Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra fá 828 milljónir í laun á næsta ári

Laun tólf ráð­herra voru hækk­uð í sum­ar og launa­kostn­að­ur vegna þeirra er áætl­að­ur um 332 millj­ón­ir króna á næsta ári. Rík­is­stjórn­in má ráða alls 27 að­stoð­ar­menn og sem stend­ur eru 26 þeirra starfa mönn­uð. Hlut­fall að­stoð­ar­manna á hvern ráð­herra hef­ur aldrei ver­ið hærra.

Kostnaður við rekstur ríkisstjórnar Íslands er áætlaður 828 milljónir króna á næsta ári. Um er að ræða launagreiðslur ráðherra og aðstoðarmanna þeirra. 

Á verðlagi dagsins í dag kostaði rekstur ríkisstjórnarinnar um 606 milljónir króna á árinu 2018, sem var fyrsta heila starfsár ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem samanstendur af Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Launakostnaður vegna ráðherra og aðstoðarmanna þeirra mun því hafa aukist um tæplega 37 prósent að raunvirði þegar næsta ári er aflokið, standist áætlanir nýframlagðs fjárlagafrumvarps vegna ársins 2024. Í krónum talið, án tillits til verðbólguþróunar, er kostnaðaraukningin enn meiri eða 80 prósent. 

Þetta má lesa út úr fjárlagafrumvarpi næsta árs sem birt var í síðustu viku. 

Aðstoðarmönnum hefur fjölgað mikið

Bæði ráðherrum og aðstoðarmönnum hefur fjölgað umtalsvert á síðustu árum. Lögum var breytt árið 2011 á þann veg að hver ráðherra geti ráðið til sín tvo aðstoðarmenn auk þess sem ríkisstjórnin getur ráðið sér þrjá til viðbótar. Aðstoðarmennirnir geta því verið 27 talsins, þar sem ráðherrarnir eru nú tólf.

Sem stendur eru aðstoðarmennirnir 26 talsins, og því einungis ein staða sem heimilt er að fylla laus. Hlutfall aðstoðarmanna á hvern ráðherra, samkvæmt nýlegu svari forsætisráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins, er 2,17. Það hefur aldrei verið hærra en til samanburðar var hlutfallið undir einum í byrjun þessarar aldar og fór fyrst yfir 1,5 árið 2013, þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar settist að völdum. 

Ekki þarf að aug­lýsa aðstoð­­­ar­­­manna­­­stöður heldur eru þeir sem sinna þeim störfum valdir af hverjum ráð­herra fyrir sig, enda oft­­­ast um að ræða nán­­­ustu sam­­­starfs­­­menn ráð­herra á meðan að hann gegnir emb­ætti. Laun aðstoðarmanna ráðherra eru yfir 1,5 milljón króna á mánuði.

Fengu launahækkun í júlí

Laun þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna hækkuðu um 2,5 prósent í byrjun júlí síðastliðins. Launahækkunin var framkvæmd með setningu sérstakra laga um breytingar á lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, sem er 2,5 prósent. 

Nauðsynlegt þótti að setja lögin þegar fyrir lá að allt stefndi í að laun ráðherra, þingmanna og annarra háttsettra embættismanna myndu hækka um 6-6,3 prósent samkvæmt þeirri aðferðafræði sem fest var í lög árið 2019 til að ákveða laun hópsins. Hún byggir á því að launin hækki í sama hlutfalli og meðaltal reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Munurinn er hins vegar sá að hópurinn sem um ræðir er með mun hærri laun en flestir opinberir starfsmenn. Sama hlutfallslega hækkun skilar honum því mun fleiri krónum í vasann en viðmiðunarhópnum. 

Með hækkuninni fóru laun venjulegra ráðherra og forseta Alþingis upp um 56 þúsund krónur á mánuði og standa nú í 2.287 þúsund krónum á mánuði. 

Á meðal þeirra sem sitja á þingi hækkuðu laun forsætisráðherra mest, eða um tæplega 62 þúsund krónur á ári. Katrín Jakobsdóttir er nú með 2.532 þúsund krónur í laun á mánuði.

Gildir til eins árs

Ákveðið var að koma í veg fyrir þá hækkun sem stóð fyrir dyrum eftir að henni var harðlega mótmælt víða í samfélaginu. Það þótti ekki viðeigandi að ráðamenn væru að taka sér hærri krónutöluhækkanir á launum en samið hafði verið um í kjarasamningum til skamms tíma sem höfðu það hlutverk að reyna að vinna gegn hárri verðbólgu. Sú hækkun sem var valin, 2,5 prósent, er ekki handahófskennd. Hún þótti táknræn vegna þess að það er verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands sem stefnt er að því að ná og slík hækkun heldur hæstu hækkunum hópsins undir hámarksþakinu sem sett var á hækkanir á almenna markaðnum.

Í lögunum sem samþykkt voru kemur þó skýrt fram að þessi breyting er einungis til eins árs. Þann 1. júlí 2024 verður aftur horft til þess hvernig meðaltal reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár breyttist og breyting á launum viðkomandi taka mið af því.

Regluleg laun launafólks í fullu starfi á Íslandi voru 745 þúsund krónur að meðaltali í fyrra, og miðgildi þeirra 669 þúsund krónur. Um 63 prósent alls launafólks er með laun undir meðaltalinu sem skýrist, samkvæmt Hagstofu Íslands, meðal annars af því að hæstu laun hækka meðaltalið þar sem kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör en kveða ekki á um hámarkskjör.

Kjósa
13
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár