Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Sveitarfélög munu geta tekið ákvörðun um virkjun vindorku ef sérstök skilyrði eru uppfyllt

Ráð­herra orku­mála mun geta tek­ið ákvörð­un um að hleypa ákveðn­um vindorku­verk­efn­um fram­hjá Ramm­a­áætl­un að ákveðn­um skil­yrð­um upp­fyllt­um, verði til­lög­ur starfs­hóps hans að veru­leika. Þá fær­ist ákvörð­un­ar­vald­ið til sveit­ar­fé­laga eða annarra stjórn­valda í stað Al­þing­is.

Sveitarfélög munu geta tekið ákvörðun um virkjun vindorku ef sérstök skilyrði eru uppfyllt
Liggur á Guðlaugur Þór Þórðarson segir að það það liggi á að framleiða græna orku. „Til þess að svo megi verða þá verðum við að einfalda regluverk án þess að gefa afslátt af þeim kröfum sem við viljum gera.“ Mynd: Heimildin / Davíð Þór


Umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra mun fá vald til þess að hleypa ákveðnum vindorkuverkefnum framhjá Rammaáætlun, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ef tillögur starfshóps sem falið var að móta drög að lögum um vindorku verða að veruleika. Tillögurnar voru kynntar í dag. 

Skilyrðin sem virkjanakostur í vindorku þarf að uppfylla eru fjögur. Í fyrsta lagi þarf kosturinn að vera liður í því að Ísland nái markmiðum sínum við orkuskipti og kolefnishlutleysi en fyrir liggur að Ísland ætlar sér að ná kolefnishlutleysi árið 2040 og að vera búið að ná 55 prósent samdrætti, miðað við stöðu mála árið 1990, strax árið 2030. 

Í öðru lagi þarf virkjanakosturinn að vera innan þegar raskaðs svæðis. Í þriðja lagi má hann ekki vera talin rýra um of mikilvæga verndarhagsmuni svæða sem „njóta verndar að lögum né annarra nærliggjandi svæða sem njóta sérstöðu á landsvísu vegna náttúru-, menningarminja eða tengdri atvinnustarfsemi.“ Að lokum má virkjanakosturinn ekki vera á svæði þar sem mikið er um villta fugla sem metnir eru í hættu eða verulegri hættu á válistum eða fuglategundir með hátt eða mjög hátt verndargildi að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Ef forsendur eru taldar fyrir því sem starfshópurinn kallar „skilvirkara“ ferli, og felur í sér að hægt verður að sleppa hefðbundinni meðferð hjá Rammaáætlun, þá getur ráðherra málaflokksins, sem í dag er Guðlaugur Þór Þórðarson, ákveðið að vísa umfjöllun um hvort vindorkuvirkjunin fær að verða að veruleika til „ákvörðunartöku hjá sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum í stað Alþingi“. Með þessu verði ákvörðunarvaldið fært nærsamfélögum. 

Í niðurstöðum starfshópsins er ekkert fjallað um sérstaka gjaldtöku vegna vindorku-virkjana né hvernig eignarhaldi þeirra sem huga að slíkum þurfi að vera. 

Áttu að skila í febrúar

Starfshópurinn sem skilaði tillögunum sem kynntar voru í dag var skipaður af Guðlaugi Þór í júlí í fyrra. Í hópnum sátu Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, og Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður. Hilmar var formaður hans. 

Meðal þess sem hópnum var falið að skoða er hvort vind­orku­kostir eigi áfram að heyra undir lög um ramma­á­ætlun eða hvort setja eigi sér­lög um þá „með það að mark­miði að ein­falda upp­bygg­ingu vind­orku­vera til fram­leiðslu á grænni orku“ og hvernig best sé að haga gjaldtöku vegna hagnýtingar vindorku. 

StarfshópurGuðlaugur Þór Þórðarsson skipaði þau Hilmar Gunnlaugsson, Björt Ólafsdóttur og Kolbein Óttarsson Proppé í starfshópinn í júlí í fyrra.

Í skipunarbréfin starfshópsins kom fram að hann ætti að vinna drög að lagafrumvarpi á grundvelli niðurstaða sinna, sem skila átti til ráðuneytisins í síðasta lagi 1. febrúar, eða fyrir rúmlega tíu mánuðum síðan. Það frestaðist.

Starfshópurinn skilaði af sér stöðuskýrslu í apríl þar sem dregin voru saman helstu álitaefni sem komið höfðu upp við vinnu hópsins auk þess sem settir voru fram ýmsir valkostir um hvaða leiðir væru færar til að leysa úr þeim. Í framhaldinu voru haldnir opnir kynningarfundir um allt land þar sem starfshópurinn, ásamt umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sátu fyrir svörum um málefni vindorkunnar. 

Í fréttatilkynningu sem send var vegna tillagna starfshópsins er haft eftir Guðlaugi Þór að það ætti öllum að vera ljóst að það lægi á að framleiða græna orku. „Til þess að svo megi verða þá verðum við að einfalda regluverk án þess að gefa afslátt af þeim kröfum sem við viljum gera. Þessar tillögur eru afrakstur mikillar vinnu, mikils samráðs og uppfylla þau skilyrði sem hópnum voru sett. Mikilvægt er að almenningur og hagaðilar kynni sér tillögur hópsins og að við tökum málefnalega og vel upplýsta umræðu um þessi mikilvægu mál.“

Erlend stórfyrirtæki helstu leikendur

Óeining hefur verið um það innan ríkisstjórnarinnar hvernig eigi að haga virkjunarmálum. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar hefur sú óeining einnig náð yfir vindorkuvirkjanir, en margir einkaaðilar eru þegar með uppbyggingu slíkra virkjana í farvatninu þrátt fyrir að þær séu ekki á rammaáætlun og að engin farvegur hafi verið fyrir leyfisveitingar þeirra verkefna. Heimildin greindi frá því í mars að hátt í fjörutíu vindorkuvirkjanakostir væri til skoðunar á Íslandi og að erlend stórfyrirtæki, annars vegar frá Frakklandi og hins vegar frá Noregi, komi að yfir helming þeirra. Annars vegar er um að ræða QAIR Iceland ehf., í eigu franska orkufyrirtækisins Quadran International. Það á 38,4 prósent hlut í Arctic Hydro ehf.em er virkjanafyrirtæki sem heldur á virkjanarétti, meðal annars í Hólsá og Gönguskarðsá í Fnjóskadal, í Þverá í Vopnafirði, í Geitdalsá í Skriðdal og Hamarsá í Hamarsfirði.

Í eigendahópi Arctic Hydro er einnig Benedikt Einarsson, sonur Einars Sveinssonar, sem aftur er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Benedikt á 10,2 prósenta hlut í Arctic Hydro. Þá á Ingimundur Sveinsson, bróðir Einars og föðurbróðir Benedikts, einnig lítinn hlut í Arctic Hydro, 0,45 prósent. Aðrir hluthafar í Arctic Hydro eru meðal annars hjónin Finnur R. Stefánsson og Steinunn Jónsdóttir, sem saman eiga 17,8 prósent í gegnum félag sitt Snæból. Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er stjórnarformaður fyrirtækisins og fyrrverandi þingmaður flokksins, Vilhjálmur Egilsson, hefur komið að kynningarstörfum fyrir félagið. 

Hinn stóri leikandi í vindorkusviðinu á Íslandi er Zephyr Iceland, dótturfyrirtæki norska vindorkufyrirtækisins Zephyr AS sem á tæp 67 prósent í fyrirtækinu. Hinn eignarhlutinn í Zephyr Iceland, rúm 33 prósent, er í eigu Ketils Sigurjónssonar lögfræðings, sem hefur árum saman sérhæft sig í orkumálum. Zephyr Icaland hefur lagt fram matsáætlun vegna tveggja vindorkuverkefna. Annað verkefnið er Brekkukambur í landi Brekku í Hvalfirði. Hitt vindorkuverkefni Zephyr sem lögð hefur verið fram matsáætlun fyrir er í landi Klaustursels á Fljótsdalsheiði.

Þingmenn Vinstri grænna vilja auðlindagjald

Þá hafa fimm þingmenn Vinstri grænna tvívegis lagt fram þingsályktunartillögu þess eftir að Guðlaugur Þór eigi að að leggja fram frumvarp til laga sem tryggi hlut þjóðarinnar í arðinum af nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu með innheimtu auðlindagjalds. Þar er einnig farið fram á að vindur verði skilgreindur í lögum sem sameiginleg auðlind í eigu þjóðarinnar. Orðrétt segir í tillögunni, sem var síðast lögð fram 29. nóvember síðastliðinn, að sátt þurfi að ríkja um uppbyggingu vindorkuvera „og það hvernig arðurinn af nýtingu þessarar nýju auðlindar nýtist samfélaginu er forsenda þess að hér verði unnt að ráðast í uppbyggingu vindorkuvera.“ Athygli vekur að þingsályktunartillagan var endurflutt nokkrum dögum áður en starfshópur Guðlaugs Þórs átti að skila af sér sínum niðurstöðum. 

Lagt er til að gjaldið endurspegli hlutdeild þjóðarinnar í arði af auðlindinni og að úthlutun leyfis til nýtingar á vindi til orkuframleiðslu sé tímabundin heimild til skilyrtra afnota sem leiði hvorki til beins eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar auðlindarinnar.

Tillagan er lögð fram af þeim fimm þingmönnum flokksins sem nú sitja á þingi sem almennir þingmenn. Einu þingmenn Vinstri grænna sem eru ekki á tillögunni eru ráðherrarnir þrír: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra. 

Kjósa
13
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (4)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    Eiga nú frjálshygglunarhugsjónapilsfaldaröfgakapítalistar að fá að ríða röftum endalaust ?
    0
  • JL
    Jón Logi skrifaði
    Ávísun á enn eitt gróðabrallið, þar sem hagnaður mun aðeins mun skila sér í sérvalda vasa. Stórkostleg umhverfisspjöll fylgja vindorkuverum og fyrirsjáanleg vandræði með úreldingu og förgun vindmylla. Sporin hræða þarf ekki annað en horfa til þess hvernig sjálfstæðismenn hafa stutt og talað fyrir sem minnstu eftirliti og gjaldtöku af sjókvíaeldinu. Nú á að setja af stað sama leikinn með vindorkuna.
    4
  • Gunnar Björgvinsson skrifaði
    Orkufyrirtæki í almannaeigu (ef það á að leyfa vindmyllur á annað borð). Galið að leyfa sveitarstjórnum að ákveða. Burt með sorann.
    8
  • SB
    Steinar Beck skrifaði
    Laxeldis sóðaskapur næst vindmyllusóðaskapur í. boði innmúraðra sjálfstæðismanna glæsilegt
    5
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár