Vill glæða Grímsey lífi með matvælaframleiðslu úr skarfakáli

Til stend­ur að setja á lagg­irn­ar skarfa­káls­rækt­un í Grims­ey sem yrði sú eina af sinni teg­und á Ís­landi. Á með­al þess sem hægt er að gera úr því er pestó. Sú sem stend­ur að verk­efn­inu er Ma­y­fl­or Perez Caj­es sem er upp­runa­lega frá Fil­ipps­eyj­um en hef­ur bú­ið þorra ævi sinn­ar á Norð­ur­landi.

Vill glæða Grímsey lífi með matvælaframleiðslu úr skarfakáli
Skarfakál Hægt er að rækta skarfakál, sem er líka hægt að finna villt í Grímsey, til að búa til ýmiskonar mat. Mayflor gerði meðal annars pestó sem hún seldi líkt og gert er með heimagerðar sultur, við miklar vinsældir. Mynd: Aðsend


Mayflor
Perez Cajes flutti hingað til lands átta ára gömul frá Filippseyjum og ólst upp í Ólafsvík. Fljótlega upp úr aldamótum flutti hún til Akureyrar og kynntist í kjölfarið Grímsey, þar sem hún hefur búið á sumrin frá árinu 2009. Frá þeim tíma hefur hún velt fyrir sér ýmsu sem hægt væri að gera í eyjunni og er í dag komin vel á veg með rannsóknarvinnu varðandi ræktun skarfakáls, en slík ræktun er hvergi annars staðar gerð hér á landi.

Mayflor hefur nú þegar gert tilraunir til að rækta kálið utandyra en leitar sem stendur eftir styrkjum til að geta komið upp gróðurhúsi í eyjunni. „Ég hef prufað að nota mismunandi gerð af mold og nota einnig tað líka. Svo komst ég að því að það er sniðugt að nota snoð varðandi þessa ræktun, en snoð er hluti af ull af kindum sem er ekki notuð, mjög gróf ull. Með því að nota snoð þá heldur maður góðu rakastigi og verndar fræið, en skarfakálið þarf á miklum vökva að halda. Við fjölskyldan eigum kindur og ég get notað taðið og snoðið frá þeim, en ég er líka búin að vera í samstarfi við aðila sem ég kynntist í nýsköpunarhraðlinum hér fyrir norðan á síðasta ári, en sá aðili vinnur snoðið meira en ég hef verið að gera.“ segir Mayflor.

Bjó til pestó og selddi eins og heimagerða sultu

Fyrirtækið sem Mayflor stofnaði í kringum starfsemina heitir Skarfakál Arctic Circle og hefur það hlotið styrk frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Atvinnumálum kvenna, auk þess sem hún fékk boð um að taka þátt í nýsköpunarhraðlinum Startup Stormur árið 2022. 

„Það var eiginlega rifist um þetta, fólk var að stoppa mig úti á götu og spyrja hvort ég ætti meira“
Mayflor Perez Cajes
Um pestó sem hún bjó til úr skarfakáli.

„Ég er búin að vera í rannsóknar- og þróunarvinnu í allt sumar varðandi ræktunina og ég sótti villt skarfakál í Grímsey. Úr því gerði ég pestó sem ég setti á krukkur og seldi það svona eins og heimagerða sultu. Það lukkaðist virkilega vel, það var eiginlega rifist um þetta, fólk var að stoppa mig úti á götu og spyrja hvort ég ætti meira,“ segir Mayflor og hlær. 

Að sögn hennar vex skarfakálið villt í eyjunni í kringum björgin og einnig þar sem lundaholurnar eru. Hún segist nota ferðirnar með manninum sínum þegar hann var að háfa lunda, hún fari og nái þá í kál og í sumar hafi hún einnig náð í fræ.

MayflorTil að rækta skarfakál þarf jarðvegurinn að vera súr og því hentar taðið vel sem áburður.

Mayflor rannsakaði í kjölfarið hvernig hægt væri að geyma fræin og setti þau niður í mold í lok síðastliðins ágústmánaðar. „Það lukkaðist svo vel, það tók bara viku að spíra, ég var virkilega hissa og það sýndi sig að það er hægt að rækta þetta. Það er enginn annar að gera þetta hér á landi og það var því smá pæling hvaða aðferð væri best að nota. Jarðvegurinn þarf að vera súr og því hentar taðið vel og þetta þolir frost líka. Ég var í Grímsey fyrir viku síðan, það var frost þá og ég ákvað að kíkja í kringum björgin og sá að kálið var grænt enn þá. Það er kannski vesen ef það er snjór, ef maður þyrfti að grafa eftir því,“ segir Mayflor og skellir upp úr, full tilhlökkunar yfir þessari ræktun. 

Borgar sig að flýta sér hægt

Hún segir að plantan sé öflug og að ýmislegt sé hægt að gera með hana, en pestó er varan sem plantan er þekktust fyrir og vill Mayflor framleiða það auk þess að selja kálið ferskt til notkunar í salat. Mayflor er einnig að hefja rannsóknarvinnu sem tengist því að nota skarfakálið í te og fæðubótarefni og segist hún hafa margar hugmyndir, en er á því að það borgi sig að fara ekki of geyst.

„Skarfakál er vannýtt hér á landi og fólk veit eiginlega ekki hvað þetta er. Mig langar að vekja áhuga fólks á því áður en verkefnið fer á fullt. Það er mikið um skarfakál í Grímsey og það er mjög aðgengilegt, þú sérð þetta um allt þar. Þegar ég spurði fólk hvort þetta væri nýtt í eitthvað var mér sagt að það væri notað í salat, en ég hugsaði að það hlyti að vera nýtt í fleira. Ég komst að því að þetta væri nýtt í pestó, krem, te og í bjór líka erlendis. Þetta er græðandi, mjög C-vítamín ríkt, og í gamla daga var þetta notað til að lækna skyrbjúg. Þannig að möguleikarnir eru margir, en markmiðið mitt með þessari vinnu er líka að samfélagið í Grímsey lifi. Börnin mín vilja vera þar, og maðurinn minn líka og það skiptir máli. Samfélagið fer minnkandi, atvinnuvegurinn þar er fiskur og ferðaþjónusta og ég vil reyna að bjóða upp á eitthvað annað líka, nýta það sem náttúran hefur upp á að bjóða og halda áfram að glæða Grímsey,“ segir Mayflor að lokum með sannfæringartóni. 

Efnið er unnið í tengslumvið vefritið ÚR VÖR

Kjósa
18
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Kolbrun Þorkelsdottir skrifaði
    Þessari konu yrði líklega snúið við á landamærunum ef hún kæmi hingað í dag. Þar færum við á mis við mikin frumkvöðul.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár