Ef þú stendur andspænis einhverjum sem lokar fólk nauðugt inni, sviptir það vatni, mat og nauðsynlegum lyfjum, meinar því um alla aðstoð, ræðst á það, aflimar og myrðir, hvað segir það þá um þig þegar þú neitar ekki aðeins að taka afstöðu, heldur lýsir yfir von um að gerandinn sé öruggur og lofsamar söng hans?
Þekkt taktík ofbeldismanna er að stilla sér upp sem þolendum. Þannig snýst ímyndarherferð Ísraela meðal annars um að þeir séu fórnarlömb í stríði. Orðræðan snýst um rétt þeirra til að verjast.
En reyndin er sú að þeir hafa einmitt gert þetta: Lokað fólk inni og svipt það réttinum til lífs. Sterkar vísbendingar eru um að þeir séu í þessum töluðu orðum að fremja þjóðarmorð, þar sem heilu hóparnir eru drepnir og lífsgæði fólks eru vísvitandi skert, þannig að það skaðast alvarlega á líkama og sál, og leiðir til dauða. Þann 5. mars höfðu Ísraelar drepið yfir 30 þúsund Palestínubúa á fimm mánuðum.
Að mótmæla mannúðaraðstoð
Afstaða almennra borgara í Ísrael til stríðsins í Palestínu hefur margoft birst. Og hún hefur verið mæld. Í nóvember sýndi könnun ísraelsku lýðræðisstofuninarinnar að 57,5 prósent ísraelskra gyðinga töldu varnarliðið beita of litlu skotafli á Gaza. Ríflega þriðjungur taldi hernaðaraðgerðirnar hæfilegar. Aðeins 1,6 prósent sögðu ísraelska herinn ganga of langt í aðgerðum sínum gegn íbúum Gaza. Þá þegar höfðu yfir 10 þúsund íbúar verið drepnir, þar á meðal 4.000 börn. Í ofanálag voru um 1.300 börn týnd, flest föst undir húsarústum. Þetta var í nóvember. Staðan hefur snarversnað síðan.
Í nýlegri könnun var spurt hvort Ísraelar ættu að fallast á kröfu um að draga úr sprengjuárásum á þéttbýl svæði. Um 65 prósent svöruðu neitandi. Álíka margir vildu auka hernaðaraðgerðir í Rafah.
Alþjóðastofnanir hafa lýst neyðarástandi á Gaza og kallað eftir því að mannúðaraðstoð verði hleypt í gegn, þar sem fólk er að svelta í hel. En 70 prósent Ísraelsmanna vilja stöðva mannúðaraðstoð. Þegar spurt var sérstaklega hvort hleypa ætti í gegn mat og lyfjum sem flutt væru af alþjóðlegum stofnunum sem tengjast hvorki Hamas né UNRWA voru 58 prósent enn mótfallin.
Þrátt fyrir vísbendingar um þjóðarmorð telja um 62 prósent Ísraelsmanna að allt sé gert til að valda almennum borgurum ekki skaða. Um 20 prósent telja jafnvel að Ísraelar geri of mikið til að vernda almenna borgara, þar sem óvinir leynist á meðal þeirra.
Að sjá ungmenninn hlæja
Á samfélagsmiðlum birta ísraelsk ungmenni myndir af sér í herklæðum. Þau eru hlæjandi að fíflast og skemmta sér, samstilltur hópur sem ber vopn undir höndum. Þau eru í þjálfun.
Ungir áhrifavaldar láta líka í sér heyra: „Ég finn að ég er miklu reiðari en áður. Mér finnst eins og svo margir séu á móti okkur,“ segir ísraelskur áhrifavaldur með hálfa milljón fylgjenda: „Aðeins Ísraelar vita hvernig öðrum Ísraelsmönnum líður. Enginn mun nokkurn tímann vita hvernig okkur líður.“
Að taka undir heimsmynd Ísraela
„Ég vona að þið séuð örugg,“ segir íslenski keppandinn í Eurovison og tekur undir heimsmynd Ísraela, um leið og hún lofar framlag þeirra. Reyndar stóð til að meina ísraelsku keppendunum þátttöku því þeir sendu inn lag með texta sem þótti allt of pólitískur í miðju stríðsástandi. Textanum var breytt og nú eru Ísraelar mættir og Hera Björk er búinn að gefa það út að hún verði ekki í neinum vandræðum með að „hitta ísraelska keppandann og knúsa hana innilega“.
Ef fjölskylda hefði verið læst inni í húsi, svelt, pyntuð og drepin, hefði Hera Björk ekki heldur verið í neinum vandræðum með að knúsa innilega þá sem studdu glæpinn?
Eða er viðhorfið að ísraelski keppandinn beri ekki ábyrgð á gjörðum ísraelskra stjórnvalda – og þar af leiðandi sé í lagi að faðma hann að sér og lofa söng hans? Ef svo er þá væri lágmark að taka um leið afstöðu gegn gjörðum stjórnvalda, en það höfðu hvorki Hera Björk né ísraelski keppandinn gert. Þvert á móti sendi ísraelski söngvarinn inn lag sem mátti skilja sem stuðningsyfirlýsingu. Og Hera Björk segist alls ekki vilja ræða um þjóðarmorð í þessu samhengi. „Ég sný mér undan þegar talað er um Eurovision og barnamorð í sömu setningunni. Þá hugsa ég: Þarna er ekki rými til samtals og þá er best að bíða rólegur.“
Að blöskra hvítþvottur
Viðhorfið felur í sér afstöðuleysi. Slíkt afstöðuleysi felur óhjákvæmilega í sér afstöðu með óbreyttu ástandi. Með yfirlýsingum sínum hefur Hera Björk reyndar gengið skrefi lengra.
Ef hópur manna hefði staðið hjá og jafnvel hvatt aðra áfram á meðan þeir spörkuðu í mann sem átti aldrei séns, myndum við þá lofa söng þeirra sem mynduðu klappliðið? Eða þeirra sem litu undan og létu ofbeldið viðgangast án þess að segja neitt eða gera neitt?
Það beinist ekki persónulega að Heru Björk að fólki blöskri slíkur hvítþvottur. Hún er fulltrúi þjóðarinnar, á alþjóðlegum vettvangi þar sem skýrt hafði komið fram að meirihluti Íslendinga vildi ekki deila sviði með Ísraelsmönnum.
Í desember var niðurstaða könnunar sem Prósent gerði að 76 prósent landsmanna væri mjög eða frekar sammála því að útiloka ætti Ísrael frá þátttöku í keppninni. Þá vildu 60 prósent hætta við þátttöku Íslendinga ef svo færi ekki. Nú í mars voru enn fleiri sem vildu frekar að Ísland sæti hjá en tækju þátt. Þá sagðist aðeins þriðjungur þjóðarinnar hlynntur þátttöku Íslands.
Enda var Ísraelsher að sprengja íbúðarhús í loft upp á meðan forkeppnin fór fram hár á landi og ráðast á flóttamannabúðir, með tilheyrandi mannfalli.
Að loka á gagnrýni
Hera Björk komst út eftir einvígi við Palestínumann, sem hafði gjörsigrað undanúrslitin. En í meingölluðum kosningum var ekki hægt að kjósa hann í einvíginu. Þess vegna lýsti lagahöfundur lagsins sem Hera Björk syngur því yfir að samviskan leyfði henni ekki að fylgja sigurlaginu út, á meðan vafi léki á niðurstöðum kosninganna. Hera Björk sagðist skilja lagahöfundinn, en gerði um leið lítið úr afstöðu hennar, með því að segja að hún væri bara yngri og óreyndari en hún sjálf, og hefði ekki þolað þrýstinginn vegna málsins. Sjálf væri hún sterkari fyrir: „Ég held að ég sé, verandi ‘72 módel, með teflon-húð,“ segir hún.
Allt hefur þetta verið gagnrýnt. En Hera Björk hefur valið að hlusta ekki, heldur fara í varnarstöðu og loka eyrunum. „Ég er ekki viðkvæm fyrir gagnrýninni lengur,“ sagði hún í viðtali við RÚV í mars. „Ég einhvern veginn hleypi þessu ekki inn.“
Hún sagðist sýna því skilning að fólk væri að upplifa reiði, sorg og vanmátt, en blokka þá sem senda henni skilaboð til að ræða málið.
Þrátt fyrir allt væri henni stöðugt hugsað til þessara barna sem þjást. „Málið er að mér líður eins og þetta séu mín börn. En líka þessi Ísraelsmegin,“ sagði hún: „Ísraelsbörnin þarfnast mín líka af því við erum að tala um þessa hræðilegu stöðu sem eru á milli þessara þjóðarbrota. Ísraelsku börnin þarfnast mín líka til jafns við palestínsku.“
Að gleðjast saman í tómarúmi
Orð hennar báru ekki með sér að hún hefði mikinn skilning eða vilja til að skilja ástandið. Engu að síður var hún búin að sannfæra sig um að geta lagt lóð sitt á vogarskálarnar með því að syngja og senda sínar tilfinningar út í heim. „Eins og heimsmyndin er núna þá held ég að við þurfum meira á kærleika og gleðinni að halda.“
Á endanum valdi Hera Björk að fara út. Og lofsyngja framlag Ísraela. Það bað hana enginn um það. Fyrir vikið mun hún þurfa að þola gagnrýni. Og fólk lét í sér heyra.
Daginn eftir sendi hún íslenskum fjölmiðli athugasemd og sagði orð sín tekin úr samhengi: „Mér finnst framkoma Ísrael við Palentínsku þjóðina vera hræðileg og til skammar. Að börn þjáist finnst mér alltaf vera skelfilegt og hvað þá þegar heil þjóð þjáist. [...] Ég er á móti stríði. Ég kalla á eftir friði og er á móti því að fólk tali ekki saman og beiti ofbeldi.“
Í ljósi stöðunnar má biðja hana um að segja hið sama upphátt á alþjóðvettvangi. Við fulltrúa Ísraels, fyrst hún hefur tækifæri til.
Áður en Hera Björk fór út hafði hún upplýst að samkvæmt hefðinni myndi hún deila rými baksviðs með írska og ísraelska þátttakendunum. Hún hefur því næg tækifæri til að faðma hann þétt að sér.
Það kemur síðan í ljós hversu mörg palestínsk börn ísraelski herinn myrti á meðan söngvakeppninni stóð.
Vonandi skemmtið þið ykkur vel.
Ban Israel from Eurovision Song Contest 2024 á change.org
https://chng.it/CMH2dgqhq6