Þjóðir bregðast við árás Trumps á Venesúela

Sam­ein­uðu þjóð­irn­ar vara við hættu­legu for­dæmi.

Þjóðir bregðast við árás Trumps á Venesúela
Maduro í haldi Bandaríkin hafa deilt mynd af handteknum forseta Venesúela.

Hernaðaraðgerð Bandaríkjahers sem leiddi til handtöku Nicolas Maduro, forseta Venesúela, í morgun olli miklum óróa í alþjóðasamfélaginu og lýstu bæði bandamenn og andstæðingar Bandaríkjanna og Venesúela yfir áhyggjum sínum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði að Nicolas Maduro og eiginkona hans yrðu flutt til New York til að svara til saka fyrir alríkisdómstóli eftir hernaðarárásir og aðgerð sem hann lýsti sem „eins og úr sjónvarpsþætti“.

Ríkisstjórn Venesúela fordæmdi það sem hún kallaði „gríðarlega alvarlega hernaðarárás“ af hálfu Washington og lýsti yfir neyðarástandi.

Lönd eins og Rússland og Íran, sem áttu í langvarandi sambandi við ríkisstjórn Maduro, voru fljót að fordæma aðgerðina en áhyggjur þeirra deildu einnig bandamenn Washington, þar á meðal Frakkland og ESB.

Ríkisstjórn Íslands hefur ekki brugðist við.

Hér er yfirlit yfir helstu viðbrögðin.

Rússland

Rússar kröfðust þess að bandarísk stjórnvöld „endurskoðuðu afstöðu sína og slepptu löglega kjörnum forseta fullvalda ríkis og eiginkonu hans“.

Kína

Stjórnvöld í Peking sögðu að „Kína er djúpt slegið og fordæmir harðlega augljósa beitingu hervalds Bandaríkjanna gegn fullvalda ríki og aðgerðir þeirra gegn forseta þess“.

Íran

Íran, sem Trump gerði loftárásir á á síðasta ári, sagðist „fordæma harðlega hernaðarárás Bandaríkjanna á Venesúela og gróft brot á fullveldi og landhelgi landsins“.

Mexíkó

Mexíkó, sem Trump hefur einnig hótað hervaldi vegna fíkniefnasmygls, fordæmdi harðlega hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna í Venesúela og sagði þær „ógna alvarlega stöðugleika á svæðinu“.

Kólumbía

Gustavo Petro, forseti Kólumbíu – sem á landamæri að Venesúela – kallaði aðgerðir Bandaríkjanna „árás á fullveldi“ Rómönsku Ameríku sem myndi leiða til mannúðarkreppu.

Brasilía

Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, gagnrýndi harðlega árásir Bandaríkjanna og kallaði þær „alvarlega móðgun“ við fullveldi Venesúela.

Kúba

Kúba, sem er sterkur bandamaður Venesúela, fordæmdi „ríkishryðjuverk gegn hinni hugrökku venesúelsku þjóð“.

Spánn

Spánn bauðst til að miðla málum í kreppunni til að finna friðsamlega lausn, en kallaði um leið eftir að „draga úr stigmögnun og koma á hófstillingu“.

Frakkland

Frakkland fordæmdi aðgerð Bandaríkjanna og sagði hana grafa undan alþjóðalögum og að enga lausn á kreppunni í Venesúela væri hægt að þvinga fram utan frá.

ESB

Evrópusambandið lýsti almennt yfir áhyggjum af þróun mála og hvatti til virðingar fyrir alþjóðalögum, jafnvel þótt það tæki fram að Maduro „skorti lögmæti“.

Bretland

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, sagði að öll lönd ættu að „virða alþjóðalög“ og bætti við að „Bretland hafi ekki komið að þessari aðgerð á nokkurn hátt“ um leið og hann hvatti til þolinmæði til að „koma á hreint staðreyndum málsins“.

Ítalía

Í sjaldgæfri stuðningsyfirlýsingu við aðgerð Bandaríkjanna frá stóru Evrópuríki, hélt Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu og bandamaður Trumps, því fram að hernaðaraðgerð Bandaríkjanna í Venesúela væri „lögmæt“ og „til varnar“.

Ísrael

Utanríkisráðherra Ísraels fagnaði aðgerðinni og sagði Trump-stjórnina hafa brugðist við sem „leiðtogi hins frjálsa heims“.

„Ísrael stendur með hinni frelsiselskandi venesúelsku þjóð sem hefur þjáðst undir ólöglegu harðstæði Maduros. Ísrael fagnar brottrekstri einræðisherrans sem leiddi net fíkniefna og hryðjuverka og vonast eftir endurkomu lýðræðis í landinu og vinsamlegum samskiptum milli ríkjanna,“ skrifaði Gideon Saar utanríkisráðherra á X.

Sameinuðu þjóðirnar

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, var „mjög uggandi“ yfir árásum Bandaríkjanna og talsmaður hans hafði eftir honum að þær gætu „skapað hættulegt fordæmi“.

Kjósa
14
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár