Erlendur annáll: Kosningar og ófriður lituðu árið

Pia Hans­son, for­stöðu­mað­ur Al­þjóða­mála­stofn­un­ar Há­skóla Ís­lands, seg­ir að ár­ið 2024 hafi ver­ið óvenju við­burð­ar­ríkt ár. Ár­ið ein­kennd­ist af kosn­ing­um þar sem sitj­andi vald­höf­um var refs­að og blóð­ug­um stríðs­átök­um sem stig­mögn­uð­ust á ár­inu. Pia seg­ist mið­að við það sem und­an hef­ur geng­ið í heims­mál­un­um fari hún því mið­ur ekki full bjart­sýni inn í nýja ár­ið.

Erlendur annáll: Kosningar og ófriður lituðu árið
Lýðskrumari tekur við Ein stærsta frétt ársins var án efa sú að Donald J. Trump tryggði sér öruggan sigur í forsetakosningunum í nóvember. Sitjandi valdhöfum víða um heim var refsað af kjósendum á þessu stærsta kosningaári sem farið hefur fram í áraraðir. Mynd: /AFP

Nú þegar árið er liðið er ríkt tilefni til að líta yfir farinn veg og velta fyrir sér hvaða mál voru efst á baugi í heimsfréttunum. Árið 2024 var einstaklega viðburðaríkt ár á alþjóðavísu. Helmingur jarðarbúa gekk til kosninga og létu kjósendur víða óánægju sína með stöðu mála bitna á sitjandi valdhöfum. Ófriður og stríðsátök settu einnig mark sitt á heimsmálin. Stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs og í Úkraínu heldur stigmagnast og óttast margir að átökin muni breiðast út til fleiri ríkja og svæða úti í heimi í náinni framtíð.

Þrátt fyrir að hafa fallið í skuggann af öðrum kosningamálum voru umhverfis- og loftslagsmál enn stórt umfjöllunarefni. Náttúruhamfarir og breytingar í veðri settu líf margra úr skorðum á árinu, ýmist með beinum eða óbeinum hætti.  

Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar

Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar við Háskóla Íslands, segir í samtali við Heimildina að hún sé ekki skilin eftir með mikla bjartsýni í huga eftir að hafa fylgst með fréttum og gangi mála víða um heim. Hún hefur áhyggjur af framtíð mikilvægra valdastofnana í alþjóðakerfinu og hvernig heimsbyggðinni muni takast til við að mæta áskorununum sem bíða á næstu misserum.  

Kosningaárið mikla

Á árinu var blásið til þing- og forsetakosninga í yfir sjötta tug ríkja heims. Þar á meðal voru stór og fjölmenn ríki á borð við Indland, Bangladesh, Indonesíu, Suður-Afríku, Bandaríkin, Japan, Englandi. Þá fóru einnig fram kosningar til Evrópuþings í júní, og niðurstöður þeirra höfðu þau áhrif að blásið var til þingkosninga í Frakklandi.

Eitt af því sem þótti einkenna margar af þessum kosningum var hversu óhagfelldar þær voru fyrir sitjandi valdhafa úr hefðbundnum stjórnmálaflokkum í hverju ríki fyrir sig. Bentu sumir á almenna óánægju meðal kjósenda víða um heim með örar verðhækkanir og stöðu efnahagsmála í kjölfar heimsfaraldurs.

Þetta eru á meðal þeirra skýringa sem leitað hefur verið til að varpa ljósi á niðurstöður þing- og forsetakosninganna í Bandaríkjunum sem komu mörgum á óvart en Donald J. Trump var kjörinn 47. forseti Bandaríkjanna og Repúblikanaflokkurinn náði meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings.

Stórsigur TrumpsDonald J. Trump vann sigur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í Nóvember. Repúblikanaflokkurinn náði sömuleiðis meirihluta í báðum þingdeildum.

Kosningarnar og niðurstöður þeirra voru að mati Piu Hansson eitt stærsta fréttamál ársins. Hún telur að margir sem hafi fylgst með kosningunum hér á landi og annars staðar hafi bundið vonir við að þær færu á annan veg. Heimsbyggðin standi nú frammi fyrir mikilli óvissu um það hvernig hlutirnir munu þróast á næstu árum.

Popúlismi, lýðræði og molnandi alþjóðakerfi

Pia segir kosningaárið sem nú er liðið hjá hafi að mörgu leyti borið vitni um þá ógn sem steðjar að lýðræðinu víða um heim. Hún segir að á tímum mikillar upplýsingaróreiðu og skautunar sé það mikið áhyggjuefni að sjá hversu greiða leið popúlísk stjórnmálaöfl eiga að valdastóli.

„Það er það sem maður hefur mestar áhyggjur af er að við hættum að sjá fyrir okkur stjórnmálamenn og leiðtoga komast til valda sem, þrátt fyrir við kannski deilum ekki sömu pólitísku skoðunum með, við getum að minnsta kosti treyst að hafi sambærileg lýðræðisleg gildi,“ segir Pia.

Hún bætir við að það sé áhyggjuefni að sjá hversu auðveldlega stjórnmálamenn af þessu tagi geti brotist til valda í ríkjum víða um heim sýni fram á að eitthvað sé að í alþjóðakerfinu.

„Það er eitthvað að í þessu kerfi sem við bjuggum til eftir seinna stríð sem virðist vera núna að molna niður. Hvernig ætlum við að reyna bæta kerfið sem þó er til, svo við getum haldið utan um þessi átök og þessa erfiðu stöðu sem er í heiminum ansi víða,“ segir Pia og bætir við að hún skilji kjósendur vel sem vilji breytingar, ekki síst vegna þess ójöfnuðar sem hefur farið vaxandi víða á undanförnum árum. Valið milli ólíkra kosta sé gjarnan ekki skýrt og upplýsingaóreiðan mikil. 

Ár ófriðar sem ekki sér fyrir endanum á

Annað mál sem Pia telur að hafi staðið upp úr á árinu voru þau linnulausu stríðsátök sem hafa staðið yfir fyrir botni Miðjarðarhafs og í Úkraínu. Pia segist hafa áhyggjur af því að þau tól og tæki sem alþjóðasamfélagið hefur til þess að bregðast við þessum átökum muni ekki duga nema ráðist verði í aðgerðir til að byggja upp traust og efla þær valdastofnanir sem fyrir eru í alþjóðakerfinu.

„Hvernig við eigum að gera það, það er síðan annað. Á meðan við erum alltaf að kjósa yfir okkur popúlista, þá lítur þetta ekki vel út, skulum við segja.“ 

Árásir Ísraelshers á Gaza, sem hófust í október 2023, stigmögnuðust eftir því sem leið á árið og fjöldi óbreyttra Palestínumanna sem hafa ýmist látist eða slasast alvarlega í árásunum óx jafn og þétt. Átökin breiddust út til ríkja á borð við Líbanon og Íran. Ísrael réðist inn í suðurhluta Líbanon í september. Þá vörpuðu Ísrael og Íran sprengjum hvort á annað á árinu og mikil óvissa ríkir um hvort átökin milli þessara ríkja muni stigmagnast enn frekar.

Hörmungar í GazaStríðið fyrir botni Miðjarðarhafs stigmagnaðist árið 2024 og meðan alþjóðasamfélagið horfði upp á hörmungar dynja á óbreyttum borgurum í Gaza.

Pia segir að augu heimsins beinist um þessar mundir einnig að Sýrlandi. Snemma í desember flúði Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, til Rússlands og uppreisnarmenn þar í landi tóku við stjórnartaumunum. Mikil óvissa ríkir um hvað muni gerast í framhaldinu og hvers konar stjórnarfar muni taka þar við.

Mikil óvissa ríkir einnig um stríð Rússlands og Úkraínu sem hefur staðið yfir í tæp þrjú ár. Pia segir að hún hafi skynjað að eftir því sem stríð víða um heim hafi undið áfram og stigmagnast, hafi umræðan hér á landi og í Norðurlöndum tekið töluverðum breytingum.

Augu heimsins beinast að Sýrlandi Asaad Shaybani, sitjandi utanríkissráðherra Sýrlands fundaði nýverið með Andrii Sybiha, utanríkisráðherra Úkraínu. Stjórnvöld í Úkraínu hafa kallað eftir því við sýrlensk stjórnvöld að skeri á tengslin við Rússland sem studdi fyrrum forseta Sýrlands Bashar al-Assad.

„Mér finnst hafa staðið upp úr að finna hvað umræðan er farin að snúast meira um möguleikann á því að staðan gæti versnað enn meir. Að við séum þá farin að sjá fram á tíma með jafnvel útbreiddari stríðsátökum og við finnum þetta náttúrulega á norrænu þjóðunum sem við berum okkur mikið saman við. Hversu miklar áhyggjur þau hafa og hvernig öll hugsun um viðbúnað hefur aukist.“

Stærsta áskorunin í aftursætið 

Margir tóku eftir því að á kosningaárinu mikla fór lítið fyrir umræðu um umhverfis- og loftslagsmál. Samkvæmt mælingum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) var 2024 heitasta ár frá því mælingar hófust. Þrátt fyrir uppskerubresti og náttúruhamfarir sem skullu á víða um heim á árinu fór lítið fyrir umræðu um þessi mál í aðdraganda kosninga hér á landi og annars staðar.

Pia tekur undir það að loftslagsmálin hafi farið í aftursætið á kosningaárinu. Hún segir að það sé að vissu leyti skiljanlegt í ljósi þeirra krísa sem alþjóðasamfélagið hefur tekist á við á undanförnum árum.  

Loftslagsmálin í aftursætið Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) var haldinn í olíuríkiun Aserbaídjan í nóvember 2024. Þótti mörgum ráðstefnan ekki hafa skilað miklum árangri.

„Á hinn bóginn er þetta stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir og það er náttúrulega svo margt sem tengist áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta eru nú þegar orðið öryggismál og verða áskoranir í okkar öryggismálum til framtíðar.“

Pia segir að fólki sé gjarnan tamt að einbeita sér að krísu dagsins og hvernig eigi að bregðast við þeim og láta stór og óáþreifanleg mál eins og loftslagsmálin sitja eftir á hakanum. Það sé engu að síður mikilvægt að setja slík mál á dagskrá og halda áfram að vekja athygli á málaflokknum.

Málin við ættum að fylgjast með á nýju ári  

Spurð hvaða mál hún telji mikilvægt fyrir landsmenn að fylgjast með á nýju ári segir Pia að það muni skipta máli að fylgjast með fréttum úr Evrópu og þeirri þróun sem er að eiga sér stað á þeim slóðum.

„Hvernig Evrópusambandinu muni takast að halda vel á spöðunum í þeim ólgusjó sem það er statt í og hvort það takist að mynda meiri samstöðu um þau mál sem þarf takast á við,“ segir Pia og bætir að það sé ekki síst mikilvægt að fylgjast vel með þessu í ljósi þess að útlit er fyrir að landsmenn muni fara tala meira um Evrópusambandið á næstu misserum. 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins kemur fram að ríkisstjórnin hyggist efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald á viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Stefnt er að því að halda slíka atkvæðagreiðslu eigi síðar en árið 2027.

Beinum sjónum að EvrópusambandinuPia Hansson segir mikilvægt að fylgjast vel með hvernig Evrópusambandinu tekst að takast á við erfiðar áskoranir sem sambandið stendur frammi fyrir.

Ásamt þessu leggur Pia áherslu á að landsmenn fylgist náið með ríkjum handan Evrópu og Bandaríkjanna sem hafa vaxið hratt á undanförnum árum. 

„Valdajafnvægið í heiminum er að breytast mjög mikið. Hvernig uppgangur Kína mun halda áfram og hvernig samskipti Rússlands og Kína munu þróast verður líka eitthvað til að fylgjast með. Svo eru önnur lönd að rísa líka, lönd sem við ættum að fylgjast með. Fyrir okkur skiptir máli að fylgjast með þróuninni á Indlandi og Afríka gleymist líka svo oft,“ segir Pia. 

Þó svo að það kunni að hljóma eins og óljós ábending að fylgjast með því sem er að gerast í hinum stóra heimi telur Pia að sé mikilvægt að ítreka mikilvægi þess, sérstaklega í ljósi þess að landsmönnum hættir til að einblína á það sem er að gerast hér á landi og í nágrannalöndunum. 

Hún segir að það hafa verið jákvætt að sjá hvernig umræðan um örryggis- og varnarmál hafi dýpkað í liðnu ári. 

„Það var lengi í rauninni ekki hægt að tala um öryggis- og varnarmál á Íslandi. Það var ekki vinsælt og maður var gjarnan skotinn í kaf ef maður minntist á það. Það hefur liðkað til í umræðunni og hún er orðin dýpri og fjölbreyttari en hún var og kannski farin að ná til fleiri.“

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Uppgjör ársins 2024

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár