Það hefur lengi verið markmið Bjarna Benediktssonar að losa um hluti íslenska ríkisins í fjármálakerfinu, en eftir stöðugleikasamningana sem gerðir voru 2015 átti ríkið tvo banka að fullu.
Ljóst var að það yrði flókið að ráðast í einkavæðingu ríkisbanka. Þegar það var ráðist í slíka á árunum 2002 og 2003 var það gert á hátt sem hefur, vægt til orða tekið, ekki elst vel og hafði gríðarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag þegar bankakerfið hrundi yfir það nokkrum árum síðar. Það tók síðan fjórtán ár að opinbera hverjir hefðu raunverulega keypt stóran hlut í Búnaðarbanka Íslands, þegar rannsóknarnefnd Alþingis opinberaði að litli þýski einkabankinn Hauck & Aufhäuser hefði verið leppur til að tryggja stjórnendum Kaupþings og Ólafi Ólafssyni fjárfesti yfirráð yfir bankanum. Kaupin voru blekking og þýski bankinn tók þóknun fyrir að taka þátt í að framkvæma hana.
Sölur á ríkiseignum eftir bankahrun höfðu heldur ekki verið til fyrirmyndar. Skemmst er að minnast þess þegar Landsbankinn, í eigu íslenska ríkisins, seldi tæplega þriðjungshlut í Borgun til valinna fjárfesta í lokuðu ferli á verulegu undirverði. Á meðal kaupenda voru frændur þáverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar.
Bjarni sagði sjálfur, í bréfi sem sent var á Bankasýslu ríkisins árið 2016, að upp væri komin „alvarleg“ staða vegna sölunnar á Borgun. Nauðsynlegt væri að hafa eigendastefnu í gildi sem byggði á gagnsæi og traustum ferlum, þegar kæmi að eignasölu ríkisins. „Það er mat ráðherra að umræða undanfarinna vikna vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun sé til þess fallin að skaða bankann. Því sé nauðsynlegt áður en lengra er haldið í því ferli að hvaðeina er máli skiptir og varðar sölu Landsbankans á Borgun verði upplýst og málið afgreitt með þeim hætti að traust til bankans og stjórnenda hans verði tryggt.“
Mikilvægt að bankakerfið haldist traust
Haustið eftir, árið 2017, var mynduð ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Í stjórnarmyndunarviðræðunum var ákveðið að undirbúa sölu á öllum Íslandsbanka og hluta af Landsbankanum. Það yrði gert með því að skipa starfshóp til að skrifa hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Formaður hópsins var Lárus L. Blöndal, lögmaður og trúnaðarmaður Bjarna, en hann var líka stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, þeirrar stofnunar sem fer með eignarhluti ríkisins í bankakerfinu, frá árinu 2015 og þangað til nýlega. Lárus var skipaður í bæði þessi hlutverk af Bjarna Benediktssyni.
Hvítbókin lá fyrir í desember 2018. Í henni sagði meðal annars að heilbrigt eignarhald væri „mikilvæg forsenda þess að bankakerfi haldist traust um langa framtíð. Í því felst að eigendur banka séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“
Með þessa stefnumótun í farteskinu var haldið af stað. Í september 2019 lagði Bankasýsla ríkisins til að fjórðungshlutur í Íslandsbanka yrði seldur, í febrúar 2020 sagði Bjarni að söluferlið myndi hefjast innan nokkurra vikna og í byrjun mars sama ár var breytt eigendastefna ríkisins, byggð á málamiðlun milli stjórnarflokkanna, gerð opinber. Sú málamiðlun snerist um að ríkið myndi áfram eiga að minnsta kosti 70 prósent hlut í Landsbankanum til langframa. Restina mætti Bjarni selja. Nýja eigendastefnan átti meðal annars að draga lærdóm af því sem gerðist í Borgunarmálinu og tryggja gagnsæi og trausta ferla við sölu á hlutum ríkisins í bönkum.
Svo kom kórónuveirufaraldurinn og stöðvaði alla framvinduna.
Taka tvö
Sú frestun stóð þó ekki lengi yfir. Þann 17. desember 2020 sendi Bankasýslan að nýju tillögu til Bjarna um að selja hlut í Íslandsbanka í gegnum skráningu á íslenskan markað.
Fjórum dögum síðar, þegar þingmenn voru komnir í jólafrí, sendi Bjarni, ásamt ráðuneytisstjóra sínum, bréf til Bankasýslunnar og samþykkti tillöguna. Samhliða var send greinargerð til Alþingis og nefndarmönnum í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd gefinn mánuður til að skila inn umsögn um málið.
Sumarið 2021 var tekið í gikkinn. Haldið var almennt útboð og 35 prósent hlutur í Íslandsbanka seldur á 79 krónur á hlut. Það verð var langt undir markaðsvirði Arion banka, sem var nánast af sömu stærð og Íslandsbanki, og var þegar skráður á markað. Almenningur gat keypt fyrir eina milljón króna og fagfjárfestar fyrir hærri upphæðir. Eftirspurnin var níföld og verðið á Íslandsbanka rauk upp við skráningu á markað í kjölfarið. Gagnrýnendur bentu á að verðið hefði verið allt of lágt. Því til stuðnings lá fyrir að þúsundir leystu út skyndihagnað, enda hækkaði verðið á bankanum um tugi prósenta á skömmum tíma. Bankasýslan og stjórnvöld klöppuðu sér á bakið fyrir að hafa náð markmiðum um dreift eignarhald og skilað rúmum 55 milljörðum króna í ríkissjóð.
Næsta skref
Nú urðu menn djarfir. Ákveðið var að stíga næsta skref með öðrum hætti og styðjast við fyrirkomulag sem var hvorki almennt né þannig að það hefði verið framkvæmt áður við sölu ríkiseigna á Íslandi. Um var að ræða svokallað lokaútboð þar sem bjóða átti völdum hópi fjárfesta, svokölluðum „hæfum fjárfestum“, að kaupa 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka eftir lokun á þriðjudegi og fyrir opnun þeirra á miðvikudegi.
Ferlinu var hrundið af stað 22. mars og hluturinn seldur fyrir 52,65 milljarða króna til samtals 207 fjárfesta.
Fljótlega eftir að salan gekk í gegn fór að bera á gagnrýnisröddum á söluferlið. Sérstaklega eftir að tilkynnt var til Kauphallar Íslands að stjórnarmaður í Íslandsbanka, framkvæmdastjóri í bankanum og sambýlismaður stjórnanda innan hans hefðu verið á meðal þeirra sem fengu að kaupa. Þau kaup þurfti að tilkynna vegna þess að viðkomandi voru skilgreindir sem innherjar. Ef þeir hefðu ekki freistast til að kaupa er ekki víst að nokkru sinni hefði verið upplýst um hvernig söluferlið var framkvæmt og hverjir fengu að kaupa. Það stóð að minnsta kosti aldrei til að opinbera þær upplýsingar.
Það sem vakti tortryggni var einkum tvennt. Annars vegar að fólk ofarlega í goggunarröðinni hjá bankanum sem verið var að selja, og var einn helsti umsjónaraðili útboðsins, hefði verið valið til að fá að kaupa. Hins vegar að þeir keyptu fyrir frekar lágar fjárhæðir í stóra samhenginu. Sá þeirra sem keypti fyrir minnst keypti bréf fyrir ellefu milljónir króna. Voru fleiri sem voru að kaupa fyrir svona lágar fjárhæðir?
Þetta vakti spurningar um hvort þeim markmiðum sem lögð höfðu verið fram í stefnumótun stjórnvalda á fjármálakerfi Íslands til framtíðar, sem kynnt var í hvítbókinni, hefði verið náð í söluferlinu. Þar var lögð áhersla á að eigendur banka væru „traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“
Undirbúningur sagður vandaður
Gagnrýnin óx og óx. Kallað var eftir því að það yrði opinberað hverjir hefðu keypt og hvernig þeir hefðu verið valdir umfram aðra sem vildu kaupa, en eftirspurn í útboðinu var tvöföld. Stjórnarandstöðuþingmenn þrýstu á að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis.
Átta dögum eftir að salan fór fram gaf Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra munnlega skýrslu um söluna á Alþingi. Þar sagði hann: „Með tveimur sölum á hlut ríkisins í Íslandsbanka höfum við náð miklum árangri fyrir samfélagið allt og það sem meira er, við höfum náð öllum helstu markmiðum okkar með sölunni; dreift eignarhald, að uppistöðu fjárfestar sem horfa til lengri tíma, mikil þátttaka almennings, skráning í kauphöll hefur styrkt hlutabréfamarkaðinn, ríkið hefur dregið úr þátttöku sinni á samkeppnismarkaði og fengið gott verð fyrir.“
Síðar sagði hann að útboðið sem fór fram átta dögum áður, 22. mars, hefði gengið „vel á alla mælikvarða“. „Af öllu þessu má sjá að það er óneitanlega full ástæða til að hrósa Bankasýslu ríkisins fyrir góða niðurstöðu.[...] Góður árangur í sölunni, jafnt nú sem síðasta sumar, raungerðist ekki fyrir tilviljun. Undirbúningur málsins alls hefur verið umfangsmikill og vandaður.“
Sama dag og Bjarni flutti ræðuna sendi hann bréf til Bankasýslu ríkisins, stofnun sem heyrði undir hann og hafði umsjón með söluferlinu. Hann óskaði þar eftir að hún myndi skila sér lista yfir þá sem keyptu í Íslandsbanka. Stofnunin taldi sig ekki hafa lagaheimild til að birta listann en sendi hann samt á Bjarna, sem birti hann á vef stjórnarráðsins.
Við það varð allt vitlaust.
Listinn birtur
Listinn opinberaði að á meðal þeirra 207 sem fengu að kaupa hlut í Íslandsbanka voru starfsmenn og eigendur söluráðgjafa í útboðinu, litlir fjárfestar sem rökstuddur grunur var um að uppfylltu ekki skilyrði þess að teljast fagfjárfestar, erlendir skammtímasjóðir sem höfðu sýnt það áður í verki að þeir höfðu engan áhuga á að vera langtímafjárfestar í Íslandsbanka, fólk í virkri lögreglurannsókn, útgerðarmenn, aðilar sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og faðir fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Sveinsson, sem keypti fyrir um 55 milljónir króna.
Stjórnarandstaðan kallaði samstundis eftir því að rannsóknarnefnd Alþingis yrði skipuð. Í stað þess að verða við þeirri bón ákvað Bjarni að óska eftir því að Ríkisendurskoðun, sem hefur mun takmarkaðri heimildir til að rannsaka bankasölu, gerði úttekt á því hvort salan hefði samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Það væri meðal annars gert svo hægt væri að vinna málið hratt – niðurstaðan átti að liggja fyrir í júní – og mæta þannig kröfum um gagnsæi.
Ýmsir stjórnarþingmenn tóku til máls í umræðum á Alþingi á þessum tíma og sögðu að ef niðurstaða þingsins yrði að úttekt Ríkisendurskoðunar dygði ekki til að lægja öldurnar myndu þeir styðja að komið yrði á fót sjálfstæðri rannsóknarnefnd.
Ljóst má vera, á því sem átti sér stað í byrjun aldar og því sem hefur verið gert síðustu ár, að Íslendingar kunna einfaldlega ekki að selja banka
Í umræðum á Alþingi um málið sagði Bjarni að hann teldi langbest að tryggja að það væri „ekkert í skugganum“. Hann sagði enn fremur að „miðað við það sem ég veit, að það muni koma vel út fyrir alla framkvæmdina“.
Fyrsti áfellisdómurinn
Við þekkjum öll hvað gerðist síðan. Ríkisendurskoðun skilaði ekki skýrslu sinni í júní, hún kom í nóvember. Niðurstaðan var áfelli fyrir Bankasýsluna og söluferlið allt. Málið fór svo til umfjöllunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem skilaði áliti sínu á skýrslunni í lok febrúar. Hún klofnaði í afstöðu sinni eftir víglínu stjórnar og stjórnarandstöðu.
Í millitíðinni tilkynnti Íslandsbanki að Fjármálaeftirlitið hefði komist að þeirri frumniðurstöðu að bankinn hefði brotið lög sem söluráðgjafi í lokuðu útboði á hlutum í sjálfum sér. Í sumar var svo greint frá innihaldi þeirrar sáttar sem bankinn gerði við eftirlitið og fól í sér greiðslu metsektar upp á 1,2 milljarða króna. Alvarleg og kerfislæg brot voru framin, meðal annars voru aðilar flokkaðir sem „hæfir fjárfestar“ án þess að vera það. Þeim var veittur aðgangur að kaupum að almannagæðum á fölskum forsendum. Athugun fjármálaeftirlitsins á öðrum söluaðilum stendur enn yfir. Niðurstaðan kostaði stjórnendur og stjórnarmenn í Íslandsbanka störf sín.
Nokkrum dögum eftir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lauk afgreiðslu sinni á skýrslu Ríkisendurskoðunar hóf umboðsmaður Alþingis skoðun á hæfi Bjarna til að taka ákvörðun um sölu á hlut í ríkisbanka til félags í eigu föður síns með bréfi sem hann sendi Bjarna 3. mars 2023.
Hann birti niðurstöðu sína í byrjun viku. Niðurstöðu sem fól í sér að Bjarni hafi verið vanhæfur til að taka ákvörðun um sölu á ríkisbanka til félags í eigu föður síns.
Þrjár eftirlitsstofnanir hafa því komist að þeirri niðurstöðu að salan á Íslandsbanka í mars í fyrra hefði verið fúsk.
Í kjölfarið sagði Bjarni Benediktsson af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra. Markmið hans um að frelsa bankakerfið undan oki hins opinbera hafði mistekist.
Það er ekki hægt að selja banka
Nokkrum vikum áður en umboðsmaður Alþingis felldi Bjarna af stalli hafði hann lagt fram fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir því að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka yrði haldið áfram á næsta ári, þrátt fyrir allt sem hefur gerst. Helmingurinn af eftirstandandi hlut átti að seljast 2024 og gert var ráð fyrir því í frumvarpinu að þeir peningar sem myndu fást fyrir skiluðu sér í ríkissjóð á því ári. Restin yrði svo seld ári síðar.
Ljóst má vera, í ljósi þess sem Ríkisendurskoðun komst að, þess sem Fjármálaeftirlitið hefur opinberað og þess sem umboðsmaður Alþingis skilaði af sér fyrir nokkrum dögum, að ekkert traust er til staðar til sitjandi stjórnvalda í samfélaginu til að færa eignarhaldið á fjármálakerfinu til einkaaðila. Ljóst má vera að allar þær forsendur sem þurfa að vera til staðar til að skipa rannsóknarnefnd til að fara í saumana á málinu heildrænt eru nú til staðar. Ljóst má vera, á því sem átti sér stað í byrjun aldar og því sem hefur verið gert síðustu ár, að Íslendingar kunna einfaldlega ekki að selja banka.
Tíminn til að stoppa þetta brjálæði og endurmeta hvernig eignarhaldi hins opinbera á íslenska fjármálakerfinu á að vera til framtíðar er núna.
1963 The Profumo affair setti allt a annan endan i Bretlandi og i Höfuðstöðvum NATO og hja FBI
18 ara Stelpa Christine Keeler kom þar við sögu og Raðherra Landvarna, Forsætisraðherra Harold Macmillan sagði af er og Raðuneiti hans. Til er ekki gömul kvikmind er synd var her um þetta mal
The Skandal. A Islandi segir engin af ser þott Beinast liggi við að þeir geri það. Her nær spillgin hæðstu hæðum, i Bankahruninu 2008 var engin Dæmdur og settur inn fyrir sin Afbrot sem Almeningur fekk HRESSILEGA að supa Seiðið af. Við sem höfum Buið i Bretlandi og latið okkur Stjornmal þar til okkar taka, Vitum af Spjöldum sögunar að her a Islandi atti Rikistjornin að vikja strax og Alit Umboðsmans Alþingis la fyrir. Ekki Þrasitja i Skugga SKAMARINARINAR.