Þjóðarsátt er tískuorð dagsins. Þar er vísað í samkomulag sem gert var í febrúar 1990 milli verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisins til að klippa á áralangar víxlhækkanir launa og verðlags sem olli því að verðbólga varð hömlulaus.
Sérstaða þjóðarsáttarinnar, um kjarasamningagerð milli aðila vinnumarkaðarins með aðkomu ríkisins, fólst í því að aldrei áður höfðu jafnmargir ólíkir hagsmunaaðilar komið að slíku samkomulagi. Afleiðing hennar var að stöðugleiki komst á í efnahagsmálum. Aðgerðir sem gripið var til höfðu þær afleiðingar að staða þeirra sem verr stóðu í samfélaginu var styrkt. Traust og sátt jókst í íslensku samfélagi.
Breiðfylking stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðnum, sem fer með samningsumboð fyrir 115 þúsund manns, lagði fram þær kröfur sem hún vill fá uppfylltar á fundi með Samtökum atvinnulífsins milli jóla og nýárs. Í þeim felst meðal annars að millifærslukerfi verði löguð, að hið opinbera stilli öllum gjaldskrárhækkunum í hóf, að Seðlabanki Íslands ráðist í skarpt vaxtalækkunarferli, að jafnvægi verði komið á húsnæðismarkaðinn og að öryggi leigjenda verði tryggt.
Í staðinn er stór hluti verkalýðshreyfingarinnar tilbúinn að fara fram á hóflegar launahækkanir. Stóra markmiðið er að ná niður verðbólgu og auka kaupmátt, sem hefur hríðfallið síðasta eina og hálfa árið vegna þess að vaxtagreiðslur eru að sliga sífellt fleiri heimili með þeim afleiðingum að þau eiga erfiðara með að ná endum saman.
Eftir fundinn var send út sameiginleg tilkynning breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins þar sem þau sögðust hafa sammælst „um gerð langtímakjarasamninga sem auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu“.
Degi síðar samþykkti svo stjórn Samtaka atvinnulífsins áskorun til aðildarfélaga sinna og annarra fyrirtækja í landinu, ríkis og sveitarfélaga að styðja við sameiginleg samningsmarkmið nýrra kjarasamninga með því að halda aftur af verðhækkunum og launaskriði „eins og þeim frekast er unnt“.
Úr illdeilum í samstöðu
Það er margt við þessa stöðu sem er nú uppi sem er athyglisvert. Fyrir rúmu ári logaði verkalýðshreyfingin í illdeilum. Það andaði líka, vægast sagt, köldu milli helstu forystumanna hennar annars vegar og þeirra sem voru í stafni Samtaka atvinnulífsins hins vegar. Nú, að minnsta kosti um stundarsakir, ganga þessi áður sundruðu öfl í takti. Það sýnir að allt er hægt og samfélagsgerðin sem við búum við er mannanna verk. Eina sem þarf til þess að breyta henni er vilji.
Það skal þó enginn halda að þótt sverðin hafi verið slíðruð um stund að þetta verði auðveld lending. Fyrir liggur krafa um að haldið verði aftur af gjaldskrárhækkunum, sem sífellt fleiri sveitarfélög í fjárhagsvanda munu eiga erfitt með að mæta. Það liggur fyrir krafa um að fyrirtæki landsins gangi ekki á lagið, og nýti sér verðbólguumhverfi, til að hækka verðlag umfram það sem eðlilegt er til að auka hagnað sinn, líkt og mörg hafa þegar gert með ósvífnum hætti.
„Allt í allt er hleypur verðmiðinn á þessari sátt fyrir ríkissjóð á tugum milljarða króna“
En flestar kröfurnar snúa að íslenska ríkinu. Þegar liggur fyrir að krafa eru uppi um að ríkissjóður setji 20 til 25 milljarða króna á ári í vaxta- og barnabótakerfin, sem sitjandi stærsti stjórnarflokkurinn hefur á hugmyndafræðilegum grunni reynt markvisst að afleggja á síðustu árum. Ríkið þarf líka að eyða umtalsverðu fé í að mæta kröfum um heilbrigði á húsnæðismarkaði. Þar er staðan sú að pólitískar ákvarðanir eins og þær að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið um síðustu aldamót og ákvörðun um að skipta um húsnæðisstuðningskerfi með því að veikja vaxta- og barnabótakerfið sem gagnast tekjulægri og yngra fólki en innleiða kerfi skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar í staðinn, sem gagnast fyrst og síðast efstu tekjuhópunum. Þessar ákvarðanir hafa ýkt verulega afleiðingar þess að eftirspurn eftir húsnæði er mun meira en framboð, sem leiddi af sér að húsnæðisverð hefur hækkað meira á Íslandi en í nokkru öðru OECD-landi síðasta rúma áratuginn.
Krafan er viðsnúningur þar sem viðkvæmustu hóparnir, þeir sem hafa lægstu tekjurnar og þeir sem eru fastir á leigumarkaði, fái stuðning í stað þeirra sem þurfa ekki tilfinnanlega á honum að halda.
Allt í allt hleypur verðmiðinn á þessari sátt fyrir ríkissjóð á tugum milljarða króna.
Hin skýra stéttaskipting
Krafan um viðsnúning varð ekki til í tómarúmi. Tilraun til þjóðarsáttar er gerð á tímum þar sem skýr stéttaskipting er á Íslandi. Nýjustu staðfestingu þess er að finna í rannsókn Kolbeins H. Stefánssonar dósents, sem fjallað er um í Heimildinni í dag. Þar kemur fram að einangrun lágtekjufólks í Reykjavík hefur aukist síðustu tvo áratugi. Hún birtist meðal annars í því að fátækt fólk er að nokkru leyti aðskilið frá milli- og hátekjufólki og ójöfnuður milli skólahverfa hefur farið vaxandi frá árinu 2012.
Þá skera tvö nágrannasveitarfélög höfuðborgarinnar, Garðabær og Seltjarnarnes, sig úr hvað varðar góða eiginfjárstöðu íbúa. Um er að ræða sveitarfélög sem leggja áherslu á lágar álögur á íbúa sína og sinna brotabroti af þeirri félagslegu þjónustu sem veitt er í Reykjavík. Stéttaskiptingin er því innan sveitarfélaga, og á milli þeirra.
Sá vaxandi ójöfnuður sem er að verða á Íslandi getur dregið úr trausti í samfélaginu og ýtt undir spennu á milli mismunandi hópa. Of mikill ójöfnuður getur líka haft neikvæð áhrif á heilsufar fólks.
Þessi rannsókn bætist við allar hinar, sem sýna að fátækt er að aukast, sífellt fleiri eiga í erfiðleikum með að ná endum saman og fjöldi þeirra sem glímir við vanlíðan vegna efnahagslegra aðstæðna sinna. Svo fátt eitt sé talið til.
Ríkið þarf að auka tekjur
Til þess að standa undir kröfum breiðfylkingarinnar þarf ríkið að sækja sér meira fé án þess að skuldsetja sig. Ef tilgangurinn er að auka kaupmátt heimila verður það vart gert með því að auka álögur á þau.
Til að viðbótartekjuöflun verði sjálfbær þarf því að finna nýja skattstofna til framtíðar. Það má gera með því að hækka fjármagnstekjuskatt, þannig að breiðu bökin leggi meira til samneyslunnar. Það má hækka bankaskatt, og sækja þannig aftur þá tilfærslu sem orðið hefur frá heimilum til banka í formi vaxtagreiðslna í verðbólguástandi síðustu missera. Það má fara í löngu boðaðar breytingar á reiknuðu endurgjaldi og loka þeirri glórulausu gloppu sem er til staðar sem heimilar að verulegur hluti atvinnutekna sé ranglega talinn fram sem fjármagnstekjur, ekki launatekjur, með þeim afleiðingum að ríkustu hópar landsins borga mun lægri skatta en venjulegt launafólk.
„Sá vaxandi ójöfnuður sem er að verða á Íslandi getur dregið úr trausti í samfélaginu og ýtt undir spennu á milli mismunandi hópa“
Það er ekki íþyngjandi fyrir þennan hóp að leggja meira til.
242 fjölskyldur áttu 353 milljarða
Í nýlegu svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn sem lögð var fram á Alþingi, og var svarað rétt áður en þingið fór í langt jólafrí, kom fram að ríkasta 0,1 prósent landsmanna, alls 242 fjölskyldur, hefðu átt 353 milljarða króna í lok árs 2022. Auður hópsins jókst um 28 milljarða króna á árinu 2022. Að meðaltali jókst eigið fé hvers og eins heimilis innan hópsins um tæplega 116 milljónir króna á einu ári.
Um er að ræða hóp sem skuldar nánast ekkert. Eiginfjárhlutfall hans er 98,4 prósent. Hver fjölskylda innan hópsins átti að meðaltali 1,5 milljarða króna í eignum í lok síðasta árs en skuldaði að meðaltali 23 milljónir króna. Ljóst má vera að sumir innan hópsins eru miklu ríkari en aðrir og því lýsir meðaltalseignin einungis hluta af stöðunni eins og hún er.
Alls þénuðu fjölskyldurnar 242 tæpa 64 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2022. Það þýðir að 28 prósent allra slíkra tekna fóru til þessa hóps.
Eignir hópsins eru miklu meira virði en kemur fram í upptalningu ráðherrans. Þessi hópur á flest mikið magn af eignum sem taldar eru fram á nafnvirði í skattframtali, en upplausnarvirði þeirra er miklu, miklu, miklu hærra. Sömu sögu er að segja að næsta lagi fyrir neðan þennan elítuhóp. Ríkasta eitt, fimm eða tíu prósent þjóðarinnar.
Vanmetnar eignir
Skýrasta dæmið um vanmetnar eignir í eigu efsta lagsins er kvóti. Upplausnarverð alls úthlutaðs kvóta á Íslandi, miðað við kaup Síldarvinnslunnar á útgerðinni Bergi Hugin árið 2021, er um 1.200 milljarðar króna.
Í gagnagrunni, sem Deloitte tekur árlega saman um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, er kvótinn hins vegar bókfærður á 460 milljarða króna. Hann er því vanmetinn um 740 milljarða króna. Eigið fé geirans, sem er 374 milljarðar króna samkvæmt gagnagrunninum, ætti því að vera rúmlega 1.100 milljarðar króna.
Í ljósi þess að fjórar blokkir halda á tæplega 56 prósent af öllum úthlutuðum kvóta, og þeim er flestum stýrt af örfáum einstaklingum sem eiga kjölfestuhlut í stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins, er ekki óvarlegt að ætla að sá hópur tilheyri ríkasta 0,1 prósentinu á Íslandi.
Ríkisstjórnin gæti, ef hún vildi, stuðlað að enn breiðari þjóðarsátt sem lagt er upp í tengslum við kjaraviðræðurnar með því að nota tækifærið og ráðast að stærsta opna svöðusárinu sem er að finna í íslensku samfélagi. Því hvernig arðurinn af nýtingu sjávarauðlindarinnar er skipt milli eigenda hennar, íslensku þjóðarinnar, og þeirra sem fá að nýta hana.
„Djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti“
Sennilega er ekkert fyrirkomulag í samfélagsgerðinni sem hefur dregið meira úr trausti og stuðlað að meiri óeiningu enn ofangreint. Líkt og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði í grein sem hún birti í Morgunblaðinu í lok maí 2022: „Í sjávarútvegi ríkir djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti. Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt.“
Frá því að þessi orð voru rituð hefur óréttlætið hins vegar ekki gert neitt annað en að aukast. Stærstu kvótafjölskyldurnar hafa haldið áfram að færa afrakstur kerfisins milli kynslóða og hert ítök sín á samfélaginu með því að kaupa upp sífellt fleiri fyrirtæki í óskyldum rekstri.
Nýleg drög að frumvarpi matvælaráðherra um breytingar á íslenskum sjávarútvegi, sem taka alls ekki á þessari stöðu né skila þjóðinni réttmætri hlutdeild í þeim arði sem verður af nýtingu á sameign þjóðarinnar í hafi, gefur ekki til kynna að það sé mikill áhugi á því að útvíkka þjóðarsáttina. Í grein sem Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, birti í Heimildinni í lok síðasta árs, bendir hann á að skýrslan sem drögin byggja á forðist einfaldlega að ræða skiptingu hagnaðar af nýtingu sjávarauðlindarinnar. Fyrir vikið geti hún ekki skapað sátt um sjávarútveg. Þess í stað virki hún sem tilraun til þess að fá þjóðina til að sætta sig við óbreytt ástand með því að beina athyglinni að ýmsum tæknilegum atriðum, sem lítill ágreiningur er um.
Frumvarpið mun því ekki draga úr hinni djúpstæðu tilfinningu um óréttlæti sem er til staðar, heldur festa fáveldið enn frekar í sessi. Á meðan svo er verður þjóðin, áfram sem áður, ósátt.
Hér eru ummæli sem ég setti inn á status á Facebook þar sem verið var að fjalla um þetta orðskípi „Þjóðarsátt“.
„Hvaða andskotans bull ☻g þvaður er þetta um einhverja „þjóðarsátt“ ?
Ég hef bara aldrei heyrt neitt um það að þjóðin hafi verið spurð að því hvort hún sé sátt við það sem þetta lið er að baxa við á bak við lokaðar dyr.
Svo kemur þetta lið fram og tilkynnir digurbarklega að um hafi samist um eitthvað sem þau kalla „þjóðarsátt“.
„Þjóðarsátt“ my ass.
Rangyrði og orðskríp búið til af krípum!“
Enda er Ísland orðið að bananalygveld og búið að vera í nokkra áratugi.