Á Íslandi bjuggu 396.960 í lok september síðastliðinn. Íbúum hefur fjölgað um 72 þúsund á áratug. Stærstur hluti þeirrar aukningar er tilkominn vegna þess að íbúum með erlent ríkisfang hefur fjölgað um 50 þúsund á sama tímabili, eða sem nemur samanlögðu íbúafjölda Hafnarfjarðar og Garðabæjar.
Um 36 prósent allra íbúa búa í höfuðborginni Reykjavík, næstum tveir af hverjum þremur á höfuðborgarsvæðinu og um átta af hverjum tíu á suðvesturhorninu.
Þessar tölur sýna að Ísland hefur breyst hratt. Raunar er um að ræða einhverjar mestu, ef ekki mestu, samfélagslegu breytingar sem orðið hafa á Íslandi frá lýðveldisstofnun. Þarfir samfélagsins breytast eðlilega með og það kallar á meiri háttar kerfisbreytingar til að aðlaga þjónustuna að þörfunum. Sérstaklega í nærsamfélaginu.
Samt eru 64 sveitarfélög á Íslandi í dag. Fjögur þeirra eru með færri en 100 íbúa, það fámennasta með heila 47. Alls eru 29 þeirra með færri en eitt þúsund íbúa. 53 eru með færri en fimm þúsund íbúa. Einungis átta eru með fleiri en tíu þúsund íbúa. Eitt, Reykjavík, er með fleiri en 100 þúsund íbúa.
Farið í þveröfuga átt
Ellefu ár eru síðan að skýrsla McKinsey um möguleika Íslands til eflingar langtímahagvaxtar, sem leiddi til þess að Samráðsvettvangur um aukna hagsæld var myndaður, kom út. Tilgangur hennar var að búa til leiðarljós fyrir Ísland til að auka framleiðni og bæta lífsskilyrði með kerfisbreytingum. Ein lykiltillagan í þeirri skýrslu var að sveitarfélögum yrði fækkað úr þeim 74 sem voru þá í tólf. Frá því að skýrslan kom út hefur sveitarfélögunum vissulega fækkað um tíu, en þetta ferli gengur of hægt. Allt of hægt.
Ríkisstjórnin sem tók við ári síðar, skipuð Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, brást við þessum ábendingum með því að hunsa þær. Þess í stað var það sett í stjórnarsáttmála hennar að afnema ætti lágmarksútsvar, sem er lögbundinn skattur sem rennur til sveitarfélaga til að standa undir þjónustu þeirra við íbúa. Það var meira að segja lagt fram frumvarp þess efnis. Pólitísk stefna var að búa til skattaparadísir, með möguleika á tilheyrandi „gervibúsetu“ með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Íbúar þeirra sveitarfélaga sem áttu að fá að lækka skatta sína niður í lítið, eða jafnvel ekkert, myndu þá sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum. Ef þessi áform hefðu gengið eftir þá myndi sá hópur sem myndi hagnast á þessu fyrirkomulagi bætast í hóp fjármagnseigenda sem borga ekkert útsvar af sínum tekjum, þrátt fyrir að margsinnis sé búið að lofa að breyta því fullkomlega galna fyrirkomulagi. Árlegt tap sveitarfélaga á útsvarsgreiðsluleysi fjármagnseigenda, sem eru að uppistöðu breiðustu bök samfélagsins, hefur verið metið á um níu milljarða króna á ári á núvirði hið minnsta.
Svona hugmyndir ráðandi afla, sem eru úr öllum takti við þarfir mikils meirihluta almennings, hafa mótað farsakennda umræðu um sveitarstjórnarstigið síðastliðinn áratug.
Fyrir liggur að þorri sveitarfélaga á landinu ráða ekki við að sinna grundvallarþjónustu fyrir íbúa sína. Þau eru einfaldlega of máttlítil á alla kanta. Það á ekki bara við um þau sem eru fámennari en sumir vinnustaðir á Íslandi, heldur líka um mörg þeirra sem eru með þúsundir íbúa.
Verið er að sóa gríðarlegum fjármunum, milljörðum króna á ári, í óþarft fitulag sem dregur úr skilvirkni opinberrar þjónustu í stað þess að auka hana. Verið er að viðhalda ósjálfbæru kerfi til að tryggja pólitísk ítök og atvinnubótastefnu fyrir fólk sem langar að vera stjórnendur en geta það ekki nema í gegnum pólitíska fyrirgreiðslu. Verið er að viðhalda valdakerfi, ekki þjónustukerfi.
„Fyrir liggur að þorri sveitarfélaga á landinu ráða ekki við að sinna grundvallarþjónustu fyrir íbúa sína“
Dæmin eru sýnileg hvert sem litið er og lítið hefur þokast á síðustu árum. Stærri sveitarfélög, og íbúar þeirra, hafa þess í stað verið látin greiða kostnaðinn af vilja- eða getuleysi annarra við að axla eðlilega ábyrgð á kostnaði við grunnþjónustu. Skýrustu dæmin um þetta er að finna á höfuðborgarsvæðinu.
Kostnaði velt yfir á þann stóra
Í tölum sem Samband íslenskra sveitarfélaga tekur saman kemur fram að hver íbúi í Reykjavík greiddi 297.912 krónur fyrir veitta félagsþjónustu á árinu 2022. Það er 39 prósent meira en vegið meðaltal á landsvísu. Til samanburðar greiddu íbúar í Garðabæ 161.047 krónur fyrir slíka og íbúar á Seltjarnarnesi 169.867 krónur. Hver íbúi í Reykjavík greiddi því 85 prósent meira í félagsþjónustu en íbúi í Garðabæ og 75 prósent meira en hver íbúi á Seltjarnarnesi.
Félagsþjónusta í hlutfalli við skatttekjur var 31,7 prósent í Reykjavík í fyrra á meðan að hún var 23,9 prósent í Hafnarfirði, sem eyddi næst mestu í slíka af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Í Kópavogi og á Seltjarnarnesi var hún í kringum 17,5 prósent.
Veitt fjárhagsaðstoð á íbúa í Reykjavík var 19.919 krónur á meðan hún var 2.844 krónur á Seltjarnarnesi og 6.960 krónur í Garðabæ. Hver íbúi í höfuðborginni borgaði sjö sinnum meira í fjárhagsaðstoð á síðasta ári en hver íbúi á Nesinu. Þegar kemur að þjónustu við aldraða var kostnaður í Reykjavík 49 þúsund krónur á hvern íbúa en tæplega 18 þúsund krónur í Kópavogi, sem er næststærsta sveitarfélag landsins. Þar munar 31 þúsund krónum á hvern íbúa. Alls 74 prósent allra félagslegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu eru í Reykjavík.
Þá er augljóst að fjármagn hefur ekki fylgt málaflokkum sem færðir hafa verið yfir til sveitarfélaga frá ríkinu og munar þar mestu um málaflokk fatlaðs fólks, þar sem hallinn hleypur á tugum milljarða króna á nokkrum árum og fer vaxandi. Auk þess kallar stóraukinn fjöldi erlendra íbúa á viðbótarþjónustu sem er afar kostnaðarsöm. Kostnaður vegna þeirrar þjónustu lendir fyrst og síðast á stærstu sveitarfélögum landsins, sem flest eru á höfuðborgarsvæðinu.
Það væri hægt að halda lengi áfram. Taka inn í þetta hvernig greiðslur úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga skiptast, hvernig sveitarfélög fjárfesta í menningu og samgöngum. Það er sama hvar er drepið niður fæti, íbúar í Reykjavík borga alltaf stærri hluta af sköttunum sínum í veitta félagsþjónustu en nágrannar þeirra.
Skortir getu til að takast á við flókin verkefni
Þörfin fyrir það að endurhugsa sveitarstjórnarstigið, og sameina sveitarfélög, birtist ekki bara í því hversu ósanngjarnar fjárhagslegu byrðarnar eru. Fyrir um ári síðan var birt skýrsla verkefnastjórnar um starfsaðstæður kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa sem skipuð var haustið 2021. Henni var ætlað að taka út starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. Ástæðan var sú að endurnýjun í hópi sveitarstjórnarmanna hafði verið afar mikil hérlendis, og að afar hátt hlutfall gefi ekki kost á sér aftur til þátttöku í sveitarstjórnum eftir að hafa setið í þeim í eitt kjörtímabil.
Verkefnastjórnin sagði að ríki og sveitarfélög yrðu að taka höndum saman um að bæta vinnuaðstæður, stuðla að markvissari vinnubrögðum, tryggja réttindi og sanngjarnari kjör kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum í því skyni að efla sveitarfélögin. „Með sama hætti er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að draga úr hættunni á hvers kyns áreiti og ofbeldi í garð kjörinna fulltrúa. Brýnt er að veita kjörnum fulltrúum aukna fræðslu til að takast á við sífellt flóknara hlutverk sem og stuðning og ráðgjöf til að takast á við neikvæða fylgifiska þess.“
Hófleg niðurstaða hennar var sú að sveitarfélög með undir eitt þúsund íbúa þurfi að taka það til alvarlegrar skoðunar að sameinast öðrum. Þá myndi þeim hins vegar einungis fækka um 29 og yrðu enn 35.
Ef lesið er á milli línanna í skýrslunni liggur ljóst fyrir að allt of mörg sveitarfélög skortir getu til að takast á við flókin verkefni, til dæmis í skipulagsmálum. Það gerir þau vanmáttug þegar til að mynda stór alþjóðleg fyrirtæki vilja koma á fót starfsemi sem getur haft alls kyns neikvæð áhrif á samfélagið í heild en afar jákvæð áhrif á bankareikning fyrirtækjanna og þeirra einstaklinga sem þau fá til liðs við sig til að fá sínu fram.
Að éta úr ísskápnum
Þrátt fyrir að allt ofangreint sé fyrirliggjandi er umræðan um þetta þjóðþrifamál enn úti í móa. Enginn stjórnmálaflokkur hefur mótað sér skýra stefnu um umfangsmikla kerfisbreytingu á þessu sviði. Þess í stað er rifist um afleiðingarnar og aukatriði eins og þær eigi sér ekki rætur og lagðar til kreddufullar lausnir sem engu skila.
Nýverið voru til að mynda sagðar fréttir af því að aukið álag hefði verið á grenndargáma í Vesturbæ Reykjavíkur. Grunur var um að ástæðuna mætti finna í því að grenndargámum á Seltjarnarnesi hefði verið lokað vegna slæmrar umgengni og að íbúar þaðan væru að nota gámana í Vesturbænum.
„Að Seltjarnarnes væri eins og ríkur frændi sem ætti íbúð við hliðina á þér þar sem innangengt væri í þína“
Þegar bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi, Þór Sigurgeirsson, var spurður um þetta af Vísi sagði hann: „Þú átt við grenndarstöðina frábæru við JL húsið sem er stórkostleg og aldrei tæmd, þar sem er gámahrúga.“ Í kjölfarið kvartaði hann yfir samgöngumálum í Reykjavík og að það væri meiri frétt að skattfé Reykvíkinga yrði ekki notað í meira mæli til að greiða fyrir aðgengi einkabíla af Nesinu, þar sem fólk býr sem vinnur í Reykjavík, og að verið væri að auka öryggi gangandi vegfarenda í höfuðborginni á kostnað umferðarhraða íbúa Seltjarnarness.
Þessi veruleikafirring bæjarstjórans rímaði vel við greiningu þáverandi borgarstjóra í Reykjavík, Jóns Gnarr, sem hann setti fram í viðtali við Kjarnann fyrir áratug síðan. Þar sagði hann að Seltjarnarnes væri eins og ríkur frændi sem ætti íbúð við hliðina á þér þar sem innangengt væri í þína. „Hann hefur engar skyldur gagnvart þinni íbúð en getur gengið inn í hana á skítugum skónum og étið úr ísskápnum þegar hann vill vegna þess að hann keypti íbúðina með þessum réttindum. Að sama skapi keyptir þú íbúðina þína með þessum vankanti.“
Það þarf einfaldara Ísland
Nýverið lagði Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, fram ágæta tillögu á borgarstjórnarfundi um að Reykjavík myndi bjóða Mosfellsbæ og Seltjarnarnes að sameinast höfuðborginni. Tillögu um hóflegt og vitrænt skref í rétta átt.
Áðurnefndur bæjarstjóri á Nesinu var ekki hrifinn af þessari hugmynd. „Heiti potturinn er löngu búinn að afgreiða þetta mál. Þú getur bara gleymt því. Þetta verður aldrei.“
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, brást sömuleiðis við tillögu Lífar með því að hvetja hverfi í Reykjavík til að sækjast frekar eftir úrsögn úr höfuðborginni og sameinast öðrum sveitarfélögum. Vesturbærinn ætti að sameinast Seltjarnarnesi og Grafarvogur að sameinast Mosfellsbæ.
Nú er tími til kominn að stíga fast niður og ræða sameiningu sveitarfélaga, með almannahag að leiðarljósi, af fullri alvöru. Það þarf að einfalda Ísland. Það þarf þor til að lögþvinga sameiningar þannig að sveitarfélögum verði fækkað niður í allt að átta, og það þarf að gera það hratt. Það þarf samhliða að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga þannig að þau geti staðið undir lögbundnum verkefnum sínum. Það þarf að láta þau taka við fleiri verkefnum frá ríkinu, til dæmis fleiri skólastigum, þjónustu við aldraða og heilsugæslu. Með þessu fæst betri þjónusta, meiri nálægð við íbúa og það sparast milljarðar króna á ári sem geta þá nýst í uppbyggingu innviða, aðra fjárfestingu og í að mæta grunnþörfum íbúa.
Til þess að ná fram þessari hagræðingu þarf hins vegar fyrst og fremst breytt hugarfar stjórnmálamanna.
Þeir þurfa að hætta að stjórna og byrja að þjóna.
Í London er einn borgarstjóri með um 2.5 millj, ísl í mánaðarlaun. Þar eru 16 borgarfulltrúar en 23 í Reykjavík!
Það er greinilega tími til kominn að taka til á sveitarstjórnarstiginu. En það er tregða á toppnum, þar mundu margir missa þægilega bitlinga.