Þessi grein birtist fyrir rúmlega 5 mánuðum.

Ástin berskjaldar einstaklinginn

Ást­in er ör­ugg og veit­ir frelsi til ber­skjöld­un­ar sam­kvæmt ást­föngn­um við­mæl­end­um grein­ar­inn­ar. Al­dís Þor­björg Ólafs­dótt­ir, sál­fræð­ing­ur og para- og kyn­lífs­ráð­gjafi, seg­ir það geta ver­ið gott fyr­ir pör að ræða reglu­lega sam­an, skipu­leggja kyn­líf og lífga upp á hvers­dags­leik­ann.

„Stór partur af okkur öllum þráir að vera séður,“ segir Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir, sálfræðingur og para- og kynlífsráðgjafi.

„Við eigum flest okkar upprunafjölskyldu og þar erum við séð, höfum eitthvert hlutverk og erum elskuð.“ Hún útskýrir hvernig mörg fullorðnast og fara út í heiminn með þessa löngun um að vera séð af elskhuga.

Aldís Þorbjörg ÓlafsdóttirSálfræðingurinn og para- og kynlífsráðgjafinn hvetur fólk til þess að rækta bæði sig sjálf og sambandið. Hún segir það geta verið gagnlegt fyrir pör að búa til tíma fyrir samtöl um líðan, skipuleggja kynlíf og að leika sér saman.

„Ég held að það sé líka svo nauðsynlegt, burtséð frá því hvort fólk vill eiga heimili eða börn, að þá er það þetta að einhver sjái okkur og að við skiptum máli fyrir aðra manneskju. Það eru sum í dag sem vilja ekki börn og eru ekki að pæla í þessu hefðbundna, en vilja ást, rómantík og tengingu við aðra manneskju.“

Ísland staður ástarinnar

Heimildin spurði ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur hvort þau hefðu einhvern tímann orðið ástfangin og hvernig þau myndu lýsa tilfinningunni.

Á rölti um Skólavörðustíginn með kaffibolla í hendi voru hjónin Shannon Neilan og Zach Baker frá Bandaríkjunum. Þau voru nýkomin til Íslands til að fagna brúðkaupinu sínu en þau giftu sig á síðasta ári. 

Zach Baker og Shannon NeilanEru á Íslandi í brúðkaupsferð sinni. Upprunalega ætlaði Zach að biðja Shannon að giftast sér á Íslandi en þeirri ferð var aflýst sökum Covid-19.

„Þetta er eiginmaðurinn minn,“ segir Shannon brosandi eftir að hún svarar því játandi að hafa upplifað ást. Zach kynnir sig sem eiginmanninn og hlær léttilega. 

Hjónin ætluðu upphaflega að koma til Íslands fyrir nokkrum árum en ferðinni var aflýst sökum Covid-19 heimsfaraldursins. Zach hafði meira að segja ætlað að biðja Shannon að giftast sér á Íslandi en endaði á að biðja hennar í almenningsgarði í Philadelphiu-ríki í Bandaríkjunum, þar sem þau eiga heima. 

„Við erum búin að vera saman í tíu ár. Síðan við vorum í menntaskóla. Þá urðum við ástfangin,“ skýrir Shannon frá glöð í bragði. 

Þeim hjónum ber ekki alveg saman um hve lengi þau hafa verið ástfangin af hvort öðru. „Ég var hrifinn af henni í þrjú eða fjögur ár áður en hún vildi fara á stefnumót með mér,“ segir Zach glottandi.

Shannon skýtur því inn að þau hafi verið vinir á þeim tíma. Zach leiðréttir hana: „Hún sá okkur bara sem vini en ég var ástfanginn af henni. Á endanum sá hún það sama og nú erum við gift.“ 

Aðspurð af hverju Ísland varð fyrir valinu sem áfangastaður brúðkaupsferðarinnar svarar Shannon: „Mig hefur dreymt um að koma til Íslands í mörg ár. Landið er svo fallegt og töfrandi. Menningin og landslagið vekja áhuga minn þannig að ég er afar glöð með að við séum loksins komin hingað.“ 

Hvernig myndu þið lýsa þeirri tilfinningu að vera ástfangin fyrir einhverjum sem hefur aldrei upplifað það?

Shannon veltir spurningunni aðeins fyrir sér áður en hún svarar: „Ég myndi lýsa henni sem öruggri. Hann er besti vinur minn og eftir allan þennan tíma líður mér eins og ég sé alltaf með einhverjum sem getur hugsað vel um mig. Þú ert alltaf með bestu manneskjunni þinni.“ 

Hún snýr sér að Zach og horfir hlýlega á hann. „Ég er bara svo ánægð að vera hér með þér.“ 

Zach endurgeldur Shannon brosið og lýsir sinni eigin upplifun. „Ást er eins og einhver staður þar sem þú getur alveg berskjaldað þig. Jafnvel þótt maður sé með fjölskyldunni sinni líður manni stundum eins og maður geti ekki alveg gert það að öllu leyti. En með réttu manneskjunni getur þú slakað alveg á, sem er svo góð tilfinning.“ 

„Ást er eins og einhver staður þar sem þú getur alveg berskjaldað þig“
Zach Baker

Nánd

Í starfi sínu sem sálfræðingur og para- og kynlífsráðgjafi verður Aldís oft vitni að því þegar stór gjá á milli para minnkar hægt og rólega í sófanum fyrir framan hana. Pör koma saman á ný, sitja jafnvel nær hvort öðru í tímum, haldast í hendur og hlæja.

„Þetta er eitt það fallegasta sem til er í heiminum, að horfa á pör,“ segir Aldís, sem minnir á að eðlilegt sé í samböndum að fólk fari í sundur og komi aftur saman til skiptis. „Flest pör gera þetta bara náttúrulega.“

Fólk laðast mismikið að mökum sínum á ólíkum tímapunktum í lífinu. „Markmiðið með að auka nánd er að byrja að koma aftur saman, gera hluti saman og byrja að snertast aftur. Það er að fara svolítið í kjarnann og velta því fyrir sér hvað ykkur finnst gaman.“ 

„Markmiðið með að auka nánd er að byrja að koma aftur saman, gera hluti saman og byrja að snertast aftur“
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir
sálfræðingur og para- og kynlífsráðgjafi

Þess vegna er mikilvægt að pör gefi sér tíma til að sinna sambandinu en festist ekki eingöngu í því að reka heimili eða sinna hversdagslegum skyldum sínum. Í pararáðgjöf geta pör fengið alls kyns verkefni sem ætlað er að auka nánd, snertingu og samveru.

Aðspurð út í algengustu ástæðuna fyrir því að pör leiti sér aðstoðar segir Aldís það til dæmis geta verið rifrildamynstur sem ekki næst að leysa úr, löngun til að stunda meira kynlíf og auka nánd, eða bara einfaldlega að vilja gera gott betra. 

„Par er kannski á einhverjum stað þar sem kynlífið hefur minnkað og þau leggja ekki eins mikla rækt við sambandið. Þá kemur kannski leiði eða vilji til að bæta sig og komast á stað þar sem þau setja sambandið í forgang. Bætt samskipti, aukin nánd, samvera, að setja upp stefnumót og svoleiðis. Það eru þessir hlutir sem eru mikið að koma upp.“

Ástarsvik

Hjá sumum pörum hafa svik átt sér stað. Þá þarf að byggja upp traust á ný. „Ef við erum að vinna með að traust hafi verið brotið þá er byrjunin svolítið öðruvísi heldur en ef við erum að vinna að því að auka nánd.

Traust er náttúrlega eitthvað sem tekur tíma að vinna til baka. Þú getur á einum degi algjörlega brotið traust maka þíns og svo getur tekið mörg ár að vinna það fyllilega til baka,“ útskýrir sálfræðingurinn. 

Í slíkum aðstæðum hvetur Aldís fólk til að hlusta á makann sem er sár. „Það er svo mikilvægt fyrir okkur að skynja að það sé virkilega verið að hlusta á okkur. Að það sé ekki bara verið að segja fyrirgefðu til þess að laga af því að okkur líður illa, heldur að fá í einlægni skilning á því að manneskjan olli miklum skaða og sveik viðkomandi eða braut þetta traust.“

„Það er svo mikilvægt fyrir okkur að skynja að það sé virkilega verið að hlusta á okkur“
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir
sálfræðingur og para- og kynlífsráðgjafi

Aldís heyrir fólk í pararáðgjöf oft segja: „Þegar ég var á yngri árum ætlaði ég aldrei að sætta mig við svona.“ En hún segir fólk átta sig á að lífið er flóknara en svo. Það er einnig misjafnt eftir pörum hvernig þau skilgreina traust og svik, þess vegna er gott að eiga samtal um það í byrjun sambands. 

Annar þáttur sem er mikilvægur hvað varðar svik er að skilja aðstæður og samhengi hlutanna. Aldís tekur sem dæmi par þar sem einstaklingur er svikinn stuttu eftir fæðingu barns. „Það þarf að skilja samhengið, ekki bara að þú særðir makann þinn. Heldur að þú særðir makann á tíma þar sem aðilinn átti í erfiðleikum vegna líkamsímyndar.“

Sú tilfinning sem Aldís hefur fengið í starfi sínu er að sá aðili sem leitar út fyrir sambandið er í raun að leita að sjálfum sér. 

Hugsanir eins og: „Ég var ótrúlega skemmtileg og hress en er það ekki lengur,“ geta legið þar að baki og því er oft verið að leita að spennu. Í pararáðgjöf er unnið að því að auka traust á ný og bæta samskipti, sé vilji til þess til staðar. 

Að vera maður sjálfur

Anna Podcoka er frá Póllandi. Hún fann ástina sína á stefnumótasnjallforritinu Tinder, eða allavega mjög líklegan kandídat. Anna grettir sig góðlátlega og bros færist yfir varirnar þegar hún er spurð að því hvort hún sé ástfangin núna. „Kannski,“ svarar hún og hlær. „Kannski.“ 

Anna PodcokaFann ástina á Tinder.

Nýlega var Anna stödd á Grikklandi með vinkonum sínum. Sér til skemmtunar flettu stelpurnar í gegnum Tinder og sáu þar kostulegan karlmann sem Anna matchaði við.

„Þetta var síðasta manneskjan sem ég matchaði við. Í kjölfarið byrjuðum við að spjalla saman og við töluðum í tvo mánuði. Af því að ég er frá Póllandi þá kom hann síðan til Póllands að heimsækja mig. Þetta er enn þá í gangi og við sjáum hvað mun gerast.“ 

Alveg frá fyrstu skilaboðunum hefur Önnu liðið eins og hún geti verið hún sjálf að öllu leyti. Það er henni léttir eftir krefjandi ár. „Núna líður mér eins og sé frjáls og örugg. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta ... þetta er bara rétt og þægilegt.“

Anna myndi lýsa þeirri tilfinningu að verða ástfangin sem öruggri ásamt getunni til að vera maður sjálfur og hlæja. 

Fyrir þau sem eru í ástarsorg hefur Anna þau skilaboð að sorgin muni líða hjá. „Þú þarft bara að gefa þessu tíma. Þetta er ekki eina manneskjan í heiminum, ég trúi því.“

Heilbrigt eða óheilbrigt?

Reynsla úr fyrri samböndum getur smitað yfir í ný sambönd. „Við höfum til dæmis verið svikin í fyrra sambandi og komum inn með mikið vantraust. Það getur birst í stjórnsemi, afbrýðisemi og því að reyna að hafa áhrif á makann, til dæmis með því að banna þeim að fara út,“ segir Aldís. 

Til þess að geta átt í heilbrigðu sambandi skipta traust og frelsi lykilmáli. 

„Þú færð að vera eins og þú ert og þarft ekki að breyta því fyrir makann þinn. Það er ekki verið að stjórna því hverja þú hittir og hvenær. Þú ert ekki einangraður heldur ert tengdur vinum, fjölskyldu og fólkinu í kringum þig. Þú mátt halda áfram að blómstra og finna ný áhugamál. Það er ekki verið að reyna að stjórna þér eða draga úr því. Það er jákvæð upplifun.“

„Þú mátt halda áfram að blómstra og finna ný áhugamál“
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir
sálfræðingur og para- og kynlífsráðgjafi

Vert er að taka fram að pör rífast og Aldís minnir á að það að ganga í gegnum erfitt tímabil í sambandi sé ekki endilega óheilbrigt, heldur geti það verið heilbrigt. Aðalatriðið er hvernig fólk leysir úr því. 

Hins vegar þarf ekki að sætta sig við óheilbrigði. „Hlutirnir eiga ekki að vera þannig að manni eigi að líða illa í þeim stöðugt.“

Þú veist bara

Hin breska Sam Roots hefur verið gift í 25 ár. Hún hefur ekki hugmynd um hvað það var við elskhuga hennar sem gerði það að verkum að hún varð ástfangin. „Stundum veistu bara að þú ert búinn að hitta réttu manneskjuna,“ segir hún.

„Stundum veistu bara að þú ert búinn að hitta réttu manneskjuna“
Sam Roots
Sam RootsSegir fólk stundum vita að það er búið að finna réttu manneskjuna.

Sam lýsir ástartilfinningunni sem ávanabindandi. „Þú vilt bara vera með þessari manneskju og láta það ganga sama hvað.“ 

Sam hvetur fólk til að gefast ekki upp á ástinni. „Þú veist aldrei hvað er handan við hornið. Ástin kemur þegar þú átt síst von á henni.“ 

Gott samband enn þá betra

Fyrir þá lesendur sem vilja gera gott samband enn þá betra hefur Aldís góð ráð. Hún nefnir þó að það fari eftir aldursskeiðum og því hve lengi fólk hefur verið saman hvað á við hverju sinni. 

Eitt af því mikilvægasta fyrir pör er að ræða saman um hvort sambandið sé forgangsatriði, hve mikilvægt kynlíf er og að rækta hvort annað sem og sig sjálf.

„Það er aldrei of seint að eiga það samtal. Hvernig viljum við hafa okkar samband? Þá er byrjað að vinna að því og fylgja því eftir. Það eru hlutir eins og að gefa sér tíma til að fara á stefnumót, af því að þessir hlutir skipta máli. Við erum oft mikið í hversdagsleikanum sem er fallegur og dásamlegur en brjótum hann aðeins upp og gerum eitthvað saman.“

Annað hjálplegt ráð er að skipuleggja kynlíf vegna þess að það er jú mismikið eftir tímabilum.

„Það má skipuleggja það og segja: Þessa vikuna ætlum við að stunda kynlíf, hvar hentar okkur að finna tíma?“ Önnur snerting skiptir einnig máli, til dæmis hvernig fólk kveðst á morgnana og heilsast þegar það kemur heim eftir vinnudaginn.

Einnig er hægt að lífga upp á hversdagsleg heimilisverk eins og eldamennskuna með heitum kossi eða faðmlögum. Það getur skipt sköpum fyrir pör sem hafa minni tíma til að vera kynferðisleg. 

Svo getur verið gott að búa til tíma í hverri viku þar sem par sest niður og ræðir líðan sína. „Hvernig gekk vikan okkar, hvernig lítur næsta vika út, hvernig líður þér, hvernig líður mér?“ Í þess háttar samtölum skapast oft rými til þess að koma á framfæri því sem hefur legið viðkomandi á hjarta. 

Að lokum hvetur Aldís fólk til þess að hafa gaman og leika sér. Algengt er að fólk hugsi dreymið til baka um fyrstu mánuði sambands þar sem kynlíf var oftar og leikurinn meiri. 

„Það er miklu meiri leikur og meiri tilhlökkun fyrst en hún þarf ekkert að hverfa. Við köllum hana fram með því að gera eitthvað nýtt, skemmtilegt, öðruvísi, leika okkur og hlæja saman. Mér finnst ekki að við eigum að hætta því þó að við séum eldri eða að sambandið sé til margra ára.“

Sálfræðingurinn bætir brosandi við: „Ástin er mögnuð.“

Kjósa
10
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár