Samtíminn er flókin skepna.
Raunar svo að þegar Kolbrún Bergþórsdóttir, í pistli í Morgunblaðinu, líkti forsetaframbjóðandanum Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur við eltihrelli í Netflix-seríunni Baby Reindeer vegna gagnrýni á fyrrum forsætisráðherra í forsetaframboði, þá kviknaði spurningin: Er Kolbrún yfir höfuð með getu til að greina samtímann og þá samtímabókmenntir?
Rökstyðja má að í skjóli valds hafi Kolbrún beitt eineltistaktík með þessum skrifum.
Þegar menningarlegt vald, vald fjármagns og vald sjálfs valdakerfisins leggjast saman í eina sæng gefst ekki lengur eðlilegt andrými til skoðanaskipta eða átaka. Veruleikinn verður: Hinir voldugu andspænis hinum valdaminni- og lausu.
Forsetakosningarnar nú í ár eru félagsfræðileg stúdía af því að í þeim afhjúpast samtakamáttur þeirra sem vald og raddsvið hafa – á ólíkum sviðum. Fyrir handhafa valds skiptir félagslím máli til að valdið fái sem öruggast viðhaldið sér. Þá skiptir engu hvort fólk sé í stjórnmálaflokkum sem vanalega takast á, hagsmunasamtökum með frábrugðnar áherslur, að vinna við fjölmiðlun eða starfi við alþjóðlegan eða innlendan orðstír sem lista- eða vísindamenn.
Vitið býr í valdinu
Eftir því sem líður á kosningabaráttu Katrínar Jakobsdóttur birtist stöðugt meiri andi eilítisma í kringum hana. Þar með er ekki sagt að það séu samantekin ráð og mögulega hefur hún enga stjórn á því fólki sem vill eyrnamerkja sér hana. En stuðningur svo ólíkra en samhæfðra valdaradda er farinn að hafa fælingaráhrif frekar en hitt.
Vélvirkjar Sjálfstæðisflokksins baka köku, orðræðu og vídeó, sumir fyrir opnari tjöldum en aðrir, vanir að redda Bjarna Ben og meðvitaðir um að ef forsetinn þarf að skreppa úr landi getur Bjarni í ofan á lag verið handhafi forsetavaldsins. Og sprautur í VG hlæja í samtakamætti með Sjálfstæðisflokknum sem er löngu orðinn þeim eiginlegur. Mogginn er jafn þægilega retró og Friðarhúsið á Snorrabraut; þetta skemmtilega land nostalgíunnar er þeirra og útlendingafrumvarpið hefur séð til þess að það er opnara fyrir norskum fyrirtækjum að þurrausa firðina en fólki í neyð sem raskar við eitís-ásýnd þess.
Við þurfum hvorki að vesenast í veiðileyfagjöldum né hafa áhyggjur af því að standa ekki við skuldbingar vegna loftlagshamfara því svo lengi sem partíið heldur áfram verður Ísland veröld sem var. Að vísu með dauða firði, húsnæðismarkað sem útheimtir þrjú störf á sjálfstætt foreldri og hættulega götótt heilbrigðiskerfi, svo eitthvað sé upptalið. En bjóðum bara Kára Stef í partíið líka!
Og fáum Össur Skarphéðins til að vakta netið meðan Víkingur Heiðar og Bubbi Morthens leika hugljúfa ballöðu og Guðni Ágústsson hrópar: Klöppum fyrir næsta forseta: Katrínu! Um leið og einhverjir kvarta undan því að eldri karlar séu að ávíta yngra fólk fyrir aðrar skoðanir. Þið þarna sem baslið á húsnæðismarkaði eða eigið ekki fyrir mat í lok mánaðar þó að þið séuð útkeyrð af vinnu verðið að skilja að vitið býr í valdinu! Líka fagurfræðin. Þau sem mótmæla því eru eltihrellar í skáldsögu eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur.
Vélvirkjar Sjálfstæðisflokksins baka köku, orðræðu og vídeó, sumir fyrir opnari tjöldum en aðrir, vanir að redda Bjarna Ben.
Sameiningartákn valdsins
Þá aftur að samtímabókmenntum.
Ólíkt mörgum stjórnmálamönnum les Katrín Jakobsdóttir skáldsögur og tilkynnir höfundi gjarnan hvað henni fannst um síðustu bók. Hún á til að segja fjörlega: Ég var ekki nógu hrifin af þessari síðustu. Eða: Ég hafði gaman af þessari nýju!
Rithöfundi þykir vænt um að stjórnmálamaður sjái af tíma til að lesa skáldsögu eftir sig. En rétt eins og stjórnmálamaður getur dæmt skáldsögu, þá getur rithöfundur lagt mat sitt á störf stjórnmálamanna. Hvað varðar birtingamynd kosningabaráttu Katrínar segir rithöfundurinn: Þessi skáldsaga er ekki alveg vatnsheld. Það vantar í hana bæði hugsun og blæbrigði – og það eru of margir lausir endar.
Þegar nafntogaðir listamenn, áhrifafólk í samfélaginu og stjórnmálum jafnt sem vélvirkjar þaulsetnasta stjórnmálaflokks landsins – sem er vafningsviður innan kerfisins – leggjast á eina sveif með forsetaframbjóðanda, þá á annar sannleikur ekki upp á pallborðið því hann tilheyrir þeim óþægilegu – eins og eltihrellinum í Netflix-seríunni. Hvers konar merking er gripin og skrumskæld.
En meginstraumurinn er ekki þeirra óþægilegu.
Hann er þeirra sem hafa valdið sín megin. Sameiningarkraftur afla svo kröftugra að þau útmá annað.
Getur verið að frambjóðandinn sameini þá voldugu frekar en þjóðina? Þá sem búa yfir auðmagni og félagsauði í heimi lista, fjármála, viðskipta, stjórnmála, menngargeiranum og á vettvangi fjölmiðla. Þá sem hafa áheyrn.
Herra Almannavarnir og guðfeður Íslands
Karlmenn sem voru ásjóna guðföðurs þjóðarinnar í Covid-faraldrinum stíga nú fram og lýsa yfir stuðningi við fyrrverandi forsætisráðherra, eins og þeir gáfu lýðnum skipanir vegna almannavarna í lýðheilsumálum fyrir ekki svo löngu síðan. Þegar allir hlýddu því lífið lá við að hlýða herra Almannavörnum.
Þeir birtust sem ásjóna skynseminnar. Andstæða ruglsins. Hið rétta.
Ástsælir listamenn skapa fyrir frambjóðandann því enginn á neitt í rök tilfinninganna. Orðspor þeirra verður frambjóðandans.
Spunameistarar Sjálfstæðisflokksins baka og baka – í partíi með spunameisturum sem eitt sinn voru kenndir við vinstrið.
Forsprakkar – nú og þá – í öðrum stjórnmálaflokkum lýsa yfir stuðningi og skreppa á íþróttaviðburði með Katrínu þar sem brosað er á myndum. Og þjóðþekkt fjölmiðlafólk með landlægt raddsvið tekur nærri sér ef einhver setur spurningamerki á samfélagsmiðla.
Auðmagn Katrínar er fyrst og fremst félagslegt. Fólk með auðmagn af ýmsum toga – og úr ólíkum áttum – hefur ákveðið að hún sameini þjóðina. En er það rétt?
Getur verið að frambjóðandinn sameini þá voldugu frekar en þjóðina? Þá sem búa yfir auðmagni og félagsauði í heimi lista, fjármála, viðskipta, stjórnmála, menngargeiranum og á vettvangi fjölmiðla. Þá sem hafa áheyrn.
Samstaða góðborgara
Sama hversu ólík sjónarmið þeir hafa þá standa góðborgarar saman þegar á reynir.
Við hvað er átt með orðinu góðborgari?
Jú, það er fólk sem tilheyrir þægilegri lögum millistéttar sama úr hvaða ranni það kemur, það hefur raddsvið á mikilvægum sviðum og/eða fjárhagslegt bolmagn, margt hvert í stöðum til að hafa einhvers konar áhrif á samfélagið en á of oft sameiginlegt að vera ómeðvitað um forréttindastöðu sína og um leið fyrirferð hennar. Eins hefur það takmarkaða innsýn í líf allra þeirra sem búa við viðkvæmari tilverugrundvöll.
Þeir sem búa að áðurnefndu tala sama tungumálið. Þrífast í sömu félagslegu búbblunni, þrátt fyrir að koma úr hinum og þessum áttum og með áþekka lífsýn þrátt fyrir ólíkar skoðanir á ýmsu. Þetta á jafnvel við um ýmsa fræðinga sem greina samfélagið og stjórnmálin. Þau þekkja hvert annað, úti á götu heilsar góðborgari öðrum góðborgara án þess þeir hafi nokkur tímann talað saman og takist jafnvel á fyrir opnum tjöldum. En þeir eru læsir á sömu brandarana, með aðgang að samruna valds af ólíkum toga – því þeir tilheyra því á einn eða annan hátt. Góðborgari býður ókunnugum góðborgara í partí af því á sinn hátt þekkjast þeir. Markmið þeirra er: Að hlúa að veröldinni sem þeir eru svo götuvísir í.
Fyrir þá götuvísu er borðliggjandi að hugsa: Lífið er gott – og svo lengi sem manneskja með lagni til að þrífast í lingói og veruhætti okkar er ásýnd þjóðar, þá heldur lífið áfram að vera gott. Svo lengi sem það er einhver viljugur til að viðhalda því sem er. Einhver sem við getum hlegið með – þó að átakamálin séu flókin.
En stundum þurfa átakamál að vera flókin. Þau mega sundra og þyrla upp ólíkum hagsmunum til að afhjúpa veruleikann eins og framast er unnt. Svo við getum tekið afstöðu til staðreynda.
Fyrirferð forréttindafólks hljómar eins og ofstuðlun en á sama tíma blasir við að veruleikinn núna er ofstuðlaður – þegar það setur sig í stellingar að móta hann fyrir almenning.
Lýðræðið útheimtir heilbrigðar aðstæður
Fyrirferð forréttindafólks hljómar eins og ofstuðlun en á sama tíma blasir við að veruleikinn núna er ofstuðlaður – þegar það setur sig í stellingar að móta hann fyrir almenning.
Forréttindablinda er það hættulegasta sem komið hefur fyrir íslenskt samfélag. Skaðleg fyrir aðra. Þú áttar þig ekki á þvi, þú telur að þú sért víðsýn/n. Þú býrð að menntun, félagsneti, aðgengi, fjárhagslegu öryggi og auðmagni.
Og lífið er næs!
Þér finnst sjálfsagt að þú megir hygla hvers konar hagsmunum þínum í fámennu samfélagi – án meðvitundar um fyrirferð þína.
Stuðningsfólks Katrínar kemur vissulega úr fleiri áttum en úr ranni flæktrar valdaelítu, það er allskonar, héðan og þaðan, en breytir samt ekki nú ríkjandi ásýnd valdsins. Og fólki er frjálst að segja góða hluti um þann frambjóðanda sem það ætlar að kjósa. En lýðræðið þarf að fá að hafa sinn framgang við sem heilbrigðastar aðstæður.
Það sem hefur virkað fráhrindandi varðandi stuðninginn við framboð Katrínar er hvernig sumir boldangs stuðningsmenn hennar eru ómeðvitaðir um fyrirferð sína á kostnað þeirra sem búa ekki að því sama. Jafnvel þannig að í krafti stöðu sinnar reyna sumir þeirra að eyða hvers konar gagnrýni sem á ekki bara rétt á sér heldur inniheldur spurningar sem er nauðsynlegt er að velta fyrir sér – samfélagsins vegna. Þannig verða skilaboðin: Þið eruð óvitar – hlustið á okkur!
Þannig verða skilaboðin: Þið eruð óvitar – hlustið á okkur!
Gleymdu frumvarpinu! – verk ósýnilegra embættismanna
Þegar forsetaframbjóðandinn yfirgaf stól forsætisráðherra lágu samt eftir frumvörp svo umdeild að einhver gætu endað inni á borði hjá forseta. Frumvörp sem varða almenning og fjöldann.
Fólkið í landinu. Alla þá raddlausu. Sem eiga heimtingu á að lýðræðislega rétt sé staðið að málum. Á gagnsæi. Og eðlilegri stjórnskipan.
Sjókvíeldismálið er til dæmis umdeilt mál sem fer í kvikuna á þjóðinni og snertir sáraukann vegna kvótakerfisins. Klassískt dæmi um mál sem gæti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu en gerir það ekki nema forseti beiti málskotsréttinum.
Í húfi er endanlegt framsal á fiski í íslenskum fjörðum til norskra fyrirtækja. Eins og kunnugt er var frumvarp það afgreitt í matvælaráðuneytinu. Lagt fram af Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur eftir fáa daga í embætti svo hún hefur varla verið sú sem samdi það, heldur frekar Svandís Svavarsdottir eða Katrín á meðan hún leysti hana af í veikindaleyfi.
En frumvörp eru víst ekki lengur pólitísk heldur verk ósýnilegra embættismanna. Skilaboðin frambjóðandans eru: Ég treysti mér til að standa með þjóðinni, ég bið þig um að gleyma að frumvarpið varð til hjá mér og í samstarfi flokka sem ég var leiðtogi fyrir. Ég veld því að vera ventill á sjálfa mig. Ég get líka beitt honum gagnvart Bjarna, mínum nánasta samstarfsmanni til sjö ára.
Annað sem misbýður sumum eru útlendingamálin og útlendingafrumvarpið sem gagnrýnt hefur verið af Rauða krossinum og jafnvel gagnrýnt fyrir að ganga í berhögg við alþjóðasáttmála. Eins þau skref sem ríkisstjórnin steig eða öllu frekar steig ekki varðandi Gaza. Það er mál sem hefur pólaríserað þjóðina og ýmsum finnst ekki trúlegt að frambjóðandi sem talinn er hafa þóknast Sjálfstæðisflokknum í þessum málum geti talað sem sameinandi afl í nafni þjóðarinnar.
Áleitnar spurningar um virkni samfélagsins
Í pólitísku samhengi má spyrja: Er þetta heppilegt fordæmi fyrir lýðræðisvirkni?
Undirrituð er umkringd fólki – vinum sínum frá vinstri jafnt sem hægri og í listakreðsum – sem berjast fyrir því að fyrrum forsætisráðherra verði nú í beinu framhaldi forseti. Því er meira segja flaggað að það eigi sér fordæmi í vestrænum lýðræðisríkjum. Allt í kringum þetta hefur gert mann meira og meira hugsi.
Í aðdraganda þarsíðustu forsetakosninga hélt ég kaffiboð með sameiginlegri vinkonu mín og núverandi forsetaframbjóðanda. Við buðum hópi fólks ásamt Katrínu til þess að hvetja hana að bjóða sig fram til forseta en þá fannst henni uppátækið frekar skondið og viturlegra að reyna að leiða ríkisstjórn.
Nú, þessum árum seinna, var ég í fyrstu opin fyrir því að reynsla, félagsfærni og djúp þekking á innviðum samfélagsins, auk ýmissa mannkosta Katrínar, gætu gert hana að mjög hæfum forseta. Ég hef þekkt hana lengi og þótt vænt um hana. En það var áður en mikilvægum spurningum var blakað í burtu.
Eins og einhver sagði: Þetta er svo glatað því hún gæti verið svo flottur forseti!
Í rauninni gæti ég trúað að hún geti verið ventill – en það breytir því ekki að almennt eru þessar kringumstæður hættulegar þeim viðmiðum sem samfélagið þarf til að flugvélin sé örugg.
Traustið er ekki partíleikur fyrir vel stætt fólk
Réttlætinu þarf ekki bara að vera fullnægt heldur þarf líka að líta út fyrir það. Enginn vafi má leika á því að varhugavert geti verið að hún gegni embættinu. Hvorki hún né við vitum hvaða önnur dæmi kunna að koma upp. Katrín er búin að vera valdamesti embættismaður þjóðarinnar í sjö ár.
Traustið er ekki partíleikur fyrir vel stæða fólkið. Til að lýðræði geti dafnað þarf ekki bara að huga að þekktum þáttum heldur að fyrirbyggja álitaefni. Ekki bara hægt að segja: Nú eigið þið bara að treysta mér!
Traust fæðist ekki upp úr orðum heldur athöfnum. Og kjörorðið verður að vera æðra okkur. Þetta snýst hvorki um Katrínu né aðrar persónur og leikendur heldur heilbrigt lýðræði. Það þarf að hafa hreinar línur í aðskilnaði valdþátta til þess að lýðræðið gangi upp og geti verið heilbrigt.
Í kringum um mig heyrist reglulega: Mér þykir svo vænt um hana Katrínu en ég bara get þetta ekki. Eða: Ég vil ekki fara á móti henni, þetta er bara svo óeðlilegt!
Sjálfri finnst mér erfitt að skrifa þennan pistil, eins og ég sé að svíkja bæði hana og marga nána vini – en verra er að svíkja það sem er mér æðra.
Í þessum kosningum hafa aðstæður, aðdragandi og birtingamynd framboðsins afhjúpað spurningar um virkni samfélagsins. Alvarlegar og áleitnar spurningar – sem hættulegt er að gera lítið úr. En fennir yfir í félagslegri þægð.
Í rauninni gæti ég trúað að hún geti verið ventill – en það breytir því ekki að almennt eru þessar kringumstæður hættulegar þeim viðmiðum sem samfélagið þarf til að flugvélin sé örugg.
Stundum er skautun nauðsynleg
Í auglýsingu á Youtube fyrir framboðið varar Katrín gegn skautun í umræðu og samfélagi. Nokkuð sem brýnt er að ræða á tímum þegar umræða verður oft ofbeldiskennd og afvegaleiðandi. En á þessum forsendum stingur auglýsingin. Þegar um er að ræða frambjóðanda sem á sinn hátt hefur máð út átakalínur svo myndast hefur í kringum hana bandalag ólíkra valdaafla. Því stundum er skautun nauðsynleg.
Við þurfum líka rökræður og ágreining, rétt eins og við þurfum að kunna að fara með orðin og skapsmuni okkar. Það er ekki skautun að setja spurningarmerki við pólitískan feril fyrrum forsætisráðherra sem stekkur léttstíg úr stjórnarráðinu í forsetaframboð.
Í mínu nærfélagsneti vinna margir nú ákaft að því að Katrín verði forseti en þar er líka fólk sem gælir við að flytja úr landi ef raunin verður sú og inn á milli er fólk ansi ringlað. Hvort hún sé rétta manneskjan til að græða þessa skautun veit ég ekki. Hún talar gegn skautun um leið og hún er í augum sumra sjálf skautunin.
Hvað það gerir fyrir samfélagið veit ég ekki. Hún gæti lifað upp í að verða sameiningartákn. En kannski ekki.
Í mínu nærfélagsneti vinna margir nú ákaft að því að Katrín verði forseti en þar er líka fólk sem gælir við að flytja úr landi ef raunin verður sú og inn á milli er fólk ansi ringlað.
Ef Bjarni Ben fer með forsetavald
Það að rugga í 25% og daðra við 30% fylgi þýðir að stór hluti þjóðarinnar sér hana ekki í augnablikinu sem sameiningartákn, þó svo fastafylgið gæti dugað í flóru frambjóðenda til að tryggja henni Bessastaði.
Sérstaklega þegar þau eru nídd niður sem staldra við að stjórnarskráin segi að þingmaður geti ekki verið forseti, reglu sem var líklega sett til að skapa fjarlægð mili þings og forsetavalds. Eða þá hitt: ef forseti þarf að fara frá munu forsætisráðherra, forseti Alþingis eða forseti Hæstaréttar fara með forsetavald.
Það lokar ákveðnum hring ef Bjarni Benediktsson fer líka með forsetavald meðan Katrín er erlendis. Að þau sitji saman við ríkisstjórnarborðið fer að verða eins og mynd sem máist aldrei út.
Það lokar ákveðnum hring ef Bjarni Benediktsson fer líka með forsetavald meðan Katrín er erlendis.
Fólk að upplifa gaslýsingu
Katrín er aldeilis faglega hæf til embættisins – en forsagan og aðstæður og sá veruleiki sem kosningarbarátta hennar hefur afhjúpað segir aðra sögu.
Stjórnmálareyndur rýnir sagði að það væri í þágu valdsins að fá hana á Bessastaði því reynsla þess væri að hún myndi ekki setja neinum stólinn fyrir dyrnar.
Á sama tíma heyrir maður furðu oft fólk tala um að það upplifi gaslýsingu. Það upplifir að verið sé að eyða upplifun þess af forsögunni, óvanalegum aðstæðum þegar frambjóðandi yfirgaf forsætisráðherrastólinn. Eins skynjar það að reynt sé að má út og afskræma merkingu þess sem vefst fyrir því. Þú spyrð spurninga um virkni lýðræðisins og verður eltihrellir fyrir vikið.
Þú spyrð spurninga um virkni lýðræðisins og verður eltihrellir fyrir vikið.
Hennar bíður klofið samfélag
Aðdragandi kosningabaráttunnar var hraður og mörgum varð hverft við fréttamynd af Katrínu að færa Bjarna stjórnarráðið; ráðherra sem var nýbúinn að segja af sér sem fjármálaráðherra og setjast beint í stól utanríkissráðherra þar sem hann kynti undir skautun í þjóðfélaginu með viðbrögðum sínum – eða skorti á þeim – við hernaðinum á Gaza.
Staðreyndin er sú að sem forseta bíður Katrínar klofið samfélag. Þau eru svo mörg sem upplifa að verið sé að má út merkingu og gildi sín ef sú verður raunin. Sum svo að þau líða óþægindi við tilhugsunina eða upplifa að þau eigi þá varla heima í þessu samfélagi. Eitt er að segja að hlutirnir séu ekki pólitískir eða að fyrrum forsætisráðherra hafi hætt að vera pólitískur um leið og stigið var út úr stjórnarráðinu, annað er upplifun almennings sem er á alla kanta. Margir taka undir þá sýn Katrínar en mörgum er líka ofboðið.
Katrín er aldeilis faglega hæf til embættisins – en forsagan og aðstæður og sá veruleiki sem kosningarbarátta hennar hefur afhjúpað segir aðra sögu.
Kjósanda finnst ekki að hann sé í raun að kjósa erindreka
Hvort að Katrín sem forseti leiði til sameiningar annarra en þeirra sem hafa nú þegar hoppað á vagninn er erfitt að segja. Það gæti líka leitt til frekari skautunar. Skautun verður jú þegar fólk upplifir að merking þess, gildi og upplifun séu ekki gjaldgeng.
Svo virðist sem margir eigi eftir að reyna að kjósa strategískt í flóknum aðstæðum til að sporna við að hún verði forseti, eitthvað sem mælist jafnvel ekki strax í skoðanakönnunum. Kjósanda finnst ekki endilega að hann sé í raun og veru að kjósa einhvern erindreka af því að hluti almennra kjósenda upplifir sig fyrir utan að horfa inn, þangað sem ákvarðanir eru teknar – án þess að hafa neitt um það að segja
Þarna er bara fólk í einhverri kreðsu að eiga einhver embætti, sagði sprenglærð manneskja í samfélagsfúnksjón við mig.
Það er ekki góð menning. Þau eru blindust á valdið sem búa að því. Þurfa ekki að hafa fyrir því. Aðeins samstöðunni um að það sé þeirra.
Þú átt miklar þakkir fyrir Auður Jónsdóttir.
Og svo að öðru:
@Anna Friðriksdóttir
Ég ætla rétt að vona og óska eftir því að þessi grein Auðar Jónsdóttur verði forsíðugrein á prentútgáfu Heimildarinnar á föstudaginn.
Því málefnalegri, fræðandi og heilsteyptari grein hef ég ekki lesið í langan tíma.
"Það geisar ópíóða faraldur hér á landi og það er alger þögn hjá yfirvöldum" sagði Bubbi Morthens og dásamar svo Katrínu.
Kári í Íslenskri Erfðagreiningu er hinn versti út í okkar afstöðu varðandi Gasa en dásamar Katrínu og fær aðra með sér til að lýsa yfir stuðningi við hana. Hvað hefði gerst ef Covid-Víðir hefði neitað að lýsa yfir stuðningi. Fyrir "algera tilviljun" hefði starfssvið hans kannski breyst og hann lækkað um 40% í launum.
Fyrir stuttu veiktist íslensk kona í Búlgaríu. Sat föst á spítala þar sem ekkert var gert. Það kom drep í útlimi, sem þurfti að fjarlægja. Það tók íslensk stjórnvöld marga daga að bregðast við. Þegar Hamas gerði árás á Ísrael í október sl. var strax send þota til að sækja hóp Íslendinga, sem þar var, enda systir ráðherra í hópnum.
Auður skrifaði um daginn um unglinga sem virtust í lífshættu vegna ofdrykkju. Hringt var í lögregluna, sem ætlaði aldrei að mæta á staðinn. Þá rifjaðist upp fyrir mér grein í DV fyrir nokkrum árum þar sem sagði frá því, að pels dóttur Bjarna Ben var stolið. Hún fékk strax aðstoð lögreglunnar og þjófurinn náðist undir eins.
Katrín á mikinn þátt í að byggja upp þá sundrungu og mismunun, sem nú ríkir á Íslandi. Sértu í forréttindahópi leysir þú þín mál með einu símtali annars getur það tekið margar vikur jafnvel mörg ár ef þú færð yfir höfuð einhverja lausn.
Við ykkur, sem takið engu tali og kjósið Katrínu Jakobsdóttur sem forseta Íslands segi ég hiklaust. Þið berið ekki skynbragð á gott siðferði. Endilega hendið mér út af FB vinalista ykkar. Ég sakna góðra gilda, tryggðar; kærleika og réttlætis. Skyldulesning. Ég geng svo langt að segja við fólk.: Ef þú vilt teljast til sæmilega þenkjandi manna, þá ber þér að lesa þessa grein! Ekki vegna þess að greinarhöfundur er barnabarn nóbelsskáldsins, heldur vegna þess að þarna talar kona sem er gædd heiðarleika og ber skynbragð á gott siðferði.
Við ykkur, sem takið engu tali og kjósið Katrínu Jakobsdóttur sem forseta Íslands segi ég hiklaust. Þið berið ekki skynbragð á gott siðferði. Endilega hendið mér út af FB vinalista ykkar. Ég sakna góðra gilda, tryggðar; kærleika og réttlætis.
Það er til marks um rörsýn eða blindu Katrínar Jakobsdóttur að hún, sem segist hafa verulegar áhyggjur af aukinni skautun og vilji vinna gegn henni, hefur með margvíslegum svikum sínum gegn náttúruverndarsinnum og vinstri mönnum aukið skautun umtalsvert í samfélagi okkar. En nú tekur steininn úr þegar hún hoppar af toppi íslensks valdapíramída þráðbeint í framboð til forseta. Það eykur enn á skautun í samfélaginu, svo um munar og tekið er eftir.
Það er þá ekki í fyrsta skipti sem manneskja er ófær um að greina alvarlegar brotalamir í eigin hegðun og framgöngu; brotalamir sem hún sér í heiminum umhverfis sig og býsnast yfir. Þannig virkar rörsýn.
Ég ætla rétt að vona og óska eftir því að þessi grein Auðar Jónsdóttur verði forsíðugrein á prentútgáfu Heimildarinnar á föstudaginn.
Því málefnalegri, fræðandi og heilsteyptari grein hef ég ekki lesið í langan tíma.
Nóg er að nefna að í ræðu sinni þann 15. sept 2017 sagði hún orðrétt; "Það að biðja fjátækt fólk að bíða eftir réttlæti er það sama og neita því um réttlæti".
Mánuði síðar þegar hún flutti stefnuræðu sína sagði hún, (kanski ekki alveg orðrétt); "Því miður verð ég að biðja fátækasta fólkið að bíða enn um sinn eftir réttlætinu því nú er ekki rétti tíminn til að framkvæma það en á nýju ári munum við fara af stað í það verkefni".
Sex og hálfu ári síðar hefur staða fátækasta fólksins aldrei verið verið verri og versnar með hverjum deginum auk þess sem það fjölgar í þeim hópi.
Það er engu logið upp á Katrínu í þessari grein Auðar, þvert á móti.