Í janúar 2020 hófust atburðir á Reykjanesskaga sem sérfræðingar mátu samstundis óvenjulega ef horft væri til virkni síðustu áratuga á svæðinu. Um var að ræða skjálftahrinu og landris við fjallið Þorbjörn.
Það var mat vísindaráðs almannavarna á þessum tíma, fyrir fjórum árum síðan, að kvikuinnskot væri sennilegasta skýringin á atburðunum. Í tilkynningu á heimasíðu Veðurstofu Íslands sagði að „atburðarás eins og var að hefjast á Reykjanesskaga gæti orðið mjög löng og kaflaskipt, þar sem dregur úr virkni tímabundið án þess að henni sé að fullu lokið“. Um var að ræða mestu virkni sem mælst hafði á Reykjanesskaganum frá upphafi. Frá því í lok janúar 2020 og fram til 10. apríl sama ár mældust átta þúsund jarðskjálftar á svæðinu.
Tæpu ári síðar gaus við Fagradalsfjall. Um var að ræða fyrsta eldgosið á Reykjanesskaga í um 800 ár. Í byrjun ágúst 2022 hófst annað gos í Meradölum og í júlí 2023 gaus við Litla-Hrút. Þrjú eldgos á þremur árum. Tugþúsundir jarðskjálfta. Mat vísindamanna var samhljóma um það nánast frá byrjun að hér væri svæði vaknað úr mörg hundruð ára dvala og að atburðirnir gætu staðið yfir árum saman.
Á svæðinu er ein stór byggð, Grindavík. Á fjórum árum voru ekki gerðar neinar ráðstafanir sem neinu nemur til að teikna upp þá sviðsmynd hjá stjórnvöldum, sem alltaf var möguleg og raunveruleg, að rýma þyrfti Grindavík og að ekki væri hægt að búa þar, að minnsta kosti í nokkur ár, en mögulega aldrei aftur.
Öll viðvörunarljós blikkuðu
Sú staða breyttist skyndilega 10. nóvember þegar Grindavík var rýmd yfir nótt. Skjálftar brutu bæinn og kvikugöng mynduðust undir honum. Lagnir gengu til og stórskemmdust. Altjón varð á mörgum húsum og undirlagið undir bænum seig víða um meira en einn metra.
„Í stuttu máli þá blikkuðu öll viðvörunarljós“
Varað var við því að áhrifin af þessum atburðum yrðu stórkostleg, meðal annars á þessum vettvangi þann 24. nóvember í fyrra. Að mikil óvissa væri um það að Grindavík yrði lengur til í þeirri mynd sem verið hafði og að áhrifin af því myndu hafa víðtæk efnahagsleg áhrif á allt íslenskt samfélag. Þau áhrif yrðu bæði vegna beins kostnaðar við að leysa úr þeim vanda sem steðjaði að Grindvíkingum en líka – meðal annars en ekki eingöngu – á ferðaþjónustu, annan útflutning, afkomu hins opinbera, gengi krónunnar og verðbólgu.
Í stuttu máli þá blikkuðu öll viðvörunarljós. Þótt skiljanlegt væri að Grindvíkingar vildu bera von í hjarta um að snúa aftur heim, og töluðu mörg hver um það opinskátt, þá benti kalt mat til þess að það væri afar ósennileg niðurstaða.
Við svona aðstæður reynir á ráðamenn á hátt sem sennilega hefur aldrei gert áður. Þeir verða að stíga fram af fum- og æðruleysi, tala skýrt og alls ekki, undir nokkrum kringumstæðum, fara í felur eða tala í hringi. Á Íslandi var hins vegar við völd sundurleit og óvinsæl ríkisstjórn þjökuð af innri samskiptavanda. Ríkisstjórn sem hafði skömmu áður farið með rútur af bjór í rútu á Þingvelli til að ákveða að hanga áfram saman í ástlausu hjónabandi. Lausnin var fólgin í því að hólfa verkefni hennar út kjörtímabilið niður í eitt: að vinna bug á verðbólgu.
Svo leið tæpur mánuður og Grindavík varð verkefni. Þrátt fyrir að hafa haft fjögur ár í að undirbúa sig voru stjórnvöld ekkert undirbúin. Og ákváðu nær samstundis að boða lausnir til skamms tíma. Að þarna væri eitthvað sem myndi leysast þegar að íbúar Grindavíkur myndu flytja aftur heim á vormánuðum.
Martraðir Grindvíkinga
Í þeim anda var ráðist í aðgerðir sem sneru aðallega að því að verja fyrirtæki í Svartsengi, baðlón og virkjun. Fasteignaeigendur voru látnir fjármagna þær aðgerðir með nýjum skatti.
Fjárlög sem voru samþykkt 16. desember gerðu ekki ráð fyrir neinum umtalsverðum útgjöldum eða aðgerðum úr hendi hins opinbera utan skammtímagreiðslna vegna framfærslu og húsnæðisstuðnings til að takast mögulega á við þann veruleika að Grindavík yrði kannski ekki lengur til. Þingheimur og ráðamenn fóru að þeirri samþykkt lokinni í jólafrí. Tveimur dögum síðar gaus í námunda við Grindavík.
Á meðan stjórnmálamenn voru í rúmlega mánaðarlöngu fríi frá þingstörfum, og rifust sveitt opinberlega um hvaða stórpólitísku afleiðingar tímabundið bann við hvalveiðum ætti að hafa, stóðu fjölmargir þeirra um 3.700 íbúa sem bjuggu áður í Grindavík frammi fyrir alls kyns útgáfu af martröð.
„Hópurinn sem átti hús sem höfðu verið dæmd ónýt sat fastur í bjúrókratískum farsa til að fá úrlausn sinna mála“
Flestir þurftu að tryggja sér nýtt húsnæði með nánast engum fyrirvara. Hluti þeirra, nánar tiltekið 131 talsins, þurfti áfram að borga af ónýtta húsnæði sínu í Grindavík með einhverjum hætti vegna þess að hópurinn var svo óheppinn að hafa tekið íbúðalán hjá lífeyrissjóði en ekki banka. Krakkar þurftu að fara í ókunna skóla og allt íþrótta- og tómstundastarf þeirra, ásamt félagslega veruleikanum, riðlaðist. Gamalt fólk var selflutt á ný hjúkrunarheimili. Rúmlega tvö þúsund manna vinnumarkaður, sem telur um 150 fyrirtæki, var í fullkominni óvissu, enda allt í einu ekkert hægt að mæta í vinnuna. Hópurinn sem átti hús sem höfðu verið dæmd ónýt sat fastur í bjúrókratískum farsa til að fá úrlausn sinna mála. Fyrir öðrum, þeim sem áttu óskemmd híbýli, rann upp sá veruleiki að hús og íbúðir þeirra væru sennilega orðin verðlítil, jafnvel verðlaus.
Frá 18. desember, og þar til í gær, birtist ein tilkynning á vef stjórnarráðsins um beinar aðgerðir vegna Grindavíkur, um byggingu varnargarða sem höfðu það markmið að „vernda íbúa og mikilvæga innviði fyrir hraunrennsli ef eldgos hefst“.
Grundvöllur hverfur
Allt breyttist 10. janúar þegar sá hörmulegi atburður varð að maður sem hafði verið falið það verkefni að fylla upp í sprungur í Grindavík féll ofan í slíka. Hans var ákaft leitað en við þá leit opinberaðist fyrir þjóðinni nánast í beinni útsendingu það ástand sem var undir bænum. Ástand sem var mun verra og alvarlega en okkur hafði àður verið talið. Og flestum varð ljóst að þarna yrði ekki búið lengi. Foreldrar myndu ekki geta hugsað sér að hleypa börnum út með þá hættu yfirvofandi að jörðin gæti gleypt þau. Frelsið sem fylgdi því að búa í Grindavík vék fyrir hræðslu. Stórbrotin náttúran, sem dró svo marga að svæðinu, hafði breyst í stórkostlega ógn. Grundvöllur samfélagsgerðarinnar tapaðist. Eftir stóðu þær þúsundir íbúa sem hana mynduðu í áfalli.
Líkt og til að hamra heim þennan veruleika hófst gos 14. janúar. Fyrst rétt fyrir utan hálfbyggða varnargarða og svo innan þeirra, með þeim afleiðingum að hraun flæddi yfir byggð á Íslandi í fyrsta sinn í meira en hálfa öld.
Þegar þessi skelfilegi atburður gerðist var Guðlaugur Þór Þórðarson starfandi forsætisráðherra, vegna þess að allir formenn stjórnarflokkanna voru erlendis – meðal annars í fríi – og fyrsti varamaðurinn til að sinna æðsta starfinu í íslenskri stjórnsýslu líka.
Skera þarf niður úr snöru
Þetta var aðdragandinn að því að við erum stödd þar sem við erum stödd í dag. Fyrir liggur mat færustu vísindamanna um að það verði ekki búið í Grindavík í mörg ár. Íbúarnir þar eru ekki einungis að sjá eftir húsum og innanstokksmunum, þeir eru að sjá eftir samfélagi. Ef byggðin verður einhverju sinni endurreist er alls óljóst hvort fólk muni snúa aftur. Það verður búið að festa rætur annars staðar. Koma sér upp annarri tilveru.
Það þarf að leysa vanda þessa fólks hratt. Líkt og kom fram í áhrifamikilli tölu Grindvíkings á íbúafundi í vikunni þá þarf að skera þau niður úr snörunni. Hvernig skipting á kostnaði vegna þess verður milli ríkis og lánveitenda er úrlausnarefni, ekki óyfirstíganleg hindrun.
Flestir í þessum hópi hafa aldrei verið í þeirri stöðu að þurfa að sækja sér bjargir á þann hátt sem þau þurfa nú að gera gagnvart hinu opinbera. Marga innan hópsins skortir getu til að passa upp á að þau fái sitt. Gagnvart fólki sem hefur misst svona mikið svona hratt er ekki boðlegt að halda þeim í þeirri óvissu sem nú er boðið upp á vegna þess að stjórnvöld vonuðu, þvert á raunveruleikann og viðvaranir, að Grindavík yrði áfram til. Þess vegna festu þau sig í skammtímaúrræðum en voru ekki með neitt plan B ef versta mögulega sviðsmynd myndi koma upp. Sú sviðsmynd sem blasir við okkur í dag. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur lýsti stöðunni sennilega best allra á íbúafundinum á þriðjudag þegar hann sagði: „Ég hef engar góðar fréttir.“
Sóðalegt hundaflaut tækifærissinna
Þótt aðdáunarvert sé að fylgjast með því hvernig flestir Íslendingar eru tilbúnir til að aðstoða Grindvíkinga með öllum mögulegum hætti er það sorglegt, eiginlega sóðalegt, að sjá hvernig pólitískir lukkuriddarar notfæra sér þessar aðstæður til að hundaflauta sinn hefðbundna, yfirborðskennda og mannfjandsamlega rasisma. Það er gert með því að stilla fólki á flótta upp sem einhvers konar fyrirstöðu fyrir því að hægt sé að aðstoða Grindvíkinga í sínum raunum. Fólk sem sjálft hefur misst sitt samfélag vegna stríðs, náttúruhamfara eða annarra harmleikja og leggur á sig miklar raunir til að reyna að öðlast öryggi og betra líf. Þjóðernisíhalds-andúðin beinist áfram sem áður fyrst og síðast að fólki með annan húðlit en þann sem er fyrirferðarmestur hér á landi, og undanfarið aðallega að fólki frá Palestínu, þjóð sem hreinlega er verið að reyna að útrýma.
„hvernig pólitískir lukkuriddarar notfæra sér þessar aðstæður til að hundaflauta sinn hefðbundna, yfirborðskennda og mannfjandsamlega rasisma“
Benda má þessari taktlausu og fölsku flautuhljómsveit á þá tölulegu staðreynd að alls sóttu 223 Palestínumenn um vernd á Íslandi í fyrra. Umsóknum um vernd í heild fækkaði milli áranna 2022 og 2023 og á báðum þeim árum voru um 80 prósent umsókna um vernd frá Úkraínumönnum og fólki frá Venesúela sem sitjandi ríkisstjórn bauð hingað sérstaklega með stjórnvaldsákvörðunum teknum af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins um viðbótarvernd. Þar til að ákveðið var að draga það tilboð til baka gagnvart Venesúelafólkinu voru um níu af hverjum tíu sem fengu vernd hérlendis frá þessum tveimur löndum.
En það hefur svo sem oft verið bent á þetta áður án árangurs. Þegar fólk hefur ákveðið að blanda heimsku og hræðslu í pólitíska hrærigrautinn sem það býður til sölu þá skeytir það sjaldnast nokkru um staðreyndir.
Verið eins og amma
Ríkisstjórn Íslands er komin upp að vegg. Hún þarf annaðhvort að spyrna sér fast frá honum með því að finna langtímalausnir á vanda Grindvíkinga hratt eða fela öðrum það verkefni. Það er engin þolinmæði lengur fyrir orðasalötum sem hafa þann eina tilgang að svara ekki knýjandi spurningum og kaupa með því tíma til að gera lítið eða ekkert.
Ein merkilegasta kona sem greinarhöfundur hefur kynnst á sinni ævi bjó nær alla sína tíð í Grindavík. Hún lést snemma árs 2022 og upplifði því ekki það sem samferðafólk hennar er að upplifa í dag, að tapa samfélaginu sínu. Samfélagi sem skipti hana gríðarlega miklu máli.
Í minningargrein barna hennar var skrifað að umhyggja hennar hafi aldrei verið háð efnahag. Að börn og fullorðnir hefðu haft óhindraðan aðgang að öllu sem hún stóð fyrir og að útidyrahurðin hafi alltaf verið ólæst. Góðvild hennar var öllum opin. Heil kynslóð Grindvíkinga kallaði hana ömmu. Í faðmi hennar var pláss fyrir alla.
Þeir sem fara með völdin í landinu hefðu afar gott af því að taka ömmu mína, og það sem hún stóð fyrir, til fyrirmyndar í sínum verkum. Og gera það að leiðarstefi í aðgerðum sínum gagnvart Grindvíkingum.
Athugasemdir (7)