Þessi grein birtist fyrir rúmlega 10 mánuðum.

Taylor Swift reis upp frá dauðum

Ár­ið 2016 var Tayl­or Swift slauf­að fyr­ir að vera drama­tískt fórn­ar­lamb. Síð­an þá hef­ur hún gef­ið út sex plöt­ur og sú sjö­unda er á leið­inni. Hún er vin­sæl­asta popp­stjarna heims og tón­leika­ferða­lag­ið henn­ar, The Era's Tour, verð­ur að öll­um lík­ind­um tekju­hæsta tón­leika­ferða­lag allra tíma. Heim­ild­in náði tali af ungu fólki og bað það að út­skýra vel­gengni söng­kon­unn­ar.

Taylor Swift reis upp frá dauðum
Taylor á tónleikaferðalagi Söngkonan á einu vinsælasta tónleikaferðalagi allra tíma. Mynd: AFP

„Ég keyrði mikið í kringum landið í sumar og vegna dóttur minnar hlustuðum við mikið á Taylor Swift, en þá bara Taylor’s Version,“ sagði annar ritstjóri Heimildarinnar, Þórður Snær Júlíusson, þegar umsvif tónlistarstjörnunnar bárust í tal. Hann er meðal margra feðra sem komast ekki hjá því að hlusta á lög stærstu poppstjörnu heims innan um yngri fjölskyldumeðlimi, og veit að orðin Taylor's Version hafa einhverja þýðingu fyrir fólki innvikluðu í poppkúltúr. 

Það tæki alla blaðagreinina að þylja upp öll tónlistarleg afrek Taylor og réttlæta þannig fyrir skeptískum lesendum að hún er einn hæfileikaríkasti tónlistarmaður 21. aldarinnar, svo að það verður ekki gert. En þess má geta að Taylor er ung kona sem hefur selt milljónir platna, túrað um allan heim og náð áður óséðum árangri með því að fara úr því að vera kántrísöngvari yfir í stærstu poppstjörnu heims.

Hún skrifar um ástarsambönd sín, vináttu, svik og sáttir. Árið 2016 varð hún slaufunarmenningu að bráð eftir að hafa gefið út stærstu plötu feril síns aðeins tveimur árum áður. Í dag hefur hún náð þeim vinsældum aftur, og gott betur, enda spá sérfræðingar því að hún sé á tekjuhæsta tónleikaferðalagi allra tíma.

SigurvegariTaylor með Grammy-verðlaun fyrir plötuna 1989.

Taylor, 33 ára, hefur verið tilnefnd til 46 Grammy-verðlauna og unnið 12 þeirra. Hún hefur selt yfir hundruð milljóna platna og sumir af stærstu háskólum Bandaríkjanna kenna áfanga um textasmíð hennar og markaðsfræðina á bak við velgengnina.

Hátt fall

Fyrsta plata Taylor kom út árið 2006 við góðar undirtektir. Síðan þá hefur hún átt fast sæti á vinsældalistum um allan heim. Aðdáendur hennar hafa margir hverjir vaxið úr grasi samhliða söngkonunni og fylgst með henni fara úr unglingsstúlku í unga konu sem veit fyrir hvað hún stendur. 

Helsta gagnrýnin á Taylor í gegnum árin hefur ekki beinst að hæfileikum hennar til að syngja, dansa, skrifa og leikstýra, heldur að hlutverki hennar sem fórnarlamb í átökum við aðrar poppstjörnur og fyrrverandi elskendur. 

Til að gera langa sögu stutta var Taylor slaufað árið 2016 á hátindi ferilsins eftir að Ye, áður Kanye West, gaf út lagið Famous með línunni: „I feel like me and Taylor might still have sex, I made that bitch famous.“

Taylor sagðist ekki hafa gefið Kanye leyfi til að kalla sig tík. Fyrrverandi eiginmanni sínum til varnar deildi Kim Kardashian, þáverandi eiginkona Ye, myndbandsupptöku af símtali milli listamannanna tveggja þar sem heyra mátti Taylor segja að hún væri sátt við textann. Fyrir þetta var Taylor slaufað, Kim kallaði hana snák og Kanye bjó til tónlistarmyndband þar sem búin var til dúkka af nöktum líkama Taylor, ásamt fleirum, með honum uppi í rúmi. Enginn sá söngkonuna í heilt ár eftir þetta.

Upprisa

Loks heyrðist eitthvað frá Taylor á ný. Söngkonan birti dularfull myndbönd af snákum á Instagram-reikningi sínum og markaði það upphaf næsta tímabils í sögu Taylor, útgáfu plötunnar Reputation. Aðdáendur fögnuðu endurkomu Taylor á sjónarsviðið, á meðan að aðrir gagnrýndu hana fyrir að beina spjótum sínum að Kanye og Kim á ný í textum sínum og kölluðu hana óþolandi.

Reputation-tímabilið, sem stóð frá 2017–2018, einkenndist af Taylor í hefndarhug fyrir allt sem sagt hafði verið um hana. Hún var eins og snákur í hamskiptum sem ætlaði sér að fanga bráð. Lögin voru öðruvísi en allt sem áður hafði heyrst frá söngkonunni. Taylor var reið og særð en líka ástfangin og hamingjusöm. Það endurspeglaðist í plötunni sem fékk góða dóma og var Taylor hampað fyrir að sýna á sér nýja hlið. 

Í laginu Look What You Made Me Do gekk hún svo langt að segja að gamla Taylor væri dáin og stóð ofan á gömlum útgáfum af sjálfri sér í tónlistarmyndbandinu við lagið, sem búið er að horfa á 1.400 milljón sinnum.

Reputation-platanSýndi nýja hlið á söngkonunni.

Þrátt fyrir að vera enn afar umdeild eftir samskiptin við Kanye West og fallið af stjörnuhimninum, ákvað Taylor að túra Reputation-plötuna með miklum árangri og seldi miða fyrir 47 milljarða íslenskra króna. 

Fjórum árum eftir að Kim Kardashian birti brot af samtali Kanye og Taylor var allri upptökunni lekið. Þar heyrist greinilega að Taylor var hikandi yfir textanum til að byrja með en endar á að segja Kanye að hann eigi að gera það sem lætur honum líða best. Hún gaf honum þó ekki leyfi til að kalla sig tík. 

Höfundarrétturinn

Næst á eftir kom platan Lover. Væmin og bleik plata um ástina og allt það fallega við það að elska. Aðdáendur söngkonunnar urðu líka vitni að pólitískri vitundarvakningu hennar, að minnsta kosti á opinberum vettvangi. Taylor talaði fyrir réttindum hinsegin fólks og lét í sér heyra hvað varðaði forsetakosningar í Bandaríkjunum. Hvort Taylor hafi raunverulega haft áhuga á þeim málefnum sem hún talaði fyrir eða nýtt þau til þess að höfða til nýrra aðdáendahópa er óljóst, en hún hefur dregið sig til baka hvað stjórnmálin varðar síðustu ár. 

Þegar öldugangurinn í kringum stormasamt opinbert líf söngkonunnar virtist vera að róast árið 2019 varð hún fyrir stærsta áfalli síns tónlistarlega ferils. Samningur hennar við plötuútgáfuna Big Machine var á enda og fyrirtækið seldi höfundarréttinn að lögunum hennar, án hennar vitundar eða samþykkis. Það var Scooter Braun, fyrrverandi umboðsmaður stórstjarnanna Justin Biebers og Ariana Grande, sem keypti lagasafnið.

Taylor birti yfirlýsingu þar sem hún ásakaði Scooter um að hafa horn í síðu sér og Big Machine um svik. Eftir áfallið ákvað Taylor að taka allar plöturnar sínar upp á ný nema með nafnviðbótinni Taylor's Version. Þannig gæti hún eignast lögin sín aftur. 

Aðdáendur biðu með eftirvæntingu í hjarta en fengu í millitíðinni tvær nýjar plötur, Folklore og Evermore. Viðtökurnar við plötunum létu ekki á sér standa en Taylor söng róleg lög með sögum um fólk í alls kyns hversdagslegum aðstæðum. Hún fékk Grammy-verðlaunin fyrir Folklore

Ári síðar kom platan Fearless (Taylor's Version) út með sex áður óútgefnum lögum sem söngkonan samdi fyrir plötuna. Þeir aðdáendur sem höfðu keypt upprunalegu plötuna fögnuðu því að Taylor ætti nú lögin sín sjálf og nýir aðdáendur kynntust gömlu lögunum í fyrsta sinn. Nú eru þrjár slíkar plötur aðgengilegar hlustendum og lögin orðin eign Taylors. 

Framleiðsla Taylor á nýrri tónlist hefur ekki staðið á sér þrátt fyrir að hún þurfi að taka allar eldri plöturnar sínar upp aftur. Í október á síðasta ári gaf hún út plötuna Midnights sem enn nýtur gríðarlegra vinsælda og sátu 10 lög af plötunni í 10 efstu sætum vinsældalista Billboard á sama tíma, en enginn annar hefur náð þeim árangri.

Vinsældirnar og menningin í kringum söngkonuna er afrakstur árangursríkrar markaðssetningar og mikilla samskipta hennar við aðdáendur. Taylor skilur gjarnan eftir vísbendingar um komandi verkefni í tónlistarmyndböndum eða færslum á samfélagsmiðlum. Til að mynda tilkynnti hún um endurútgáfu plötunnar 1989 (Taylor's Version) þann 9. ágúst (áttunda mánaðar ársins). Bandaríkjamenn skrifa dagsetninguna svona: 08.09 og voru því margir aðdáendur búnir að reikna með tilkynningunni því að tölurnar 89 tákna nafn plötunnar 1989. 

TikTok að þakka

Nýverið lauk Taylor við fyrsta hluta tónleikaferðalagsins, The Era's Tour. Það tekur ríflega þrjár klukkustundir að sitja, standa eða dansa í gegnum tónleikana og er aðsókn svo mikil að þeir aðdáendur sem ekki fá miða hópast saman í þúsunda tali fyrir utan.

Tónleikarnir hafa ekki aðeins áhrif á aðdáendur Taylor heldur hafa fréttir borist af því að þeir hafi áhrif á efnahagsástand þeirra borga sem hún syngur í. Bæði seljast miðarnir á tónleikana svo hratt upp að margir hafa brugðið á það ráð að kaupa þá á svörtum markaði sem keyrir upp verð, og fólk ferðast langar leiðir til að sjá stjörnuna. Á tónleikunum sjálfum er svo hægt að kaupa alls kyns varning merktum söngkonunni. 

Emilíana Margrét Gísladóttir er 19 ára og hlustar stundum á Taylor Swift. Uppáhaldslagið hennar er All Too Well (Taylor's Version) og hún segir tónlistarmyndbandið við lagið fallegt. „Það er svo gaman að sjá svona tónlistarmyndbönd sem er mikið lagt í.“

Emilíana Margrét GísladóttirHlustar stundum á Taylor Swift en er ekki ákafur aðdáandi.

Emilíana Margrét telur TikTok hafa hjálpað söngkonunni að ná vinsældum á ný. „Tónlistin hennar kom svolítið mikið á TikTok og varð vinsæl þar. Ég eiginlega uppgötvaði hana aftur þar, eftir að hafa ekki hlustað á hana mikið.“ Það voru tvö lög sem Emilíana Margrét tók sérstaklega eftir á TikTok. „Ég sá allavega Cardigan-lagið, það var rosa mikið á TikTok. Svo sá ég All Too Well tónlistarmyndbandið, eða brot af því, á TikTok.“

„Tónlistin hennar kom svolítið mikið á TikTok og varð vinsæl þar. Ég eiginlega uppgötvaði hana aftur þar, eftir að hafa ekki hlustað á hana mikið.“
Emilíana Margrét Gísladóttir

Aðspurð hvort hún eigi uppáhalds Taylor Swift-tímabil segir Emilíana Margrét: „Kannski þegar hún gaf út Bad Blood, það var svolítið skemmtilegt að sjá hana vera „villain“. Það var svolítið gaman.“ 

Boðskapurinn skilar sínu

Hallveig Harpa Guðmundsdóttir er 17 ára. Hennar kenning er að vinsældir söngkonunnar stafi af jákvæðum boðskap Taylor. „Ég í rauninni veit það ekki en ég myndi halda út af boðskapnum hennar. Hún er með mjög góðan boðskap.“ Hallveig Harpa lýsir söngkonunni sem jákvæðri manneskju með jákvæða orku og nefnir að svoleiðis sé söngvarinn Harry Styles líka. 

Hallveig Harpa GuðmundsdóttirHeldur mest upp á lög af plötunni 1989.

Sjálf hlustar Hallveig Harpa almennt ekki mikið á Taylor Swift en fílar þó nokkur lög sem minna hana á uppvaxtarárin. „Mér finnst Taylor Swift vera svolítið svona radio-tónlist og ég er meira fyrir underground tónlist, eins og rokk og svoleiðis, þannig að þetta er ekki svona tegund af tónlist sem ég myndi hlusta á. Ég í rauninni fíla hana ekki.“ 

Af þeim lögum sem Hallveig Harpa hlustar á er Blank Space af plötunni 1989 í uppáhaldi. „Þetta er svona barnæskulagið mitt, ég var alltaf að hlusta á það þegar það var nýkomið út. Ég fíla það mjög mikið og líka Shake it Off og þannig. Öll þekktustu lögin, ég hlusta alveg á þau. Þau eru geggjuð.“

„Öll þekktustu lögin, ég hlusta alveg á þau. Þau eru geggjuð.“
Hallveig Harpa Guðmundsdóttir

Hinn 25 ára gamli Erlendur Þór Óskarsson tengir Taylor Swift líka við gamla tíma og hlustar ekki lengur. „Þetta er byrjað að vera smá allt eins hjá henni, finnst mér. Ekki mjög mikil breyting í neinu.“

Erlendur Þór ÓskarssonHeldur upp á Eminem.

„Ég held að hún sé komin á þannig stað að hún er eiginlega bara ... það verður mjög erfitt fyrir hana að verða ekki vinsæl lengur. Þetta er smá svona eins og Ed Sheeran og öll þessi stóru nöfn. Þau einhvern veginn verða bara fræg og eru eitt af þessum stóru nöfnum í dag, eins og var áður.“

Vinirnir Leó Halldórsson, Magnús Kári Magnússon og Andri Freyr Friðriksson eru 16 ára gamlir og hlusta ekki á Taylor Swift. Hún höfðar ekki til strákanna en þeir segja hana í tísku núna og að það sé örugglega fullt af fólki sem fíli hana. 

Andri Freyr Friðriksson, Magnús Kári Magnússon og Leó HalldórssonVinirnir hlusta ekki á Taylor Swift.

Þekkir hana ekki mikið

Svanbjörg Berg Sigmarsdóttir er fædd 1989, en hlustar ekki á jafnöldru sína. „Ég hef bara einhvern veginn aldrei, þannig séð, fílað lögin hennar. Ég allavega set hana ekki  á Spotify eða neitt slíkt.“ Svanbjörg hlustar frekar á 80's tónlist. „Ég er svolítið föst þar. Það er kannski ástæðan fyrir því að ég er ekki að hlusta á Taylor Swift.“

Svanbjörg Berg SigmarsdóttirFílar 80's tónlist.

Hin tvítuga Guðrún Helga Hafliðadóttir hlustar ekki á Taylor. „Ég bara þekki hana voðalega lítið sem tónlistarmann, hlustaði á hana sem krakki reyndar. En ekki í dag.“

Guðrún Helga HafliðadóttirHlustar á popptónlist en tekur Demi Lovato og Beyoncé fram yfir Taylor Swift.

„Ég hlusta mest á popptónlist, þótt hún sé í poppkúltúrnum, en ég bara þekki hana lítið,“ segir Guðrún Helga, sem sækir frekar í Demi Lovato og Beyoncé. 

Brynja Katrín Benediktsdóttir er 17 ára og hlustar stundum á Taylor, annars eru söngleikjalög í mestu uppáhaldi.

Brynja Katrín BenediktsdóttirHlustar stundum á Taylor Swift.

Af hverju heldurðu að Taylor Swift sé svona vinsæl?

Örugglega bara af því að hún er jákvæð manneskja. Persónulega finnst mér hún bara jákvæð og hún hefur jákvæð skilaboð fyrir allt eiginlega.

Kjósa
-1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár