Raforkuspá Landsnets til 2050 gerir ráð fyrir að ríflega tvöfalda þurfi raforkuframleiðslu á Íslandi. Við framleiðum nú um 20 teravattstundir af raforku.
Í spánni segir:
„Þegar orkuskiptum verður lokið árið 2050 verður heildar notkun heimila og minni fyrirtækja samtals um 9 TWh og hafa þá vaxið um ríflega 5 TWh frá árinu 2023. Helsti vöxturinn verður vegna samgangna í landi eða hátt í 4 TWh. Vöxtur vegna heimilisnotkunar, þjónustu og minni fyrirtækja verður um 1,2 TWh á tímabilinu.“
Viðskiptaþing Viðskiptaráðs er þessu sammála, Samorka er þessu sammála og án þess að hafa spurt geri ég ráð fyrir að Landsvirkjun sé þessu nokkuð sammála.
Það eru bara Bjarni fv. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og ég sem erum ekki sammála þessum spám.
Þessar spár miðast við engar tæknibreytingar og óbreytta neyslu almennings og fyrirtækja á raforku. Algjöra kyrrstöðu. En það eru breytingar handan við hornið og vandamál í kerfinu sem við getum vel leyst. Við nýtum orkuna sem við framleiðum í dag ekki nægilega vel.
Flutningskerfið getur í sumum tilvikum ekki flutt orkuna þangað sem hennar er þörf. Við verðum að efla flutningskerfið til að orkan komist á rétta staði. Landsnet er með kerfisáætlun þar sem gert er ráð fyrir þessu. Það er mikið um töp í núverandi flutningskerfi en ef það er lagað þá verður orkunýtnin betri. Orkunýtni í kerfinu lagast með eflingu flutningskerfisins og verið er að vinna að því hörðum höndum af hálfu Landsnets.
Fyrirtæki og heimili koma til með að bæta orkunýtni með ýmsum hætti. Fólk er að verða meðvitaðra um að fara betur með rafmagnið. Það er ekki óendanleg auðlind. Slökkva ljósin, slökkva á raftækjum í stað þess að hafa þau stöðugt á „stand by“ o.s.frv.
Ný tækni gerir okkur kleift að nota minna rafmagn. Það er verið að þróa allskyns tækninýjungar sem eiga eftir að koma bæði heimilum og fyrirtækjum til hjálpar við að minnka orkunotkun.
Í auknum mæli gerumst við svo öll raforkuframleiðendur í framtíðinni. Með litlum vindmyllum á þök og sólarpanelum eiga heimili og fyrirtæki eftir að framleiða rafmagn bæði til eigin nota en einnig til að selja inn á flutningskerfið.
Síðast en ekki síst verðum við að nota varmaorku, afgangsorkuna, glatvarma úr stóriðjunni og varmorkuverum. Þetta fer bara út í loftið eins og er. Þetta er léleg nýting. Þetta þurfum við að nota og koma aftur inn á flutningskerfið. Þetta er töluverð raforka sem við fengjum til endurnotkunar. Talið er að mögulegt væri að fanga u.þ.b. 20MW af varmaorku frá kerskála Fjarðaáls eða sem nemur Kljáfossvirkjun í Hvítá. Þetta er bara ein stóriðja. Við erum með fleiri. Hringrásarhagkerfið í raforkuna. Fjárfestingar í varmaskiptum og búnaði sem þyrfti til, myndu borga sig upp á nokkrum árum. Þetta hefur verið gert í Noregi svo árum skiptir með góðum árangri. Við getum byrjað á þessu strax.
Ég er ekki mótfallin virkjunum. En ef við nýtum orkuna betur og næg orka er til staðar, þá er engum til framdráttar að eyða háum fjárhæðum í að virkja meira.
Skoðum líka vindmyllur, sjávarföllin og fleiri lausnir sem hafa verið til rannsóknar undanfarin misseri.
Við verðum að hugsa aðeins út fyrir kassann og vera óhrædd við að nýta orkuna betur sem þegar er framleidd.
Líklega finnst ákveðnum aðilum ekki hægt að græða á slíkum lausnum. Auðvitað: við uppsetninguna vinna litlir verktakar, orkan nýtist fyrst og fremst þeim sem á orkutækið og dreifingin á mörgum litlum orkugjöfum sjálf er andstæð miðstýrðri hugsun sem er því miður allt of ráðandi.
Það er miklu stórtækara að setja 100 vindmillur upp á hálendið.
Nú malda etv. einhverjir í móinn með sólarorkuna: en það er myrkur hálft árið. Nú, það er heldur ekki vatn fyrir vatnsorkuverin allt árið, þess vegna þarf þessi stóru miðlunarlón. Og stundum hafa þau ekki fyllst nægilega mikið. Hér gætu orkugjafarnir að vinna saman, á meðan sólarbirtu nýtist geta vatnorkuverin farið framleiðsluna niður og lónin safnað vatni.