Frelsi er hugtak sem mörgum er umhugað um. Og túlka eftir sínu höfði. Á Íslandi, og víðar, hefur ákveðinn hópur, sem staðsetur sig oftar en ekki á hægri væng stjórnmála, eignað sér hugtakið og sett í samhengi við rétt fólks til þess að vera laust undan oki laga- og reglugerðarfargans hins opinbera. Laust undan íþyngjandi skattbyrði. Laust undan leiðinlegu eftirliti. Laust undan öfund og tilætlunarsemi fólks sem er ekki jafn duglegt og það sjálft, en vill samt fá stærri kökusneið að borða.
Undanfarið hefur verið sýnilegt að hluti þessa hóps telur frelsi sínu ógnað með auknum mannréttindum annarra. Kynrænt sjálfræði, útlendingar og hinseginleiki er ógn við frjálsa tilveru. Bólusetningar við skæðum sjúkdómum eru ógn við fullveldið. Réttur kvenna til að ráða yfir líkama sínum á ekki að trompa rétt karla til að skipta sér af því. Hefðbundnir fjölmiðlar ógn við hinn raunverulega sannleika.
Tjáningarfrelsið er hópnum líka afar kært. Þar skiptir öllu að hann fái fullt svigrúm til að setja tilfinningar sínar og gildisdóma í búning staðhæfinga um staðreyndir án afleiðinga. Að segja brandara, oftast á kostnað annarra, á sama hátt og þeir hafa alltaf gert í búningsherbergjunum án þess að þurfa að sitja undir ávirðingum um að vera ónærgætnar risaeðlur. Það er þeirra réttur að segja hvað sem er, um hvern sem er, hvar sem er. Það sé ekki skerðing á frelsi þess sem verður fyrir lygunum, þvælunni og óskammfeilninni, heldur séu þeir sem mótmæli svona framsetningu gerendur og þeir sem ljúga eða meiða þolendur.
Tærasta mynd frelsis er svo auðvitað að fá að kaupa bjór í Bónus, sleppa við að versla í fríhöfn í opinberri eigu og losna undan því að borga útvarpsgjald.
Frelsi til að múta í friði
Þegar öfl klædd þessari frelsisbrynju, til hálfs eða að öllu leyti, hafa verið lengi við völd þá síast hugmyndafræði þeirra víða inn í stjórnkerfin. Þar birtist hún fyrst og síðast í formi þess að einstaklingar og fyrirtæki eigi ekki að sæta íþyngjandi eftirliti, reglum eða lögum. Það sé best að vera laus undan því oki, sem hindri framfarir. Sé vesen sem dragi úr framtakssemi. Af þessu verða þó margháttaðar samfélagslega neikvæðar afleiðingar, sem sannarlega hafa áhrif á frelsi þeirra sem fyrir þeim verða.
Um þetta eru mýmörg dæmi. Heimildin greindi til að mynda frá því fyrir viku að sautján manns séu nú til rannsóknar vegna meintra mútubrota og tveir til viðbótar hafi nýverið hlotið dóma vegna þeirra. Áður höfðu einungis fjögur mútubrot ratað fyrir dómstóla í um hálfa öld. Það tók okkur mörg ár að uppfæra refsingar við mútubrotum þannig að þær séu í takti við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Það gerðist fyrst í fyrra.
Hver var ástæða þess? Sú að ráðamenn hafa látið eins og mútur væru bara eitthvað sem útlendingar þurfi að takast á við árum saman. „Þetta er ekki aðkallandi vandi hér á Íslandi,“ sagði Sigríður Andersen, þá innanríkisráðherra, um mútur árið 2017. Sama ár og Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi utanríkisráðherra, sagði að miðað við „allar þær mælingar sem ég hef séð hefur verið mjög lítið um það að ræða, ef eitthvað, á Íslandi í samanburði við ýmis önnur lönd“.
Ástæðan fyrir því að það var „mjög lítið um það að ræða“ á Íslandi var að mútubrot voru ekki tilkynnt og mjög sjaldan rannsökuð að frumkvæði lögreglu. Frelsi þeirra sem vilja múta hefur verið mikilvægara en að samfélagið komi í veg fyrir það með alvöru aðhaldi, lögum og reglum. Ef þú leitar ekki, og lítur jafnvel undan, þá finnurðu enda aldrei neitt.
Frelsi til að þvo peninga í friði
Ekki er langt síðan við fórum í gegnum þennan samkvæmisleik varðandi peningaþvætti. Því var haldið fram áratugum saman að hérlendis væri ekkert slíkt. Líkt og með múturnar var þetta vandamál útlendinga. Árið 2018 kom hins vegar í ljós, þegar Ísland var sett á gráan lista alþjóðlegu samtakanna FATF vegna ónógra peningaþvættisvarna, að peningaþvættisleysið reyndist óskhyggja.
Lengi vel fólust varnirnar við þessum vágesti í því að einn maður, með enga sérþekkingu á málefninu, starfaði á þess til gerðri peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra án þess að sinna frumkvæðisskyldu heldur treysti á tilkynningar frá bönkum og öðrum aðilum um að viðskiptavinir þeirra væru mögulega að stunda þvætti. Bankarnir reyndust hins vegar ekkert vera að fylgjast með því hvort svo væri þannig að tilkynningarnar urðu ekki margar, enda gat það haft neikvæð áhrif á innheimtar þóknanatekjur ef það væri verið að spyrja um uppruna peninga.
Á þessum grunni voru svo settar upp opinberar peningaþvættisleiðir af Seðlabanka Íslands eftir hrunið þar sem innlendir og erlendir gátu fengið heilbrigðisvottorð á falið, illa fengið eða skattaundanskotið fé. Það var litið undan gagnvart því að spilakassar á vegum Háskóla Íslands, Rauða krossins, SÁÁ og slysavarnafélags voru notaðir sem peningaþvættisvélar fyrir glæpamenn og ekkert var gert til að fylla í göt í starfsemi lögmanna sem gat augljóslega verið misnotuð til að þvætta peninga. Raunverulegum eigendum eignarhaldsfélaga sem stofnuð voru á Íslandi var leyft að fela sig í slóð aflandsfélaga. Og svo framvegis.
Þangað til að útlendingar stigu inn, settu Ísland á lista með Norður-Kóreu, Afganistan, Jemen, Írak og Úganda og sögðu: „Gyrðið ykkur.“
Frelsi til að vera eftirlitslaus
Sú eftirlitsstofnun sem fer sennilega mest fyrir brjóstið á hópnum er Samkeppniseftirlitið. Það telur að samkeppni aukist ef skorður eru settar og fleiri keppa um hylli neytenda á meðan að frelsisriddararnir, fjölmiðlarnir þeirra og hagsmunagæsluherinn, sem þeir eru með á dýrum fóðrum, telja að fákeppni, sem þeir kalla stærðarhagkvæmni, sé besta leiðin til að festa frelsið í sessi.
Þetta sást svo skýrt í síðustu viku þegar Morgunblaðinu, sem er að mestu leyti í eigu útgerðarfyrirtækja, var frídreift með viðtali við einn umfangsmesta útgerðarmann landsins á forsíðu. Fyrirsögnin var „Ógnarstjórn og einelti SKE“. Í viðtalinu var útgerðarmaðurinn spurður hvort hann óttaðist hefndir fyrir það að gagnrýna eftirlitið opinberlega. Litli bróðirinn, Viðskiptablaðið, fylgdi svo í kjölfarið á miðvikudag með forsíðu þar sem fyrirsögnin var: „Saka SKE um brot á stjórnarskrá“. Birt efni, jafnt í búningi frétta og nafnlausra skoðanadálka, um hvað Samkeppniseftirlitið sé að valda hræðilegum skaða, skipta tugum hjá þessum fjölmiðlum síðustu misseri. Viðmælendur eru oftar en ekki skoðanabræður þeirra sem eiga mikið undir að vera látnir í friði.
Frelsi til að borga ekki sektir
Hvað er það sem Samkeppniseftirlitið er að gera um þessar mundir sem leiddi til þessarar andstöðu? Annars vegar lagði það metstjórnvaldssekt á skipafélag fyrir að hafa árum saman stundað samráð við helsta samkeppnisaðila sinn um að svína á viðskiptavinum sínum og neytendum. Sú niðurstaða byggir meðal annars á því að annar aðilinn að samráðinu hefur játað.
Hins vegar er það að gera athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Upphaflega var það gert með samningi við matvælaráðuneytið þar sem eftirlitið, sem hefur skipulega verið fjársvelt frá því að geta sinnt öllum þeim verkefnum sem það telur sig þurfa að sinna árum saman, fékk sérstaka fjármuni til að ljúka verkefninu. Þegar Brim, krúnudjásnið í annarri af tveimur stærstu blokkunum í íslenskum sjávarútvegi, neitaði að afhenda upplýsingar um stjórnunar- og eignatengsl, lagði Samkeppniseftirlitið dagsektir á fyrirtækið. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst síðar að þeirri niðurstöðu að það samræmdist ekki hlutverki eftirlitsins sem sjálfstæðs stjórnvalds að gera samninga við ráðuneyti um einstök verkefni og þegar þannig samningur hafi verið gerður þá megi það ekki beita valdheimildum. Fyrir vikið hefur Samkeppniseftirlitið slitið samningnum við ráðuneytið og framkvæmir nú athugunina án viðbótarfjármagnsins. Tilgangurinn? Að almenningur í landinu viti hvernig ofurrík yfirstétt nokkurra fjölskyldna sem hafa hagnast ævintýralega á því að nýta auðlindir í eigu þjóðar tengist innbyrðis og hvernig þetta fáveldi hefur notað fjármunina til að dreifa úr sér á öðrum sviðum íslensks samfélags.
Allt er þetta svo undirbúningur fyrir baráttuna gegn nýjum heildarlögum um stjórn fiskveiða sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur boðað í haust.
Frelsi til að leggja óþægindi niður
Þetta er ekki eina eftirlitsstofnunin sem hefur verið kerfisbundið veikt á síðustu árum og áratugum. Þjóðhagsstofnun var aflögð á sínum tíma og greiningum úthýst til banka og hagsmunasamtaka. Embætti skattrannsóknarstjóra var lagt niður og gert að skúffudeild hjá Skattinum. Nú semja menn frelsisins sig bara frá því þegar skattsvik uppgötvast í stað þess að verða ákærðir. Fjármálaeftirlitinu var troðið inn í Seðlabankann. Fiskistofa var flutt á Akureyri án sýnilegrar ástæðu og þrátt fyrir harða andstöðu sérfræðinganna sem þar unnu sem vöruðu við því að geta hennar til að sinna hlutverki gæti tapast með þeim spekileka sem óhjákvæmilega myndi fylgja ákvörðuninni.
Embætti héraðssaksóknara er svo kerfisbundið undirfjármagnað, þannig að það sé tryggt að það geti hvorki keppt um hæft starfsfólk né lokið rannsóknum, sem þegar eru búnar að standa það lengi yfir að málin hafa skemmst það mikið að óhjákvæmilegt er að það muni hafa áhrif á niðurstöðu þeirra. Svo fátt eitt sé nefnt.
Hið raunverulega frelsi
Frelsið hefur tvær hliðar. Önnur snýst um frelsi manna til að gera eitthvað. Hin um frelsi annarra frá því að verða fyrir einhverju.
Hugmyndin um frelsi þeirra sem klifa á henni í opinberri umræðu byggir nær einvörðungu á fyrri hliðinni, oft af fullu skeytingarleysi gagnvart hinni. Í henni felst einhvers konar réttur til að klífa til áhrifa eða taka sér pláss í umræðu á baki þess að ætla að frelsa aðra. Á endanum er hún að uppistöðu frekja til að ganga á rétt annarra með því að fá að vera án heftrar tjáningar, án eftirlits og með nægjanlegt rými til að ganga eigin erinda í friði. Raunverulegi tilgangurinn er að komast í stöðu til að skammta sér og sínum gæðum, oft á kostnað annarra.
Hið endanlega frelsi sem gerir líf sem flestra landsmanna betra er frelsi frá þessum tilætlunarsömu sérhagsmunagæslukerfum. Frelsi sem fæst með auknum mannréttindum, vernd gegn tuddum, sterkara eftirliti, meira gagnsæi, sterkari og fjölbreyttari fjölmiðlum og stjórnsýslu sem þjónar almenningi.
Þegar þessu er náð verðum við fyrst raunverulega frjáls.
"Bólusetningar við skæðum sjúkdómum eru ógn við fullveldið."
Hér lætur þórður liggja að því að það sé frekja og yfirgangur að þyggja ekki spautu.
Þessi fasíska setnig ratar ekki þarna inn fyrir tilviljun og sýnir hvernig kaupin gerast á eyri smellumellu eins og þórðar Snæs.
Hér er verið að strjúka stæstu hagsmuna mafíu veraldar rétt.
Það er heilagur réttur hvers og eins, en ekki FREKJA, að ráða því hvað sett er í líkama viðkomandi, hvort sem það er gert með tittling eða sprautu.
Og svo kemur oft á eftir þvælan um "sjálfstæði Íslands".
Sjálfstæði hvers?