Jarðhræringar í og við Grindavík hafa breytt öllu á Íslandi. Viðfangsefni efnahags- og stjórnmála eru skyndilega allt önnur. Ráðamenn standa frammi fyrir risastóru verkefni sem var ekki til staðar í byrjun mánaðar. Þótt gagnrýna megi, í ljósi þeirra jarðhræringa og eldgosa sem hafa verið á svæðinu síðustu ár, að undirbúningur hafi ekki verið meiri en raun ber vitni, verður líka að sýna því skilning hversu óljós staðan er og hversu flókið er að ná heildrænt utan um hana.
Áhrifin eru fyrst og fremst á íbúa Grindavíkur. Allar aðgerðir til skamms tíma verða að snúa að því að hlúa að, reisa við og verja þann hóp. Kjarni þess að mynda samfélag er að standa saman þegar áföll dynja yfir. Það kunnum við á Íslandi og höfum margsinnis sýnt það í verki.
Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því, og ræða það upphátt og opinskátt, að áhrifin á samfélagið allt verða umtalsverð. Umfang þeirra áhrifa eru þegar farin að birtast í opinberum tölum og gögnum.
Ferðaþjónusta
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað á miðvikudag að halda stýrivöxtum óbreyttum. Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur nokkuð skýrt fram að ef ekki væri fyrir þá óvissu sem ríki um efnahagsleg áhrif jarðhræringanna á Reykjanesi þá hefðu vextirnir verið hækkaðir enn og aftur, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á vaxtakostnað heimila, fyrirtækja og hins opinbera. Þar segir enda að verri verðbólguhorfur bendi „til þess að það gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar“.
Samhliða kom út ársfjórðungslega ritið Peningamál þar sem Seðlabankinn gerir grein fyrir horfum í efnahags- og peningamálum. Þar segir að verði um stórt gos nálægt mikilvægum innviðum að ræða geti skaðinn orðið töluverður. „Áhrifin á efnahagsumsvif gætu einnig orðið mikil ef um langvinnt gos yrði að ræða. Áhrifin gætu t.d. orðið veruleg á ferðaþjónustu og annan útflutning, afkomu hins opinbera og á gengi krónunnar og verðbólgu.“
Áhrifin á ferðaþjónustu eru augljós og eru þegar farin að koma fram í því að verulega hefur hægt á sölu á flugferðum til Íslands. Það mun svo hafa áhrif á aðra anga ferðaþjónustunnar sem selja ferðamönnum gistingu, afþreyingu og annars konar vörur og þjónustu.
„Áhrifin gætu t.d. orðið veruleg á ferðaþjónustu og annan útflutning, afkomu hins opinbera og á gengi krónunnar og verðbólgu“
Vegna þessa felldi Icelandair afkomuspá sína, sem gerði ráð fyrir rekstrarhagnaði upp á allt að rúmlega níu milljarða króna í ár og hagnaði eftir skatta og fjármagnsliði fyrir árið í heild, úr gildi á þriðjudag. Félagið gerir þó enn ráð fyrir jákvæðri afkomu eftir skatta í ár, eftir að hafa tapað um 80 milljörðum króna á árunum 2018 til 2022. Afleiðingar þessa komu strax fram á markaði. Á miðvikudag lækkaði virði bréfa Icelandair um tæp fjögur prósent og virði bréfa í hinu íslenska flugfélagi Play lækkaði sömuleiðis um rúm fjögur prósent. Gengi bréfa í Icelandair hefur lækkað um 32 prósent á einu ári og gengi bréfa í Play um tæp 41 prósent.
Þá á eftir að taka inn þau áhrif sem staða Bláa lónsins hefur á ferðaþjónustuna. Baðlónið í Svartsengi, og tengd starfsemi þess á svæðinu, er sem stendur lokað. Heildarfjöldi gesta sem heimsótti lónið í fyrra var rúmlega 816 þúsund. Það er sennilega vinsælasti ferðamannastaður landsins og hefur mikið aðdráttarafl fyrir tengifarþega sem ferðast milli Norður-Ameríku og Evrópu sem ákveða að gera stutt stopp á landinu. Framtíð þess er í óvissu. Ógjörningur er að spá fyrir um hvort og þá hvernig gengur að endurvekja starfsemina í núverandi mynd eftir það sem á hefur gengið.
Krónan, opinber fjármál og verðbólga
Gengi krónunnar hóf að lækka í haust og sú lækkun jókst enn frekar í kjölfar atburðanna í og við Grindavík. Í Peningamálum segir að alls hafi gengið lækkað um 6,4 prósent frá því í lok ágúst gagnvart meðaltali gjaldmiðla helstu viðskiptalanda. Þar af nemur lækkunin um 3,6 prósent frá byrjun nóvember þegar jarðhræringar tóku að aukast töluvert þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn nýverið og selt gjaldeyri úr varaforða sínum fyrir 2,8 milljarða króna. Það var í fyrsta sinn sem hann beitti inngripum síðan í janúar á þessu ári.
Þessi þróun hefur bein áhrif á verðbólguhorfur, sem, líkt og áður sagði, hafa versnað. Orðrétt segir í Peningamálum: „Óvissa um verðbólguhorfur til skamms tíma hefur aukist töluvert í ljósi gengislækkunar krónunnar vegna jarðhræringa á Reykjanesi.“
Þá segir Seðlabankinn að áhrifin á afkomu hins opinbera vegna ástandsins á Reykjanesskaga geti orðið töluverð. Fyrir liggur að ríkið mun standa frammi fyrir miklum kostnaði sem hvorki var gert ráð fyrir í fjáraukalagafrumvarpi þessa árs né fjárlagafrumvarpi ársins 2024. Sá kostnaður mun meðal annars falla til vegna aðgerða við að verja byggð og þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki, vegna launakostnaðar fyrirtækja í Grindavík sem ríkissjóður ætlar að taka á sig næstu mánuði hið minnsta og vegna skemmda sem fyrir liggur að þarf að takast á við. Áhrifin á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa, með þeim hætti að það verði dýrara fyrir ríkið að fjármagna sig, geta líka orðið töluverð. Í Peningamálum segir að krafan hafi tekið að lækka í nóvember þegar jarðhræringarnar stórjukust „en ef til eldsumbrota kæmi ríkir mikil óvissa um efnahagslegar afleiðingar þess“.
Húsnæðismarkaður
Einn helsti drifkrafturinn í þeirri miklu verðbólgu sem geisað hefur á Íslandi hefur verið mjög ört hækkandi húsnæðisverð. Í júlí í fyrra hafði það til að mynda hækkað um 25,5 prósent á einu ári á höfuðborgarsvæðinu. Vegna mikillar hækkunar stýrivaxta og hertra lánþegaskilyrða ásamt minni kaupmætti ráðstöfunartekna heimila hefur dregið verulega úr verðhækkunum undanfarið. Markmið Seðlabankans hefur einfaldlega verið að kæla markaðinn og stuðla að raunlækkun á húsnæðisverði.
Bankinn taldi að þetta markmið væri að nást. Horfur voru á því að umsvif á fasteignamarkaði yrðu áfram fremur lítil og að framboð íbúða til sölu myndi aukast enn á næstu mánuðum þar sem fjöldi íbúða í byggingu hafi ekki verið fleiri frá upphafi mælinga.
Staðan í Grindavík hefur skapað mikla óvissu um að þessi árangur náist. Allt í einu er komin upp sú staða að það þurfti að finna um 3.700 íbúum bæjarins nýjan samastað, að minnsta kosti tímabundið. Sá óhugnanlegi möguleiki er einnig til staðar að það þurfi að finna þeim ný varanleg heimili á öðrum stað en innan bæjarmarka Grindavíkur. Lagnakerfi hafa farið illa, sérstaklega frárennsli, og það verður bæði tímafrekt og dýrt að laga þau verði það yfirhöfuð hægt.
„... gætu leitt til verulegrar áraunar á innlendan húsnæðismarkað verði miklar skemmdir á íbúðarhúsnæði á svæðinu“
Þegar hafa nokkrar eignir í Grindavík fengið þann dóm að húsin séu ónýt og í Heimildinni í dag er haft eftir Bjarna Bessasyni, prófessor í byggingaverkfræði, að það sé einsdæmi í Íslandssögunni að sprunga opnist undir mörgum húsum, líkt og gerst hefur í bænum. „Í Grindavík er það þannig að undirlagið er búið að síga um einn metra öðrum megin og ekki hinum megin, hús eru ekki hönnuð til að ráða við það.“
Verði eignir fyrir tjóni eru þær tryggðar hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, að andvirði brunabótamats í tilfelli altjóns. Í Peningamálum segir að jarðhræringarnar „gætu leitt til verulegrar áraunar á innlendan húsnæðismarkað verði miklar skemmdir á íbúðarhúsnæði á svæðinu“.
Skattar, laun og lán
Kostnaður hins opinbera vegna aðstæðna í Grindavík hleypur þegar á milljörðum króna. Búið er að keyra í gegn lög um nýjan skatt, svokallað forvarnargjald, sem kostar íbúa landsins um einn milljarða króna á ári næstu þrjú árin hið minnsta. Skatturinn á að fjármagna byggingu varnargarða, og eftir atvikum ýmislegt annað tilfallandi, en gróf áætlun sem sett var fram í frumvarpinu sem varð að forvarnargjaldslögunum gerði ráð fyrir að kostnaðurinn við þær framkvæmdir yrði um 2,5 milljarðar króna, með 20 prósent óvissu í sitthvora áttina.
Þá er til umfjöllunar á þinginu frumvarp sem gerir ríkið að launagreiðendum Grindvíkinga sem eru á almennum vinnumarkaði eða sjálfstætt starfandi, upp að 633 þúsund krónum á mánuði, frá 11. nóvember og til og með 29. febrúar næstkomandi. Kostnaður við þessa aðgerð er áætlaður allt að 1,4 milljarðar króna.
Stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, tilkynntu á miðvikudag að þeir hefðu gert samkomulag um að fella niður vexti og verðbætur af íbúðalánum Grindvíkinga í þrjá mánuði. Ljóst er að um umtalsverðar fjárhæðir getur verið að ræða. Samkvæmt tölum sem Heimildin fékk frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun nemur heildarfasteignamat eigna í Grindavík 92,4 milljörðum króna á þessu ári.
Þrátt fyrir að samúð almennings með afkomu banka sé, réttilega, ekki mikil, sérstaklega í ljósi þess að stórauknar tekjur vegna vaxtahækkana skiluðu þeim uppistöðunni í 61 milljarðs króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins, þá liggur fyrir að samkomulagið mun sennilega hafa neikvæð áhrif á tekjuáætlun ríkissjóðs á næsta ári. Ríkið á enda Landsbankann og er stærsti eigandi Íslandsbanka. Óvænt útgjöld munu draga úr arðgreiðslum bankanna tveggja til eigenda sinna.
Grindavík
Grindavík er dásamlegt samfélag sem íslensk þjóð verður að vera samtaka um að aðstoða og reisa við með öllum tiltækum ráðum, óháð kostnaði. Þar búa þúsundir manns, þar liggja rætur þúsunda til viðbótar og þar starfa um 150 fyrirtæki, mörg hver að uppistöðu við það að þjónusta nærumhverfið.
Óvissan sem Grindvíkingar standa frammi fyrir er óbærileg. Spurningarnar sem leita á þau eru óteljandi. Geta þau snúið aftur á heimili sín? Verða heimili þeirra einhvers virði þegar þessi lota verður yfirstaðin, og hvernig á þá að takast á við þær lánaskuldbindingar sem íbúarnir hafa undirgengist til að eignast þau heimili? Verður hægt að endurreisa samfélagið í þeirri mynd sem það var? Hver er nánasta framtíð barna sem hafa stundað þar nám, íþróttir og aðrar tómstundir og myndað tengsl við samferðabörn sín? Hvað verður um eldri borgara sem hafa fyrir löngu unnið sér inn fyrir rólegu ævikvöldi í öryggi? Hægt er að halda endalaust áfram. Þessar áhyggjur bætast við þær afleiðingar sem aðrir landsmenn þurfa að takast á við eftir að Reykjanesskaginn vaknaði eftir margra alda dvala.
Grindvíkingar eiga skilið svör við öllum þessum spurningum sem fyrst. Þau eiga skilið allan þann stuðning sem hægt er að veita þeim. Þau eiga skilið framsýni og leiðarkort aftur inn í öryggið. Samhliða þarf að ræða opinskátt um stöðuna heildrænt og aðlaga aðra þætti íslensks samfélags að þeim nýja veruleika sem við blasir.
Það getum við með æðruleysi, samtakamætti og dugnaði.
Kostar húseigendur en lendir auðvitað óbeint á íbúunum. Katrín vissi auðvitað að það var vonlaust að nefna hátekjuskatta, slíkt mega sjálfstæðismenn ekki heyra nefnt.