurru enda einn af viðurkenndum þáttum siðblindu. Verksummerki á vettvangi, rannsókn á vettvangi og krufning gefa greinargóð ummerki um þetta.

Valur ræðst að föður mínum og kemur honum að óvörum og lemur hann niður á fjóra fætur. Þá traðkar Valur á honum þangað til faðir minn limpast niður og leggst út af flatur. Þar traðkar Valur ítrekað á andliti föður míns og sparkar svo fast í háls hans að hann hálsbrotnar. Svona átök reyna mjög mikið á þol einstaklings og því tekur hann því nokkurra mínútna pásu. Hann  vill síðan fullvissa sig um að hann hafi örugglega drepið föður minn og því hefst hann handa við að margtraðka á rifbeinum föður míns og hættir ekki fyrr en rifbeinin eru komin í mél. Einhvers staðar í miðjum hamagangnum stígur hann í blóðpoll föður míns og smyr blóði á þykku peysuna sem hann var í. Eftir að Valur hefur loksins fengið sína útrás fer hann annaðhvort út eða stendur í fleiri klukkutíma yfir föður mínum á meðan hann ræður ráðum sínum. Eftir nokkrar hagræðingar á vettvangi fer hann inn í rúm þar sem hann veldur sjálfum sér áverkum á andliti og brýtur gleraugun sín.    

Ábyrgð varpað á þann látna 

Valur hefur frá því í upphafi gert allt til að neita ábyrgð. Í símtali við Neyðarlínuna reynir hann að útskýra og leggja áherslu á að lögreglan verði að vera hæf sínu starfi og megi ekki draga ályktanir um að morð hafi verið framið, þótt allt bendi til þess. Þetta símtal fór fram áður en lögreglan mætti á svæðið.

„Í símtali við Neyðarlínuna reynir hann að útskýra og leggja áherslu á að lögreglan verði að vera hæf sínu starfi og megi ekki draga ályktanir um að morð hafi verið framið“

Valur fer einnig mjög snemma í ferlinu að halda því fram að pabbi hafi tryllst, hann hafi bara orðið að svara fyrir sig og það hefði endað svona. Pabbi á að hafa ráðist á Val og í sjálfsvörn traðkaði Valur hann til bana. Lengi framan af var Valur að impra á því við lögreglumennina hvenær þeir héldu að hann kæmist heim, hvort það yrði í dag eða á morgun, og skömmu síðar finnur hann því allt til foráttu að hluti rannsóknarinnar myndi bíða fram yfir páska, því það þýddi að hann kæmist seinna heim. Í gegnum allar yfirheyrslunar, í samskiptum við lögmennina sína, réttarmeinafræðing og fyrir framan dómara hefur hann lagt fullan þunga á að útskýra afhverju pabbi hafi átt sök á atburðum næturinnar. Sú frásögn hefur tekið stakkaskiptum frá síðustu páskum og gerir enn.

Valur lét sér ekki nægja að vera með yfirlýsingar við yfirheyrslur því þegar gæsluvarðhaldinu var aflétt var það hans fyrsta verk að safna sér stuðningsmönnum. Ekki veit ég hvort þau trúðu lyginni strax í upphafi en þau hafa allavega sinnt vel því hlutverki að vera stuðningur við kaldrifjaðan morðingja og lygara og aldrei slegið af skömmum og svívirðingum í garð okkar systkinanna. Ég veit það þó fyrir víst að síðustu skrif mín hafa ekki valdið iðrun, samkennd eða eftirsjá hjá öllu þessu fólki, heldur heift yfir því hvað ég sé ósvífinn að tjá mig um raunir okkar systkinanna. Það var undarleg tilfinning til að byrja með þegar við fengum veður af því að hinir og þessir fóru að gerast tíðir heimsóknargestir hjá Val. Það var óneitanlega sérstök tilfinning að horfast í augu við það að fólk væri tilbúið að standa við hlið morðingja gegn okkur. Skynsemin sagði okkur að láta það sem vind um eyrun þjóta þrátt fyrir mikla reiði. Upphaflega vorum við svo barnaleg að trúa því að þetta fólk gæti stillt sér upp á miðjunni, sýnt Val samkennd og verið honum til staðar en svo hjálpað honum að átta sig á því hvað hann væri búinn að gera.

Það var önnur og enn undarlegri tilfinning þegar fóru að berast sögur og frásagnir af atburðum þessa kvölds í beinni mótsögn við rannsókn málsins. Fyrst var því haldið fram að pabbi hefði dáið brennivínsdauða frammi í anddyri, næsta útgáfa var sú að þeir hafi slegist og pabbi dáið seinna um nóttina og sú útgáfa fór af stað eftir að lögreglan var búin að komast að því að Valur drap hann í anddyrinu. Í þriðju útgáfunni var því staðfastlega haldið fram að þetta hefði verið sanngjarn slagur en pabbi hefði bara orðið undir. Það passar ekki við líkamsburði beggja aðila, því pabbi var nautsterkur og í toppformi en Valur búinn að veslast heilmikið upp síðastliðin tíu ár. Samhliða öllu þessu fór svo fram fréttafluttningur af málinu sem var frekar skrýtinn og okkur varð fljótt ljóst að það var eingöngu málsvörnin sem kom fór í fjölmiðla.

„Síðustu skrif mín hafa ekki valdið iðrun, samkennd eða eftirsjá hjá öllu þessu fólki, heldur heift yfir því hvað ég sé ósvífinn að tjá mig um raunir okkar systkinanna“

Sem dæmi má nefna daginn sem lögreglan fékk staðfest frá réttarmeinafræðingi að Valur hefði traðkað pabba til bana í þvottahúsinu. Eina frétt dagsins var sú að pabbi hafi neytt Val til að fá sér í glas, enda hafi Valur verið hættur að drekka. Ásetningur Vals til að stunda bindindi fór framhjá Erni Lýðssyni sem var með þeim í byrjun kvöldsins örlagaríka. Andmæli Vals gegn áfengisneyslu voru þá ekki kröftugri en svo.

Svona hélt þetta áfram í fleiri mánuði. Eftir því sem rannsóknin þokaðist áfram gerðum við okkur vonir um að þetta fólk og föðurbróðir minn tækju að sjá að sér og þessu afneitunarástandi myndi ljúka. Við töldum strax í upphafi að besta leiðin væri að láta þetta óafskipt en það átti eftir að reynast ein stærstu mistök okkar. Alltaf urðu sögusagnirnar svæsnari og svæsnari og það virtist sem föðurbróðir minn og sértrúaðarsöfnuðurinn í kringum hann tækju svaraleysi okkar sem fríu spilaborði. Sögurnar tóku þá einnig breytingum eftir því efni sem barst í fjölmiðla, staðfestan var ekki meiri en það.  Sögurnar fóru úr því að þeir hefðu rifist um kvöldið yfir í það að pabbi hefði kafnað í eigin ælu í þvottahúsinu. Forsenda þeirrar sögu var krufning og niðurstaða réttarmeinafræðingsins Kunz, að eftir ítrekuð höfuðhögg fékk pabbi heilahristing sem framkallaði uppköst sem hann náði ekki að koma frá sér.

Ósvífið fólk, og Valur sjálfur, hefur síðan með versnandi málstað ekki hikað við að reyna að ljúga því að Valur hafi einungis verið að reyna endurlífgun með seinni árásinni, þar sem hann traðkaði á rifbeinum hans.  Þá á hann að hafa stigið í blóðpollinn við að athuga með lífsmark föður míns, sem nú er orðið ljóst að hann laug því til líka. Valur og sértrúnaðarsöfnuðurinn hafa ekki verið að láta sanngirni, samkennd, sannleika né sönnunargögn þælast mikið fyrir sér. Samhliða ærumeiðingum og lygum varðandi atburði þessarar nætur, var nærtækast að ganga alla leið. Bæði Valur og þetta fólk hafa lagt nótt við nýtan dag við að gera föður mínum upp ótrúlegustu sakir. Valur gengur síðan svo langt við yfirheyrslur, vitandi það að við systkinin munum ekki fá málsskjölin í okkar hendur, að hann reki minni til að eitthvert okkar systkinanna hafi sagt honum nýlega frá því að pabbi hafi tryllst í gleðskap og að við höfum eytt kvöldinu í að róa hann niður. Þetta segir Valur eingöngu til þess að ýta undir að ekki hafi verið óalgengt að faðir minn trylltist. Þetta eru augljóslega upplognar ásakanir manns sem tekur enga ábyrgð á verkum sínum og hefur aldrei gert. Við systkinin vitum að þetta er tilhæfulaust en ef eitthvað hefði verði til í þessu þá hefðum við aldrei farið að ræða það við margfaldan ofbeldismann á borð við föðurbróður okkar.

„Eftir því sem rannsóknin þokaðist áfram gerðum við okkur vonir um að þetta fólk og föðurbróðir minn tækju að sjá að sér og þessu afneitunarástandi myndi ljúka“

Yfirheyrslurnar yfir Val eru vægast sagt fróðlegar. Þar koma fram mál sem Valur hefur í áratugi ekki þóst muna eftir hentugleika, en eru ekki gleymdari en svo að hann heimfærir það á pabba. Þegar maður heldur að Valur geti ekki sokkið dýpra þá tekur hann upp á því að yfirfæra alla sína ofbeldishneigð yfir á föður minn og samtímis eigna sér margar af meginreglum föður míns sem hann hefur gagnrýnt og hlegið að í áratugi. Enda hentar hans eigin hegðun ekki við réttarmeðferð.

Niðurstaða réttargeðmats 

Við rannsókn svona mála er geðmat oft nauðsynlegt. Við systkinin þekktum ekki vel til slíkra mála en vissum þó að margt athyglisvert ætti eftir að koma þar í ljós hjá Val. Við höfum reyndar alla tíð vitað það en þó ekki vitað hversu slæmir hlutirnir raunverulega eru fyrr en eftir morðið á föður okkar. Það reyndist okkur einskonar vakning. Niðurstaða réttargeðmats átti þó eftir að gera fleiri en okkur kjaftstopp, því þrátt fyrir fjölda ofbeldisverka sem Valur hefur gerst sekur um undanfarna áratugi var einungis bent á tvö til þrjú tilvik þar sem hann hafi mögulega reiðst óhóflega. Maður sem þónokkrum sinnum hefur tekið slíkan skapofsatrylling að engu lagi er líkt. Samferðamenn Vals í hestaferð sáu sér til dæmis þann kost einan að kefla Val og geyma bundinn yfir nótt, eftir skapofsakast þar sem hann snöggreiddist og ætlaði sér að drepa mann. Árásin kom upp úr þurru og af tilefnislausu.

Vítavert kæruleysi og áhættuhegðun gerði það að verkum að Valur hefur áður verið hársbreidd frá því að bana föður mínum. Öll sérviskan, allir kækirnar, áhættuhegðunin og frumlegar og hneykslanlegar aðferðir við aflífanir á dýrum; þetta eru þættir sem einkenna Val og allir sem hann þekkja kannast við. Þessir þættir komu ekki fram við réttargeðmat. Til víðtækari greiningar á geðslagi Vals voru kallaðir til tveir vinir hans, þeir sem fremstir hafa farið í flokki stuðningsmanna Vals og við ærumeiðingar föður míns. Þrátt fyrir að þeir hafi margoft hneykslast á hegðun Vals í gegnum tíðina og þá sérstaklega þá hegðun hans að þykjast ekkert muna daginn eftir drykkju, mæta þeir báðir í viðtal til geðlæknis, fullyrða þeir að Valur hafi oft þjáðst af minnisleysi eftir drykkju. Ég hef persónulega heyrt þá gagnrýna og stundum hlæja að þessari barnalegu hegðun, að réttlæta gjörðir sínar með minnisleysi daginn eftir. En við réttargeðmat frömdu þeir meinsæri og könnuðust báðir við að Valur missti oft minnið þegar hann fengi sér í glas. Niðurstaða réttargeðmatsins var auðvitað í takt við forsendur, þökk sé vandlega samhæfðum aðgerðum. Þeir  pössuðu sig samt á að segja eitthvað neikvætt og niðurstaðan var sú að Valur ætti sér enga forsögu ofbeldisbrota og mjög lítið í fari hans áður benti til viðlíka hegðunar. Með meinsæri tveggja vitna var minnisleysi við drykkju staðfest. Hegðun hans þetta kvöld væri því ekki hægt að útskýra að neinu leyti nema vegna þess að hann var undir áhrifum áfengis.

„Ég hef persónulega heyrt þá gagnrýna og stundum hlæja að þessari barnalegu hegðun, að réttlæta gjörðir sínar með minnisleysi daginn eftir“

Einhverjir, allavega sértrúnaðarsöfnuðurinn í kringum Val, munu halda því fram um aldur og ævi að Valur sé dæmi um mann sem hefði bara átt að hætta að drekka fyrir löngu. Eðli Vals afhjúpast þó ekki bara við drykkju. Eitt af einkennum þess sem þjáist af siðblindu er stjórnleysi með víni en þó einnig þegar einstaklingur er allsgáður. Valur á fjöldamörg slík dæmi. Þar má nefna þegar bróðir minn fór í heimsókn til Vals og umrætt þvottahús var í blóðslettum upp um alla veggi. Þá hafði Valur slátrað flækingsketti, sem fór í taugarnar á honum, með barefli sem á einhvern undarlegan hátt setti blóð út um allt. Annað dæmi er óumdeilanlega bréfið sem hann, 33 ára, sendi 19 ára frænku sinni, sem þá stundaði nám við Menntaskólann á Laugarvatni. Hann byrjaði á að útlista hvað hann væri hrifinn af henni. Síðan bauð hann henni að gerast frilla sín og endaði bréfið á að honum þætti réttast að vara hana við, því ef hann fengi tækifæri til væru sterkar líkur á því að hann stæðist ekki freistinguna og nauðgaði henni. Hún hefur allar götur síðan haft varan á sér í samskiptum við þennan mann.

Sýnir enga iðrun 

Eftir að hafa lesið okkur til og ráðfært okkur lauslega við sérfræðinga er okkur hreint ekki skemmt. Einföldustu kækir, hegðun og atferli föðurbróðar okkar eru einkenni sem geðlæknar nota til að meta siðblindu. Þættir eins og hegðun hans í garð annarra sem hann metur sér æðri, hvernig hann beitir augnsambandi sem stjórnun, frásagnarstíll og hvernig hann vekur eftirvæntingu með frásagnarstílnum, sem allir sem hafa kynnst honum þekkja, eru allt saman undireinkenni siðblindu. Í rauninni er það svo að þau einkenni siðblindu sem hann uppfyllir ekki að öllu leyti eru vandfundin. Hann sýnir algjöran skort á eftirsjá og sektarkennd og hann virðist líta svo á að atburðir þessarar nætur séu að öllu leyti föður mínum að kenna, þrátt fyrir að hann hafi ráðist á bróður sinn og traðkað til bana. Niðurstaða geðlæknis staðfesti valkvætt minni Vals sem ítrekað minnisleysi og að engin fyrri dæmi fyndust um slíka hegðun hjá honum.

Sé einhver enn í vafa, þá taka viðbrögð Vals fyrir dómi af allan vafa, því þar gat hann ekki stillt sig um að skælbrosa. Valur sýndi einungis í tvígang svipbrigði við alla málsmeðferðina fyrir héraðsdómi og þetta var fyrra skiptið. Ég þekki þetta bros og hef séð það ósjaldan.  Val hafði tekist að leysa erfitt verkefni algjörlega sér í hag. Niðurstaðan var svo hagstæð honum að hann gat ekki stillt sig um að brosa. Seint teldist ég hafa sérfræðiþekkingu á geðsjúkdómum en ég myndi telja það sjálfgefið að eitthvað hafi farið úrskeiðis við réttargeðmat þegar maður sem er sakaður um að drepa bróður sinn getur ekki stillt sig um að brosa yfir niðurstöðu réttargeðmats.

„Ég þekki þetta bros og hef séð það ósjaldan. Val hafði tekist að leysa erfitt verkefni algjörlega sér í hag.“

Furðuleg niðurstaða geðmats er eitt en annað er hvað úr því var gert. Meinsæri vina Vals og hans sjálfs varð til þess að ofbeldissaga hans var á þá vegu að ekkert í fari hans fyrir föstudaginn langa hefði getað undirstrikað svona hegðun. Framburður þeirra þriggja var notuð sem forsaga Vals og þar sem ekkert var að finna þar samkvæmt þeim, var Valur talinn alheilbrigður á geði.

Undir lok réttarhaldanna sat réttarmeinafræðingurinn fyrir svörum. Sebastian Kunz er kennari í réttarmeinafræði og mikill nákvæmnismaður. Fyrir dómi heyrðust einungis þrjár útgáfur af svörum og öll jafn ákveðin; já og löng röksemdarfærsla í kjölfarið, það er ekki hægt að greina það í þessu tilviki og forsendur þess, og síðan neitun og á hvaða forsendum.

Eftir dramatíska yfirferð á ensku sem þýdd var samtímis yfir á íslensku var farið í gegnum morðið á föður mínum skref fyrir skref. Tíminn sem við systkinin höfðum beðið eftir í sex mánuði. Opinberun krufningarinnar yrði til þess að áróðurinum, persónuníðinu og rógburðinum í garð föður okkar myndi loksins ljúka. Viðbrögðin voru dramatískari en við áttum von á. Blaðamennirnir hættu að skrifa og voru sem steinrunnir, laganemar sem fylgst höfðu með, yfirgáfu salinn grátandi og sjálft fólkið sem er búið að sýna okkur yfirgengilegan hroka, frekju og stundað grófan rógburð í garð föður míns táraðist og átti erfitt með að fylgjast með. Sá eini sem sýndi lítil viðbrögð í réttarsalnum var Valur sjálfur. Okkar væntingar um að sannleikurinn kæmi loksins fram í heilu lagi varð þó að engu þar sem blaðamennirnir sem staddir voru í réttarsal voru í of miklu ójafnvægi til að fylgjast með. Þarna fékkst staðfesting á því sem við systkinin höfum heyrt frá fagaðilum sem starfa við morðmál; að morðið á föður okkar skipast í flokk með ljótustu morðum sem hafa verið framin í seinni tíð. Tárvot og frosin andlit reyndra blaðamanna við réttarhöldin voru endanleg staðfesting okkar á því.

Réttarmeinafræðingur greindi auðvitað frá dánarorsök fyrir Héraðsdómi. Eftir ítrekuð högg og traðk á höfði föður míns áttu sér stað miklar inn- og útvortis blæðingar og heilahristingur. Hann liggur meðvitundarlaus á gólfinu eftir höfuðhöggin og kastar upp, það eru eðlileg viðbrögð við heilahristingi. Þar sem hann er meðvitundarlaus þá nær hann ekki að koma því frá sér og kafnar með kokið fullt af ælu. Þá bætti réttarmeinafræðingur því við að hefði ekki verið fyrir þessa dánarorsök þá hefði einhver hinna lífshættulegu áverkanna gert það. Til viðbótar við höfuðáverkana var hann hálsbrotinn, rifbeinin stungust inn í annað lungað og gegnum lifur. Sebastian Kunz fullyrðir fyrir dómi að hefði höfuðáverki föður míns ekki dregið hann til dauða þá hefði lifrarblæðingin gert það og hinir áverkarnir hafi að auki verið lífshættulegir. Eins og við má búast spyr verjandi Vals réttarmeinafræðing hvort áfengi hafi átt þátt í dauða föður míns. Kunz fer þá í gegnum áverka föður míns aftur og svarar því síðan til að áverkarnir hafi verið svo alvarlegir að það hefði ekki haft nein áhrif, en eftir ítrekun frá verjanda Vals svarar hann því auðvitað til að áfengismagn í blóði hjálpi aldrei til í svona málum. Það hafi þó ekki nein úrslitaáhrif enda væru fleiri lífshættulegir áverkar en bara heilahristingurinn sem faðir minn fékk. Þessu til viðbótar upplýsir Kunz réttinn að árásirnar á föður minn voru tvær en ekki ein þessa nótt, það verður til þess að föðurbróðir minn snöggreiðist og virðist mjög hissa. Þetta var seinna skiptið sem hann sýndi viðbrögð fyrir dómi.

„Því til viðbótar upplýsir Kunz réttinn að árásirnar á föður minn voru tvær en ekki ein þessa nótt“

Mannorðið svert

Allt frá morðinu á föður mínum hefur fólkið í kringum Val unnið að því hörðum höndum að sannfæra sem flesta um að dánarorsök föður míns hafi verið áfengisneysla og uppköst um nóttina. Þó að meira og meira sé upplýst varðandi atburði næturinnar hefur ekki hvarflað að fólkinu í kringum föðurbróður minn að hætta þessum fáránlegu réttlætingum og útskýringum heldur er sami boðskapur borinn út með vaxandi örvæntingu og heift. Þessi orðrómur er sá sem kom einna fyrst á kreik og það er ekki fyrr við systkinin fórum að svara fyrir okkur sem hann fór að missa hljómgrunn.

Þrátt fyrir útlistun réttarmeinafræðings á áverkum pabba kemst Héraðsdómur Suðurlands að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að líta framhjá því að áfengismagn föður míns hafi átt þátt í dauða hans og þar með gefur dómurinn sér forsendur sem réttarmeinafræðingur neitar að staðfesta. Það er mjög sérstakt að sitja undir því að Héraðsdómur Suðurlands komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir ítrekað traðk á föður mínum, miklar blæðingar, innvortis og útvortis, mikinn blóðmissi, hálsbrot, brotin rifbein sem stingast í gegnum lifur og valda ofsalegum blæðingum og gati á lunga, þá væri pabbi í raun lífs í dag. Það var niðurstaða Héraðsdóms. Hefði pabbi ekki fengið sér í glas með manni sem hann hefði ekki getað gert sér í hugarlund að myndi slátra sér í sturlunarkasti á leið út af heimilinu þessa nótt, þá væri hann lifandi enn í dag. Ólíkt öllum öðrum sambærilegum tilvikum þeirra sem hljóta slíka áverka er niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands þvert á vitnisburð réttarmeinafræðings.

Breyttur framburður 

Þrátt fyrir að framburður Vals hafi enn tekið breytingum fyrir málflutning í Landsrétti, þá stangast hann ennþá á við öll sönnungargögn á vettvangi. Nýjasta útskýring Vals er að ráðast af sem mestum mætti á framburð réttarmeinafræðings og gera honum upp eins annarlegar forsendur og hann getur. Þarna er hann að gera réttarmeinameinafræðingnum það sama og hann hefur gert okkur systkinum og föður okkar undanfarið ár. Þar sem honum mistókst í Héraðsdómi að sýna fram á átök um nóttina er nýja útgáfan sú að faðir okkar hafi, þrátt fyrir að hafa verið á leiðinni út úr húsi, skallað Val svo harkalega að hann varð sjálfur meðvitundarlaus.

„Þarna er hann að gera réttar­meina­fræðingnum það sama og hann hefur gert okkur systkinum og föður okkar undanfarið ár“

Pabbi, sem var mjög jafnlyndur maður, á að hafa ráðist á mann sem þekktur er fyrir skapofsa og tryllingsköst, en að sá síðarnefndi hafi þó haldið ró sinni þetta kvöld. Eftir að pabbi rotaði sjálfan sig hélt sjálfsvörn ofbeldismannsins áfram og traðkaði hann því föður minn til bana með góðri pásu á milli. Valur hefur alveg frá fyrstu yfirheyrslum beitt öllum bolabrögðum sem hann er fær um til að sverta ímynd föður míns. Við systkinin erum ekki undanskilin sem skotspónn í þeim réttlætingum. Fljótlega eftir að pabbi var drepinn óskaði elsti bróðir minn eftir því að hitta Val og ég gerði slíkt hið sama tveimur vikum seinna. Því var að sjálfsögðu hafnað en auðvitað kvisuðust út sögusagnir frá stuðningsmönnum hans þess efnis að hann hefði reynt allt til að hitta okkur og sækjast eftir einhverskonar fyrirgefningu en við hefðum verið honum fjandsamleg og neitað að hitta hann. Þá nefndi hann okkur sem heimild fyrir ofbeldishneigð föður okkar við yfirheyrslur sem átti sér auðvitað enga stoð í raunveruleikanum.

Við vitnisburð sinn fyrir dómi var Valur minntur á sannsögli við vitnisburð. Við systkinin sáum auðvitað strax að svo var ekki tilfellið nema fyrstu tvær mínúturnar þegar kaflanum um bremsuviðgerðir lauk. Ég get ekki sagt að það hafi verið auðveld staða að sitja undir löngu máli um hvernig atburðirnir þetta kvöld hefðu æxlast, sem voru uppspuni frá rótum og pössuðu hvorki við persónu föður míns, né Vals. Undir lok langs vitnisburðar horfir Valur í andlit dómarans og tilkynnir honum að þrátt fyrir staðfestingu við réttarmat um að hann hefði aldrei fundið fyrir söknuði til neins þá hefði hann átt mjög erfitt og fyndi fyrir miklum söknuði til föður míns. Svo miklum að hann hefði ekki einu sinni treyst sér að opna málskjölin til að kynna sér sönnunargögnin. Þetta segir hann og horfir beint í augun á dómaranum. Þetta kom okkur í opna skjöldu. Þarna vorum við systkinin enn orðlausari en áður og jókst það síðan þegar hann fer beint í sætið sitt að lokinni yfirlýsingu sinni, tekur báðar möppurnar með málskjölunum úr höndum lögfræðings síns, lítur á kjölinn á þeim og velur aðra þeirra og flettir beint í miðja aðra möppuna með málsgögnunum að myndum sem hann þurfti að benda verjanda sínum á. Föðurbróðir minn, sem hafði ekki treyst sér til að skoða gögnin fram að þessu, fletti beint á réttan stað í tæplega 900 blaðsíðna málsgögnum og dómarinn sem skipaður var við réttinn horfði á hann allan tímann. Þarna sýndi Valur að hann var vel að sér í gögnunum, hafði undirbúið vörn sína vel og laug því augljóslega fyrir dómi. Hann hafði sannarlega kynnt sér gögnin.

„Ég get ekki sagt að það hafi verið auðveld staða að sitja undir löngu máli um hvernig atburðirnir þetta kvöld hefðu æxlast“

Ég hef mikið hugsað hvort þetta sé af sama meiði og þau hatursfullu augnaráð sem hann hefur nýtt hvert tækifæri til að sýna okkur í þau skipti sem dómari yfirgefur réttarsalinn. Ég hef reyndar ekki enn áttað mig á hvort það sé til þess fallið að hóta okkur eða hvað, en hann skilur allavega ekki af hverju við erum honum svona reið.

Að iðrast en krefjast sýknu  

Vörn föðurbróður míns hefur snúist um ósannindi, lygar, rógburð og rangar sakargiftir í garð föður míns og persónuárásir á okkur systkinin. Öllum bolabrögðum sem Valur er fær um að upphugsa hefur verið beitt. Vörn Vals hefur gengið út á að krefjast sýknu, reyna að sýna fram á að einhver annar gæti hafi verið að verki en samt segist hann iðrast gjörða sinna. Hvernig fer það saman að krefjast sýknu og iðrast gjörða sinna? Sjálfsagt þarf maður að vera búinn að leggja stund á lögfræði í fleiri ár til að skilja hvernig það komi heim og saman. Þrátt fyrir að útgáfur Vals á atburðum þessa kvölds séu farnar að telja í tugum er því haldið fram fyrir dómi að hann hafi verið heiðarlegur og samstarfsfús.  

Eitt af sérsviðum Vals í gegnum tíðina hefur án efa verið aflífun á skepnum. Hann hefur stúderað heilahvel, slagæðar, staðsetningu á hjörtum og þar fram eftir götunum í flestum skepnum. Einstakur persónukuldi Vals og hefur gert það að hann hefur sérstakt yndi af aflífunum á skepnum. Þetta hafa ekki alltaf verið viðurkenndar aðferðir og ýmsum áhöldum hefur verið beitt í gegnum tíðina, stundum með þeim afleiðingum að eigendum skepnanna sundlaði. Dómsorð Héraðsdóms komu því okkur verulega á óvart. Dómurinn metur það svo að Val hefði ekki mátt verða ljóst að bani hlytist af með því að traðka ítrekað á föður mínum, taka sér góða pásu og halda svo áfram. Ég vitna í orð eins sem komið hefur að máli við mig eftir að dómur féll og þekkir Val mjög vel: Ef Valur er ekki talinn fær um að vita hverjar afleiðingar svona árásar eru, þá er það enginn.

Þrátt fyrir að skiptin sem Valur hefur næstum því orðið föður mínum að bana telji orðið þrjú; eitt af gáleysi og tvö af ásetningi,  að ógleymdum löngum, földum ofbeldisferli, þá er það ekki nóg til að vera dæmdur fyrir manndráp. Héraðsdómur gengur svo langt að meta það Val til refsilækkunar að hann hafi ekki stungið eða skotið, einungist traðkað hann til bana. Pabbi fékk versta dauðdaga sem hugsast getur og það er metið morðingjanum til refsilækkunar.

Þó maður líti framhjá því að morðið á föður mínum kallist líkamsárás, þá höfum við systkinin ekki komist hjá því að hugsa þessa einföldu staðreynd:

- Refsiramminn í líkamsárásarmálum er 16 ár. Valur réðist tvisvar sinnum á pabba og traðkaði hann til bana.
- Þrátt fyrir að dómsmálið sé komið á 2. stig í réttarkefinu kemur framburðurinn ekki enn saman við rannsókn.
- Valur hefur eytt öllum sínum tíma í rógburð og samhæfingu á frásögnum.
- Héraðsdómur Suðurlands metur það sem svo að hann skuli sæta sjö ára fangelsisvist.

Þar með var það staðfest, svona meðferð kallar á einungis sjö ára fangelsisvist. Ég hef ekki getað hætt að hugsa um hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að ná hálfum rammanum, átta árum, og hvað þá 16 árum. Mig einfaldlega skortir hugmyndaflug hvernig líkamsárás verður verri en sú sem hér um ræðir.

„Pabbi fékk versta dauðdaga sem hugsast getur og það er metið morðingjanum til refsilækkunar“

Sé þetta niðurstaðan, þá er ljóst að mál föður míns er orðið fordæmisgefandi varðandi eftirtalin atriði:

  • Upplogið minnisleysi og upplogin eftirsjá er metin til sannsögli við málsmeðferð, þó svo viðmælandi breyti oft frásögn til að fegra atburði. Sakborningi er frjálst að muna og upplýsa um atburði eftir hentugleika en heldur samt ímynd heiðarlegs manns.

  • Það eru engin viðurlög við því að sakborningur fremji meinsæri við vitnisburð undir vökulu augu dómara.

  • Áfengisprósenta er metin til refsilækkunar. Því er mikilvægt að hella mann fullan fyrst, áður en þú drepur hann. Aðferðir skipta engu.

  • Persónuárásir, lygar og rógburður gera ekkert nema bæta málstað, sama hvort það er við yfirheyrslur eða í garð aðstandenda.

  • Og síðast en ekki síst. Ætlirðu þér að drepa einhvern þá er mikilvægt að nota annaðhvort engin áhöld eða fela morðvopnið. Sama hversu hrottalegt morð er, þá dugir það ekki til ákæru nema morðvopn finnist á vettvangi.

Sjálfsvorkunn viðurkennd sem iðrun

Íslenska lögreglan er mun færari í rannsókn í svona málum en ég þorði að vona og lögreglunni hefur tekist að afhjúpa atburðarás næturinnar nokkuð vel. Það er eftirfylgninni sem er ábótavant. Ég geri Héraðsdómi Suðurlands ekki upp annarlegar forsendur. Robert Hare, helsti sérfræðingur nútímans í siðblindu, fullyrðir að helstu sérfræðingum og þar með talið sér sjálfum geti yfirsést siðblinda hjá færustu einstaklingunum. Siðblinda er sennilega erfiðasti geðsjúkdómurinn í greiningu en með vandlegri samhæfingu hefur Val tekist að fela sitt rétta eðli og gera sér upp sektarkennd. Siðblindum einstaklingum tekst auðveldlega að vekja samúð annarra  en þeir eru ófærir um að vorkenna öðrum en sjálfum sér. Föðurbróður mínum hefur tekist að fá sjálfsvorkunn sína viðurkennda sem iðrun og á þeim forsendum er hann dæmdur. Ég vissi af þessu fyrir málsmeðferð og gerði mér vonir um að rannsóknargögn lögreglu yrðu framburði og leikþætti föðurbróður míns yfirsterkari en sú varð ekki raunin.

Valur skilur ekki enn þann dag í dag af hverju við systkinin erum honum svona reið. Sama dag og hann hélt lygaræðuna um atburði næturinnar hittum við hann fyrir utan réttarsal þar sem hann var á leið í lögreglubíl. Þar gerir hann tilraun til að taka í hendina á okkur systkinunum og er hinn eðlilegasti. Óli, elsti bróðir minn, þrumar yfir hann hvort hann geri sér enga grein fyrir því hvað hann sé búinn að gera. Viðbrögðin komu okkur öllum á óvart, Valur bæði snöggreiddist ósvífninni og tilkynnti okkur að hér með fari öll okkar samskipti í gegnum lögfræðinga sem var þó ekki mikil breyting frá fyrri mánuðum. Allar götur síðan hefur Valur farið mikinn um ósvífni okkar systkinana og gerir sér engan veginn grein fyrir hversvegna við erum svona ofsalega reið í hans garð. Staðreyndin er einfaldlega sú að Valur iðrast einskis. Lengi vel vonaði ég að um afneitun væri að ræða en ef eitthvað er að marka Robert Hare þá er ekki svo.

Þegar við systkinin fórum í Héraðsdóm vorum við vongóð um að lygarnar, persónuárásirnar á okkur og pabba mundu líða undir lok. Eftir að hafa hlustað á lygarnar og ósamræmið við yfirheyrslur, þar sem Valur laug meira að segja um að hafa athugað með lífsmark, þá datt okkur ekki annað í hug en að það væri nóg til að hann fengi réttmætan dóm. Svo var ekki.

Lagaþrætur fyrir dómi 

Valur hefur sérhæft sig í lagaþrætum og þeim einstaklingum sem hafa náð að leika á yfirvöld á einhvern hátt, það hefur verið honum einskonar sérstakt áhugamál alla tíð. Valur lítur á svona meðferð sem einskonar leik, líkt og köttur að leika sér að mús. Valur bar sigur úr býtum við Héraðsdóm eftir fleiri mánaða undirbúning. Þess vegna finnum við ekki fyrir sömu tilfinningu nú, þegar komið er að því að fara fyrir Landsrétt, og við fundum þegar við fórum fyrir Héraðsdóm. Í stað léttis við málsmeðferð, líkt og við gerðum fyrir héraðsdóm, finnum við systkinin fyrir ofsakvíða, stressi og áhyggjum. Það er meira en nóg að missa föður sinn á þennan hátt og sitja undir öllum rógburðinum, en sigur Vals á réttarkerfinu er ekki hlutur sem við eigum auðvelt með að lifa með til viðbótar.

„Í stað léttis við málsmeðferð, líkt og við gerðum fyrir Héraðsdóm, finnum við systkinin fyrir ofsakvíða, stressi og áhyggjum“

Í röksemdafærslu sinni fyrir Landsrétti gengur Valur alla leið. Hann gagnrýnir áverka föður míns og vill meina að hann hafi skallað sig nokkrum sinnum. Í nauðvörn hafi hann traðkað hann til bana. Þá finnur hann áverkalýsingu og blóðferlagreiningu allt til foráttu. Hann krefst ennþá sýknu vegna þess að honum finnst ákæruvaldið ekki hafa staðið sig nógu vel og hans stærsta baráttumál ásamt sýknu er að fá lögfræðikostnað sinn úr ríkissjóði ásamt því að komast undan því að greiða útfararkostnað föður míns. Að lokum gagnrýnir hann höggafjöldann við atlöguna sem hann vill vera sýknaður af. Róðurinn herðist hjá föðurbróður mínum og hægt og rólega sýnir hann sitt rétta eðli. Þrátt fyrir allt þetta stendur málsvörn Vals enn og vill hann meina að hann hafi sýnt iðrun og eftirsjá og verið heiðarlegur. Þrátt fyrir það gagnrýnir hann núna hvert og eitt einasta smáatriði í rannsókninni sem hann getur tínt til.

Ætlunarverkið tókst

Staðreyndin er einfaldlega sú að Val tókst að fela sitt rétta eðli í gegnum alla málsmeðferðina fyrir Héraðsdómi. Alveg í upphafi, við fyrstu yfirheyrslur lögreglu, var helsta áhyggjuefni hans hvenær hann kæmi heim til að laga skaðann sem orðspor hans hefði orðið fyrir. Valur var tilbúinn að ganga alla leið í ærumeiðingum í garð föður míns til þess að ná því takmarki. Hann rak lögfræðinginn sinn, sem er jafnframt einn af hans bestu vinum, af því hann var ekki nógu ósvífinn. Það verður að segjast eins og er að ætlunarverk Vals hefur tekist. Fólk hefur keypt sögusagnir af atburðum þessarar nætur og hefur ekki ennþá meðtekið að Valur sé fær um svona ofbeldisverk. Fólk hefur einnig ekki meðtekið að um væri að ræða tilhæfulausa árás á mann sem var á förum þessa nótt. Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá er siðblindur einstaklingur undantekningin á því að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Þegar annar einstaklingurinn er siðlaus þá þurfa tveggja hliða deilur ekki að koma til. Heiðarlegri og réttsýnni menn en pabbi eru vandfundnir, þó hann hafi haft nóg af göllum eins og hver annar. Sannleikanum hafa ekki verið gerð næg skil opinberlega og þrátt fyrir allt sem á undan er gengið þá get ég ekki látið síðustu orðin um föður minn vera nafnlausan rógburð frá Val Lýðssyni og fylgjum hans og því settist ég við skriftir.

Ég ætla að þakka hverjum þeim sem las og deilist að vild.  

Ingi R. Ragnarsson,
sonur Ragnars heitins Lýðssonar

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár