Þessi grein birtist fyrir rúmlega 7 mánuðum.

„Crossfit er alveg besti tími dagsins“

„Ég myndi frek­ar fara á laug­ar­dags paraæf­ingu held­ur en laug­ar­dagspartí,“ seg­ir Sara Lind Frosta­dótt­ir um íþrótt­ina sem hún kynnt­ist fyr­ir sex ár­um síð­an. Tví­bura­syst­ir henn­ar, Ír­is Dögg Frosta­dótt­ir, seg­ir þær sí­fellt koma sér sjálf­um á óvart, enda verði það nán­ast ávana­bind­andi að ná ár­angri í íþrótt­inni.

„Crossfit er alveg besti tími dagsins“
Íris Dögg Frostadóttir og Sara Lind Frostadóttir Byrjuðu að æfa crossfit fyrir sex árum segja íþróttina hafa gefið þeim gleði, vini, kærasta og styrk. Mynd: Aðsend

Vinsældir CrossFit tröllriðu íslensku samfélagi fyrir nokkrum árum þegar nánast önnur hver manneskja mætti á æfingar og Instagram var fullt af myndböndum af fólki í réttstöðulyftum. 

Saga CrossFit er heldur styttri en annarra íþrótta. Hugmyndafræðina þróuðu bandarísk hjón og úr varð sambland af ólympískum lyftingum, brennslu, fimleikum og fleiri keppnisíþróttum. Árið 2000 opnaði fyrsta CrossFit-stöðin en í dag eru þær yfir 14.000 á heimsvísu. 

Ísland varð eins konar CrossFit-undur á síðasta áratug. Annie Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir sigruðu heimsleikana, stærsta mót íþróttarinnar, og Sara Sigmundsdóttir var fastur gestur á frægustu verðlaunapöllunum heims. Dætur Íslands hafa vakið verðskuldaða athygli en Björgvin Karl Guðmundsson hefur einnig náð eftirtektarverðum árangri í greininni. Hann hefur keppt á heimsleikunum tíu ár í röð og tvisvar sinnum hafnað í þriðja sæti. Spekingar héðan og þaðan veltu því fyrir sér hvað væri eiginlega með Íslendinga og góðan árangur í íþróttinni. 

Fundu gleðina á stöðinni

Þrátt fyrir að Ísland nánast fjöldaframleiði afreksfólk innan íþróttarinnar er fjöldi fólks sem stundar CrossFit sér til skemmtunar og mætir samviskusamlega á margar æfingar í viku til að komast í betra form og hitta vini.

Þeirra á meðal eru tvíburarnir Íris Dögg og Sara Lind Frostadætur. Þær eru 25 ára og sinna ólíkum verkefnum í daglegu lífi. Íris Dögg er með BA-gráðu í félagsráðgjöf og leggur nú stund á einkaþjálfaranám hjá Keili en Sara Lind er starfandi lögreglumaður. Þær fóru á fyrstu æfinguna sína fyrir sex árum síðan.

„Það var eiginlega þannig að við vorum hættar í fótbolta eftir að hafa æft í mörg ár og byrjuðum að mæta í ræktinni. Okkur fannst það ekki alveg nógu skemmtilegt svo við ákváðum að skrá okkur í þjálfun hjá Indíönu Nönnu í World Class,“ útskýrir Íris Dögg brosandi.

Íris DöggÁ róðravélinni.

Æfingarnar fóru fram í CrossFit-sal stöðvarinnar þar sem stelpurnar kynntust lotuþjálfun og leist vel á æfingakerfið. Í kjölfarið ákváðu þær að láta slag standa og skráðu þær sig á grunnnámskeið hjá CrossFit Reykjavík. 

Það er þeim minnisstætt hve vel var tekið á móti þeim í fyrstu heimsókninni. „Þegar við fórum að skoða stöðina var starfsmaður í afgreiðslunni sem var ótrúlega almennilegur og hvatti okkur til að byrja að æfa,“ segir Íris Dögg. Það gerði þær systur enn þá staðráðnari í að feta sín fyrstu skref í íþróttinni.

Sara Lind rifjar upp að starfsmaðurinn hafi sagt þeim að CrossFit-samfélagið væri svolítið eins og ein stór fjölskylda. Hún hlær léttilega: „Hann var ekki að ljúga því.“ Eftir nokkurra mánaða veru í stöðinni eignuðust stelpurnar góðan vinahóp og Sara Lind kynntist kærastanum sínum stuttu seinna.

Lærðu á líkamann

Á yngri árum æfðu Íris Dögg og Sara Lind bæði fótbolta og fimleika af kappi en þrátt fyrir íþróttabakgrunn sinn þurftu þær að sitja grunnnámskeið fyrir CrossFit-iðkendur. Þær þakka fyrir það sem námskeiðið kenndi þeim enda var farið vel yfir líkamsbeitingu, bæði á æfingum og í hversdagslegu lífi. 

Sara LindHvílir sig eftir erfiða æfingu.

Það var alveg nauðsynlegt að fara á grunnnámskeið af því að það er svo mikilvægt að beita sér rétt, útskýrir Sara Lind. Ég hætti í fótbolta af því að ég var alltaf með stoðkerfisverki, en þegar ég byrjaði í CrossFitinu fóru allir þessir verkir.

Við lærðum hvernig á að lyfta upp börnum, teygja sig eftir hlutum, lyfta húsgögnum og passa bakið. Það síast inn og maður hefur bara ekki beitt sér vitlaust síðan. 

Hugmyndafræðin heillaði þær og fljótt urðu æfingarnar ávanabindandi enda samfélagið í stöðinni þannig að þær voru boðnar velkomnar og hvattar til að gera sitt besta á æfingum.

„Eftir grunnnámskeiðið var ekki aftur snúið, þetta var bara svo ótrúlega gaman,“ segir Íris með bros á vör. „Við fundum okkur alveg í þessu. Það er svo gaman að mæta á CrossFit-æfingu og taka vel á því í góðum félagsskap.“

Sara Lind samsinnir. „Maður tilheyrði einhvern veginn hóp um leið og maður kom inn í stöðina. Það er líka svo mikið af sama liðinu að mæta í CrossFit og við urðum fljótlega einar af þeim.“

„Ég hætti í fótbolta af því að ég var alltaf með stoðkerfisverki, en þegar ég byrjaði í CrossFitinu fóru allir þessir verkir“
Sara Lind Frostadóttir

Hægt að aðlaga æfingarnar

Þær segja íþróttina vera fyrir alla enda sé fjölbreytt flóra af fólki sem mæti í tíma með þeim. Æfingarnar skiptast í þrjú getustig og því er hægt að aðlaga hverja æfingu að eigin formi.

Íris Dögg sveiflar sérÍ hinum ýmsu CrossFit-æfingum notar Íris Dögg bakgrunn sinn úr fimleikum sér til aðstoðar.

„RX er erfiðasta útgáfan af æfingunni og gengur út á margar endurtekningar með þyngri handlóðum eða stöngum. En svo er hægt að skala niður um eitt stig með því að lækka þyngdirnar og fækka endurtekningum,“ segir Sara Lind. Auðveldasta útgáfan er skölun tvö þar sem endurtekningum og þyngdum er fækkað enn frekar. 

Sara Lind bætir því við að það sé enginn að velta sér upp úr því á hvaða getustigi aðrir framkvæmi æfingarnar, heldur hvetji fólk hvað annað áfram af kappi.

„Ef flestir eru búnir með æfinguna en það er einn sem er eftir, þá er bara farið að peppa manneskjuna áfram til þess að hún nái að klára,“ segir Íris Dögg. 

„Svo gefa alltaf allir high five eftir æfinguna,“ bætir Sara Lind við. Hún telur hvatninguna eina af meginástæðunum fyrir því að fólk nær árangri í íþróttinni. „Maður er alltaf að koma sér á óvart af því að fólkið ýtir manni lengra, eitthvert sem maður hefði ekki getað ímyndað sér að komast.“

Hefðbundin klukkustunda CrossFit-æfing fer þannig fram að þjálfari stýrir upphitun helminginn af tímanum. Eftir það er æfing dagsins framkvæmd í um það bil 20 mínútur og það er þá sem mesta áreynslan er. Systurnar segja það einnig fara eftir vikudögum hvað er lagt áherslu á. Til að mynda eru oft úthaldsæfingar á mánudögum og lyftingaræfingar á þriðjudögum. 

„Ég myndi frekar fara á laugardags paraæfingu heldur en laugardagspartí“
Sara Lind Frostadóttir

Sú tegund af æfingu sem er í mestu uppáhaldi hjá þeim er paraæfing. Slíkar æfingar eru yfirleitt á laugardögum. „Ég myndi frekar fara á laugardags paraæfingu heldur en laugardagspartí,“ segir Sara Lind og Íris Dögg jánkar því glaðlega.

Sara LindÍ réttstöðulyftu á æfingu.

Samvinna og samkeppni

Í CrossFit er bæði hægt að keppa einn og svo í liði. Á Íslandi eru parakeppnir vinsælar og hafa tvíburarnir tekið þátt í þeim. Þá vinna þær saman í einu teymi og keppa við önnur pör um að klára sem flestar æfingar á sem stystum tíma. 

„Við reynum okkar besta að vinna vel saman,“ segir Íris Dögg. „Og hafa gaman af þessu, látum ekki keppnisskapið taka yfir, þó það komi fyrir,“ skýtur Sara Lind inn í og þær hlæja. 

Þær þekkja sína styrkleika og veikleika vel eftir nokkur ár í íþróttinni. „Sara er betri í brennsluæfingum en ég er sterkari í þungum lyftingum. Þá skiptum við þessu á milli okkar þannig að ég tek lyftur og hún úthaldsæfingarnar. Með því reynum við að vera sem fljótastar,“ segir Íris Dögg.

TvíburarnirHafa gaman af því að keppa á mótum sem tveggja manna lið og vinna vel saman að sögn, þó að keppnisskapið láti stundum á sér kræla.

Það kemur fyrir á æfingum að annarri gengur betur en hinni. „Það er alveg þannig að ef Sara er komin aðeins á undan mér þá reyni ég að gefa í.“ Íris Dögg horfir brosandi á systur sína.

Sara Lind kinkar kolli en bendir á að það sé líka góð hvatning því að þá fái þær enn þá meira út úr æfingunni. „Það þýðir ekki fyrir mig að slaka á þegar Íris er komin í næstu æfingu.“ Þær líta á hvor aðra og hlæja gleðilega. 

„Það er alveg þannig að ef Sara er komin aðeins á undan mér þá reyni ég að gefa í“
Íris Dögg Frostadóttir

Besti tími dagsins

„Crossfit er alveg besti tími dagsins,“ segir Sara Lind. Þrátt fyrir að vinna Söru Lindar sem lögreglumaður geti verið líkamlega krefjandi finnur hún alltaf fyrir tilhlökkun þegar kemur að CrossFit-æfingu.

„Ég hlakka til að mæta á æfingar. Jújú, maður er misþreyttur en það er svo gott andrúmsloft í CrossFitinu að maður er alltaf til í slaginn þegar á hólminn er komið."

Sú mikla samheildni sem er meðal þeirra sem æfa saman gerir það einnig að verkum að stelpurnar sakna æfingafélaga sína ef þær mæta ekki í nokkra daga.

Þar sem Íris Dögg er að læra einkaþjálfun er hún spurð hvort að CrossFit-þjálfun höfði til hennar. Hún veltir spurningunni örlítið fyrir sér en svarar svo: „Já, ég gæti alveg séð það fyrir mér einhvern tímann.“ Sara Lind sér systur sína líka fyrir sér í því hlutverki.

„CrossFit er alveg besti tími dagsins“
Sara Lind Frostadóttir

„Þetta er orðinn svo stór partur af okkur. Ég get ekki hugsað mér að eiga kærasta sem er ekki í CrossFit af því að ég eyði svo miklum tíma í stöðinni.“

Aðspurðar hvað þær hafi lært af því að stunda CrossFit svarar Íris: „Það helsta finnst mér eiginlega hvað ég hef getað ýtt mér miklu lengra en ég hélt.“ Systir hennar er sammála. „Já, maður er alltaf að koma sér á óvart,“ segir Sara Lind og bætir við: „Svo verður maður háður þessu og vill alltaf ná lengra og lengra.“

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár