Þessi grein birtist fyrir rúmlega 3 mánuðum.

Allt verður auðveldara

Sjó­sund er vald­efl­andi, hvetj­andi og góð­ur grunn­ur fyr­ir alla aðra hreyf­ingu. „Það fer ekk­ert vont fólk í sjó­inn,“ seg­ir Her­dís Anna Þor­valds­dótt­ir, formað­ur Sund- og sjó­baðs­fé­lags Reykja­vík­ur. Fé­lags­skap­ur­inn skipt­ir líka sköp­um, eins og sjó­sunds­vin­kon­urn­ar Harpa og Sigrún þekkja mæta­vel, en þær hitt­ast bara í sjón­um.

Orka. Kraftur. Virkni. Þannig lýsir Herdís Anna Þorvaldsdóttir, formaður Sund- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur, SJÓR, áhrifum sjósunds. „Mér líður það mikið betur og fæ aukinn kraft að allt annað sem mér dettur í hug að vilja gera verður bara miklu aðgengilegra, auðveldara og yfirstíganlegra.“

Sjósund hefur verið stundað hér á landi í rúma öld en tekur sífelldum breytingum. Blaðakona mælti sér mót við Herdísi Önnu á köldum janúardegi, sem reyndist vera kaldasti dagur vetrarins í Reykjavík hingað til; lofthiti var mínus sex gráður og sjávarhiti 1,9 gráður. „Hefur þú farið í sjóinn sjálf?“ spurði Herdís Anna. Þegar blaðakona sagðist alltaf vera á leiðinni að prófa, eins og svo mörg, brást formaðurinn við með einfaldri spurningu: „Þarftu ekki að prófa?“

Hönd í höndÞað er alls ekkert vitlaust að byrja í sjósundi í janúar eins og blaðakona Heimildarinnar fékk að kynnast af eigin raun. Þá verður hvert skipti eftir það ekki eins kalt.

Var nokkur ár að byrja  

Morgunninn var ískaldur og það gekk á með dimmum éljum, en þegar fór að birta og sólin fór að gægjast fram rann upp fyrir blaðakonu að þetta var að fara að gerast: Ég var að fara í sjóinn. „Skammdegið verður ekki eins ógnvekjandi,“ segir Herdís Anna um ástæður þess að hún velji að stunda sjósund. Hún var hins vegar  mörg ár að láta til skarar skríða. „Vá, ég held að ég hafi verið nokkur ár að byrja. Ég var oft að hugsa um þetta en þá var þetta ekkert orðið svo vinsælt.“

„Skammdegið verður ekki eins ógnvekjandi“

Herdís Anna starfaði í Háskólanum í Reykjavík fyrir 13 árum og leiddi hugann oft að sjónum. Hana langaði ofan í. „En ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að gera það. Það er hægt að fara á námskeið eða finna sér vin sem er tilbúinn að gera þetta með manni. Eða bara mæta og hengja sig á fólk. Ég gerði það. Ég mætti bara, hér var alltaf einhver, ég fékk að vera samferða. Það eru bara allir næs hérna. Það er líka það sem maður uppgötvar. Ég hengdi mig bara á einhverja og fór með þeim út í. Það þarf ekkert annað en sjósundskó og hanska, að minnsta kosti þegar sjórinn er undir átta gráðum. Og sundföt.“

OrkaSkammdegið verður ekki eins ógnvekjandi þegar þú stundar sjósund, svo ekki sé talað um þegar vetrarsólin lætur sjá sig. Herdís Anna Þorvaldsdóttir hefur stundað sjósund í nokkur ár en var lengi að koma sér af stað.

Sjórinn var vel undir átta gráðum þegar Herdís Anna leiddi mig í gegnum gaddinn niður á ströndina í Nauthólsvík. Leiðbeiningarnar voru í raun einfaldar: Anda hægar út en inn og krossleggja hendur yfir bringu til að fá öryggistilfinningu.

VelkominKaldasti dagurinn hingað til þennan veturinn.

„Kanntu að syngja? Hvað er uppáhaldslagið þitt? Ég syng alltaf Smile,“ sagði Herdís Anna. Með 20 ára kórreynslu gat ég ekki annað en kinkað kolli og uppáhaldslagið, það hlýtur að vera uppáhaldslagið hennar ömmu, Maístjarnan. Saman gengum við í sjóinn og ótrúlegt en satt þá var þetta bara ekki svo slæmt, það var hvort sem er svo kalt áður en tásurnar snertu sjóinn. Ofan í fórum við og sungum hástöfum: „Ó, hve létt er þitt skóhljóð, og hve lengi ég beið þín, það er vorhret á glugga, napur vindur sem hvín.“ Það er kannski enn töluvert í vorhretið en vindurinn var svo sannarlega napur. En það kom ekki að sök. Þetta gat ég. Í janúar. Sigurtilfinningin hríslaðist um mig alla. Álengdar var önnur kona í sjónum, alein, sem baðaði út höndunum. Hún var örugglega líka með sigurtilfinningu.

Að sigrast á sjálfri sér

„Það er jafnvel bara betra að byrja í janúar,“ segir Herdís Anna. „Svo verður alltaf betra þegar fer að hlýna.“ Hún hlær. Eftir góðar 4–5 mínútur í sjónum förum við í gufu til að fá hita í kroppinn. Herdís Anna skellir í eina handstöðu í leiðinni. Í sjósundinu sækir hún jákvæða orku og fær aukinn kraft til að stunda frekari hreyfingu og takast á við alls konar verkefni. „Ég er bara viss um það að þetta hefur einhver áhrif á hormón í líkamanum sem gerir það að verkum að hlutir verða yfirstíganlegri. Þar af leiðandi, þá fór ég að hreyfa mig meira eftir að ég fór að fara í sjóinn. Ég var komin með verki úti um allt, slitgigt hér og þar. Svo bara þegar ég fór að fara í sjóinn kom svo mikill kraftur. Allt í einu var ekkert mál að hlaupa upp á Móskarðshnjúka.“

Orkan nær líka til athafna daglegs lífs. Og rúmlega það. „Ég er búin að gera upp hús, fáránlega stórt hús, ég fór allt í einu að múra svalir og flytja grjóthnullunga, mér myndi aldrei detta þetta í hug, en við það að sigrast á sjálfri þér við þessar krefjandi aðstæður, miklar áskoranir eins og að takast á við kuldann og þann sársauka sem oft því fylgir, þá verður allt annað aðgengilegra. Maður verður kraftmeiri og hreyfanlegri.“

Perla í höfuðborginni

Sjósund hefur verið stundað um árabil í Nauthólsvík. Sum hafa það fyrir reglu að synda að kaðlinum í víkinni og til baka. Það er um það bil 500 metra vegalengd, en það fer aðeins eftir því hvernig er í sjóinn. Herdís Anna hefur farið þá vegalengd þegar sjóhiti var mínus 2,2 gráður, sem er það kaldasta sem hann hefur mælst. 

„Hann hefur gert það nokkrum sinnum. Stundum hélar hann og stundum ekki, ef það er hreyfing á honum þá hélar hann ekki. Ef hann frýs þarftu að brjóta þér leið og þá getur þú skorið þig svolítið ef hann er þunnur. Við vorum þarna tvær, við þekktumst ekkert, og þetta fór ekkert illa með okkur. Það var alveg stillt, okkur leið ágætlega, bara vanar, og ég segi: „Eigum við kannski bara að synda?“ Svo við syntum, alveg að kaðli. Á leiðinni sjáum við fugl sporðrenna einhverjum stærsta fisk sem ég hef séð. Þú tekur ekkert eftir kuldanum. Svo eru stundum selir hérna. Að höfuðborg eigi svona perlu inni í miðri borg þar sem þú verður svona nátengd náttúrunni, það er rosalegur fjársjóður.“

GleðiFjöldi fólks kemur saman í Nauthólsvík, fimm daga vikunnar þegar aðstaðan er opin, og stundar sjósund. Hér má sjá hóp kvenna sem sækir sjósundsleikjanámskeiðið Glaðari þú.

Sjósundsaðstaðan er opin þriðjudaga til laugardaga milli 11 og 19. Lokað er á sunnudögum og mánudögum. Herdís Anna og SJÓR hvetja borgina eindregið til að endurskoða afgreiðslutímann, en mánudagslokunin er frekar ný tilkomin. „Auðvitað á að vera opið á sunnudögum. Þetta er frístundaiðkun, hvenær á fólk oftast lausa stund?“ Spurningarnar halda áfram: „Hvað kostar það samfélagið ef fólk nær ekki að stunda sína líkamsrækt? Ef þú gerir lýðheilsuna aðgengilega þá kemur það bara í bakið á þér. Þetta er forvörn.“

Herdís Anna þekkir mörg dæmi um ágæti sjósunds. „Það er alls konar fólk að kljást við alls konar kvilla, bæði andlega og líkamlega. Líka fólk sem er að kljást við fíkn. Hér finnur þú einhvers konar „kick“. Ég veit um fullt af fólki sem dílar við fíkn með því að nota sjó og mjög erfið andleg áföll, mikinn missi. Ég sé aldrei neitt nema plús við að halda þessu opnu.“

Kuldinn, eftir allt saman, er nefnilega „svolítið geggjaður. Þetta er margs konar. Þetta er krafturinn í sjónum og alls konar steinefni, þetta er náttúran og kælingin. Svo bara gleðin, fólk er svo glatt. Áran yfir fólkinu sem er hérna er svo jákvæð. Það fer ekkert vont fólk í sjóinn.“

Kjósa
24
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Thordis Arnadottir skrifaði
    Meira svona um hvar konur hittast og eru saman 💪❤️✨Innileg og falleg umfjöllun!
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár