Fólk var byrjað að hópast saman fyrir utan Alþingi um þrjúleytið á fimmtudag. Það hafði rignt duglega einungis klukkustund áður og enn var svolítið skýjað.
Almenningur stóð fyrir aftan grátt stálhlið sem skildi að áhorfendur og sérstaklega valda boðsgesti. Lúðrasveit, íklædd rauðu og gulllituðu spilaði undir á meðan fyrrverandi forsetar lýðveldisins renndu í hlað og þingmenn gengu fram hjá Alþingishúsinu og inn í Dómkirkjuna. Þó nokkrir ferðamenn stóðu framarlega með símana sína á lofti. Nokkrir héldu á skiltum.
- „Kæra Halla, gefðu mér nýja stjórnarskrá. Þú getur það“ stóð á einu.
- „Takk fyrir að segja þjóðarmorð“ stóð á öðru sem jafnframt var skreytt palestínska fánanum.
- „Við elskum þig, til hamingju Halla forseti“ stóð á skilti sem ung stúlka hélt á. Á því voru líka límmiðar; hjörtu, blóm og sólir.
Og viti menn, sólin braust fram úr skýjunum.
Nýbónaður svartur Audi með mynd af íslenska fánanum á bílnúmerinu og tölustafnum „1“ renndi í hlað fyrir framan þinghúsið. Undir „Ísland ögrum skorið“ lúðrasveitarinnar steig Halla Tómasdóttir út, hvítklædd frá toppi til táar með gullkeðju um hálsinn. Úr henni hékk stórriddarakrossinn: Æðsta stig hinnar íslensku fálkaorðu sem forseti Íslands ber einn.
Halla brosti út að eyrum og veifaði til fólksins sem stóð hinu megin við girðinguna. Fólkið fagnaði. Svo steig hún inn í þinghúsið. Það var eitthvað undarlega drottningarlegt við Höllu og við alla athöfnina. Það er kannski ekki skrýtið, enda svipar hlutverki forseta Íslands að því er virðist meira til hlutverks konungborinna heldur en pólitískra fulltrúa. Forseti er „talsmaður þjóðarinnar“ og „leiðtogi“ hennar.
En við embættistöku eins og þá á fimmtudag var þjóðinni varla boðið að taka þátt. Hún stóð fyrir aftan stálhliðið og gat nánast einungis fylgst með því sem átti sér stað á stórum skjá á Austurvelli þar sem athöfninni bæði innan Dómkirkjunnar og Alþingishússins var varpað. Fulltrúar fjölmiðla fengu ekki einu sinni að koma inn í Dómkirkjuna nema rétt til þess að mynda í nokkrar mínútur. Viðstaddir hana voru einungis sérstakir boðsgestir: Þingmenn, fyrrverandi forsetar, ríkislögreglustjóri, biskup, háttsett fólk í samfélaginu.
Það er kannski ekkert óeðlilegt við þetta fyrirkomulag en í agnarsmáu samfélagi eins og því á Íslandi þar sem maður hittir forsetann sinn fáklæddur í sundklefanum eða með glorhungruð organdi börn í Bónus, verður tímabundinn aðskilnaður á milli hans heims og heims almennings einhvern veginn ankannalegur.
Formföst athöfn sem byggir á herraríkinu
En svona hefur þetta alltaf verið. Birgir Þór Harðarson, þá fréttamaður Kjarnans, skrifaði um embættistöku Guðna Th. Jóhannessonar, nú fyrrverandi forseta, árið 2016:
„Athöfnin er ein sú formfastasta í íslenskri stjórnskipan enda byggir íslenska lýðveldið að miklu leyti á þeim hefðum sem tíðkuðust í herraríkinu Danmörku árið 1944. Þá var þeim köflum stjórnarskrárinnar sem lutu að konungi snúið svo forseti væri hér æðsti landshöfðingi.“
Þrátt fyrir þessa konunglegu athöfn varð Guðni mjög alþýðlegur forseti sem einmitt hitti þjóð sína í sundklefum og matvöruverslunum, jánkaði þegar fólk stoppaði hann í Kringlunni og bað um mynd með honum og setti buff á höfuðið á sér áður en hann fór út að hlaupa sama hvað hverjum fannst.
Það verður að teljast ólíklegt að jafn smekkleg kona og Halla Tómasdóttir muni nokkurn tímann draga fram buffið, en hvort hún verði í beinum tengslum við þjóðina á eftir að koma í ljós. Viðleitni til þess fór þó strax að sjást í gær þegar Halla og Björn Skúlason eiginmaður hennar heimsóttu Vestmannaeyjar og Borgarnes og tóku þar þátt í hátíðahöldum Þjóðhátíðar og Unglingalandsmóts UMFÍ.
Fjögurra mínútna samvera
Eftir að Halla hafði skrifað undir sinn forsetaeið inni í þinghúsinu á fimmtudag talaði hún beint við almenning í fyrsta sinn sem forseti ekki í gegnum skjá. Hún steig út á svalir þinghússins, skreyttar íslenska fánanum og blómakrönsum, og veifaði fólkinu ásamt eiginmanni sínum Birni Skúlasyni við mikil fagnaðarlæti. Halla var skælbrosandi þegar hún byrjaði að tala:
„Góðir Íslendingar. Það birti upp. Á þessum fallega degi langar okkur að minnast fósturjarðarinnar og biðjum ykkur um að taka undir fjórfalt húrra: „Ísland lifi, húrra, húrra, húrra, húrra!“ sagði Halla og viðstaddir tóku undir.
„Hæ!“ kallaði ungur drengur, fimm stúlkur á yngsta stigi grunnskóla veifuðu ákaft. Lúðrasveitin fór af stað. Svo voru forsetahjónin farin aftur inn í þinghúsið. Samvera þeirra með áhorfendum hafði varað í um fjórar mínútur og talið 35 orð.
Inni í þinghúsinu ræddi hún svo mikið um íslensku þjóðina og það sem sameinar hana: Listir, nýsköpun, íþróttir. Henni varð tíðrætt um næstu áttatíu ár, með vísun til þess að áttatíu ár eru liðin frá stofnun íslenska lýðveldisins.
„Á svona tímum er nauðsynlegt að staldra við og íhuga hver við viljum vera, hvert við viljum stefna og hvernig við getum styrkt traust milli manna. Hvert viljum við beina íslenska lýðveldinu næstu 80 árin?“
Dómkórinn, sem tók við af orðum Höllu, söng um enn fleiri ár: „Íslands þúsund ár, Ísland þúsund ár!“
Að söng hans loknum steig Halla út úr þingsalnum við hlið eiginmannsins og gestirnir á eftir. Í hálfhringlóttum skálanum fyrir utan röðuðu þeir fjórir einstaklingar sem sinnt hafa embætti forseta Íslands og enn eru á lífi – Guðni Th. Jóhannesson, Ólafur Ragnar Grímsson, Vigdís Finnbogadóttir og nú Halla – sér saman á mynd. Svo yfirgáfu forsetarnir fyrrverandi sviðið og Halla stóð eftir. Yngstur þeirra, Guðni, studdi þann elsta – Vigdísi, niður tröppurnar.
„Nú förum við í lyftuna, hún er hérna,“ sagði Guðni við Vigdísi. „Hér er allt með nýjum brag,“ bætti hann við og leit í kringum sig á glerveggina. Þeirra tími til að veifa þjóðinni var liðinn. Halla hafði tekið við.
Athugasemdir (2)