Ég sat einu sinni við eldhúsborðið mitt í erlendri borg og fletti dagblaði, þegar ég rak augun í kunnuglegt bros á mynd. Ég hugsaði með mér að það gæti ekki verið – og fletti áfram. Brosið hvarf samt ekki úr huga mér, svo ég fletti til baka – og viti menn! Svartar krullur, freknur á nefi og breitt bros. Það var ekki um að villast; þetta var fyrrum nemandi minn. Ég las auðvitað blaðagreinina og komst að því að hann var nýkominn úr æfingabúðum í útlöndum. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, nema fyrir það að allir sem voru með honum í liði borguðu aukalega fyrir ferðina til þess að greiða hans hlut. Það hafði einnig verið stofnuð styrktarsíða á netinu, svo hægt var að kaupa föt og allan þann búnað sem hann þurfti. Svo það var í raun fyrir gjafmildi ókunnugra sem trúðu á hann og hans hæfileika að hann komst með í æfingabúðirnar.
Þegar hann var í bekknum hjá mér var ekki hægt að reikna með mætingu hans frekar en íslenskri sumarblíðu. Hann kom seint, eða kom ekki – en það var gaman þegar hann kom, það vantaði ekki. Hann talaði mikið og hló hátt, en heilsaði kennaranum sínum feiminn með handabandi og baðst afsökunar á fjarveru sinni. Þegar ég spurði um ástæður var fátt um svör. Hann lofaði bót og betrun, en ekkert gerðist. Hann lærði fátt hjá mér og endaði á því að skrópa sig út úr skólanum. Hann kvaddi okkur með bros á vör, og ekki grunaði mig að ég ætti eftir að sjá hann eða heyra af honum aftur.
En samkvæmt þessari blaðagrein átti hann gamla vinkonu í bænum þar sem hann bjó. Þau gátu ekkert talað saman, en þar sem hann sat einn daginn hjá henni í eldhúsinu og gæddi sér á kræsingum og kaldri mjólk, sýndi hann henni mynd á google af skiptilykli. Hann ætlaði nefnilega að gera við gamalt hjól sem honum hafði áskotnast. Því var reddað eins og skot. Þegar vinkona hans sá hann með skiptilykilinn vissi hún að þetta hafði hann gert áður. Hún sýndi honum þá mynd af hjólreiðamanni, hann fór að hlæja og kinkaði kolli.
Hún hafði samband við hjólreiðaklúbbinn í bænum og skömmu síðar var hann kominn á æfingu. Þar kom fljótlega í ljós að hann var með þeim betri í liðinu! Núna vantaði ekki upp á mætinguna. Þjálfarinn hans og æfingafélagar studdu við bakið á honum. Það gerði gamla vinkona hans líka. Stuðningur þeirra og áhugi leiddi til þessa framtaks almennings. Fyrirsögnin í fréttinni var; Flóttamaður gerði við hjól – á framtíðina fyrir sér sem atvinnumaður í hjólreiðum. Falleg saga, ekki satt?
Hún minnti mig líka á aðra sögu af öðrum nemanda, sem var búinn að vera í skólanum hjá mér í 3 ár. Hann átti erfitt með að læra, var feiminn og lét lítið fyrir sér fara. Hann mætti samt á hverjum degi og gerði sitt allra, allra besta – en það liggur ekki fyrir okkur öllum að læra tungumál, og sama hvað hann reyndi, þá voru framfarirnar ekki miklar. Hann var þó búinn að berjast í gegnum alla bekkina og átti sér stóran vinahóp – því tryggari dreng og meiri öðling var erfitt að finna.
En hálfu ári fyrir útskrift – eftir alla þessa vinnu – var einhver starfsmaður á einhverri skrifstofu úti í bæ sem ákvað að nú væri komið nóg. Það þýddi ekki að greiða fyrir þetta skólatilboð fyrir hann lengur, þar sem það væri greinilega ekki að skila sér. Það var ákveðið að best væri að hann færi að vinna í sjoppu. Það er svo sem ekkert að því að vinna í sjoppu, en þegar maður er mállaus að mestu, hlédrægur og lítið fyrir að trana sér fram, þá eru afgreiðslustörf kannski ekki efst á óskalistanum.
Bæði kennarar og nemendur voru í losti og slógum við upp fyrir hann veislu síðasta skóladaginn hans (sem var nákvæmlega 2 dögum eftir að honum var tilkynnt að hann ætti að hætta). Þar sem ég sat og spjallaði við hann, reyndi að stappa í hann stálinu og telja honum trú um að þetta yrði allt í lagi í sjoppunni, þá talaðist það upp að hann hafði unnið sem húsgagnasmiður í heimalandinu og langaði reyndar helst að vinna við það.
„Það sem ég hef lært, bæði í störfum mínum með fylgdarlausum ungmennum víðs vegar um heiminn, sem prestur, sem innflytjandi, vinkona og samfélagsþegn, er að samtalið er það allra mikilvægasta sem við eigum.“
Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Í öll þessi ár hafði ég hitt hann næstum daglega, en ekki hafði mig grunað hvaða þekkingu hann kom með frá heimalandinu, eða hvaða óskir og drauma hann hafði. Hefði ekki verið betra að senda hann strax í starfsþjálfun hjá húsgagnasmið? Þar sem hann hefði getað lært tungumálið, eignast vinnufélaga, og lært að spjara sig sjálfur. Í staðinn var hann búinn að sitja á skólabekk í öll þessi ár, til þess eins að fara að vinna í sjoppu – án þess að vera með pappír upp á eitt né neitt. Á byrjunarreit – faglega og félagslega.
Hefði hann verið opinn, hávær, tranað sér fram og haft breitt bros sem heillar gamlar konur, þá hefði kannski farið öðruvísi. En hann er feiminn, þolinmóður, með hlýtt bros og lága rödd. Þess vegna fóru hæfileikar hans og möguleikar fram hjá mér, vinum hans, og því fagfólki sem að honum stendur.
Það sem ég hef lært, bæði í störfum mínum með fylgdarlausum ungmennum víðs vegar um heiminn, sem prestur, sem innflytjandi, vinkona og samfélagsþegn, er að samtalið er það allra mikilvægasta sem við eigum. Það er svo mikilvægt að við mætum hvert öðru í augnhæð. Hlustum – raunverulega hlustum – og tjáum okkur um það hvað á okkur hvílir.
En það krefst þess að við gefum okkur tíma. Ef við myndum hætta að hittast á hlaupum til þess eins að tala um veðrið, og hvað það er brjálað hjá okkur að gera. Og færum að tala um það sem raunverulega brennur á okkur. Fyrir hvað við stöndum og hvað við viljum bæta. Hvað okkur finnst erfitt og hvað við þurfum aðstoð með. Myndi heimurinn þá ekki líta öðruvísi út? Ég er sannfærð um það að við getum breytt heiminum til hins betra ef við förum að tala saman.
Það er allt hægt og það er oftast ekki flókið. Eins og rithöfundurinn Bergþóra Snæbjörnsdóttir sagði eftir að hún og vinkonur hennar tóku á móti fjögurra manna fjölskyldu frá Gaza á dögunum: „Þetta er ekki svona flókið, og ef þetta er svona flókið, hvernig fórum við þá að þessu?“ Ég leyfi mér að giska að aðgerðir þessara mögnuðu kvenna hafi byrjað með samtali. Einlægu samtali í augnhæð, þar sem raunverulegra leiða var leitað til þess að aðstoða vin í neyð.
Og því langar mig að spyrja þig, lesandi góður: Hvað brennur á þér þessa dagana og hverjum ætlarðu að segja það?
Athugasemdir (1)