Sumarið 2022 voru stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkaðir um eitt prósentustig, í 4,75 prósent. Þeir höfðu ekki verið hærri í fimm ár. Ástæðan fyrir vaxtahækkuninni var sú að verðbólga mældist 7,6 prósent.
Á fundi peningastefnunefndar sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, og formaður nefndarinnar, að Seðlabankinn væri að beita stjórntækjum sínum til að koma í veg fyrir fasteignabólu. „Seðlabankinn er að vinna fyrir vinnandi fólk. Þetta er það sem við eigum að gera.“ Hann bætti við að lífskjör fólks á Íslandi á þessum tíma væru að ráðast „mjög á stöðu þess á fasteignamarkaði. Hvenær fólk kom inn á fasteignamarkaðinn og á hvaða aldri þú ert.“
Ásgeir sagði á fundinum að beiting stýritækjanna væri að einhverju leyti tilraunastarfsemi. „Eftir einhver ár verður þetta örugglega rannsóknarefni fyrir hagfræðinga við að reyna að meta þessi áhrif og þá verða haldnar hérna málstofur. Þá munu líka koma fram alls konar spekingar fram og segja hvað hefði átt að gera. Það er náttúrlega þegar komið fram fólk sem talar um hvað hefði átt að gera. Hins vegar hefur það fólk sem talar um hvað hefði átt að gera engar hugmyndir um hvað á að gera núna miðað við stöðuna. Íslendingar eru sérfræðingar í baksýnishagfræði.“
Hinn hverfandi kaupmáttur
Í dag eru stýrivextir 9,25 prósent. Þeir hafa hækkað um 4,5 prósentustig frá áðurnefndum fundi peningastefnunefndar. Verðbólgan mælist samt átta prósent, eða hærri en hún var í fyrrasumar og seðlabankastjóri boðaði hagfræðilegar tilraunir á íslensku samfélagi.
Það sem var þó satt í digurbarkalegum yfirlýsingum Ásgeirs, og hefur einungis orðið sannara, var að lífskjör fólks ráðast mjög af stöðu þess á fasteignamarkaði.
„Fyrst og fremst þarf að búa til fyrirkomulag þar sem fólkið í landinu trúir því raunverulega að það skipti meira máli hvað þú getur heldur en hverra manna þú ert“
Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa nefnilega haft þau áhrif að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur dregist verulega saman. Nánar tiltekið í fjóra ársfjórðunga í röð. Mestur var samdrátturinn á öðrum ársfjórðungi, þegar hann dróst saman um 5,2 prósent, þrátt fyrir að tekjur landsmanna hafi hækkað umtalsvert. Kaupmátturinn hefur ekki lækkað svona mikið innan ársfjórðungs síðan undir lok árs 2010, þegar hann lækkaði um sjö prósent. Í tölum Hagstofunnar, sem ná aftur til ársins 1994, kemur fram að einu árin þar sem sambærilegt högg hefur orðið á virði peninganna sem Íslendingar fá í veskið sitt um hver mánaðamót var á árunum tveimur eftir bankahrunið.
Helstu ástæður þess að kaupmátturinn hefur lækkað svona mikið er gríðarleg hækkun vaxtagjalda. Stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa gert peninga miklu dýrari og á fyrri hluta yfirstandandi árs borguðu heimilin 22,5 milljörðum króna meira í vexti en þau gerðu á sama tíma í fyrra. Hækkunin sem varð á vaxtagjöldum heimila milli annars ársfjórðungs í fyrra og sama tímabils í ár var 61,3 prósent, en þau fóru úr 18,8 í 30,3 milljarða króna á tímabilinu.
Afleiðingin er sú að lífsgæði stórs hluta landsmanna, séu þau mæld í getu þeirra til að borga fyrir helstu lífsnauðsynjar, hafa dregist verulega saman. Það er erfiðara fyrir stóran hóp að eiga fyrir húsnæðiskostnaði, matarinnkaupum, tómstundum barna og öllu hinu.
Það á þó ekki við um alla.
Hópurinn sem þarf ekki að ganga á sparnað
Í ársfjórðungsriti Seðlabankans um peningamál er oft að finna sannleikann um helstu stöður í efnahagslegum veruleika Íslendinga. Þar sést til að mynda mjög skýrt á hverjum vaxtahækkanir og verðbólga eru að bitna fyrst og síðast.
Í nýjustu Peningamálum segir til að mynda að víðtækar sóttvarnaraðgerðir á kórónuveirutímanum hafi dregið úr neyslumöguleikum heimila og að verulega hafi dregið úr ferðalögum milli landa vegna lokunar landamæra. „Neysluútgjöld minnkuðu því töluvert en tekjur almennings héldu hins vegar almennt velli þrátt fyrir versnandi atvinnuástand. Mikill „umframsparnaður“ byggðist því upp hjá heimilum á farsóttartímanum sem hefur stuðlað að kröftugum vexti einkaneyslu og stutt við efnahagsbatann í kjölfar farsóttarinnar.“
Innlán heimila í bankakerfinu hafa aukist um samtals 463 milljarða króna frá árslokum 2019, eða 1,2 milljónir króna á hvern íbúa að meðaltali. Hluta þessa aukna sparnaðar heimila á farsóttartímanum var ráðstafað í fasteignakaup og var það einn af þeim þáttum sem stuðluðu að mikilli hækkun íbúðaverðs árin 2021–2022 en það hækkaði til að mynda um 25,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu milli júlímánaða á þeim árum.
Þótt heimili landsins eigi enn töluvert eftir af umframsparnaði sínum þá telur Seðlabankinn ósennilegt að þau muni ganga frekar á hann á komandi misserum. Ástæðan er sú að tekjulægri hópar eru margir hverjir einfaldlega búnir með sinn sparnað í dýrtíðinni. Eftir stendur mikill sparnaður hjá þeim sem eiga mest og þéna mest. Þau heimili þurfa ekki að ganga á sparnaðinn sinn. Í Peningamálum er það orðað svona: „Þótt sparnaður allra tekjuhópa hafi að öllum líkindum aukist í farsóttinni er líklegt að megnið af þeim umframsparnaði sem enn er til staðar sé í höndum tekjuhærri hópa og því ólíklegra að gengið verði á hann að fullu. Einnig skiptir máli í þessu samhengi í hvaða formi sparnaðurinn liggur, hvort hann sé í lausum fjáreignum sem auðvelt er að grípa til eða í torseljanlegri eignum eins og fasteignum.“
Samandregið þá hefur hækkun stýrivaxta og aukin verðbólga náð að dempa neyslu lægri tekjuhópa, og láta þá ganga á sparnað sinn. Staðan hefur hins vegar lítil eða engin áhrif á þá sem þéna mest eða eiga mest. Þeir hópar eiga borð fyrir báru í tekjum og þurfa ekki að snerta sparnaðinn sinn.
Forskot þeirra sem fá fyrirframgreiddan arf
Þau tíu prósent landsmanna sem eiga mest, og hafa sparað mest, hafa líka verið afar dugleg að deila þeim auði með börnunum sínum. Í nýlegu minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið vann fyrir fjárlaganefnd kemur fram að eignamesta tíundin hafi greitt börnum sínum, og eftir atvikum öðrum niðjum, 48,8 milljarða króna í fyrirframgreiddan arf í fyrra. Hin 90 prósent landsmanna voru hálfdrættingar þeirra, og komu 24,9 milljarða króna af arfi fyrirfram til erfingja á árinu 2022.
Í minnisblaðinu kom líka fram að fyrirframgreiðsla á arfi hafi stóraukist á síðustu árum. Erfðafjárskattur vegna hennar, sem er tíu prósent af þeirri upphæð sem færð er til barna eða annarra niðja, skilaði ríkissjóði 765 milljónum króna í tekjur fyrir áratug. Á fyrri helmingi yfirstandandi árs námu tekjur vegna hans 5,7 milljörðum króna. Á sex mánuðum hefur verið greidd upphæð í fyrirframgreiddan arf sem er rúmlega sjöföld sú upphæð sem var greidd allt árið 2013.
Samkvæmt fjármála- og efnahagsráðuneytinu er helsta skýringin á þessari miklu aukningu á útgreiðslu á fyrirframgreiddum arfi sú að fasteignaverð hefur hækkað mikið. Það geri yngra fólki erfiðara að festa kaup á fasteign og vegna þessa kjósi „sumir þá eflaust að rétta afkomendum sínum hjálparhönd í formi fyrirframgreidds arfs“.
Með þessu er staðfest að lífskjör fólks ráðast ekki bara á stöðu þess á fasteignamarkaði, og hvenær fólk komst inn á hann. Þau ráðast líka af því hversu mikla peninga foreldrar geta gefið börnum sínum til að fá forskot í kapphlaupi lífsins.
„Að lifa á bótum og bótahugsun frá ríkinu“
Frá því að sitjandi ríkisstjórn tók við völdum árið 2017 og út árið 2021 fækkaði þeim heimilum sem fengu slíkar bætur úr 25,8 í 16,8 prósent. Í stað þess kerfis var komið á skattaívilnanakerfi til þeirra sem nota séreignarsparnað til að greiða niður höfuðstól íbúðalána. Það er leið sem aðallega tekjuhæstu landsmenn nýta sér. Um 77 prósent þeirra 50 milljarða króna sem ríkissjóður hefur gefið eftir af tekjum vegna leiðarinnar hafa lent hjá þeim 30 prósent landsmanna sem hafa mestar tekjur. Því er um húsnæðisstuðning að ræða sem lendir hjá þeim sem þurfa ekki á honum að halda. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag. Fyrrnefnda stofnunin hefur auk þess bent á að þetta leiði af sér hærra húsnæðisverð og minni almenna hagkvæmni á húsnæðismarkaði. Sem á móti gerir fólki með lægri tekjur og minni möguleika á því að fá fyrirframgreiddan arf til að koma þaki yfir höfuðið enn erfiðara fyrir að finna húsnæðisöryggi.
Í ljósi þessara staðreynda þá vaknar eðlilega spurning um hvort stjórnvöldum beri með einhverjum hætti að jafna þennan leik. Miðað við það sem fram hefur komið við fjárlagavinnu vegna næsta árs liggur fyrir að sá vilji er ekki til staðar. Þvert á móti munu stuðningsgreiðslur ríkisins til skuldsettra heimila í gegnum vaxtabótakerfið dragast saman um 700 milljónir króna á næsta ári vegna þess að eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu verða ekki uppfærð. Fyrir vikið mun heimilum sem fá vaxtabætur fækka um hátt í fimm þúsund milli ára. Þeim mun fækka úr 13.195 í 8.400 milli ára. Um er að ræða 25 prósenta lækkun á stuðningsgreiðslum til skuldsettra heimila.
Í óundirbúnum fyrirspurnum um aðgerðir stjórnvalda fyrir fólk á húsnæðismarkaði, sem fóru fram í vikunni, virtist Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, sem fer með húsnæðismál í ríkisstjórninni, ekki mjög áhyggjufullur yfir stefnu stjórnar sinnar. Hann sagði að það væri ekki til bóta að „hækka bætur endalaust“. Það byggi til „þörf fyrir enn meiri bætur og er í raun og veru ekki lausnin á vandamálinu“. Sú lausn væri að auka framboð á húsnæði, og „setja fjármuni inn þar sem fólkið sjálft getur þá vonandi samið um hærri laun, sem þýðir að það þarf minni bætur en getur staðið í sjálfbæru samfélagi“.
Það myndi leiða til þess að fólk ráði við „þá greiðslubyrði sem það er með en þarf ekki að lifa á bótum og bótahugsun frá ríkinu“.
Svona nærðu þjóðarsátt
Mikið hefur verið kallað eftir svokallaðri þjóðarsátt, í þeirri mynd sem gerð var snemma á tíunda áratugnum til að slá á verðbólgudraug þeirra tíma. Að allir séu í sama bátnum. Að leggjast þurfi á árarnar og róa í sömu átt.
Úrlausnarefnin blasa við. Það þarf að ná niður verðbólgu með því að halda launahækkunum í skefjum. Það verður einungis gert með aðkomu stjórnvalda. Þær þurfa að fela í sér aukin framlög í millifærslukerfi á borð við vaxtabótakerfið til þeirra sem eiga mun erfiðara að ná endum saman í dýrtíðinni. Til að fjármagna þær aðgerðir væri hægt að auka álögur á breiðu bökin, til dæmis með því að láta efnað fólk sem telja launatekjur fram sem fjármagnstekjur til að borga miklu lægri skatta hætta því. Eða hækka veiðigjöld umtalsvert og setja háan útgönguskatt á þá sem selja frá sér veiðiheimildir sem þeir eiga ekki. Það væri hægt að stórauka neytendavernd og fjárfesta betur í virku samkeppniseftirliti með fákeppnismarkaðnum á Íslandi, með hag almennings að leiðarljósi. Svo fátt eitt sé nefnt.
Það þarf að stórauka framboð af húsnæði til að mæta eftirspurn og jafnvel skilgreina heimili sem innviði, ekki fjárfestingaeign. Það þarf að tryggja að ríki og sveitarfélög haldi gjaldskrárhækkunum í algjöru lágmarki. Það þarf að skikka atvinnulífið til þess að freistast ekki áfram til þess að taka út skammtímahagnað með því að hækka verðlag og horfa þess í stað á langtímaávinning af því að gera langa kjarasamninga.
Fyrst og fremst þarf að búa til fyrirkomulag þar sem fólkið í landinu trúir því raunverulega að það skipti meira máli hvað þú getur heldur en hverra manna þú ert. Að tækifæri til þess að öðlast grundvallarmannréttindi eins og þau að geta eignast öruggt þak yfir höfuðið séu ekki fyrst og síðast fyrir þá sem eiga ættingja með bólgna bankareikninga sem geti gefið þeim peninga.
Þannig er staðan ekki í dag.
Athugasemdir (4)