Söguleg stund rann upp á Norður-Írlandi þann 6.febrúar síðastliðinn, en þá tók þing þess aftur til starfa, eftir um tveggja ára hlé, þar sem í raun engin ríkisstjórn var starfandi í þessum hluta Bretlands. Stjórnskipulega séð tilheyrir Norður-Írland Bretlandi og eru íbúar þess tæpar tvær milljónir.
Það tekur aðeins um 2,5 klst að fljúga til Írlands, en þegar þangað er komið blasir við samfélag hvers saga er bæði flókin og blóðug, en tengsl okkar Íslendinga við Íra hafa verið margvísleg í gegnum tíðina, þau má í raun rekja allt aftur til landnáms.
Á árunum 1968-1998 geisaði á Norður-Írlandi blóðug borgarastyrjöld (e. „The Troubles“) á milli mótmælenda (sem vilja áfram tilheyra Bretlandi) og kaþólikka (sem vilja sameinast írska lýðveldinu, Írlandi). Í þessum átökum féllu hátt í 4000 manns og tugir þúsunda eru taldir hafa særst. Var þetta nánast daglega í fréttum, aðal „fréttamaturinn“ ef þannig má að orði komast. Banatilræði og sprengjutilræði voru fjölmörg og breski herinn, sem var kvaddur á vettvang 1969, með það markmið að stilla til friðar, réði í raun lítið við ástandið og flæktist smám saman illa inn í átökin. Um 1000 breskir hermenn féllu.
Friðarsamningur eftir blóðbað
Gerður var friðarsamningur sem á ensku kallast „The Good Friday“-samningurinn, en undir hann var skrifað á föstudaginn langa, árið 1998, því nafnið. Frá þeim tíma hefur verið friður á Norður-Írlandi, sem varð til árið 1921, þegar Írland klofnaði og sex sýslur í norðurhlutanum mynduðu þetta ríkjabrot, ef svo má kalla.
En þrátt fyrir frið hafa vandamál verið til staðar. Mikil fátækt og stéttaskipting ríkir á Norður-Írlandi og félagsleg vandamál hafa verið mikil. Norður-Írland hefur í gegnum tíðina að mörgu leyti verið nokkuð verr statt en aðrir hlutar Bretlands, þó bilið hafi minnkað í dag. Það er einnig stutt í deilur og klofning, sem enn ristir djúpt. Mörg mál í sambandi við borgarastríðið eru enn óuppgerð, sem og almennt staða Norður-Írlands má segja, á það að tilheyra áfram Bretlandi og eða á það að sameinast Írlandi og þar með ef til vill vera stjórnað frá Dublin, en ekki Belfast?
Brexit hörmung
Útganga Bretlands úr ESB (fóru inn 1973), Brexit, fyrir um sléttum fjórum árum síðan var nokkuð sem átti að gera alla Breta hamingjusama á ný. Brexit fól hins vegar í sér stórfelld vandræði fyrir Norður-Írland og olli því fyrir um tveimur árum að flokkur sambandssinna, DUP (e. Democratic Unionist Party), sleit stjórnarsamstarfinu í Belfast.
Sérstaða Norður-Írlands felst í því að eiga landamæri að Írlandi (í ESB) og óttuðust margir að aftur yrði um að ræða svokölluð „hörð landamæri“ – með miklu eftirliti. Þetta magnaði upp gamla spennu og ótta við endurnýjuð átök. Sem enginn vill.
Því varð að finna lausnir á þessu í samningaviðræðum Breta og ESB um útgönguna úr ESB, sem höfundur þessarar greinar vill reyndar meina að sé eitt versta mál sem gengið hefur yfir Breta á undanförnum áratugum. Mjög mikil óánægja ríkir með útkomuna úr Brexit og fjöldi kannana benda til þess að meirihluti almennings sjái eftir útgöngunni úr ESB og telji að hún hafi haft slæm áhrif á Bretland.
Mikilvægt samkomulag
Lausnin sem menn sættust á var sú að hafa landamæri í hafinu á milli Bretlands og Írlands. Að auki var gert sérstakt samkomulag, „Windsor-samkomulagið“, mestmegnis vegna kröfu flokks sambandssinna. Í því felast aðgerðir til að auðvelda og liðka fyrir flæði vöru og þjónustu til N-Írlands. Samkomulagið gerir það í raun að verkum að Norður-Írland er enn hluti af Innri markaði ESB. Til hvers var þá Brexit, mætti spyrja?
Fram undan á þinginu í Stormont, bíða þingmanna og endurvakinnar stjórnar mörg og erfið verkefni, enda margt setið á hakanum undanfarin tvö ár. Hlutum hefur meira og minna einungis „haldið í horfinu“ af embættismönnum og því þurfa menn að bretta upp ermar.
Sinn Fein og konur í leiðtogahlutverkum
Það sem hins vegar er stórmerkilegt og sögulegt nú er að ráðherra Norður-Írlands (í raun forsætisráðherra) kemur frá flokki þjóðernissinna, „Sinn fein“ („Við sjálf“) sem löngum hefur barist fyrir sameiningu Norður-Írlands og lýðveldisins Írlands.
Um er að ræða konu sem heitir Michelle O‘Neill, en faðir hennar barðist með Írska lýðveldishernum (IRA) á sínum tíma og sat meðal annars í fangelsi. Þá létust ættingjar hennar í átökunum sem áður hefur verið lýst. Aðstoðarráðherra kemur úr flokki sambandssinna, einnig kona, Emma Little-Pengelly. Það eru því konur í efstu lögum valdapíramídans á Norður-Írlandi um þessar mundir.
En hvernig sambúðin og samstarfið í Stormont gengur og hvort menn ná sáttum um mikilvæg mál sem þarf að taka á, verður tíminn að leiða í ljós og verður áhugavert að fylgjast með framvindunni.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og framhaldsskólakennari og dvaldi í Belfast sumarið 2023.
Athugasemdir