Æ sér gjöf til gjalda
Armbandið umdeilda Shamballa armbandið sást vel á hægri hönd Friðriks X á meðan að hann veifaði þjóð sinn ótt og títt eftir að hafa tekið við sem konungur 14. janúa síðastliðinn. Mynd: EPA
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Æ sér gjöf til gjalda

Þeg­ar Frið­rik X kom fram á sval­ir Kristjáns­borg­ar­hall­ar í Kaup­manna­höfn eft­ir að hafa ver­ið lýst­ur kon­ung­ur Dan­merk­ur bar hann arm­band frá þekkt­um dönsk­um skart­gripa­fram­leið­anda. Það hef­ur vak­ið marg­ar spurn­ing­ar um gjaf­ir til kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar sem eng­ar regl­ur gilda um. Kon­ungs­hjón­in boða breyt­ing­ar.

Fyrirsögn þessarar skýringar er gamall málsháttur. Hann er ekki mikið notaður dagsdaglega en flestir vita hvað hann merkir. Nefnilega að gefandinn gerir ráð fyrir, eða ætlast jafnvel til, að fá eitthvað í staðinn.

Talið er að aldrei í sögu Danmerkur hafi jafnmargt fólk verið samankomið í miðborg Kaupmannahafnar og sunnudaginn 14. janúar síðastliðinn. Tilefnið var að þann dag tók Friðrik, sonur Margrétar Þórhildar og Henriks drottningarmanns, við sem þjóðhöfðingi Danmerkur. Fyrr þennan sama dag voru haldnir tveir ríkisráðsfundir í Kristjánsborgarhöll, á þeim fyrri afsalaði Margrét Þórhildur sér krúnunni til sonarins og yfirgaf fundarstaðinn. Á seinni fundinum, þar sem nýr þjóðhöfðingi var tekinn við krúnunni, var staðfest að Kristján, elsti sonur Friðriks konungs og Mary drottningar, væri nýr ríkisarfi og undirritaði hollustueið þar að lútandi. Þessir fundir voru stuttir en mikilvægir því þar fóru hin eiginlegu þjóðhöfðingjaskipti fram.  

Mannþröng í miðbænum

Eins og áður var nefnt var margt fólk, lögreglan taldi allt að 300 þúsund, á svæðinu við Kristjánsborgarhöll daginn sem Friðrik tók við sem þjóðhöfðingi. Hefð er fyrir því að þegar þjóðhöfðingjaskiptin hafa farið fram kemur þjóðhöfðinginn fram á svalir hallarinnar ásamt forsætisráðherranum. Þá er hrópað nífalt húrra undir stjórn ráðherrans, eitt dönsku dagblaðanna sagði að aldrei hefði nokkur danskur kórstjóri stjórnað stærri kór en Mette Frederiksen þennan dag, aldrei fleiri danskir fánar, Dannebrog, á lofti og aldrei fleiri hendur klappað. Konungurinn flutti svo stutt ávarp og enn var klappað og hrópað.

Þegar Mette Frederiksen hafði dregið sig í hlé stóð Friðrik, nú orðinn Friðrik X, áfram á svölunum og eftir smástund birtust Mary og börnin fjögur. Mannfjöldinn klappaði, hrópaði og veifaði fánunum. Konungsfjölskyldan veifaði sömuleiðis til mannfjöldans, börnin hálfhikandi en kóngur og drottning veifuðu ótt og títt. Þeir sem fylgdust með á sjónvarpsskjáum veittu, að minnsta kosti sumir, athygli skrautlegu armbandi á hægri handlegg konungsins. 

Armbandið

Kunnugir töldu sig sjá að armbandið á handlegg konungs væri svonefnt Shamballa armband. Shamballa fyrirtækið er danskt, í eigu bræðranna Mads og Mikkel Kornerup. Eftir að Mads hafði ferðast um Austurlönd og meðal annars séð margs konar skartgripi ákvað hann, ásamt Mikkel bróður sínum, að hanna og koma á markaðinn armböndum, sem yrðu ekki hvað síst hugsuð fyrir karlmenn. Þau yrðu að sögn Mads ólíkir því sem áður hefði sést, og bræðurnir ákváðu að nefna armböndin Shamballa, eftir konungsríki í tíbeskri búddatrú.

„Á liðnum árum og áratugum hefur danska konungsfjölskyldan fengið fjölmargar gjafir, stórar og smáar, frá einstaklingum og fyrirtækjum“

Skemmst er frá því að segja að armböndin sem komu á markaðinn skömmu eftir síðustu aldamót vöktu strax athygli og „slógu í gegn“ eins og sagt er, þrátt fyrir að verðið væri í hærri kantinum. Saga Shamballa verður ekki frekar rakin hér, þeim sem sýndist kóngurinn bera eitt slíkt daginn sem hann tók við krúnunni hafði ekki missýnst. Það staðfesti Mikkel Kornerup. Hann vildi hins vegar ekki segja hvort kóngur hefði fengið armbandið að gjöf frá fyrirtækinu. Nokkrir danskir fjölmiðlar fjölluðu um málið og töluðu um að þjóðhöfðingjanum væri frjálst að bera þá skartgripi sem honum sýndist, en ef hann hefði fengið umrætt armband að gjöf væri óviðeigandi að hann auglýsti Shamballa með þessum hætti. 

Umræðan um gjafir ekki ný af nálinni

Á liðnum árum og áratugum hefur danska konungsfjölskyldan fengið fjölmargar gjafir, stórar og smáar, frá einstaklingum og fyrirtækjum. Fyrir utan gjafir sem hirðin hefur fengið frá þjóðhöfðingjum sem komið hafa til Danmerkur í opinberar heimsóknir. Gjafirnar sem drottningin, synir hennar, makar þeirra og börn hafa þegið eru af ýmsu tagi: minkapelsar, hönnunarföt, töskur, skartgripir, gullslegin blöndunartæki á baðherbergi, barnavagnar, hraðbátar og bílar. Og þetta er ekki nýtilkomið, þegar Margrét Þórhildur varð 18 ára, árið 1958, færði sænski bílaframleiðandinn Volvo henni bíl að gjöf, Volvo að sjálfsögðu. Sama gilti um Friðrik, hann fékk Volvo að gjöf frá framleiðandanum þegar hann varð 18 ára.

„Margir hafa á liðnum árum gagnrýnt þetta og sagt að dýrar gjafir veki ákveðnar grunsemdir um að gefandinn vonist eftir að fá eitthvað fyrir sinn snúð“

Marie prinsessa fékk bíl að gjöf þegar hún og Jóakim prins gengu í hjónaband árið 2008. Stærstu gjöf af þessu tagi fengu þau Friðrik og Mary þegar þau voru pússuð saman árið 2004, heila fimm bíla. Henrik drottningarmaður fékk fyrir mörgum árum bíl sem var sérútbúinn til að geta dregið hraðbát sem hann átti. Árið 2018 tilkynnti fjölskylda Margrétar Þórhildar að fjölskyldan myndi hér eftir ekki taka á móti dýrum gjöfum, bílar voru ekki nefndir sérstaklega.  

Hirðin bregst við

Umræðan um armbandið og gjafir til konungsfjölskyldunnar hefur ekki farið fram hjá fjölskyldunni á Amalienborg. Fram til þessa hafa ekki gilt neinar reglur varðandi slíkar gjafir og engin skylda hvílt á fjölskyldunni um að upplýsa um slíkar gjafir.

Margir hafa á liðnum árum gagnrýnt þetta og sagt að dýrar gjafir veki ákveðnar grunsemdir um að gefandinn vonist eftir að fá eitthvað fyrir sinn snúð „æ sér gjöf til gjalda“. Nú hafa konungshjónin tilkynnt að í þessum efnum verði settar reglur sem taki gildi á næstunni. 

Strangar reglur í Noregi

Ýmsir sem gagnrýnt hafa að engar reglur gildi um gjafir til dönsku hirðarinnar hafa bent á að í sumum löndum gildi strangar reglur. Í Noregi er reglan sú að gjafir frá fyrirtækjum til hirðarinnar eru afþakkaðar og listi yfir allar gjafir sem kosta meira en 1.000 krónur norskar (13 þúsund íslenskar) og eru ekki frá fjölskyldu eða vinum er birtur á heimasíðu hirðarinnar. Bretland, Spánn og fleiri lönd birta árlega lista með gjöfum sem borist hafa til hirðarinnar.  

Ráðherrann og Rolex úrið

Í tengslum við „armbandsmálið“ hafa danskir fjölmiðlar rifjað upp það sem á sínum tíma gekk undir nafninu Rolex málið.

Í nóvember árið 2010 greindu margir danskir fjölmiðlar frá því að Troels Lund Poulsen, sem þá var ráðherra umhverfismála, hefði fengið Rolex úr að gjöf frá olíufursta í Katar. Ráðherrann var fyrr á árinu á ferðalagi um  Mið-Austurlönd ásamt Friðriki krónprins, tilgangur ferðarinnar var að kynna danska framleiðslu, einkum á sviði orkuvinnslu. Reyndar fékk ráðherrann líka úr frá Abdullah, kóngi Sádi-Arabíu, það var af tegundinni Hamilton. Verðmiðinn á Rolex úrinu hjá dönskum úrasala var tæpar 70 þúsund krónur danskar en Hamilton úrið um það bil 5 þúsund. Ráðherrann fór heim til Danmerkur með úrið, borgaði af því tilskilin gjöld við komuna til landsins og gekk næstu mánuði gjarna með úrið. Þegar danska dagblaðið B.T. komst á snoðir um hvernig, sem blaðið kallaði Trolex, hefði eignast úrið varð það samstundis að stórfrétt, nánast í öllum miðlum.

Ráðherrann sagðist hafa borgað tilskilin gjöld við komuna til landsins og enn fremur talið úrið fram til skatts, eins og lög gera ráð fyrir. Sérfræðingar í skattamálum bentu á að opinberir starfsmenn mættu einungis taka á móti smágjöfum, t.d. bók eða rauðvínsflösku. Lars Løkke Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra, skrifaði í svari til dagblaðsins B.T. að ráðherrar teldu að þeir væru undanþegnir þeim reglum sem giltu um gjafir til embættismanna. Skattamálasérfræðingar blésu á þetta og umboðsmaður þingsins sagði að sömu reglur giltu um þingmenn og aðra opinbera starfsmenn.

Í geymslu í ráðuneytinu en ráðherrann sagðist eiga þau

Í janúar 2011 greindu danskir fjölmiðlar frá því að Troels Lund, sem þá var orðinn ráðherra skattamála, hefði afhent skattaráðuneytinu úrin tvö, Rolex og Hamilton, og þau hefðu verið sett þar í geymslu, eins og það var orðað. Þar hafa þau svo verið síðan þá, í læstu öryggishólfi. 

Gjöf til ráðherraÚr af gerðinni Rolex GMT Master II, þeirri sömu og ráðherrann fékk að gjöf.

Í viðtali við Berlingske fyrir nokkrum dögum var rætt við Troels Lund Poulsen, sem nú er varnarmálaráðherra og formaður Venstre, um úrin. Troels Lund sagði að hann væri eigandinn og þegar að því kæmi að hann hætti þátttöku í stjórnmálum myndi hann óska eftir að fá úrin afhent.

Hætti við en framtíð úranna óljós

Viðtalið í Berlingske þar sem Troels Lund sagðist ætla að fá úrin afhent þegar hann hætti í stjórnmálum vakti mikla athygli. Lagaprófessor sem Berlingske ræddi við sagði það ekki standast að Troels Lund gæti fengið úrin afhent. Þau væru eign ríkisins, til greina kæmi að Troels Lund gæti fengið þau keypt ef um semdist. 

Nokkrum dögum síðar ræddi B.T. við Troels Lund um úrin og framtíð þeirra. Þá hafði ráðherrann snúið við blaðinu og sagði að hann myndi ekki fara fram á að fá úrin tvö afhent. Þegar spurt var hvað yrði um úrin sagðist Troels Lund ekki vita það, þau hefðu mátt dúsa í öryggishólfinu í 13 ár en hvort það yrði þeirra framtíðarheimili væri ekki sitt að ákveða.

Kjósa
18
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár